þriðjudagur, desember 25, 2007

25. desember 2007 - Jólin

Einasta kvöld ársins sem ég reyni alltaf að hlusta á Rás1 er aðfangadagskvöld jóla. Það bara tilheyrir. Ég get ekki hugsað mér að missa af jólamessunni í dómkirkjunni og svo hefi ég aldrei getað horft á sjónvarp á þessu kvöldi. Þessvegna sátum ég og kisurnar og hlustuðum á tvo presta og heilan dómkirkjukór kyrja messu með mikilli andakt.

Kisurnar fengu hinsvegar ekki það sama og ég að borða. Reyndar skil ég ekki í Tárhildi þegar hún kemst í fisk. Hún étur af slíkri græðgi að hún ælir á endanum. Það þýðir ekkert að reyna að skammta henni því þá étur hún bara frá henni systur sinni.

Eftir að hafa skroppið í stutt jólaboð var hafist handa við að lesa á jólakort og taka upp jólagjafir. Á einu jólakortinu var heimboð í áramótamótagleði. Takk, ég þigg boðið. Á einni jólagjöfinni var áprentuð áminning þar sem vitnað var í orð Gurríar vinkonu þar sem segir: “....vel skrifuð og einlæg bók sem segir blákaldan sannleikann á hnitmiðaðan hátt.” Jólagjöfin er samt ekki frá Gurrí heldur dóttur minni.

Með þessum orðum óska ég öllum guðs blessunar og áframhaldandi gleðilegra jóla


0 ummæli:







Skrifa ummæli