mánudagur, desember 03, 2007

3. desember 2007 - Byrgismálið.

Þar sem ég er á kafi í jólatiltektum rekst ég á gamlar tímaritsgreinar sem fjalla um Guðmund Jónsson og kynlífshneyksli í Byrginu.

Brátt er komið ár frá því Kompás Stöðvar 2 “fletti” ofan af svindlinu og kynlífssvallinu sem sagt var eiga sér stað í Byrginu. Þjóðin fór stórum og beitti andlegri krossfestingu á vesalings Guðmund í Byrginu. Á gamla blogginu mínu reyndi ég að bera blak af karlskömminni og var samstundis skotin í kaf af réttsýnum bloggurum. Ég var á þeim tíma ekki enn komin með Moggablogg svo ég held enn andlegri líftóru minni.

Hvað hefur skeð síðan? Er búið að dæma manninn? Nei, ég veit ekki einu sinni hvort búið sé að ákæra manninn ári eftir að Byrgismálið kom upp á yfirborðið. Bloggheimar eru búnir að gleyma Byrgismálinu.

Á sínum tíma taldi ég að Guðmundur í Byrginu hefði gert góðverk í anda kristinnar trúar er hann var að hirða upp rónana af Hlemmi og Klambratúni og fara með þá í kristilega afvötnun. Ég er enn þeirrar skoðunar þótt hann hafi sennilega misnotað styrkina og misbeitt valdi sínu kynferðislega gagnvart ungum stúlkum sem leituðu til Byrgisins.

Ég hefi séð fólk fara á botninn í heimi alkóhólisma og fíkniefna og ég hefi heyrt af góðu fólki sem Guðmundur dró upp úr svaðinu og gerði að betra fólki með hjálp trúarinnar. Þótt ég sé ekki og hafi aldrei verið á þeirri kristilegu línu sem Guðmundur tilheyrir, þá hefi ég ávallt borið virðingu fyrir störfum Samhjálpar og öðrum samtökum sem hafa umfram alla aðra borið kærleika til þess fólks sem neðst stendur í samfélagsstiganum.

Því verður að krefjast þess að Byrgismálinu ljúki með dómi sem fyrst svo hægt sé að taka Guðmund í sátt aftur eða afneita hjálparstarfi hans til framtíðar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli