Ég þurfti að skreppa út í Húsasmiðju á mánudagskvöldið að sækja mér nokkrar skrúfur til að festa upp vegghillur að hætti Ingvars Kamprad. Þar sem ég var komin inn á hringtorgið á Bæjarhálsi sem skilur á milli Bæjarbrautar og Hálsabrautar, kom lítill slyddujepplingur á útopnu, inn á hringtorgið og í veg fyrir mig svo ég mátti nauðhemla til að lenda ekki á honum. Eins gott að ég var á lítilli ferð og hafði tekið eftir glæfraakstri jepplingsins og gat því hægt enn frekar á mér áður en hann ók í veg fyrir mig.
Ég sá ágætlega andlitið á bílstjóra jepplingsins og sá að bílstjórinn hafði auðsjáanlega fengið jepplinginn hans afa síns lánaðan. Ekki léti ég sjá mig í kappakstri á svona ellilífeyrisþegaökutæki.
Er ég kom svo að götuhorninu neðan við vinnuna hennar Gurríar, kom lítill fólksbíll niður Stuðlahálsinn og ók viðstöðulaust í veg fyrir mig og aftur mátti ég nauðhemla til að koma í veg fyrir árekstur.
Það kemur svo umferðinni ekkert við að kornungur afgreiðslumaðurinn í Húsasmiðjunni reyndi að selja mér alltof stóra plasttappa fyrir litlar skrúfurnar sem ég var að kaupa og svo hélt hann fyrirlestur yfir mér um hvernig skrúfan hefur áhrif á plasttappann. Ég var heppin að taka ekki mark á drengnum.
þriðjudagur, desember 11, 2007
11. desember 2007 - Jólastressið byrjað
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:47
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli