Líkið af Benazir Bhutto var ekki orðið kalt þegar stjórnvöld í Hvíta húsinu í Washington töldu sig finna líkindi milli aðgerða Al Kaida og morðsins á Benazir Bhutto þótt þeir vildu ekki fullyrða neitt að svo stöddu.
Það er eðlilegt. Nánast allir heimsbúar vita að verstu óvinir stjórnarinnar í Washington eru Al Kaida, þótt stjórnin þar vestra viti ekki einu sinni hvað Al Kaida er. Því sjá þeir Al Kaida í hverju horni og allsstaðar þar sem hryðjuverk eru unnin.
11. mars 2004 tókst múslímskum hryðjuverkamönnum að myrða nærri 200 manns í Madrid. Lík hinna myrtu voru heldur ekki kólnuð þegar þáverandi stjórnvöld á Spáni kváðu úr um að ETA, aðskilnaðarsamtök Baska hefðu verið þar að verki, en ETA eru verstu óvinir spænskra stjórnvalda. Þessi fljótfærni Aznars og félaga kostuðu sennilega stjórnina í Madrid stólana í kosningunum nokkrum dögum seinna.
Það er ekki mitt að kveða úr um það, hver myrti Benazir Bhutto. Margt styður þá tilgátu að Musharraf forseti og vinur Bandaríkjanna hafi staðið að baki ódæðinu, en það þarf ekki að vera. Benazir Bhutto stóð fyrir hægfara umbótastefnu í Pakistan, ákaflega hægfara, en samt ákveðinni þróun í áttina til frelsis borgaranna í landi þar sem konur eru álíka mikils metnar og búpeningurinn, þó án þess að megi leiða þær til slátrunar. Því er hægt að rökstyðja þá kenningu að talíbanar eða stuðningsmenn þeirra hafi myrt Bhutto, en um leið verður að hafa í huga að Musharraf þurfti svo sannarlega að óttast áhrifamátt og vinsældir hennar meðal alþýðu landsins.
Hin ákveðna kenning stjórnarherranna í Washington er fyrir bragðið álíka gáfuleg og kenning Aznars og félaga í mars 2004. Um leið vil ég votta pakistönsku þjóðinni samúð mína vegna fráfalls mikilhæfs leiðtoga.
föstudagur, desember 28, 2007
28. desember 2007 - Fljótir að finna sökudólga!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:27
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli