Þegar ég bjó í Svíþjóð kom eitt sinn fyrir að maður einn sem bjó í Hässelby, sama hverfi og vinnan mín, hætti að mæta til vinnu. Hann svaraði ekki síma og því var honum sent uppsagnarbréf nokkru síðar. Svo leið og beið og maðurinn borgaði ekki húsaleiguna sína og var honum þá sagt upp íbúðinni sinni. Svo kom að því að bera skyldi manninn út og hið fyrsta sem starfsmenn fógeta sáu er þeir höfðu brotist inn í íbúðina var lík mannsins þar sem það hefði legið í 14 mánuði.
Bloggheimar eru sorgmæddir vegna konu einnar sem hafði verið látin í íbúð sinni í Hátúni í viku. Það vekur upp spurninguna hvort eldri borgarar og öryrkjar þurfi ekki að koma sér upp sjálfvirku viðvörunarkerfi, þ.e. hreyfiskynjara og/eða svokölluðu “dead-alarm”. Slíkt kerfi er víða komið í vélarúm skipa og virkar þannig að á ákveðnum tímafresti fer viðvörunarkerfi í gang og þarf þá að kvitta fyrir það. Ef það er ekki gert innan ákveðins tíma fer viðvörunarkerfi í gang þar sem vakt er allan sólarhringinn, t.d. í brú. Hættan með slíkt kerfi felst þó í að það gleymist að virkja kerfið þegar farið er niður í vél eða að það sé tekið úr sambandi.
Hreyfiskynjari á heimilum, t.d. staðsettur á salerni ætti að geta komið í sömu þarfir, en á sama hátt þarf að gæta þess að tilkynna ef farið er af heimilinu um tíma svo ekki sé verið að kalla út fólk að óþörfu.
Innan bloggheima er fólk að velta fyrir sér einmanaleika þessa fólks sem liggur dáin í viku. Það þarf ekkert að vera sökum einmanaleika. Ég bý ein ásamt kisunum mínum. Ég er ekkert með neina tilkynningaskyldu við fólk og stundum líða margir dagar án þess að ég hafi samband við einstöku ættingja mína eða þau við mig. Það eru því helst nágrannar mínir eða þá vinnan sem gætu gert viðvart ef eitthvað óvænt kæmi fyrir mig. Það er ekki þar með sagt að ég þjáist af einmanaleika þótt ég sé ekki daglega inni á gafli á ættingjunum.
Það er hinsvegar fyllsta ástæða til að gera ráð fyrir því að einmanaleikinn í samfélaginu fari að aukast og fréttir af löngu látnu fólki verði algengari.
Í Farsta í suðurhluta Stokkhólms greiddi kona ein öll sín útgjöld í gegnum greiðsluþjónustu og fékk mánaðarlega eftirlaunin sín inn á reikninginn. Þegar húsvörðurinn þurfti að brjótast inn til hennar vegna þess að yfirfara þurfti ofnakerfið þurfti hann að klofa yfir fimm ára birgðir af pósti og ruslpósti áður en hann komst að líkinu. Þar var einmanaleikinn tilefni til sorgar.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1307813
sunnudagur, desember 09, 2007
9. desember 2007 - Að vera dáin í viku
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 02:36
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli