laugardagur, mars 31, 2007

1. apríl 2007 - Samúðarkveðjur til Hafnarfjarðar

Þegar Davíð Oddsson hótaði áframhaldandi okurvöxtum ef álverið í Straumsvík yrði stækkað og annað byggt í Helguvík 29. mars síðastliðinn, gaf hann fjölda fólks sem er þreytt á okurvöxtunum skýr fyrirmæli um að berjast gegn stækkuninni í Straumsvík. Eins og heyra mátti af viðtölum í fjölmiðlum við fólk á kjörstað á laugardag, virtust orð hans hafa ráðið heilmiklu um afstöðu fólks gegn stækkuninni, en um leið gerði það fólk sem greiddi atkvæði eftir fyrirmælum hans sér ekki grein fyrir því, að með því að greiða atkvæði gegn stækkuninni var um leið verið að greiða atkvæði með boðun hinnar hörðu lendingar Davíðs og hugsanlegu kreppuástandi.

Sá hópurinn sem helst barðist gegn stækkuninni, sér heiminn rétt eins og félagi Davíðs fyrir westan. Sá heitir George Dobbljú Bush og sér heiminn í hvítu eða svörtu, afsakið gráu eða grænu. Rétt eins og bandaríska þjóðin fylkti sér um hina svarthvítu stefnu Bush eftir 2001, hefur stór hópur Íslendinga fylkt sér um hina svarthvítu stefnu Andra Snæs, Ómars Ragnarssonar og Steingríms Jóhanns sem gengur út á að keyra íslenskt efnahagslíf í gjaldþrot með aðgerðarleysi og baráttu gegn framförum.

Það verður fróðlegt að sjá hvort íslenska þjóðin losi sig við kreppuna aftur með fótunum eins og hún gerði 1968-1969. Í það skiptið bjargaði nýhafin álvinnsla í Straumsvík því að ekki fór enn verr.

Hafnfirðingar hafa kosið og sagt nei. Spurningin er hvort þessi höfnun verði ekki hvatning fyrir kröfur heimamanna um byggingu álvera í Helguvík og á Bakka við Húsavík. Það er jafnvel hugsanlegt að hægt verði að ráða þrautþjálfað starfsfólk frá Hafnarfirði í ný störf á þessum stöðum.

31. mars 2007 - Ökumaður stakk annan ökumann!




Ég las frétt Morgunblaðsins um ökuníðinginn sem skaut á annan og rifjaðist þá upp fyrir mér atvik sem kom fyrir sænskan vinnufélaga minn í Stokkhólmi fyrir fjölda ára síðan.

Hann var úti að aka einhversstaðar á Bergslagsvägen í vesturborginni þar sem tvær akreinar eru í hvora átt og þar sem hann var að flýta sér renndi hann á vinstri akrein framhjá röð bíla sem fóru hægt yfir á hægri akrein og síðan þegar kom að þrengingu á veginum, tróð hann sér inn á milli bíla rétt eins og maður sér oft á dag hér á Íslandi. Bílstjórinn sem hann þrengdi sér framfyrir var aldeilis ekki glaður, flautaði og sýndi af sér að hann kynni illa við háttalag kunningja míns.

Svo kom að því að kunninginn þurfti að stoppa á rauðu ljósi og sá æsti í næsta bíl fyrir aftan. Sá steig þá útúr bíl sínum og gekk að bíl kunningja míns, reif upp bílstjórahurðina, dró hann útúr bílnum og stakk í magann með hníf og það fyrir framan augun á fjölda vitna. Kunningi minn lenti á spítala, en komst fljótt aftur á fætur og til vinnu, en sá sem stakk hann lenti á bak við lás og slá.
Það sem þótti merkilegast við þessa árás var að maðurinn sem stakk kunningja minn var um fertugt, og með tandurhreint sakavottorð.

Það getur verið varasamt að fara vitlausu megin framúr á morgnanna.

föstudagur, mars 30, 2007

30. mars 2007 - II - Hernaðarhyggja Björns Bjarnasonar



Fyrir nákvæmlega 58 árum, þann 30. mars 1949 voru Heimdellingar notaðir til að berja á stjórnarandstæðingum sem voru andvígir hernaðarhyggju þáverandi stjórnvalda. Í lok maí 1973 var kallað í hjálparsveitir til að styðja við lögregluna við öryggisvörslu vegna fundar forsetanna Nixons og Pompidou. Sömuleiðis var kallað í hjálparsveitir skáta þegar Reagan og Gorbatsjov hittust í Reykjavík þrettán árum síðar.

Ef aðkoma Heimdallar er frátalin, virðist komin ákveðin hefð fyrir aðkomu björgunarsveita að stuðningi við lögregluna þegar mikið liggur við og ljóst að almennt lögreglulið nægir varla í slíkum tilfellum. Nú, þegar Björn Bjarnason leggur til að komið verði á 240 manna varaliði lögreglunnar, er tillagan sem slík ekki það sem fer fyrir brjóstið á fólki, heldur hver leggur tillöguna fram. Ég man ekki til þess að kvartað hafi verið yfir þörfinni á björgunarsveitum til aðstoðar lögreglu í þeim tilfellum sem áður er getið. Í því ljósi er tillaga Björns eðlileg og þörf. Hann hefur hinsvegar áður komið með margar tillögur um herlið og leyniþjónustu og allskyns hernaðarbrölt og því verður að skoða þessa tillögu hans í því ljósi.

Því er eðlilegt að Björn Bjarnason veki ákveðinn ugg í brjósti fólks í hvert sinn sem hann kemur fram með tillögur um eflingu lögreglu og svokallaðra öryggisþátta, jafnvel í þeim tilfellum sem hann er einungis að gera góða hluti eins og þegar hann gekk fram fyrir skjöldu við eflingu þyrlubjörgunarsveitar Landhelgisgæslunnar.

Er ekki bara kominn tími til að fá nýjan dómsmálaráðherra, einhvern sem fólk ber traust til?

30. mars 2007 - Að skera byggðalög með þjóðvegi!

Um daginn heyrði ég viðtöl Gísla Einarssonar við tvo Borgnesinga, sveitastjórnarmann sem vildi færa þjóðveg nr 1 út fyrir bæinn og svo kaupmann sem vildi hafa þjóðveginn áfram í gegnum bæinn en með hæfilegum fjölda af hraðahindrunum til að tryggja að þeir ökumenn sem ættu leið í gegn gætu skoðað í búðaglugga á leið sinni norður í land eða hvert sem þeir voru að fara.

Nú hafa sveitastjórnarmenn á Blönduósi ítrekað fyrri mótmæli sín gegn færslu hringvegarins út fyrir þorpið. Er ekki kominn tími til að stoppa svona hreppasjónarmið af?

Sú gamla aðferð að leggja þjóðvegina í gegnum hvert þorpið á fætur öðru er löngu úrelt. Auk hættunnar sem stafar af mikilli þungaumferð í gegnum þorpin, má nefna hávaða og mengun sem umferðinni er samfara. Því er víða búið að leggja aðalþjóðbrautirnar framhjá bæjunum og jafnvel heilu borgunum. Samkvæmt nýlegri áætlun sem ég sá fyrir ekki svo löngu síðan, á t.d. að leggja Suðurlandsveg og nýja brú yfir Ölfusá norðan við miðbæinn á Selfossi og kæmi hann þá inn á gamla Suðurlandsveginn austan við Mjólkubú Flóamanna, nærri Laugardælum ef mig misminnir ekki. Áætlun sú sem Borgnesingar tala um til að vernda börnin sín, gengur út á að þjóðvegurinn liggi meðfram sjónum og austur fyrir bæinn.

Mér sýnist lítil þörf á sérstakri vegasjoppu á leiðinni frá Staðarskála að Varmahlíð. Ég legg því til að fólk sem á leið norður í land sleppi því að stoppa í sjoppunni á Blönduósi uns sveitarfélagið hefur samþykkt að færa vegastæðið að Svínavatni, íbúunum og alþjóð til heilla.

Með því móti sleppum við kannski við að fá háværar kröfur um lagningu góðs heilsársvegar yfir Kjöl!

fimmtudagur, mars 29, 2007

29. mars 2007 – Íþróttapistill dagsins



Á miðvikudagskvöldið töpuðu Íslendingar óvænt fyrir Spáni í boltasparki þrátt fyrir þá staðreynd að jafnmargir voru í hvoru liði, en aðstæður allar mjög hagstæðar Íslendingum. Íslendingar voru á heimavelli, því sá Spánverji hlýtur að vera eitthvað klikk sem fer til Mallorca í sumarfríinu. Hinsvegar eru fáir Íslendingar sem hafa komist hjá því að flatmaga á sólarströnd á Mallorca á undanförnum áratugum. Því verður völlurinn að teljast sem varaheimavöllur íslenska liðsins. Þá var veðurfarið mjög hagstætt íslenska liðinu, rigning og rok, alveg eins og heima. Semsagt, kjöraðstæður á vellinum.

Mig grunar reyndar að skýringin á tapinu sé sú að fyrirliði íslenska landsliðsins sé á mála hjá Spánverjum. Það þarf því að skipta um fyrirliða fyrir næsta leik!

-----oOo-----

Eins og Íslendingar tóku eftir var fátt um frásagnir af landsleiknum í útvarpi og sjónvarpi allra landsmanna. Sjálf er ég ekki með áskrift að Stöð 2 og sá því ekki leikinn, né heyrði. Það gerir að sjálfsögðu ekkert til því hingað til hefi ég bara fylgst með sparaksturskeppnum með Michael Scumacher í fararbroddi. Nú er hann hættur og ég eins og vængbrotinn fugl. Það gerir kannski ekki neitt til því mér skilst að Stöð 2 sé líka að hirða sparaksturinn af sjónvarpi allra landsmanna. Það er því óþarfi að finna sér nýtt uppáhald þar til sjónvarpið fær sýningarréttinn á ný.

þriðjudagur, mars 27, 2007

28. mars 2007 - Of lengi á leiðinni?

Þegar ég bjó í efra Breiðholti og aðalstöðvar Hitaveitunnar, síðar hitaveituhluta Orkuveitunnar voru á Grensásvegi, lagði ég jafnan af stað að heiman klukkan 07:30 á morgnanna. Ég vissi ósköp vel að ég yrði komin tímanlega í vinnuna, enda tók það mig einungis tíu mínútur að keyra þennan spotta snemma morguns. Eftir það gilti einföld þumalputtaregla. Fyrir hverja þá mínútu sem ég fór seinna af stað að heiman þurfti ég að jafnaði að bæta einni mínútu við ferðatímann. Ef ég lagði af stað að heiman klukkan 07:35 var ég kortér að skjótast þessa vegalengd og ef mér seinkaði og fór að heiman 07:40, var ég á mörkum þess að koma í tæka tíð í vinnuna.

Til að spara mér tímann og stressið, vaknaði ég ávallt klukkan 06:45, lagði af stað í vinnuna klukkan 07:30 og hafði því tíma til að fá mér kaffibolla í rólegheitum áður en vinnutíminn hófst.

Í þriðjudagsMogganum var næstum opnugrein um mæðgur sem eyddu 35 mínútum til að komast í vinnuna og fannst ferðatíminn ómögulegur. Að þeirra sögn komu þær oft of seint í vinnuna, önnur í Verslunarskólann, hin á Suðurlandsbrautina, en í umræddri grein lögðu þær að heiman klukkan 07:40, það er á versta mögulega tíma til að komast hratt og vel og örugglega frá Áslandshverfi í Hafnarfirði á ákvörðunarstaði í Reykjavík.

Í stað þess að aka leiðina eðlilega og í rólegheitum, eru þær að stressast á leiðinni og allt verður ómögulegt ef þær koma of seint í vinnuna. Af hverju leggja þær ekki bara fyrr af stað á morgnanna? Þær geta einungis kennt sjálfum sér um stressið í stað þess að fá sér morgunsopann í vinnunni eða skólanum og geta svo hvílst eðlilega að kvöldi.

Í dag vakna ég eins og áður klukkan 06:45 ef ég þarf að fara á dagvakt eða til dagvinnu, en legg af stað gangandi að heiman klukkan 07:45. Þó er ég komin í vinnuna upp úr klukkan 07:50, því það er gott að búa í Árbænum! Mæðgurnar ættu að prófa hið sama og flytja í Árbæinn og þyrftu þá aðeins að leggja af stað að heiman klukkan 07:40 til að vera í vinnunni á réttum tíma.Ef þær vilja hinsvegar ekki flytja, má benda þeim á stórt og gott fyrirtæki sem blasir við út um stofugluggann hjá þeim og þar sem sagt er vera gott að starfa.

-----oOo-----

Ég er komin í páskafrí og þá loks fæ ég þessa flensu sem er að hrjá mörlandann. Af hverju get ég ekki verið veik í vinnutímanum eins og venjulegt fólk?

27. mars 2007 - Þjóðsöngurinn

Þessa dagana fyllist hluti íslensku þjóðarinnar heilögum rembingi vegna notkunar Spaugstofunnar á íslenska þjóðsöngnum. Ekki ég. Ég dáðist að frábærum flutningi þeirra á þjóðsöngnum með nýjum texta. Kannski er ég ekki nógu mikil þjóðremba.

Það gilda mjög ströng lög um þjóðsönginn og þjóðfánann. Þó hefur Árni Johnsen útsett þjóðsönginn á þann hátt að telja verður tvímælis, hann var leikinn alltof hratt á handboltamóti í janúar. Þá hefur honum verið útjaskað við ýmsa viðburði án þess að nokkur hafi séð ástæðu til andmæla. Svipað er með íslenska fánann. Um daginn var hann notaður í bikini. Þá má ekki gleyma því er Jakob Frímann Magnússon væntanlegur frambjóðandi kom fram á tónleikum í Englandi í lörfum sem líktu eftir íslenska fánanum.

Á sama tíma sér enginn neitt athugavert þótt Tommi og Jenni kyrji franska þjóðsönginn eins og hverja aðra drykkjuvísu í teiknimyndum og sjálfir hafa Íslendingar gaman af að syngja þann enska sem íslenskan ættjarðarsöng. Er ekki komin upp einhver tvöfeldni í móralinn?

Úr því við megum syngja Eldgamla Ísafold við enska þjóðsönginn, mega Bretar þá ekki syngja þann íslenska með sínum texta?

-----oOo-----

Ef fólki finnst pistlarnir mínir snubbóttir á mánudagskvöldum, er það af eðlilegum ástæðum. Þá er ég á Dale Carnegie námskeiði þar sem ég hefi verið síðustu átta mánudagskvöld. Ég er bundin trúnaði af því sem fram fer þessi kvöld, en þau eru bæði skemmtileg og erfið. Oftast er ég dauðuppgefin þegar heim er komið og langar helst til að skríða upp í rúm og fara að sofa án þess að skrifa neitt.

Strax á þriðjudögum finn ég hvernig ég er öll endurnærð á sálinni og get notað orkuna í betri pistla en áður var.

mánudagur, mars 26, 2007

26. mars 2007 - Fermingar

Ég verð víst seint talin venjuleg manneskja. Enn minnist ég fermingar minnar fyrir rúmlega fjórum áratugum. Þá var ekki enn til siðs að leigja rándýr salarkynni undir fermingarveislur og var mín fermingarveisla haldin heima hjá foreldrum mínum. Meðal skemmtiatriða var upplestur minn úr fornsögum. Kaflinn sem ég las var ekki úr Biskupasögum og átti lítið skylt við fermingarfræðsluna. Þó voru fornritin til á flestum betri heimilum og reyndar fékk ég bækurnar til eignar eftir að foreldrar mínir höfðu kvatt þetta jarðlíf, enda ein systkinanna um að hafa gaman af þeim.


Ég lenti í fermingarboði á sunnudag. Ein mín uppáhaldsfrænka var að ferma dóttur sína og ég mætti til veislunnar, þótt ég forðist slíkar veislur að öllu jafnaði. Þetta var góð veisla, ekkert talað um bloggfærslur né pólitík, enn síður álbræðslur þar sem ég fór um. Þó voru þarna Austfirðingar góðir, jafnvel tengdir inn í Stuðlaættina frá Reyðarfirði. Sjálf sat ég á mér og þakka góðan viðurgjörning.

Á myndinni er fermingarbarnið Arndís Sigurbjörg ásamt náfrænku sinni, vinkonu og næstum jafnöldru, Katrínu Arndísi. Það mætti ætla að amma þeirra héti Arndís!

-----oOo-----


Fólk skilur ekkert í mér að ég skuli ekki vera jafnvond við Margréti Sverrisdóttur eins og þá skallapoppara Ómar, Jakob og Bubba. Skýringuna má sjá hér, en Sigríður Jósefsdóttir kosningastjóri Margrétar er hér í bloggvinahópi á Akranesi fyrr í mánuðinum. Að sjálfsögðu treður hún sér framfyrir Gurrí og gerir sig gilda þótt lítið fari fyrir aukakílóunum að öðru jöfnu. Ég ætla nú samt að kjósa Evrópusambandið og uppbyggingu á Austfjörðum í vor.

http://images22.fotki.com/v754/photos/8/801079/3367418/IMG_1502-vi.jpg?1174864698

http://images21.fotki.com/v758/photos/8/801079/4322174/IMG_1471-vi.jpg?1174865579

sunnudagur, mars 25, 2007

25. mars 2007 - Þetta hræðilega Moggablogg!

Ég skráði mig inn á Moggabloggið í september síðastliðnum í þeim tilgangi einum að geta hæðst að Moggabloggurum undir nafni og mynd. Það var svo í hinni árlegu friðargöngu á Þorláksmessu þar sem ég sá marga góðbloggara, að ég sá einn eða tvo Moggabloggara á ferð, en eins og allir vita, eru Moggabloggarar hinir verstu hægripúkar og óalandi og óferjandi. Ég skaut því inn smáskoti á Moggabloggið á sjálft Moggabloggið og með því fylgdi sjálf jólahugvekjan mín sem einnig birtist á aðalsíðunni minni á Blogspot. Um jólin sem og dagana á eftir komu létt skot á Moggabloggið á Moggabloggi, en ekki leið á löngu uns ég var skotin í kaf af sjálfum frænda mínum frá Leirvogstungu.

Eftir þetta fór ég að hegða mér skikkanlega, en færði inn færslurnar mínar daglega á bæði Blogspot og Moggablogg. Um miðjan janúar var ég við að gefast upp á tvöföldum færslum, því til hvers átti ég að skrá inn færslur á Moggabloggið með 50 lesendur þegar 200-300 lesendur lásu mig daglega á Blogspot?

Þá skyndilega óx lesendafjöldi minn á Moggabloggi úr 50 í 500 á dag og suma daga fór ég yfir þúsund á dag. Ég steinhætti við að hætta við Moggabloggið og færðist nú öll í aukanna, óð upp vinsældalistann á Moggabloggi og komst sem hæst í sjötta sæti. Síðan þá hefi ég verið á róli á milli þessa ágæta sjötta sætis og farið sem neðst niður í 25 sæti. Ekki get ég farið að hætta á Moggabloggi með slíkar aðsóknartölur. Þá ber þess að gæta að ég hefi sem mest fengið um 480 flettingar á Blogspot á einum degi, en fékk 2800 heimsóknir á Moggabloggið þegar ég fann mig knúna til að skrifa um árin í Reykjahlíð eftir nauðgun fjölmiðla á æskuminningum mínum. Viðbrögðin hafa heldur ekki látið á sér standa og ég er sífellt að hitta fólk sem er að vitna í bloggið mitt og jafnvel séð ástæðu til að kalla mig fyrir vegna skoðana minna og vitnar í mig á öðrum vígstöðvum þjóðfélagsins.

Á afmælisdegi dótturdóttur minnar síðastliðinn föstudag, komst heildarfjöldi heimsókna á Moggabloggið mitt upp fyrir heildarfjölda flettinga á Blogspot þrátt fyrir einungis þrjá mánuði á Moggabloggi en fimmtán mánuði á Blogspot eða samtals rúmlega 76000 heimsóknir.

Ég er löngu hætt við að hætta á Moggabloggi.

-----oOo-----


Og svo er það fótboltinn. Þótt ekkert hafi heyrst úr Lundarreykjadalnum um gengið í kvenfélagsdeildinni, er ekki sömu sögu að segja af spútnikliðinu United of Manchester .
Í gær burstaði það Dómínókubbana með fjórum mörkum gegn engu og eru nú komnir með afgerandi forystu og átta stig umfram næsta lið og þrjá leiki til góða í efstu Vestfjarðadeild.
Þá eru þeir með 90 mörk í plús en næsti keppinautur með 60 mörk í plús.
Hvað eru hetjurnar mínar að gera í svona lélegri deild?

laugardagur, mars 24, 2007

24. mars 2007 - Óvænt afmælisveisla


Á föstudagseftirmiðdaginn plataði ég Gurrí Haralds, (þið vitið Kaffi-Gurrí, (sjá http://gurrihar.blog.is/ ) til að koma með mér á skómarkað á milli hitaveitutankanna í Öskjuhlíð. Eftir smáráp á milli skókassa kom Gurrí allt í einu með snilldarhugmynd: Það er frábær skómarkaður vestur í Sjóminjasafni á Grandagarði. Eigum við ekki að kíkja þangað?


Við vestur á Grandagarð á mínum víðfræga vinstrigræna Subaru. Þegar þangað var komið reyndist Gurrí hafa verið að plata því allt í einu vorum við komnar í stórafmæli matargúrúsins Nönnu Rögnvaldar og ég enn í hversdagsfötunum. Eins gott að ég var nýkomin úr klippingu.

Þrátt fyrir útganginn á mér var vel tekið á móti okkur og boðið upp á veitingar sem Nönnu einni er sæmandi. Ég gætti þess að vera ákaflega hófleg og láta ekki græðgina hlaupa með mig í gönur og þetta notfærði Gurrí sér óspart, fór fleiri ferðir að matarborðinu, benti á mig og þóttist vera að sækja ábót fyrir mig. Þetta skal ég launa henni þótt síðar verði.


Rétt eins og í öðrum veigamiklum afmælisveislum, var þarna mikill fjöldi frægðarfólks. Má þar nefna Guðrúnu Bóasdóttur af Stuðlaætt og Elvar vélfræðing eiginmann hennar, Hildigunni Rúnarsdóttur sem bjargaði æru minni þegar ég var tólf ára, Rósu Þorsteinsdóttur bókasafnsfræðing og skemmtilega skólavinkonu úr MH sem að auki er einungis átta mínútum yngri en Gurrí, Sigrúnu Magnúsdóttur fyrrum borgarfulltrúa og ekki má gleyma Ævari Erni Jósefssyni sem viðurkenndi fyrir mér að hann væri fastur laumulesandi bloggsins míns. Það er ljóst að glæpaverkin hafa tekið talsvert á Ævar því hann hefur lagt mikið af síðan ég sá hann síðast.

Greinilegt var að Gurrí skemmti sér ágætlega því ég varð að þvinga hana með valdi út í bíl og aka eins og vitleysingur með hana upp í Árbæ og í veg fyrir Akranesstrætó svo hún kæmist alla leiðina heim.

föstudagur, mars 23, 2007

23. mars 2007 - Ómar og Bubbi og Kobbi og kannski Margét Sv!


Þegar Lennon lýsti því fyrir bandarískum sjónvarpsáhorfendum að Bítlarnir væru vinsælli en Jesús Kr. Jósefsson tóku sumir harðlínumenn í bandarískum trúmálum sig til og hófu að brjóta plötur Bítlanna.

Þessi aðgerð, að brjóta plötur og brenna bækur var ekkert ný uppfinning. Slíkt hefur verið stundað frá því prentlistin var fundin upp, að brenna bækur höfunda sem fólki voru ekki þóknanlegar og síðar brjóta plötur tónskálda sem fóru gegn skoðunum handhafa platnanna hverju sinni. Frægar eru bókabrennurnar í Þýskalandi nasismans og síðar í hinum hernumdu löndum þeirra og sennilega náðu hljómplötubrotin hámarki vestur í Bandaríkjunum er Lennon sagði þennan súra sannleika um vinsældir Bítlanna

Það var haldinn blaðamannafundur í Reykjavík á fimmtudag þar sem Íslandshreyfingin kynnti sig fyrir alþjóð. Í sjónvarpsfréttum mátti sjá ýmsa mektarmenn, Ómar Ragnarsson formann flokksins, Jakob Frímann Magnússon og Bubba Mortens hljómlistarmenn og fleira gott fólk sem vill láta gott af sér leiða á Íslandi í framtíðinni. Ég hafði skoðun á ýmsu sem Ómar Ragnarsson lét út úr sér og ekki allt jákvætt. Satt best að segja var ég ósammála Ómari í veigamiklum atriðum, t.d. varðandi náttúruvernd og áliðnað. Þá hefi ég áður lýst yfir andúð minni á drambsemi Jakobs Frímanns Magnússonar og ég hefi ekki alltaf verið sammála Bubba Mortens á undanförnum árum og þar sem mér hefur þótt miður að sjá hann gefa sig auðvaldinu á hönd.

Ég veit að ég má ekki segja þetta, en stundum finnst mér eins og Margrét Sverrisdóttir sé sér á báti í þessum nýja flokki, rétt eins og hún var sér á báti í Frjálslynda flokknum. Hún á sér bakland í fjölskyldu sinni og nánum vinum eins og bloggvinkonu minni og ættfræðivinkonu sem býr í Grafarholtinu. Mér finnast sumir hinna vera eins og fallandi stjörnur að leita sér nýrrar frægðar með stuðningi sínum við nýju Íslandshreyfinguna, þar með taldir hljómlistarmennirnir þrír sem áður eru upptaldir.

Þeir munu engin pólitísk áhrif hafa á mig, en í staðinn lofa ég þeim, að ég mun ekki brjóta hljómdiska Ómars Ragnarssonar, Stuðmanna og Bubba Mortens, heldur halda áfram að njóta þeirra fornu frægðar svo lengi sem ég lifi!

-----oOo-----

Svo fær litla Margrét hamingjuóskir með afmælisdaginn.

fimmtudagur, mars 22, 2007

22. mars 2007 - Vesalings Pia!



Þegar ég hafði gengið í gegnum aðgerðarferli mitt í Svíþjóð fyrir 12 árum síðan, lenti ég í stappi við yfirvöld vegna eftirnafnsins, en Patent och registreringsverket (PRV) sem sér um nafnabreytingar ásamt öðru, neitaði mér um breytingu á eftirnafninu af því að það væri ekki nógu sænskt. Til að gera málið enn hjákátlegra, hét fulltrúinn sem úrskurðaði í málinu, einhverju nafni sem hljómaði eins og finnskt.

Komin þetta langt í ferlinu, var ég alls ekki sátt við að fá ekki mitt rammíslenska eftirnafn og kærði úrskurðinn umsvifalaust til Kammarrätten. Ég fékk Þórgunni Snædal rúnafræðing hjá Riksantikvarieembätet til að semja bréf til réttarins þar sem hún sýndi fram á það með rökum, að ekkert væri eins sænskt eins og eftirnafn mitt því þannig væru eftirnöfn sænskra kvenna rituð á sænskum rúnasteinum. Kammarrätten tók þetta til greina, snéri snarlega við úrskurði frú L. hjá PRV og viðurkenndi rétt minn til þess að bera mitt rammíslenska eftirnafn sem ég hefi borið með stolti allar götur síðan.

Þessi skemmtilegu tímamót í lífi mínu komu upp í hugann þegar ég heyrði af henni Piu sem ekki fær að heita Pia af því að hún er enn með typpi þótt hún hafi lifað í mörg ár sem kona. Kerfinu finnst hún ekki mega heita Pia þótt hún sé orðin 62 ára og því væntanlega fullfær um að meta sjálf hvað hún eigi að heita.

Pia hefur ekki óskað eftir leiðréttingu á kynferði sínu, en vill fá að halda áfram að lifa í kvenhlutverki á sínum eigin forsendum, þ.e. sem transgender án aðgerðar. Í slíkum tilfellum er boðið upp á möguleika á svokölluðum kynhlutlausum nöfnum í Svíþjóð, nöfnum á borð við Kim, Linus og Maria. Nafnið Pia er ekki í þeim hópi og því hefur henni verið neitað og verður því að halda áfram að heita Lennart.

Þrátt fyrir að Pia segist hafa reynt nóg, vona ég að hún haldi áfram að berjast, þó ekki sé til annars en að auka möguleika transgender fólks í framtíðinni fyrir betra lífi.

Þótt ástand nafnalaga sé slæmt í Svíþjóð, er það sem hátíð miðað við Ísland.

http://www.aftonbladet.se/vss/nyheter/story/0,2789,1026157,00.html

-----oOo-----

P.s. Mér var farið að leiðast í fríinu og náði mér því í eina aukavakt!

miðvikudagur, mars 21, 2007

21. mars 2007 - II - Áfram Ísland!

Það var illa komið fyrir íslenska landsliðinu í fótbolta á dögunum þegar í ljós kom að einn leikmaður landsliðsins var meiddur og gat ekki spilað með í leik gegn Spáni. Ekki bætti heldur úr skák þegar kom í ljós að eiginkona annars leikmanns væri ólétt og ætti von á sér á hverri stundu. Hið síðarnefnda virðist hafa komið verulega á óvart þótt venjulega sé vitað um slík gleðitíðindi með margra mánaða fyrirvara.

Voru nú góð ráð dýr, því miðað við hamaganginn virtist sem aflýsa þyrfti leiknum vegna fæðar í leikmannahópi. Á endanum tókst þó að bjarga landsliðinu fyrir horn með því að tveir leikmenn voru fengnir að láni frá Danmörku og spila því leikinn gegn Spáni. Með þessari viðbót tókst að fullmanna íslenska landsliðið og munu því ellefu Íslendingar mæta ellefu Spánverjum í sólinni á Mallorca á miðvikudag eftir viku. Það ætti því ekkert að vera því til fyrirstöðu að Íslandi bursti Spán með mörgum mörkum gegn engu. Ekki er það til að minnka sigurvonirnar að bæði liðin byrja án forgjafar og standa því jöfn að vígi í upphafi leiks.

Það er aðeins eitt sem ég hefi áhyggjur af. Mér skilst að einn Íslendingurinn sé á mála hjá einhverju spænsku félagi og gæti því verið hlutdrægur í leiknum.

21. mars 2007 - Algjört lúxuslíf!

Ég veit vart hvað ég hefi gert til að verðskulda þennan lúxus, en þegar næturvaktinni lýkur, verð ég komin í helgarfrí. “Ha, helgarfrí, það getur ekki verið, það er rétt kominn miðvikudagur.” En satt samt. Ég er að byrja í helgarfríi og ætla ekki að vinna neitt fyrr en á þriðjudagsmorguninn klukkan átta.

Á þriðjudag þarf ég að prófa einhverjar neyðarrafstöðvar og eitthvað smálegt að auki, en auk þess að sitja eitt örstutt námskeið í vinnunni. Síðan fer ég í páskafrí. Þetta er refsingin fyrir að hafa ekki tekið út allt sumarfríið á réttum tíma í fyrra.

Um það er ég viss að kisunum mínum muni finnast þær vera ofdekraðar þegar ég mæti loks aftur á vaktina mína eftir páska.

-----oOo-----

Ég bið þessa örfáu lesendur mína sem eru eftir á blogspot að fyrirgefa mér kæruleysið og gleymskuna við að setja inn færslur á gamla bloggið, þ.e. á blogspot. Moggabloggið er nefnilega svo miklu meðfærilegra :)

þriðjudagur, mars 20, 2007

20. mars 2007 - Írak

Það eru komin fjögur ár síðan Bandaríkin réðust inn í Írak og það eru komin fjögur ár síðan hópur fólks safnaðist saman fyrir framan stjórnarráðið og mótmælti stuðningi Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar við stríðið í Írak sem þeir tilkynntu fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Enn hafa þeir ekki beðist afsökunar á gjörðum sínum.

Framsóknarflokkurinn er hverfandi, kannski vegna stuðnings Halldórs Ásgrímssonar við stríðið í Írak. Það væri kannski ráð nú þegar Halldór Ásgrímsson er farinn úr landi, að biðja íslensku þjóðina afsökunar á gerræðislegum og ólöglegum stuðningi Halldórs og Davíðs við stríðið?

Á þessum fjórum árum hafa tugþúsundir eða hundruð þúsunda, kannski allt að milljón Íraka fallið, algjörlega að nauðsynjalausu. Enginn veit hversu margir þeir eru, en allralægstu tölur nefna 60 þúsundir. Á sama tíma hafa Bandaríkjamenn misst minnst 3218 menn og konur í stríðinu, þar af 3079 síðan George Dobbljú Bush lýsti því yfir að stríðinu væri lokið með bandarískum sigri. Þá hafa aðrar innrásarþjóðir misst 257 hermenn á sama tíma. Auk þeirra eru sárir samkvæmt opinberum tölum taldir vera 24042, en talið er að fjöldi særðra sé verulega hærri, jafnvel allt að 100 þúsund.

Mér auðnaðist að taka þátt í mótmælum gegn stríði í Írak árið 2003 og er stolt af því. Ég er hinsvegar ekki eins stolt yfir því að hafa ekkert gert á mánudagskvöldið til að sýna andúð mína á stríðsrekstrinum. Ég var að sinna eiginhagsmunabaráttunni, var á námskeiði á mánudagskvöldið í stað þess að vera á vaktinni, en hugur minn var að sjálfsögðu hjá því hugrakka fólki sem vildi og þorði mótmæla stríðinu, stóðu við hugsanir sínar og mótmæltu.

Væri það kannski gott kosningabragð fyrir Framsókn að snúa við blaðinu og biðjast afsökunar á stríðsbröltinu?

-----oOo-----

Svo fær Pétur bróðir hamingjuóskir með að vera ekki lengur 64!

laugardagur, mars 17, 2007

18. mars 2007 - Af kynleiðréttingum

Það var haustið 1994 sem ég fór á fund þáverandi landlæknis Ólafs Ólafssonar og óskaði þess að eitthvað yrði gert til að bæta stöðu þess fólks sem bjó á Íslandi og þjáðist af kynáttunarvanda, þ.e. fólks sem óskaði þess heitast af öllu að komast í aðgerð til leiðrétingar á kyni sínu. Ólafur tók mér vel. Við höfðum átt í nokkrum samskiptum áður gegnum síma og bréfleiðis, en nú var ég stödd á Íslandi og vildi sjá eitthvað gert hér á landi, eitthvað annað en þegar ég neyddist til að yfirgefa landið nokkrum árum áður.

Á þessum tíma var ég formaður sænskra samtaka transsexual fólks og sjálf langt komin í aðgerðarferli í Svíþjóð. Um leið vissi ég af hóp Íslendinga sem var í sömu aðstöðu og ég hafði verið áður fyrr, manneskjur sem treystu sér ekki til að flýja land og lifðu hér í vertíðarþjóðfélagi sem enn hugsaði eins og væru hér miðaldir.

Á fundinum með Ólafi var sett á stofn óformleg nefnd til að sjá um þessi mál og árangurinn blasir við okkur í svari forsætisráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur. Þótt ég vilji ekki kasta rýrð á einstöku nefndarmenn sem sumir hverjir hafa unnið að málinu af miklum heilindum, er ljóst að viðmiðun nefndarinnar af störfum Preben Hertoft geðlæknis í Danmörku voru slæm mistök, enda er Preben þessi Hertoft illa þokkaður af því fólki sem þráir ekkert frekar en að komast í leiðréttingarferli sem hér um ræðir.

Frá því nefndin hóf störf, hafa einungis tvær manneskjur lokið aðgerðarferli hér á landi. Á sama tíma hafa Íslendingar farið í gegnum aðgerð í Bandaríkjunum, Kanada, Svíþjóð, Thailandi, Danmörku og kannski víðar. Flest það fólk sem ekki treysti sér til að komast til útlanda í aðgerð 1994 hefur enn ekki komist í aðgerð og líður jafnilla í dag og það gerði þá.

Á síðasta áratug hefur Danmörk dregist stórlega aftur úr þróun þjóða Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku á sviði kynleiðréttinga og Ísland hefur fylgt Danmörku eftir í afturhaldseminni. Er ekki kominn tími til að snúa við blaðinu?

Ég hélt að læknaeiðurinn gengi út á að bæta lífsgæði fólks, ekki gera þau verri.

http://www.althingi.is/altext/133/s/1218.html

föstudagur, mars 16, 2007

17. mars 2007 - Söfnun fyrir lögreglukórinn

Á Fréttablaðinu á fimmtudag var frétt þess efnis að yfir hundrað ökumenn hefðu verið nappaðir fyrir of hraðan akstur á Dalvegi í Kópavogi á einni klukkustund á miðvikudag sem er um fjórðungur þeirra sem óku Dalveginn á þessum tíma. Meðalhraði þeirra sem voru teknir var 64 km á klukkustund.

Hvað er eiginlega í gangi? Er verið að safna fyrir Lögreglukórinn, eða er verið að reka sem flesta ökumenn í Kópavogi yfir á reiðhjól? Þegar haft er í huga að flestir sem teknir voru, óku á hraðamörkunum, er þetta ekki spurning um hraðaakstur, heldur söfnun peninga. Á móti kemur að margir þeir ökumenn sem voru teknir, munu aðeins espast upp í fyrirlitningu á lögreglunni og auka spennuna í umferðinni og var hún þó næg fyrir.

-----oOo-----

Mér skilst að sparaksturskeppnin fornfræga sé að byrja. Ég nenni ekki að vaka eftir henni í nótt, enda skilst mér að einhver finnskur ísklumpur sé kominn á Fíatinn hans Michaels Schumacher.

16. mars 2007 - Að halda út í fjögur ár!

Fyrir tveimur áratugum féll grunur á nokkra skipsfélaga mína, að við hefðum flutt nokkrar flöskur af áfengi ólöglega til landsins. Svo hart var gengið að einum fyrrum skipsfélaga mínum að hann sá sitt óvænna og játaði allar syndir alheimsins og var þá sleppt, þó eftir að játning hans hafði verið skjalfest. Mál hans fór þó aldrei til dóms því hann hafði verið rekinn fyrir áfengissmygl skömmu áður en umrætt smyglmál kom til sögunnar. Sjálf var ég sýknuð eftir fleiri ára málaþras þar sem engar sannanir lágu fyrir hugsanlegri sekt minni né annarra skipverja.

Ég get ekki annað en dáðst að pólitíska fanganum Khalid Sheikh Mohammed. Eftir fjögurra ára fangavist og illa meðferð Bandaríkjamanna hefur hann nú verið þvingaður til að játa á sig brot sem hann hefur trúlega aldrei framið. Heimurinn mun sennilega aldrei trúa játningu hans.

Fyrir aldarfjórðungi voru nokkur ungmenni á villigötum í lífinu látin játa á sig tvö morð á Íslandi. Síðar drógu þau öll játningar sínar til baka, sum eftir að hafa eytt blóma ævinnar á bak við lás og slá. Sum þeirra hafa aldrei náð að rétta úr kútnum sbr. Sævar Cielsielski sem þjóðfélagið hafnaði, þótt hann hafi hugsanlega aldrei framið þann glæp sem hann var dæmdur fyrir.

Þeir menn sem skipulögðu árásirnar 11. september 2001 eru dauðir. Þeir frömdu sjálfsvíg með árásunum. Játning Mohammeds er einungis gerð til að réttlæta þann glæp Bandaríkjanna gegn mannréttindum, að halda fólki í fangelsi við verstu aðstæður án dóms og laga uns það játar hvað sem er. Með einkennilegri játningu sinni er hann búinn að finna sér stöðu sem píslarvottur í augum þess fólks sem hatar Bandaríkin og hernaðarhyggju þeirra. Ef hann verður líflátinn fyrir hugsanlega upplognar sakir, tryggir hann sér stöðuna sem píslarvottur!

fimmtudagur, mars 15, 2007

15. mars 2007 - II - Gáfað framtalsforrit

Ég ákvað að klára skattframtalið mitt í gær og fór inn á skattur punktur is og náði í framtalið. Eitthvað vantaði upp á að framtalið væri fullkomið af hálfu þeirra sem þurfa að skila inn gögnum um eignir, tekjur og skuldir og því þurfti ég enn einu sinni að rifja drengskaparheitið upp með mér um leið og ég bætti við örlitlum tekjum sem gleymst hafði að senda launaseðil fyrir.

Verra þótti mér þó er kom að skuldunum. Ég sótti upplýsingarnar í heimabankann minn og sendi inn á framtalið, en þá harðneitaði hið gáfaða framtal að taka við því óbreyttu. Þegar betur var að gáð, höfðu tölurnar frá bankanum lent í skökkum reit og því þurfti ég að handfæra upphæðirnar svo framtalsforritið yrði ánægt. Það var kannski eins gott því annars hefði ég glatað vaxtabótunum!

15. mars 2007 - Samúðarkveðjur

Mig langar til að votta aðstandendum Eiríks Þórðarsonar og Unnars Rafns Jóhannssonar samúðarkveðjur mínar.
Móðir Eiríks sem er góð vinkona mín, hafði samband við mig á miðvikudagsmorguninn og tjáði mér fréttirnar. Þetta var erfið stund.

þriðjudagur, mars 13, 2007

13. mars 2007 - II - Úr öðrum vasanum í hinn!

Í pappírsMogga dagsins er sagt frá ferðum skipa Landhelgisgæslunnar til Færeyja til olíukaupa vegna þess að þá sleppa skipin við greiðslu virðisaukaskatts. Er þetta ekki dálítið öfugsnúið?

Í dag er Gæslan með einungis tvö skip í fullum rekstri, Ægi og Tý, en auk þeirra hefur Óðinn gamli verið í takmörkuðum rekstri hluta úr ári. Það er því iðulega að koma upp sú staða að einungis eitt skip er á Íslandsmiðum í einu sem er allsendis ófullnægjandi ef upp kemur alvarleg staða við strendur landsins. Þá eru enn tvö ár í að nýtt skip komi í flota Gæslunnar til stuðnings þessum tveimur gömlu jálkum, hinum 39 ára Ægi og 32 ára Tý.

Ég efa það ekki að það sé ákveðin hvíld fyrir áhafnir skipanna að komast til Færeyja öðru hverju og jafnvel verða sér úti um ódýran tollvarning, en er ekki ódýrara að hækka kaupið til að gleðja áhafnirnar? Þversögnin í þessu öllu er þó sú að hin fjársvelta Landhelgisgæsla verður að fara langar leiðir eftir ódýrri olíu, en hún hefur ekki efni á að kaupa olíu á Íslandi, vegna virðisaukaskattsins sem rennur beint í vasa ríkisins sem á Landhelgisgæsluna!

Þetta lagast vonandi eftir kosningarnar í vor!

13. mars 2007 - Loksins nokkur hvíld!

Stundum er eiginlega ekkert hægt að skrifa og þá oft eftir næturvaktir. Ég lauk semsagt næturvakt á mánudagsmorguninn, svaf frameftir degi og fór svo á Deil kannekki. Því hefi ég ekki haft tíma til að skrifa neitt blogg af viti, enda haft nóg að gera á öðrum sviðum.

-----oOo-----

Varðandi blogg helgarinnar sem voru tekin út, þá var ekki um ritskoðun að ræða, en ég boðuð á teppið á morgun vegna viðburða helgarinnar. Það var hinsvegar talið óheppilegt að fjalla mikið um þessi mál fyrr en rannsókn væri lokið á því sem skeði og því tók ég færsluna út af eigin hvötum.

Það verður því vonandi eitthvað skemmtilegt skrifað hér á þriðjdag að venju þegar ég hefi sofið út eftir erfiða helgi.

mánudagur, mars 12, 2007

12. mars 2007 - Naflaskoðun vélstýrunnar!

Fjarlægt vegna rannsóknarhagsmuna

sunnudagur, mars 11, 2007

11. mars 2007 - Stokkar og göng


Ég hefi löngum verið hrifin af jarðgöngum til að stytta leiðir á milli landshluta og héraða og gera ferðamátann öruggari og þægilegri. Hvalfjarðargöng, Vestfjarðagöng og Fáskrúðsfjarðargöng hafa öll sannað gildi sitt, stytt vegalengdir og gjörbreytt og bætt möguleika fólks til lífsbjargar. Nú eru háværar kröfur um ótal fleiri göng og skyndilega virðist nóg af peningum til að bora í gegnum hvert fjallið á fætur öðru, undir firði og hafsbotna til Vestmannaeyja og víðar.

Um daginn fékk einhver þá hugmynd að vegstokkar væru allra meina bót og er það af sem áður var þegar krafa Miðborgarsamtakanna í Reykjavík um að leggja Hringbrautina í stokk var algjörlega hunsuð af yfirvöldum. Nú er til nóg af peningum svona rétt fyrir kosningar og borgarstjórn Reykjavíkur vill leggja bæði Miklubraut og Kringlumýrarbraut í stokk í harðri samkeppni við stokkagerð Kópavogs og Garðabæjar.

Úr því allt í einu er til svona mikið af peningum, ætla ég að leggja fram eftirfarandi tillögu um jarðgangagerð:

Boruð verði göng frá Ártúnsbrekkunni og stystu leið að Hofsjökli. Þar verði borað út risastórt neðanjarðar hringtorg. Frá hringtorginu verði svo boruð göng í allar áttir, ein til Vestmannaeyja, önnur til Akureyrar, þriðju til Ísafjarðar, fjórðu til Egilsstaða, auk þess sem endalaust verður hægt að bæta við göngum í allar áttir og til allra byggðakjarna eftir því sem þurfa þykir. Síðan verði gerður ytri hringur sem tengir þéttbýlisstaðina saman neðanjarðar, helst svo að bílarnir þurfi aldrei að koma upp á yfirborðið og því hægt að safna útblæstri bílanna í síum í göngunum. Þar með verður hægt að banna snjódekk og aldrei framar þarf að fara út að moka snjó framar, enda verður þá öll innanbæjarumferð komin í stokk.

Frá miðju hringtorginu undir Hofsjökli verði boruð ein lóðrétt göng upp á yfirborð Hofsjökuls. Þar verði byggt eitt stykki risastórt samkomu- og safnahús á hjólum þar sem má koma fyrir öllum helstu þjóðarsöfnum og leikhúsum þjóðarinnar við eitt stórt hringtorg, þar á meðal Alþingi og ríkisstjórn, en efst uppi verði svo veitingahús sem snýst í hringi með útsýni yfir allt landið og miðin.

Mér finnst þessi hugmynd svo sniðug að ég kem henni hér með á framfæri. Það er bara eitt vandamál sem ég er ekki enn búin að leysa. Hver vill keyra alla leið frá Reykjavík til Akureyrar eða Egilsstaða í dimmum göngum alla leið?

-----oOo-----

Af íþróttum helgarinnar er það helst að engin slagsmál voru í ensku kvenfélagsdeildinni er hetjurnar í Halifaxhreppi unnu Útgönguborg með tveimur mörkum gegn einu og virðast nú loksins vera að komast upp úr botnbaráttunni og eygja því möguleika á að spila áfram í kvenfélagsdeildinni í haust. Ekki lítur eins vel út fyrir köppunum í Sameingu Mannshestahrepps (United of Manchester - http://www.fc-utd.co.uk/ )sem unnu eitthvert Squires Gate í gær og eiga því erfitt með komast hjá því að spila í Miðhálendisdeildinni í haust.

-----oOo-----

Loks fá þeir Ágúst Ólafur Ágústsson og Osama bin Laden hamingjuóskir með stórafmælin sín á laugardag. Eru þeir báðir vel að afmælisfagnaðinum komnir, ekki síst Osama sem er mest hataði maður í heimi og eftir ótal tilraunir valdamestu þjóðar heims til að koma honum fyrir kattarnef!

laugardagur, mars 10, 2007

10. mars 2007 – II – Ný kristin stjórnmálasamtök

Bryndís Ísfold rakst á glænýja bloggsíðu á föstudagskvöldið og sagði okkur frá henni á bloggsíðu sinni , en þarna eru ný “kristin” stjórnmálasamtök að boða komu sína á vettvang landsmálanna. Af eðlilegum ástæðum sjá aðstandendur síðunnar ástæðu til að dyljast undir dulnefnum á borð við K1 og K2 og svo framvegis.Að mér læðist sá grunur að hér sé Kristilegi lýðræðisflokkurinn risinn upp frá dauðum eins og Lazarus forðum daga.

Síðast heyrðist í Kristilega lýðræðisflokknum árið 1999 er hann bauð fram til Alþingis í tveimur kjördæmum og fékk 0,3% atkvæða. Þá var Guðmundur Örn Ragnarsson í 1. sæti í Reykjavík, en Guðlaugur Laufdal í 1. sæti á Reykjanesi.

Ýmis nýmæli komu fram í stefnuskrá flokksins eins og krafa um bann við staðfestri sambúð samkynhneigðra, bann við fóstureyðingum og bann við aðgerðum til leiðréttingar á kyni. Kaflinn um utanríkismál fjallaði aðallega um óskir þeirra um nánari tengsl við Ísrael.

Ekki get ég sagt að ég hafi fagnað þessum nýja flokki, ekki fremur en hinum nýju kristnu stjórnmálasamtökum, enda finnst mér eitthvað mikið vanta upp á kristilega kærleiksandann hjá þessu fólki.

http://myndir.timarit.is/400972/djvu/400972_0006_438592_0006.djvu

10. mars 2007 - Um auðlindaákvæðið

Ég hefi verið að velta einu fyrir mér í sambandi við kröfu Framsóknarmanna um að sett verði í stjórnarskrána að náttúruauðlindirnar verði þjóðareign.

Þegar haft er í huga að Halldór Ásgrímsson var einn helsti hvatamaðurinn að kvótakerfinu, sem einstöku aðilar hafa kallað stærsta þjófnað Íslandssögunnar, þá undrast ég af hverju Framsóknarmenn af öllum skuli leggja svona mikla áherslu á að fá þetta ákvæði inn í stjórnarskrána. Ætli þeir séu að hefna sín á Halldóri með þessari kröfu sinni?

Í sjálfu sér skiptir þetta ákvæði engu máli nema þá helst sem grín. Orðalag greinarinnar er slíkt að í reynd er verið að tryggja útgerðinni endanlegan eignarrétt á fiskistofnunum, þó að því tilskyldu að ekki má selja kvótann úr landi nema að kaupin fari fram í gegnum íslenska aðila. Þannig hafa aðilar á borð við Samherja “keypt” skip með erlendum áhöfnum til að veiða kvótann sinn og skilað þeim aftur að veiðum loknum.

Þetta væntanlega ákvæði í stjórnarskránni veldur því einungis að haldið verður áfram að stunda leynimakk í kringum kvótakerfið rett eins og hingað til og að það verði stjórnarskrárvarið!

Eins og gefur að skilja legg ég til að frumvarp þessa efnis verði fellt!

-----oOo-----

Það er miklu skemmtilegra að lesa bloggið mitt á Moggabloggi. Þar eru fleiri myndir auk þess sem þar birti ég einnig fréttatengt blogg sem tengt er Mogganum á borð við fréttir af kynlífi í heiminum, sbr frétt af vændisdómi í Gambíu!

föstudagur, mars 09, 2007

9. mars 2007 – II – Vakandi á vaktinni!




Íslendingum er enn í fersku minni er flutningaskipið Wilson Muuga (ex Selnes) varð fyrir stýrisbilun og sigldi beint á land við Hvalsnes. Í nótt voru það frændur vorir Svíar sem höfðu heppnina með sér er gámaskipið Baltic Bright varð fyrir skyndilegri bilun í rafala, varð stjórnlaust og fór beint í veg fyrir Finnlandsferjuna Silja Serenade sem var á leið til Stokkhólms á leið sinni frá Helsingfors og Mariehamn með 1850 farþega um borð.
Það tókst með naumindum að afstýra árekstri, trúlega vegna þess að stýrimenn beggja skipa voru vakandi á vaktinni. Það má hinsvegar velta því fyrir sér ef vakthafandi stýrimaður á Silja Serenade hefði verið að hugsa um eitthvað annað og árekstur hefði orðið þar sem skipið var á allt að 30 sjomílna hraða.

Allavega þakka ég almættinu fyrir að hafa ekki verið á vaktinni í vélarúmi Ms Baltic Bright!

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=2617&a=626541

9. mars 2007 - Verðandi strætisvagnafarþegar!

Eins og mínir kæru lesendur ættu að vita eftir lestur bloggsins mín, ferðast ég um á gömlum vinstrigrænum eðalvagni og hefi ekki séð ástæðu til að ferðast með strætisvögnum. Hinsvegar hafa hinar áhrifaríku sögur af ævintýrastrætisvagnaferðum Gurríar orðið til þess að mig var farið að langa til að prófa eina ferð eða fleiri. Ég ákvað því að fara einu sinni með strætisvagni í vinnuna og upplifa ævintýrið sjálf

Ég gekk af stað að heiman einn morguninn, í úlpu með trefil og vettlinga og í góðum og vatnsþéttum stígvélum og arkaði út á horn. Það rigndi og það var rok. Vinstrigræni eðalvagninn minn horfði á eftir mér um leið og ég óð framhjá. Hvað er nú hlaupið í kerlinguna? Fólk sem var að leggja af stað í vinnuna horfði á mig samúðaraugun, á hún ekki fyrir bensíni á bílinn. Frá horninu gekk ég áfram yfir berangurinn í stefnu að næstu strætisvagnabiðstöð uns ég kom að hringtorgi þar sem ég þurfti að fara yfir aðalbraut. Mér tókst með naumindum að komast yfir án þess að vera keyrð niður og komst við illan leik að strætisvagnaskýlinu og beið þar nokkuð hnípin um stund í þrúgandi þögn ásamt fleiri samanbitnum væntanlegum strætisvagnafarþegum.

Fyrir framan strætisvagnaskýlið hafði gatnamálastjóri látið staðsetja stóran drullupoll. Eftir allnokkra stund nálgaðist strætisvagninn nokkuð á eftir áætlun og ók hratt. Hann stefndi beint á drullupollinn og snarbremsaði svo drullupollurinn tæmdist yfir væntanlega strætisvagnafarþega. Meinfýslega glottandi strætisvagnsstjórinn opnaði nú dyrnar.

Hinir væntanlegu farþegar tíndust inn í vagninn einn af öðrum og ég tæmdi vasana af smámynt og reyndist eiga rétt nógu mikið fyrir einni ferð með strætisvagni aðra leiðina. Síðan hringdi ég bjöllunni, flýtti mér afturí, út um dyrnar að aftan og gekk loks þessa fáu metra sem eftir voru í vinnuna, rennblaut, köld, skítug eftir drullupollinn góða og rétt náði að komast í vinnuna í tæka tíð áður en vinnutiminn hófst. Eins og gefur að skilja, var þetta mjög stutt ferð með strætisvagni!

Hinir aumkvunarlegu væntanlegt strætisvagnafarþegar eiga alla mína samúð skilið!

miðvikudagur, mars 07, 2007

8. mars 2007 - Enn af perraskap þrátt fyrir daginn!

Með síðustu færslu minni komst upp um perraskapinn í mér. Hér með játa ég að ég var eitt sinn meðlimur í litlum BDSM klúbb sem heitir Hjärter Dam og var þá til húsa á Polhemsgatan, rétt hjá aðalstöðvum lögreglunnar í Stokkhólmi. Ég var þar meðlimur mér og öðrum til skemmtunar og án þess að nokkur alvara lægi þar á bakvið. Sagan á bakvið mætingar mínar í klúbbinn er eftirfarandi:

Þegar ég flutti til Svíþjóðar á seinnihluta níunda áratugs síðustu aldar kynntist ég stúlku sem allt vildi gera til að greiða götu mína í samfélagi sem mér fannst fjandsamlegt á þeim tíma. Þessi stúlka og þáverandi sambýliskona hennar reyndust mér góðar vinkonur og börðust með mér í hvert sinn sem ég þurfti að berjast og fögnuðu með mér er ástæða var til fagnaðar. Þær voru báðar í námi við háskólann í Stokkhólmi, önnur í sálfræði, hin í félagsfræði og báðar voru frá suðurhluta Finnlands.

Þótt ætla mætti að samband þeirra væri lesbískt, kom ýmislegt fleira á daginn. Sú sem stundaði nám í sálfræði, átti sér norskan karlmann að vini og vinkona mín í félagsfræðinni stundaði vændi sér til “skemmtunar” og aukatekna á Finnlandsferjunum, var mjög iðin við allt skemmtanalíf sem hafði með kynlíf að gera og var m.a. meðlimur í Hjärter Dam sem áður er getið. Ég hafði illan bifur á mörgu í hegðun hennar, en engin nánari afskipti af þeirra innri ástarmálum þótt mig gruni að tvíkynhneigð hafi verið ráðandi á heimili þeirra.

Ef mig langaði til að skreppa út á lífið, var fyrstnefnda vinkona mín ávallt til í að koma með og við brölluðum ýmislegt skemmtilegt saman. Þó kom fyrir að mér blöskraði greddan í henni eins og þegar við vorum á staddar á skemmtistað í Stokkhólmi og hittum fyrir íslenskan vin minn og hún fór fram á það við vininn að þau gerðu eitthvað saman á bakvið sófa!

Vinkonurnar luku svo saman prófi í námi í Stokkhólmi og eftir nokkra hvíld frá námi héldu þær áfram í framhaldsnámi. Við héldum svo áfram að hafa samband um sinn eftir að ég flutti aftur til Íslands og ég fylgdist spennt með úr fjarlægð er þær keyptu sér saman landareign í nálægð við Narfa í Eistlandi og ætluðu að setjast þar að, sögðu þær mér í tölvubréfi.

Eftir það heyrði ég ekkert frá þeim í nokkur ár, ekki fyrr en sameiginlegur vinur í Stokkhólmi hafði samband við mig og benti mér á að lesa Aftonbladet í dag! Ég gerði það og mér til furðu fjallaði forsíða netútgáfunnar um gamla vinkonu mína. Hún sat á bak við lás og slá ákærð fyrir sölu á vændi sem þá hafði verið bannað um tíma í Svíþjóð og reyndist hún vera með um 800 manns á skrá hjá sér sem viðskiptavini og hafa velt milljónum í rekstrinum. Nokkru síðar var hún dæmd í fjögurra ára fangelsi ásamt útvísun frá Svíþjóð í tíu ár fyrir rekstur á vændishúsum í Solna og Stokkhólmi. Var hún fyrst allra til að hljóta dóm fyrir slíkt athæfi.

Það eru komin nokkur ár frá því vinkona mín var dæmd fyrir brot sín og vafalaust er hún löngu búin að sitja af sér brot sín. Ég hefi algjörlega misst sambandið við hana og sambýliskonu hennar, en samt! Þrátt fyrir allt tal um klámvæðingu og vændi á Íslandi, get ég ekki annað en hugsað hlýlega til þeirra því þær bættu sjálfsvirðingu mína! Þær sýndu mér vináttu sem er nauðsynleg þegar sest er að í ókunnu landi og á ég þeim ævarandi skuld að gjalda. Um leið hugsa ég iðulega til þess, hvort ekki hefði verið betri hegðun þeirra, hefði ég rekið ögn meiri áróður fyrir betra líferni þeim til handa!

Um leið veit ég ekki hvort mér sé ætlað að skammast mín fyrir vináttu mína við konu sem er á svörtum lista sem “antifeministísk”!

Sjá Google.com: http://www.google.is/search?hl=is&q=%22Teresa+Lilius%22&btnG=Leita&lr=

-----oOo-----

Þrátt fyrir færsluna vil ég óska öllum konum til hamingju með alþjóða kvennadaginn!

þriðjudagur, mars 06, 2007

7. mars 2007 - Kætast klámhundar í Sódómu!

Vinkona mín, Parísardaman, benti okkur saklausum og siðprúðum Íslendingum á mjög áhugaverðan bókmenntafyrirlestur sem haldinn verður í Háskóla Íslands 20. apríl næstkomandi undir merkjum Pourquoi Pas?, Franskt vor á Íslandi. Þar mun franski rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Alain Robbe-Grillet halda bókasýningu og kynna verk sín. Að sögn þeirra sem betur þekkja til en ég geri, er Alain Robbe-Grillet masókisti og hin leðurklædda eiginkona hans, Catherine Robbe-Grillet, jafnframt stjórnandi hans og “Siðameistarinn” í sambúðinni.

Ég vil taka fram að ég þekki ekkert til bókmenntaverka Alain Robbe-Grillet né hans sjálfs og sjálfur hefur hann ekkert verið að flíka kynhneigð sinni, en ein kvikmynda hans vekur hjá mér ákveðnar væntingar sbr. Transamerica, en það er kvikmyndin Trans-Europe-Express. Eiginkonan, hin leðurklædda Catherine, er öllu áhugaverðari fyrir okkur perrana, en hún hefur skrifað bækur í BDSM-anda undir dulnefnunum Jean de Berg og Jeanne de Berg. Þá hefur hún skrifað fræga blaðagrein í félagi við Catherine Millet sem hét því merkilega nafni: "Ekki sekar, ekki fórnarlömb: Frjálst að stunda vændi". Mér skilst að sú grein hafi verið rituð til réttlætingar á vændi í Frakklandi.

Catherine_Millet hefur m.a. skrifað metsölubókina “The Sexual Life of Catherine M” þar sem hún lýsir þróun kynlífs síns allt frá sjálfsfróun æskunnar til hópkynlífs fullorðinsáranna. (Ef þið eigið þessa bók í bókaskápnum ykkar, ekki segja klámlöggunni frá því).

Þegar haft er í huga að erlendum klámhundum var neitað um gistingu á íslenskum hótelum, hvernig verður þá tekið á móti þessum ágætu hjónum sem reyndar hafa komið áður til Íslands, á bókmenntahátið árið 1987? Ætli megi búast við vinstrigrænum fjöldamótmælum og ítrekuðum kröfum um klám- og netlöggur?

-----oOo-----

Örlítið atvik úr hversdagslífinu. Á þriðjudag fór ég með minn vinstrigræna eðalvagn í dekurmeðferð, en þau verðlaun á hann fyllilega skilið eftir að hafa þjónað mér dyggilega og af trúrækni á fimmta ár af tæplega tíu ára líftíma sínum. Þar verður hann allur nuddaður í eðalolíum og fægður og pússaður með bryngljáavörn sem bróðursonur minn í Litlu bónstöðinni veitir honum. Heppinn!

6. mars 2007 – II – Ruglið í kjördæmaskipuninni

Þá er ljóst að breyta þarf mörkum Reykjavíkurkjördæmanna fyrir kosningarnar í vor, ef marka má hádegisfréttir Ríkisútvarpsins. Kjósendur norðurkjördæmis miðað við skiptinguna við síðustu alþingiskosningar eru orðnir mun fleiri en kjósendur Reykjavíkursuðurkjördæmis og því þarf að flytja hóp kjósenda nauðungarflutningi suður fyrir kjördæmamörk. Þeir kjósendur þurfa að vísu ekkert að óttast, enda talið mun betra að vera í Reykjavík-suður, betri frambjóðendur og skemmtilegri kjósendur.

Ég hefi aldrei skilið tilganginn með þessari tvískiptingu Reykjavíkur í tvö kjördæmi. Kannski var tilgangurinn að hafa sex jafnfjölmenn kjördæmi, en ég skil ekki af hverju mátti ekki hafa eitt stórt með helmingi fleiri þingmenn. Er hættan kannski sú að verið sé að koma í veg fyrir að smáframboð komi inn manni? Ég hélt að slíkt væri mun einfaldara með kröfum um lágmarksfylgi, t.d. 4% eins og í Svíþjóð eða 5% eins og í Þýskalandi.

Eftir fjögur ár breytast kjördæmin að nýju. Með stórfelldri uppbyggingu í Norðlingaholti og Úlfarsfelli þarf að flytja kjósendur Reykjavíkursuður nauðungarflutningi yfir í norðurkjördæmið árið 2011 og með hugsanlegri uppbyggingu á Geldinganesi þarf svo að flytja þá til baka 2015.

Mér finnst núverandi kjördæmaskipulag glatað, en hvað ég veit um þær hugsanir sem fara fram á milli eyrna háttvirtra alþingismanna?

6. mars 2007 - Þegar Ómar hafði hár!

Mér þykir vænt um Ómar Ragnarsson. Á mínum yngri árum þegar Ómar var aðeins yngri, voru Botníuvísur kyrjaðar á hverjum bæ í Mosfellssveitinni og voru að sjálfsögðu uppáhaldslag okkar krakkanna. Þá má ekki gleyma snilldartextum Ómars í lögunum Ást, ást, ást og Sveitaball ásamt mörgum öðrum góðum lögum. Nokkrum árum síðar eignaðist systir mín hljómplötu með lögum Ómars sem hann flutti á skemmtun í Austurbæjarbíó og þar sem hann var talinn ganga á ystu nöf velsæmis þess tíma samanber flissið sem heyrðist á þessari ágætu tónleikaplötu. Þá átti Ómar NSU-Prinz (með Wankel vél?) og lét sig dreyma um öflugan Ford í textum sínum.


Núna er Ómar á leið í framboð. Ég veit ekki hvernig honum mun reiða af í pólitík en hann mun hafa Margréti Sverrisdóttur og Ólaf Friðrik Magnússon sér til stuðnings og munu þau vafalaust fá einhver atkvæði, hugsanlega mörg. Með þessu framboði Ómars sem kemst á “aldur” í september næstkomandi en þá verður hann 67 ára, er um leið bundinn endir endir á möguleika Félags eldri borgara og öryrkja til að láta kveða að sér á Alþingi á hausti komanda. Ég veit ekki hvort náttúruverndarsjónarmið gamla bændasamfélagsins muni reiknast Ómari til tekna, en óttast að atkvæði Framsóknarmanna muni dreifast víðar en ætlað var með þessu framboði, enda þykir mér líka vænt um Framsóknarmenn eins og áður er getið.


Fjórða hjólið undir vagni Ómars, Margrétar og Ólafs Friðriks heitir Jakob Frímann Magnússon. Þótt mér þyki vænt um Stuðmenn rétt eins og Ómar, á væntumþykkja mín til Stuðmanna einkum við um Valgeir Guðjónsson og Egil Ólafsson, en ekki um Jakob Frímann Magnússon. Þessi fáu skipti sem ég hefi rekist á hann, hefur hann borið með sér dramblæti slíkt að ég get ekki stutt þennan mann til ábyrgðarstarfa og þakka honum kærlega fyrir að hafa yfirgefið Samfylkinguna, en hann hefur sjálfur flokkað sig sem hægri krata af sama meiði og Tony Blair og allir vita hvernig sá maður hefur málað sig út í horn með þátttöku sinni í stríði sem betur hefði aldrei verið háð.


Undir geislanum á viðtækinu mínu hljómar lag Ómars Ragnarssonar “Þrjú hjól undir bílnum”
Ég er ekki viss um að loftið í fjórða hjólinu undir vagninum muni endast eins vel og hin þrjú.

mánudagur, mars 05, 2007

5. mars 2007 - Hitaveitutankarnir í Öskjuhlíð

Ég veit að fólk er löngu búið að fá hundleið á þrasi mínu um hitaveitutankana í Öskjuhlíð, en um leið er full ástæða til að halda áfram að minna á þá. Um daginn skammaðist ég í Merði Árnasyni á blogginu mínu vegna vanhugsaðra ummæla hans um tankana, en í athugasemdum með færslunni, benti einn gamall (?ári yngri en ég!) og góður hitaveitumaður mér á að Björn Bjarnason þáverandi menntamálaráðherra hefði komið með sömu tillögu og Mörður á árssfundi Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 2001. Það finnst mér furðulegt að maður sem hefur búið í næsta nágrenni við hitaveitutankana mestallt sitt líf skuli koma með slíka tillögu.

Ég hefi oft gagnrýnt Guðlaug Þór Þórðarson á blogginu mínu, en í Fréttablaði sunnudagsins, bendir hann réttilega á að hitaveitutankarnir eru ekki til sölu. Sömuleiðis skil ég ekki alveg orð Dags B. Eggertssonar um kostnað borgarinnar við Perluna, enda stóð ég í þeirri trú að Orkuveita Reykjavíkur greiddi kostnaðinn við Perluna, en ekki borgarsjóður. Ég vil þó taka fram að ég er ekki mjög vel að mér í gjaldaskiptingu milli borgar og Orkuveitu, en tel nokkuð víst að Orkuveitan greiði aðstöðugjöld fyrir hitaveitutankana.

Það er fræðilegur möguleiki á því að hætta að geyma heitt vatn í hitaveitutönkunum í Öskjuhlíð, nota þá í eitthvað annað og keyra allt hitaveitukerfið með dælingum, en dýrt yrði það auk þess sem rekstraröryggi yrði stórlega áfátt. Það yrði að byggja fleiri dælustöðvar, sem kosta mikla peninga í rekstri. Rekstur ylstrandarinnar í Nauthólsvík yrði nánast vonlaus. Sömu sögu er að segja af goshvernum í Öskjuhlíð þar sem uppblöndun vatns frá Bolholtssvæðinu yrði að fara fram í Bolholtsstöð í stað lokahúss í Öskjuhlíð.

Það má svo endalaust deila um þá notkun á lokaða torginu á milli hitaveitutankanna sem nú er oft notað undir hinar ýmsu kolaportsútsölur á bókum, fatnaði og hljómdiskum

Aldrei þessu vant getum við Guðlaugur Þór þó verið sammála um að ódýrasta notkun Perlunnar er að nota tankana áfram til þeirra nota sem þeir voru byggðir til. Svo er Perlan svo falleg.

sunnudagur, mars 04, 2007

4. mars 2007 - Sörrý dúllurnar mínar!

Ég þurfti að skreppa í bæinn í kvöld, strax á eftir innfærslu á Moggabloggið. Því verð ég að vísa lesöndum mínum á að fara yfir á Moggabloggið og lesa mig þar, þ.e. seinni færslu gærdagsins sem og færslu sunnudagsins. Ég nenni nefnilega ekki alltaf að skrifa allt tvisvar.

Slóðin er:

http://velstyran.blog.is

laugardagur, mars 03, 2007

3. mars 2007 - United of Manchester

Sagt er að Malcolm Glazer hafi aldrei farið á völlinn til að sjá fótboltafélagið sitt vinna annað lið í knattspyrnu. Þó á hann meirihlutann í öflugasta enska knattspyrnuliðinu Manchester United. Þegar honum tókst að eignast meirihlutann í félaginu, urðu margir heitustu stuðningsmennirnir reiðir, gengu út og stofnuðu eigið knattspyrnulið!

Eins og flestir lesendur mínir vita, þá telst ég seint forfallinn aðdáandi knattspyrnuleikja. Mér er að vísu kunnugt um nokkur þeirra, Rassenal, Lifrarpoll, Efratún og Seltjörn. Ég hefi heimsótt tvö ensk knattspyrnulið, hetjurnar miklu í Halifaxhreppi sem berjast nú fyrir tilveru sinni í kvenfélagsdeildinni og svo Sameinaða Mannshesta á Old Trafford. Þó er þriðja liðið sem á hug minn og hjarta ef hjarta mitt er þá ekki úr steini og það er hið geðþekka en nýlega stofnaða knattspyrnulið Samvinnufélagið United of Manchester.

Það var 19. maí árið 2005 að blásið var til fundar meðal dyggustu stuðningsmanna Manchester United og voru þeir ósáttir við að gamall bissnessmaður vestur í nýlendunum hefði keypt uppáhaldsliðið þeirra á markaði eins og hvern annan búfénað vikunni fyrr. Upphaflega var ætlunin sú að funda til mótmæla gegn yfirtökunni, en brátt var ljóst að einungis ein leið var úr mótmælunum, en það var stofnun nýs Manchester United og var knattspyrnuliðið Football Club, United of Manchester stofnað formlega í júní 2005.

Með stofnun félagsins hófst sigurganga sem ekki hefur séð sinn líka í fjölda ára. Þótt liðið hafi tapað fyrstu tveimur leikjunum sínum og gert eitt jafntefli, hóf það keppni í neðstu Vestfjarðadeild (NorthWest Counties division two) haustið 2005 og vann sig upp í efri deild þegar þann vetur og í vetur hefur það spilað í efri Vestfjarðadeild (NorthWest Counties Division one) þar sem það það er efst í deildinni með jafnmörg stig og næstefsta lið, en á fimm leiki til góða. Það er því ljóst að eftirleikurinn ætlar að verða auðveldur og áttunda deild blasir við sem kennd er við Midlands.

Eitt er það sem gefur lífinu gildi og gleði. Það er erfitt að kaupa félagið. Það byggir á samvinnufélagsforminu og einn félagi er eitt atkvæði og þá án tillits til þess hversu mjög viðkomandi hefur greitt til félagsins. Ekki er það verra að skemmtilegra er að fagna með liði sem vinnur sig hratt og örugglega upp frá botninum en að halda með einhverju liði á niðurleið úr efstu deild, því eins og einhver sagði, af toppnum er aðeins ein leið fær og hún er niður. Af botninum er aðeins ein leið fær og hún er upp á við.

-----oOo-----

Á föstudagsmorguninn var hringt í mig og ónefndur Framsóknarmaður bauð mér að mæta á opnunarhátíð Landsfundar Framsóknarflokksins, gamla samvinnuformsins. Þegar haft er í huga að ég er þegar orðin yfirlýst Samfylkingarmanneskja og að ég var á leiðinni í rúmið eftir næturvaktina, þá afþakkaði ég gott boð, en samt, mér hlýnaði um hjartarætur!

föstudagur, mars 02, 2007

2. mars 2007 - II - Eru Íslendingar stressaðir?

Íslendingar sem búa erlendis og skreppa í heimsókn til Íslands, hafa margir á orði að allt sé svo yfirmáta stressað á Íslandi, allir séu að flýta sér og enginn megi vera að því að slappa af og njóta lífsins. Mikið rétt. Alveg furðulegt hvað Íslendingar eru stressaðir.

Ég fékk heimsókn í dag. Skreiddist á fætur fyrir allar aldir, þ.e. fyrir hádegi og skrapp á bókamarkaðinn áður en föstudagsflaumurinn streymdi þangað inn. Á meðan ég var þar hringdi síminn og vinkona mín sem býr erlendis, alveg indælis manneskja, vildi endilega kíkja í heimsókn. Ég sagði henni að ég yrði komin heim klukkan eitt og þar við sat. Skömmu eftir að ég kom heim, kom hún færandi hendi og var þá kaffið rétt að síga niður í könnunni. Hún kvartaði sáran yfir stressinu á Íslandi, umferðinni, föstudagstaugaveikluninni og guð má vita hverju. Ég var henni hjartanlega sammála, bauð henni kaffi en meðlætið hafði hún með sér.

Hún vildi fá að hringja og var það sjálfsagt mál. Ekki gengur að hringja í stofnanir á föstudegi og að auki daginn eftir útborgun, í gegnum farsíma með frelsiskorti. Svo hringdi hún og hringdi og hringdi og afgreiddi hvert málið á fætur öðru í gegnum símann. Svo lauk hún erindum sínum, nefndi eitthvað um stressið í Íslendingum, kvaddi og fór til að sinna þeim erindum sem hún gat ekki sinnt með símtölum. Eftir sátum ég og kisurnar mínar og vissum vart hvaðan á okkur stóð veðrið.

Einhver var að tala um stressið á Íslandi!

2. mars 2007 - Nú kætast vinstrigrænir!

Gallup könnun um fylgi stjórnmálaflokkanna var birt í gær og brá þá svo við að Vinstrigrænir voru orðnir næststærsti stjórnmálaflokkur landsins samkvæmt könnuninni og prósentinu stærri en Samfylkingin. Ekki er nema gott um það að segja, en samt fæ ég á tilfinninguna að þessi mæling á fylginu sé ekki alveg raunhæf.

Fyrir það fyrsta, þá er könnunin gerð 31. janúar til 27. febrúar. Hún er því gerð að stórum hluta áður en Steingrímur Jóhann boðaði hér stofnun netlöggu og öll áður en Ögmundur vildi láta Stasi stjórna matarverðinu á Íslandi með valdboði. Í öðru lagi, þá er enn ekki útséð með framboðsmálin. Það eru fleiri framboð í farvatninu, Margrét Sverrisdóttir, Ólafur F. Magnússon og Ómar Ragnarsson á leiðinni með sitt hægrigræna framboð og óvíst hversu mjög Jakobi Frímann mun takast að eyðileggja það með þátttöku sinni. Því verður að ætla að fólk sem einblínir á náttúruvernd án annarra pólitískra markmiða, muni í auknum mæli færa atkvæði sín til nýja framboðsins.

Ég ætla samt að vona að ný könnun verði gerð hjá Gallup um fylgi flokkanna áður en nýju framboðin koma fram svo hægt verði að mæla hversu mjög Steingrímur og Ögmundur hafa skemmt fyrir vinstrigrænum með heimskulegum málflutningi.

Það er ekki lengur mitt að velta því fyrir mér hvort ekki sé kominn tími til að yngra fólki leysi Ögmund og Steingrím af hólmi og leiði Vinstri hreyfinguna grænt framboð inn í framtíðina, ungt fólk á borð við Svandísi Svavarsdóttur, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Katrínu Jakobsdóttur. (og að sjálfsögðu Hlyn Hallssyni)

fimmtudagur, mars 01, 2007

1. mars 2007 - Enn þykir mér vænt um Framsókn!

Í gær varð mér það á að skrifa lofgjörð um Framsókn á bloggið mitt. Það hefði ég aldrei átt að gera. Aðsóknin að síðunni minni hrundi niður á nánast ekki neitt. Þó var þetta mjög fræðileg og gáfuleg grein um Framsóknarmenn og flokkinn þeirra.

Ég gerði heilmikla úttekt á Framsóknarpúkanum og nefndi nokkra góða Framsóknarmenn til sönnunar málflutningi mínum og bauð þá flesta velkomna yfir til Samfylkingarinnar, eiginlega alla nema Guðna sem vill vera áfram í Framsóknarflokknum, en allt kom fyrir ekki. Aðsóknin féll ofan í nánast ekki neitt.

Ber að skilja þetta sem að venjulegir Íslendingar vilji losna við Framsóknarflokkinn úr íslenskri pólitík og setja á safn?

Framsóknarflokkurinn hefur löngum bjargað mér frá ritstíflu á stundum þegar ekkert er um að vera í samfélaginu, því á slíkum stundum hefur ávallt verið mögulegt að skjóta á Framsóknarmenn og leggja í einelti. Því yrðu það hræðileg vonbrigði ef flokkurinn þurrkaðist út af yfirborðinu. Sömuleiðis yrðu það enn verri vonbrigði fyrir mig ef fólk hætti að lesa heimsspekilegar hugleiðingar mínar um Framsóknarflokkinn og væntanlegt fráfall hans.