Þótt ég verði seint aðdáandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og tek allri einkavæðingu með fyrirvara, þá er ég alls ekki sátt við Seðlabankavæðingu Glitnis, hins skilgetna afkvæmis frjálshyggjustefnu Sjálfstæðisflokksins. Það hefur komið ágætlega fram í fjölmiðlum á þriðjudag, bæði í viðtölum við áður umræddan Jón Ásgeir sem og Sjálfstæðismanninn Þorstein Má Baldvinsson að persónulegar ávirðingar Davíðs Oddssonar gagnvart Jóni Ásgeir virðast hafa ráðið miklu í hruni Glitnis, eins og mig grunaði reyndar strax á mánudagsmorguninn.
Stóra Glitnismálinu er ekki lokið. Eignaupptaka Davíðs á Glitni var ekki öll sagan, heldur aðeins formáli að fjöldamálsóknum, margra ára réttarhöldum, falli stjórnmálamanna og hugsanlega ríkisstjórna og helstu þátttakendur málsins munu einungis geta tapað í þessu máli. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar munu vega þungt í þessum máli sem og vanhæfi. Þá munu vakna upp spurningar um Landsdóm og alþjóðlega dómstóla í mannréttindamálum.
Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður skrifaði athyglisverðan pistil um þetta mál á heimasíðu sinni og benti meðal annars á athygliverðan þátt í málinu:
Það er kaldhæðni örlaganna að það var Davíð Oddsson, sem lagði fram frumvarpið um Seðlabankann árið 2001 og mælti fyrir því á Alþingi. Í ræðu sinni þá sagði hann m.a.: „ Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að þegar sérstaklega standi á og Seðlabankinn telur þess þörf til að varðveita traust á fjármálakerfi landsins geti hann veitt lánastofnunum í lausafjárvanda ábyrgðir eða lán til að koma í veg fyrir t.d. bankakreppu. Sérstaklega er tekið fram að bankinn veiti ekki aðstoð til gjaldþrota lánastofnana eða lánastofnana með eiginfjárstöðu undir löglegum mörkum. Aðstoðin er takmörkuð við lánastofnanir sem lenda í vandræðum vegna lausafjárstöðu. Lánastofnanir sem t.d. uppfylla ekki skilyrði um lágmarks eigið fé verða að leysa sín mál með nýju hlutafé.“
Tilvitnun lýkur.
Ég á sem betur fer ekkert í Glitni, hvorki verðbréf né innistæður. Einustu fjárhagstengsl mín við Glitni í dag er í formi þátttöku minnar í lífeyrissjóðum sem geta hugsanlega tapað einhverjum fjárhæðum. Ýmsir ættingjar mínir tapa þó sparifé sem var bundið í hlutafé í Glitni. Þeirra vegna er full ástæða til að hafa áhyggjur sem og almennar áhyggjur okkar allra af hugsanlegum dómínóáhrifum af eignarupptöku Davíðs á Glitni.
Ritað á öðrum degi kreppu Davíðs Oddssonar.
þriðjudagur, september 30, 2008
1. október 2008 - Enn af stóra Glitnismálinu.
mánudagur, september 29, 2008
30. september 2008 - Hefndaraðgerð ónefnds seðlabankastjóra gegn Jóni Ásgeir?
Rétt eins og þorri almennings á Íslandi, var ég agndofa yfir yfirtöku Seðlabankans, alias ríkisins, á Glitni á mánudag. Ég kvíði framhaldinu og þeirri hugsanlegu skriðu gjaldþrota sem verður í kjölfarið.
Það var ekki til að bæta úr áhyggjunum að Þorsteinn Már Baldvinsson virtist eins og hræddur við að tjá sig, en sagði samt eitt og annað sem velta má fyrir sér, atriði sem eru ekki alveg í samræmi við orð Davíðs um að annars yrði Glitnir gjaldþrota. Glitnir verður ekkert gjaldþrota fyrr en mál hans er komið til gjaldþrotameðferðar og tilviljanakenndur lausafjárskortur virðist ekkert óyfirstíganlegur þröskuldur, ja nema auðvitað ef ónefndum seðlabankastjórum er illa við ónefnda kjölfestufjárfesta í Glitni. Í slíku tilfelli er hægt að segja stopp, þið fáið enga peninga hér, en við skulum hirða bankann af ykkur. Það skiptir svo engu máli hvort hluthafarnir fái að halda 25% af bankanum eður ei, það er erfitt að láta heilt viðskiptaveldi lifa áfram ef peningarnir eru teknir af því.
Hin eindregna andstaða frjálshyggjupostulanna við ríkisvæðingu spilar einnig rullu í ferlinu. Það er hægt að éta ýmis grundvallaratriði ofan í sig ef þarf að koma andstæðing á kné, ekki hvað síst ef andstæðingurinn heitir Jón Ásgeir Jóhannesson. Ég veit ekki hvort við fáum allan sannleikann upp á yfirborðið á næstunni, en mig grunar samt að þess verði ekki langt að bíða uns eitt og annað leki út af því sem raunverulega gerðist nóttina sem kreppan skall á Íslandi.
Það má svo velta fyrir sér af hverju ónefndur seðlabankastjóri keypti íslenskan banka á 600 milljón evrur þegar haft er í huga að hann er á móti öllu evrutali.
sunnudagur, september 28, 2008
29. september 2008 - Hvar voru Snati og Kátur?
Ég hefi ekki gert mikið af því að stela hugmyndum frá öðrum, hvað þá heilu færslunum. Nú ætla ég að gera þá undantekningu að rifja upp færslu frá æskuvini mínum Herði Þór Karlssyni sem var alveg miður sín eftir einhverja hundasýningu hundaræktarfélagsins, enda kom ekkert hundsnafn þar fyrir sem minnti á eðlileg heimkynni hunda, íslenskar sveitir.
Tjah...... Hvað varð um Snata, Lubba, Klóa og Týra og þá félaga? Eigandinn getur varla kallað á blessaðar skepnurnar. Að halda hunda er gaman, en þegar ræktunin er komin út í þessi vísindi fer þetta að verða svolítið flókið. Þessi ónefni í fréttinni sem ég hér vitna til minna um lítið á hunda. Kannske ég sé orðinn svona gamaldags.
Ég held að ég verði að taka undir orð vinar míns. Ég vil þó gera þá undantekningu að ég ber virðingu fyrir eiganda einnar tíkur sem gaf tíkinni sinni nafnið Brynhildur borubratta. Slíkt segir meira um persónuleika dýrsins en einhver ónefni á borð við Bernegården´s Prince Of Thieves eða þá Homerbrent Kokuo. Ég get heldur ekki ímyndað mér annað en að síðastnefndi hundurinn sé ávallt kallaður Heimabrenndur Kúkur.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/09/28/prins_thjofanna_fremstur_medal_jafningja/
28. september 2008 - Daufleg spaugstofa
Í mörg ár hefi ég fylgst með Spaugstofunni með athygli og aðdáun. Þótt stundum hafi einstöku Spaugstofuþættir verið nánast þreytandi tilraun til að brjótast út úr hefðbundnu spaugstofumunstri með stuttum atriðum um menn og málefni líðandi stundar, hefi ég ávallt hlakkað til þess er Spaugstofan fer í gang að hausti með nýjum ferskleika og endurnýjuðum krafti.
Eitt er þó verulega athugavert við Spaugstofustrákana. Þeir reyna alltaf að vera góðu gæjarnir. Ef einhver reynir að slá á puttana á þeim, hlýða þeir og hegða sér betur næst. Þar má nefna atriði eins og þegar móðguðu biskupinn fyrir páska og eins þegar þeir gerðu góðlátlegt grín að blörruðum borgarstjóra og létu móðgunargirnd hans svínbeygja sig í kjölfarið.
Nú byrjaði haustið dauflega eftir að fjöldi skemmtilegra atburða fór framhjá Spaugstofunni meðan hún var í sumarleyfi. Af einhverjum ástæðum óttast ég að ef hún verður ekki beittari en nú á laugardagskvöldið, muni áhorfið hrynja í haust og fleiri áhorfendur snúa sér að Stöð 2. Það þýðir ekkert að hlusta á einhverja siðavanda bloggara og misheppnaða stjórnmálamenn segja sér fyrir verkum.
Ef Spaugstofan vill endurheimta fyrri stöðu í samfélaginu, verður hún að ganga út á ystu mörk þess sem almenningur sættir sig við og helst að fá kirkjuna, hirðfífl bloggsins og misheppnaða pólitíkusa alla upp á móti sér. Ef Spaugstofan treystir sér ekki til þess, er best að leggja hana niður og yngja hressilega upp í stétt grínleikara.
laugardagur, september 27, 2008
27. september 2008 - Leikhúsferð
Þótt ætla megi af fátæklegum viðbrögðum við síðunni minni að undanförnu að flestar lesendur mínar séu hættar að lesa bloggið mitt sem er vel, þá ætla ég samt að þrjóskast við og blogga lítilsháttar enn um sinn uns ég finn mér annað áhugamál.
Ég fór í leikhús á föstudagskvöldið. Í byrjun var ég í vafa um hvort ég ætti að þiggja boð um leikhúsferð, en sló loks til og mætti í Þjóðleikhúsið þar sem leikverkið Engisprettur var sýnt. Ég var hrifin af leikverkinu, ekki síst af leik aðalleikarans Sólveigu Arnarsdóttur sem og leiks klassísku leikaranna Arnars Jónssonar og Hjalta Rögnvaldssonar. Um leið voru leikendur sem stóðu sig ekki sem skyldi í leikritinu, að vísu ekki fjarri sínu besta, en kannski ekki í sínum bestu hlutverkum.
Um leið velti ég fyrir mér gamla snúningssviðinu, þessu risastóra sviði þar sem ég sá Kardemommubæinn í gamla daga, en virtist nú vera svo agnarsmátt.
Eftir sýninguna var rölt yfir á Næstabar og drukknir þar nokkrir öl án vandkvæða og haldið snemma heim.
föstudagur, september 26, 2008
26. september 2008 - Hækkanir?
Sumarið 1967 var samþykkt í borgarstjórn Reykjavík að miða hitaveitugjöldin framvegis við byggingarvísitölu.Þá var ástandið orðið slíkt að fjárskortur var farinn að há Hitaveitunni þáverandi verulega, reyndar svo að árin á eftir var Hitaveitan í verulegri baráttu við Kuldabola, kalda vetur veturnar 1968 og 1969, en með auknum krafti í djúpborunum tókst að bægja vandamálunum frá um nokkurra ára skeið auk þess sem hitaveita var lögð í nágrannasveitarfélögin, Kópavog, Garðahrepp og Hafnarfjörð.
Eftir að Nesjavallavirkjun fór í gagnið árið 1990 sveikst Hitaveitan um fyrri loforð um hækkanir. Það var ekki talin þörf á hækkunum um langt skeið og Hitaveitan fór ekki eftir fyrri ákvörðunum borgarstjórnar og hitaveitugjöldin lækkuðu að raunvirði ekki síst eftir að R-listinn tók við völdum í Reykjavík árið 1994. Þau lækka enn að raunvirði þrátt fyrir einfalda 9,7% hækkun í 14% verðbólgu. Þá rekur bæjarráð Kópavogs upp ramakvein með stjúpson fyrrum hitaveitustjóra sem bæjarstjóra og mótmælir hækkuninni.
Þegar haft er í huga að bæjarstjóranum ætti að vera vel kunnugt um þörfina fyrir þessa hækkun, má velta því fyrir sér hvort mótmæli Kópavogs séu ekki af öðrum hvötum, t.d. sem tromp í bráttunni við Reykjavík vegna strandlengjunnar í Fossvogi sem og af öðrum hugsanlegum nágrannaerjum. Mér finnst þetta tromp hálfpartinn misheppnað.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/09/26/or_vantar_meira_fe/
fimmtudagur, september 25, 2008
25. september 2008 - Af einkavæðingu orkuvera
Það er ekki oft sem skoðanir mínar standa vinstra megin við skoðanir Helga vinar míns Hjörvars, en það skeði samt í gær. Þær hugmyndir sem Helgi hefur lagt fram um að rekstur orkuvera verði einkavæddur eru mér alveg á móti skapi.
Orkuverið sem ég vann við í Stokkhólmi lenti í höndum markaðsaflanna nokkru eftir að ég hætti þar. Um leið var hafist handa um að „spara“ í mannahaldi og hópi vélfræðinga var sagt upp störfum. Fyrirtækið var þó fljótt að reka sig á vegg og þurfti að fjölga á ný. Þá reyndust vélfræðingarnir búnir að ráða sig í önnur störf. Fyrir bragðið þurfti að ráða nýja og gjörsamlega reynslulausa vélstjóra/vélfræðinga til starfa og þjálfa upp frá grunni með ærnum kostnaði.
Annars staðar hefur sparnaðurinn komið fram í sparnaði á viðhaldi því ekki er það ódýrasta alltaf það besta. Ef ekki er hægt að skera nóg niður í einkarekstri til að nægur arður verði af starfseminni bitnar sparnaðurinn oft á viðhaldinu. Þetta þekkja Bandaríkjamenn manna best og er Enron gott dæmi um slíkt. Annað dæmi var þar sem reynt var að kenna Kanadamönnum um raðútslátt sem átti sér stað á austurströnd Bandaríkjanna fyrir nokkrum árum. Við rannsókn kom í ljós veikur hlekkur hjá einu orkuveitufyrirtæki innan Bandaríkjanna þar sem sparnaði hafði verið beitt á miskunnarlausan hátt í viðhaldi.
Nei, höldum stóru orkufyrirtækjunum áfram í almenningseigu og reynum þannig að tryggja lágmarkstjón við alvarlegar bilanir.
þriðjudagur, september 23, 2008
24. september 2008 - Er spark í höfuð minniháttar líkamsárás?
Rétt eins og fjöldi fólks sem hefur séð myndbandið er ónefndur innheimtumaður reynir að innheimta skuld með handafli, þá hryllir mig við því er maðurinn reynir að sparka af fullu afli í höfuð liggjandi manns. Í viðtali við Kastljós sjónvarpsins reyndi lögfræðingur mannsins og væntanlegur verjandi hans að gera sem minnst úr atvikinu og nefndi að það bæri að dæma manninn eftir 217. grein hegningarlaganna um minniháttar líkamsárás.
Heitir það orðið minniháttar líkamsárás að sparka í höfuð liggjandi manns? Slíkt atvik er svo alvarlegt að álitamál ber að telja hvort um sé að ræða tilraun, ekki aðeins til alvarlegs líkamsskaða, heldur jafnvel til manndráps. Slíkt getur ekki flokkast sem minniháttar líkamsárás jafnvel þótt árásarmaðurinn ætti sér einhverjar málsbætur sem ég get ekki dæmt um.
Lögfræðingurinn ungi sem hefur tekið að sér að verja hinn ofbeldisfulla innheimtumann, er reyndar sjálfur fremur vafasamur pappír á lögfræðisviði og man ég ekki betur en að hann hefði verið ásakaður fyrir að hafa stolið heilum köflum í lokaritgerð sinni í lagadeild og þurfti að endurskrifa þessa kafla áður en hann fékk starf við að innheimta hraðasektir hjá sýslumanninum á Blönduósi.
http://www.visir.is/article/20080923/FRETTIR01/49175044/-1/FRETTIR
23. september 2008 - Tekjutap af farþegum
Sagt var frá því í útvarpinu í morgun að skemmtiferðaskipið Grand Princess kæmi ekki til Íslands vegna veðurs á morgun. Síðan var reiknað út tapið af því að skipið kæmi ekki og minnir mig að það hafi verið um 30 milljónir króna.
Þetta er góð aðferð við að reikna. Næst þegar ég verð spurð um tekjur mínar, ætla ég að gefa upp tekjutapið af því að vera ekki með sömu laun og læknir eftir sjö ára nám, enda er fólk í minni stöðu með sjö ára sérskólanám að baki, en ég hefi aldrei fengið neitt greitt fyrir stúdentsprófið mitt og grátlega lítið fyrir aðra menntun.
Við ættum kannski að krefjast ljósmæðralauna næst þegar kjarasamningar verða lausir? ;)
sunnudagur, september 21, 2008
22. september 2008 - Myntbreytingarrugl
Ég man þá tíð er gjaldeyrir var skammtaður þar með talinn áhafnargjaldeyrir. Ef ferðamenn eða áhafnarmeðlimir skipa vildu eða þurftu meiri gjaldeyri en þeim var skammtaður var helsta ráðið að taka með sér búnt af hundrað krónu seðlum til útlanda og reyna að skipta í bönkum erlendis. Ekki þýddi að koma með stærri seðla í bankann því einungis var hægt að skipta hundraðköllum og síðan var undir hælinn lagt hvort bankinn samþykkti að skipta. Ekki man ég hvort þetta breyttist með EES samningnum 1993, en það var búið að breyta þessu þegar ég kom til Íslands 1996. Sem betur fer.
Þessa dagana fer fram hávær umræða um að henda krónunni og taka upp aðra mynt, þá helst evru. Allt þetta tal er bull við núverandi aðstæður. Hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá neyðumst við til að sitja uppi með ónýtar krónur í nokkur ár til viðbótar og þar til efnahagur þjóðarinnar hefur náð jafnvægi. Síðan verður hægt að skipta yfir í alvörumynt.
Þegar myntbandalag Evrópu tók til starfa fyrir nærri áratug stóð íslenskur efnahagur það vel að við vorum á mörkum þess að geta skipt yfir í evrur ef önnur atriði hefðu verið uppfyllt, þá helst aðild að Evrópusambandinu. Það var ekki gert þá og nú erum við fjarri því að uppfylla skilyrðin. Þá get ég ekki ímyndað mér að aðrir gjaldmiðlar kæri sig um að fá á sig illt orð með því að blandast stórveldasinnuðum míkrógjaldmiðli.
Ef við ætlum að taka upp evrur þurfum við fyrst að sækja um aðild að Evrópusambandinu, síðan að aðlaga efnahagskerfi Íslands að Evrópu og þá fyrst verður hægt að taka upp evrur. Talið aftur við mig eftir áratug og þá skulum við sjá til. Kannski er rétta leiðin að byrja með því að skipta um bankastjórn og bankaráð Seðlabankans og fá þangað inn fólk sem er tilbúið að ganga til samstarfs við Evrópu.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/09/21/ihuga_beri_adra_mynt/
21. september 2008 - Fótboltafár
Eins og allir vita sem fylgjast með blogginu mínu, þá er ég einlægur aðdáandi enskrar knattspyrnu þótt ég hafi lítið fjallað um þau mál að undanförnu. Það er eðlilegt. Það hefur nefnilega allt gengið á afturfótunum hjá liðunum mínum að undanförnu. En suma daga lyftist brúin örlítið.
Um daginn lifnuðu vonir um að liðin mín myndu eigast við í bikarkeppninni (FA cup) þann 27. september. Þetta var skelfilegur tími þar sem ég sá fyrir mér að ég yrði að mæta á völlinn með tvo trefla og tvo fána í höndunum, einn fyrir Halifaxhrepp og annan fyrir United of Manchester. Aldrei fór þó svo að liðin mættust því sterkara liðið, United of Manchester skítlá í leik gegn Nantwich Town og datt þar með úr bikarnum og það verður því Nantwich sem mætir Halifaxhreppi. Ekki nenni ég að borga heilan flugmiða fyrir þann auma leik, enda geng ég út frá því að Halifaxhreppur mali barnfóstrurnar eftir viku.
Eitthvað er farin að lyftast brúnin á mínum mönnum í Halifaxhreppi því þeir unnu Salford með sjö mörkum gegn einu á laugardag og virðast ætla að komast upp i baráttuna um sæti í sjöundu deild. Í sjöundu deildinni situr svo United of Manchester sem fastast í sautjánda sæti eftir steindautt jafntefli gegn Verkstæðisbæ, en allt virðist ganga enn á afturfótunum, einungis komnir með átta stig eftir átta leiki. Ef þeir ætla að halda svona áfram, endar leiktíðin með falli, en við skulum vona að þeim takist að hrista af sér slenið þótt sífellt verði erfiðara að halda áfram reglunni, að vinna sig upp um eina deild á ári.
Á Laugardalsvelli unnu stelpurnar okkar bikarinn. Loksins eitthvað jákvætt í íslenska boltanum
laugardagur, september 20, 2008
20. september 2008 - Að fagna gömlum minningum
Á borðinu fyrir framan mig er gömul ljósmynd. Þar sjást sextán ellefu ára gamlir nemendur og loks aðalkennarinn Birgir Sveinsson. Við erum ægilega stillt og alvörugefin á myndinni, öll á sokkaleistunum nema kennarinn. Þessi mynd er tekin í apríl 1963 í hinum nýja Varmárskóla í Mosfellssveit sem tók við af gamla Brúarlandsskóla.
Þegar ég var að alast upp voru kirkjuferðir gamalla tíma aflagðar að miklu leyti og nýir hættir komnir í staðinn, fjölskylduboðin. Í dag eru það endurfundir í formi ættarmóta og endurfunda gamalla skólafélaga, svokallaðra reunion.
Þessa dagana sit ég í tveimur undirbúningsnefndum gamalla skólafélaga. Ekki erum við bara að fagna stúdentsafmæli frá MH, heldur eru og komin fimmtíu ár frá því við eignuðumst okkar fyrstu skólatöskur og virkileg ástæða til að fagna þeim tímamótum.
Ég skal viðurkenna að undirbúningsnefndin fyrir stúdentsafmælið er miklu skemmtilegri. Við vorum fullorðið fólk sem lauk stúdentsprófi frá MH og erum nú á besta aldri sem sötrum rauðvín og borðum osta á undirbúningsfundunum, hlæjum og flissum að einstöku atvikum í tímum eins og smástelpur. Í Brúarlandsskóla vorum við börn og af einhverjum ástæðum verðum við aftur börn þegar við hittumst og undirbúum endurfundi um mánaðarmótin.
Það eru 50 ár, hálf öld frá því við fengum fyrstu skólatöskurnar, pennastokkana, stílabækurnar haustið 1958.
Við þessir krakkar sem vorum saman frá sjö ára bekk í Brúarlandsskóla og síðan í Varmárskóla erum enn að mestu málkunnug, mörg búa enn í Mosfellsbæ. Við erum enn gamli hópurinn og þykir vænt um hvert annað.
Einhver kom með þá hugmynd að haldið yrði samkvæmi fyrir alla lifandi nemendur úr Brúarlandsskóla. Auðvitað yrði slíkt samkvæmi haldið í Hlégarði, næsta húsi við Brúarland. Hugmyndin er góð. Við framkvæmum hana fyrir vorið. J
föstudagur, september 19, 2008
19. september 2008 - Um bíllausan lífsstíl
Það hafa verið stofnuð samtök um bíllausan lífsstíl í Reykjavík. Þótt ég sé ekki með í þessum samtökum og ætli mér ekki að vera með, þá get ég verið sammála sumum þeim áherslum sem samtökin leggja áherslu á í áróðri sínum á meðan þau halda sig við það sem þau kalla öfgalausa umræðu um bíllausan lífsstíl.
Í gær (fimmtudag) var viðtal í útvarpinu við Sigrúnu Helgu Lund formann hins nýstofnaða félags þar sem hún benti á þrjú atriði sem séu á móti hjólreiðafólki, að borgin sé of dreifð, að veðrið sé of vont og að borgin sé of hæðótt. Sjálf hafi hún búið í Stokkhólmi síðasta vetur sem skáki okkur í öllum atriðum. Með þessu féll hún sjálf í áróðursgryfjuna og hóf síðan gömlu tugguna um að refsa ökumönnum enn frekar með auknum álögum. Þar með missti ég álitið á þessum samtökum með slíkan áróður í forystu.
Ég þekki Stokkhólm ágætlega og flest þau ár sem ég bjó þar, notaðist ég við almenningsfarartæki og reiðhjól. Ég kynntist því ágætlega hve Stokkhólmur og nágrenni eru hæðótt og dettur ekki til hugar að líkja slíku við Reykjavík. Þannig var mesti hæðarmunur frá vinnustað til heimilis rétt um 30 metrar. Eftir að ég flutti til Reykjavíkur var hann 100 metrar. Hæsti punktur í Stokkhólmi er 77,2 metrar eða rétt rúmlega Öskjuhlíðin en hæsta byggða ból í Stokkhólmi er mun lægra eða undir 50 metrum. Efstu hús í Breiðholti og Seljahverfi eru í yfir 110 metra hæð og veit ég þá ekki hæðina í hæstu húsum.
Sigrún Helga talar um dreifð byggðar í Stokkhólmi í samanburði við Reykjavík. Samkvæmt þeim tölum sem ég sé, eru íbúar 6,8 sinnum fleiri en í Reykjavík en á svipuðu flatarmáli eða eins og skipulagsfræðingarnir myndu setja það fram, 4117 íbúar/km2 á byggðu svæði í Stokkhólmi á meðan talan er 429,64 íbúar/km2 á sambærilegu svæði í Reykjavík. Semsagt önnur rangindi hjá formanni samtaka um bíllausan lífsstíl. Þá skulum við tala um veðrið.
Formaðurinn bendir á að sjórinn frjósi á veturna í Stokkhólmi enda fari frostið niður í -18°C. Ég get huggað hana með því að ég hefi upplifað mun kaldari vetur en þetta í Stokkhólmi eða niður í -28°C. Það eru góðir vetur. Þá frjósa vötnin og um leið og ísinn hefur myndast á vatninu, minnkar rakinn í loftinu og allt verður miklu þægilegra. Þegar frostið og norðangarrinn eru á fullu í Reykjavík er mjög erfitt að klæða af sér kuldann jafnvel þótt nokkrum trjám sé plantað meðfram hjólreiðastígum, en það hjálpar vissulega.
Ég held að ég haldi áfram að lifa sem hingað til, ganga styttri vegalengdir og í óbyggðum að venju en ferðast á eins þægilegan hátt og mér er unnt þess utan og án þátttöku í Samtökum um bíllausan lífsstíl fyrr en þau leggja af öfgafulla umræðu um bíllausan lífsstíl.
19. september 2008 - Röng tilkynning
Í gær sagði ég frá breyttri hegðun yfirvalda í Kuwait gagnvart transgender fólki. Í dag verð ég víst að éta þessa fullyrðingu ofan í mig aftur. Í leiðréttingu við fyrri tilkynningu sendi Sheik Dr. Saad Alalimi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem fram kemur að orð hans hefðu einvörðungu verið hans eigin skoðun sem alls ekki megi túlka sem trúarlega tilskipun.
Það sakar þó ekki að halda áfram að lifa í voninni.
fimmtudagur, september 18, 2008
18. september 2008 - Eitt hænufet í baráttu transgenderfólks
Ég fékk fréttatilkynningu á arabísku á miðvikudag og sem barst mér í gegnum Transgender Europe. Hún fjallar um stórkostleg þáttaskil í afstöðu trúarlegra yfirvalda í Kuwait gagnvart transgender fólki, en múslímskur klerkur og fræðimaður í Kuwait hefur haldið því fram að það sé ásættanlegt trúarinnar vegna að leiðrétta kyn fólks.
Í stuttri útgáfu á ensku af tilkynningunni er það undirstrikað að engra breytinga sé að vænta í afstöðu yfirvalda gegn samkynhneigð. Transgender sé læknanlegur sjúkdómur með aðgerð til leiðréttingar á kyni, en samkynhneigð haldi áfram að vera dauðasynd að mati klerkanna.
Sjálf þekki ég ekki nóg til múslímskra kennisetninga til að geta áttað mig á sharia lögunum og valdi þeirra yfir öðrum lögum, en skilst þó að með þessari breytingu sé opnað fyrir möguleika transgender fólks til að gangast undir í aðgerð í ríkjum sunní-múslíma. Um leið verðum við að óska þess sem heitast að möguleikinn verði ekki notaður til að pynta fólk og refsa fyrir samkynhneigð.
Aðgerðir til leiðréttinga á kyni hafa verið þekktar meðal shíta-múslíma, t.d. í Íran, en vitað var að Ayatollah Khomeini var samþykkur slíkum aðgerðum eftir byltinguna 1979. Um leið var þetta samþykki notað af stjórnvöldum til að kúga samkynhneigt fólk í Íran í kynskipti fremur en að taka homma af lífi með hengingu, en fyrir homma, rétt eins og aðra karlmenn er slík aðgerð hið næstversta sem fyrir þá getur komið, einungis dauðinn er verri.
Þessi frétt austan úr Persaflóa er því nokkurt fagnaðarefni fyrir okkur sem flokkumst sem transgender, en um leið er fréttin tregablandin vegna samkynhneigðra vina okkar.
Um ástand þessara mála í Íran bendi ég fólki á bókina „Women with Mustaches and Men without Beards“ eftir írönsku fræðikonuna í sagnfræði og kvennasögu, Afsaneh Najmabadi. Bókin var gefin út af Kaliforníuháskóla árið 2005.
Um leið minni ég á fyrri færslu um sama efni: http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/320638/
miðvikudagur, september 17, 2008
17. september 2008 - Umferðarhraði
Góður vinur minn í Svíþjóð eignaðist eitt sinn nýjan bíl, einn með allskyns skemmtilegum útbúnaði þar á meðal hraðastilli. Þegar hann var á leið heim úr vinnu stillti hann hraðann á 107 km/h þegar hann þaut heim eftir 90 km kaflanum á leiðinni, vitandi að lögreglan í umdæminu var ekki að gera sér rellur út af ökuhraða sem var undir 110 km á 90 km kaflanum. Vandamálið var bara að á leiðinni var smákafli þar sem hraðinn var minnkaður niður í 70 km.
Eitt sinn er vinur minn var á leið heim úr vinnu gleymdi hann sér eitt augnablik þegar hann kom inn á 70 km kaflann . Auðvitað var lögreglan að mæla á þeim slóðum á sama tíma og vinurinn þurfti að ferðast með strætisvagni mánuðina á eftir.
Í fyrradag hófst vinna við endurnýjun á umferðarskiltum við helstu hraðbrautir Svíþjóðar, en að aflokinni gagngerðri endurskoðun á ökuhraða í Svíþjóð hafa nýjar reglur um ökuhraða tekið gildi. Þótt ökuhraðinn hafi verið minnkaður víða með þessum nýju reglum, þá hefur hann verið aukinn á öðrum stöðum og er nú 120 km/h á bestu hraðbrautum landsins en var mestur 110 km/h.
Ekki veit ég þó hvort vinur minn fagni þessu neitt því mér sýnist á kortum sem að hraðinn verði hinn sami og áður á mestallri leiðinni sem hann ekur venjulega heim úr vinnu.
http://www.vv.se/templates/page2_2____23932.aspx
-----oOo-----
Svo fær eldri sonurinn hamingjuóskir með þann merka áfanga að vera loksins kominn á fertugsaldurinn.
þriðjudagur, september 16, 2008
16. september 2008 - Lambaljósmóðir!
Eins og flestir vita eru ráðherrar með þokkaleg laun þar á meðal Árni Mathiesen fjármálaráðherra. Hann eða starfsmenn hans hafa samt séð ástæðu til að fetta fingur út í laun ljósmæðra með málsókn á hendur þeim þótt sjálfir séu þeir með mun hærri tekjur.
Þetta kann að vekja furðu þegar haft er í huga að sjálfur er Árni menntaður sem lambaljósmóðir og ætti því að vera dyggasti stuðningsmaður ljósmæðra innan ríkisstjórnarinnar.
-----oOo-----
Svo fær Guðrún Helga vinkona mín og göngufélagi hamingjuóskir með hálfan fylltan áratug til viðbótar við örfáa aðra
mánudagur, september 15, 2008
15. september 2008 - Ég fór út að aka ...
... í hádeginu á mánudag. Þegar ég fór niður Ártúnsbrekkuna á beygjuakreinni inn á Sæbrautina lenti ég aftast í bílaröð aftan við smábílinn ZU-5xx sem lullaði fremstur í röðinni. Allt í góðu með það. Þegar bílaröðin kom að Sæbrautinni skaust smábíllinn, á einhvern undraverðan hátt, þvert fyrir umferðina og beint inn á vinstri akrein og hélt sig þar. Sjálf fór ég inn á hægri akreinina eins og flestir bílarnir sem höfðu verið á undan mér. Nokkru síðar braut ég umferðarreglurnar með því að fara hægra megin framúr áður umræddum smábíl sem enn lullaði á vinstri akrein og það síðasta sem ég sá af honum og gömlu konunni sem ók honum langt fyrir aftan mig, var að bíllinn var enn á vinstri akrein og ekkert á leið að beygja til vinstri.
Er ekki nauðsynlegt að senda skilaboð Umferðarstofu um að halda sig á hægri akrein einnig á Rás 1? Mér sýnist mestallt það fólk sem dúllar sér á vinstri akreininni vera af þeirri kynslóðinni að það hefur ekið stóran hluta ökuferils síns í vinstri umferð og veit ekki að komin er önnur útsendingarrás hjá Útvarpi Reykjavík.
sunnudagur, september 14, 2008
14. september 2008 - Loksins, loksins, loksins
Þessa helgina eru komin rétt tvö ár síðan hinn sjöfaldi heimsmeistari í Formúlu 1 tilkynnti okkur aðdáendum sínum að hann hefði ákveðið að hætta keppni og fara á eftirlaun saddur keppnisdaga. Við aðdáendur hans vissum ekki okkar rjúkandi ráð, rifum í hár okkar og vorum á eftir sem sköllóttar hænur sem vissum ekkert hvað við ættum að gera af okkur á sunnudögum eftir brotthvarf meistarans, áhorfið minnkaði, ein og ein keppni gleymdist og smám saman fundum við okkur ný áhugamál, frímerkjasöfnun og fjallgöngur.
En öll él styttir upp um síðir. Það var á miðju síðasta ári sem tæplega tvítugur piltur leysti af eina keppni hjá BMW eftir að ökumaður hjá þeim hafði slasast lítillega í keppni. Þessi unglingur kom, sá og hafnaði í stigasæti í sinni fyrstu keppni. Nokkru síðar fékk Scott Speed hjá Toro Rosso (sem áður hét Minardi) reisupassann fyrir slælegan árangur og voru nú góð ráð dýr því einhver varð að hlaupa í skarðið fyrir hraðann og var unglingurinn kallaður til starfa. Pilturinn reyndist kappsfullur og áræðinn og tókst að ná fimm stigum að auki í kínverska kappakstrinum þá um haustið.
Nú hefur Sebastian Vettel sannað sig svo um munar með ótrúlegri keppnishörku í Monza og glæsilegum sigri. Ég held að engum dyljist lengur þvílíkur kappi er mættur til leiks og er nú bara að vona að hann komist í eitthvert stóru liðanna sem fyrst svo hann geti sýnt heiminum hvers hann er megnugur. Um leið má byrja að telja niður tímann þar til pilturinn verður heimsmeistari.
Allavega er ástæða til að byrja að fylgjast aftur með Formúlunni og kæmi mér ekki á óvart þótt Sebastian Vettel eigi eftir að verma fyrsta sæti hjá Ferrari þegar samningurinn rennur út við annað hvort Felipe Massa eða Kimi Räikkönen.
http://www.mbl.is/mm/sport/formula/2008/09/14/snilldarsigur_hja_vettel_i_erfidri_monzabrautinni/
laugardagur, september 13, 2008
13. september 2008 - Rússagrýla Geirs Haarde
Á fundi sem haldinn var höfuðvígi íhaldsins í dag reyndi Geir Haarde að vekja upp gamla Rússagrýlu. Þótt vissulega séu ástæður til að hafa áhyggjur af hernaði Rússa gegn fyrrum Sovétlýðveldinu Georgíu, þá stafar meiri ógn af öðru herveldi sem vaðið hefur yfir heiminn á skítugum skónum undanfarin ár.
Við höfum horft með skelfingu á Bandaríki Norður-Ameríku vaða yfir heiminn undir yfirskyni hryðjuverkaógnar undir stjórn stríðsglæpamannsins George Dobbljú Bush. Nú þegar við getum farið að hlakka til endaloka hans í embætti, kemur skyndilega upp sú staða að hætta er á að enn verra afturhald verði varamanneskja þar í landi til stuðnings öldruðu forsetaefni. Ef það hættulega par kemst til valda í Bandaríkjunum, verður virkileg ástæða til að óttast um öryggi heimsins.
Það væri nær fyrir Geir Haarde að hætta að vekja upp gamla drauga og muna að raunveruleg ógn kemur ekki frá vinaþjóð okkar í Austur-Evrópu og hefur ekki gert í nokkra áratugi, heldur kemur ógnin úr allt annarri átt.
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/09/13/enn_stafar_ogn_af_hernadi_russa/
mánudagur, september 08, 2008
8. september 2008 - Kötturinn Tómas
Það hefur marga kosti að búa nálægt vinnunni sinni, en þó ekki alltaf.
Hér á jarðhæð hússins býr stór fressköttur sem kallaður er Tómas. Fannhvítur á lit, en eins og sæmir mörgum hvítum karlinum, þykir hann nokkuð árásargjarn. Það er allavega sú tilfinning sem hún Hrafnhildur mín ofurkisa hefur honum því ef Tómas er að þvælast nærri útidyrunum út í garð, velur Hrafnhildur að fara fremur út framdyramegin þegar hún er að fara út á lífið því annars er hætta á slagsmálum.
Ég hefi aðeins reynt að siða Tómas til, beita hann jákvæðum aga, gefa honum harðfiskbita þegar hann lætur kisurnar mínar í friði, en ekkert ef hann byrjar með dólgslætin. Þetta hefur gefist svo vel að nú á hann það til að flýja undan Tárhildi vælukisu þegar hún hvessir sig við hann og er að mestu hættur tilraunum sínum til að komast að Hrafnhildi ofurkisu. Um leið hefur harðfiskurinn þann óhjákvæmilega ókost með sér að Tómas eltir mig ef hann sér mig úti í garði á kvöldin að sækja mínar kisur, enda eru þær mjög siðprúðar og sofa í sinni sæng á nóttunni.
Ég var á næturvakt aðfararnótt mánudags. Þar sem ég hafði nýlega lokið einhverju símtali snemma um morguninn og var að skrá eitthvað í dagbókina, heyrði ég eitthvert ámáttlegt væl neðan við opinn gluggann á vinnustaðnum. Ég fór út að glugganum til að athuga hvers hljóðið væri og viti menn. Beið þá Tómas í grasinu fyrir neðan og hóf hinn háværasta söng, dinglaði skottinu í ákafa og beið þess að sjá harðfiskbita koma út um gluggann.
sunnudagur, september 07, 2008
7. september 2008 - Um kakkalakkafár!
Ég minnist þess fyrir nokkrum áratugum, að á skipi sem ég sigldi á, skiptu áhafnarlimir tugum þúsunda. Ekki var þar einungis um að ræða þessar fáu mannlegu hræður sem sigldu skipinu, heldur fylgdu skipinu aragrúi kakkalakka, slíkur fjöldi að óhugnanlegt þótti.
Einhverju sinni veitti ég athygli stórum og feitum kakkalakka á gólfinu í herberginu hjá mér. Í stað þess að stíga á hann eins og þótti góður siður á skipi þar sem helsta tómstundagaman áhafnarinnar var að gasa kakkalakka á frívaktinni, greip ég glerklukku undan ávaxtasafa sem ég hafði nýlega tæmt, gómaði kakkalakkann í krukkuna og lokaði. Einhverjum dögum síðar var stóri feiti kakkalakkinn dauður, en í hans stað var krukkan morandi að innan með pínulitlum kakkalakkabörnum. Kakkalakkarnir í krukkunni fjölguðu sér hratt og brátt fór ég að óttast að krukkan gæti brotnað í veltingi. Því endaði ævintýrið með kakkalakkana með því að ég drekkti öllum fósturbörnunum í Atlantshafinu og fór ekki fleiri sögum af kakkalakkarækt minni.
Þetta gamla ævintýri rifjaðist upp fyrir mér í gær er ég var að lesa DN og var þar sagt frá skipi sem var að koma frá Suður-Evrópu og þurfti að leita hafnar í Þórshöfn í Færeyjum vegna kakkalakkafárs um borð. Fréttin fjallaði þó ekki fyrst og fremst um það hvernig gekk að útrýma kakkalökkunum um borð, heldur um hættuna á því að einhverjir sjóveikir kakkalakkar færu í land og settust að í Færeyjum.
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=824893
Í sjálfu sér hefi ég engar áhyggjur af hugsanlegum kakkalakkafaraldri í Færeyjum, enda trúi ég því ekki að aldrei áður hafi skip fullt af kakkalökkum komið þar til hafnar. Það væri hinsvegar fróðlegt að vita hvað skipið heitir og hvert það var að fara er ákveðið var að leita hafnar í Þórshöfn til að losna við óþverrann.
föstudagur, september 05, 2008
5. september 2008 - Óþarfi að missa sig Geir Haarde
Ég hefi sjaldan séð Geir Haarde skipta skapi, en það var ljóst í fréttum á fimmtudagskvöldið að hann var ekki sáttur. Það er þó spurning hvort Breiðavíkurdrengirnir séu rétta fólkið til að agnúast út í eða hans eigið starfsfólk í forsætisráðuneytinu.
Það er ljóst að mönnum ber ekki saman um opinberun á frumvarpsdrögum að bótum fyrir Breiðavíkurdrengi. Sjálf er ég ekki viss um hvort jafn opið frumvarp og hér virðist um að ræða sé hið rétta, hefði viljað leggja fram sérstakt lagafrumvarp um bætur til Breiðavíkurdrengja og það ríflegar bætur. Geyma síðan allt hitt, vinna það betur eða gleyma því.
Ég veit ekki hvað lá á bak við þessi frumvarpsdrög sem rædd hafa verið síðustu dagana. Með þeim var kannski verið að slá á puttana á veikustu einstaklingunum í hópnum og skapa þannig klofning innan hópsins, en sem betur hafa margir risið upp á afturlappirnar og eru nú tilbúnir að berjast fyrir rétti sínum.
Það er ljóst að Breiðavíkurdrengir voru í refsivist og einangrun að Breiðavík án dóms og laga. Sem börn hlutu þeir engan dóm fyrir óknytti en fengu hörðustu refsingu þrátt fyrir aldurstakmörk refsilöggjafarinnar. Það er fyrir þetta sem á að greiða þeim bætur, refsivist og einangrun án dóms og laga. Slíkt er svo alvarlegt brot á lögum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands og mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna, að til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig, verður að beita ríkið sömu refsingum og það beitir afbrotamenn.
Það þýðir ekkert fyrir Geir Haarde að æsa sig gegn Breiðavíkurdrengjum. Sem æðsti fulltrúi ríkisvaldsins er hann ábyrgur í óeiginlegri merkingu fyrir þeim glæpum sem ríkið framdi gagnvart þessum drengjum.
Það þýðir ekkert að rétta þessum drengjum smádúsu. Það þarf að senda þau skilaboð til framtíðarsamfélagsins að svona lagað verði ekki látið líðast aftur og þá nægja nokkur hundruð þúsund krónur engan veginn, ekki heldur tvær milljónir.
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/09/04/harma_framgongu_forsaetisraduneytisins/
fimmtudagur, september 04, 2008
4. september 2008 - Ég játa syndir mínar.
Ólafur F. Magnússon fyrrum borgarstjóri hafði uppi stór orð um andstæðinga sína í hádegisútvarpinu á miðvikudag. Ekki aðeins gaf hann fyrrum samstarfsmönnum sínum í Sjálfstæðisflokknum langt nef, heldur bar hann þá sök upp á „minnihlutaflokkana“ í borgarstjórn að hafa lagt sig í einelti.
Ég skil þetta mjög vel. Miðað við framkomu Ólafs F. Magnússonar í garð „minnihlutaflokkanna“ í borgarstjórn Reykjavíkur, finnst mér mjög eðlilegt að þeir hafi lagt hann í einelti, enda brást hann trausti þeirra á illilegan hátt og skapaði sér það álit að ekki væri hægt að treysta Ólafi F. Magnússyni í samstarfi fleiri flokka.
Auk „minnihlutaflokkanna“ viðurkenni ég fúslega að hafa lagt Ólaf F. Magnússon í einelti á bloggi mínu. Ekki var það vegna þess að mér væri svo illa við manninn, heldur af því að mér þykir vænt um íbúa Reykjavíkur sem og budduna mína sem útsvarsgreiðanda í Reykjavík. Nú reigi ég mig í allar áttir og monta mig af því að hafa fengið að heyra frá sjálfum Ólafi F. Magnússyni að ég hafi átt þátt í að leggja hann í einelti.
Um leið ítreka ég þá frómu ósk mína að Ólafur F. Magnússon finni sér einhvern annan starfsvettvang í framtíðinni en pólitík. Þar er hann vonandi búinn að ljúka störfum sínum.
miðvikudagur, september 03, 2008
3. september 2008 - Röng mynd af vinstrigrænum í 24 stundum!
Á þriðjudag birtist mynd teiknuð af Halldóri Baldurssyni þar sem því er haldið fram að á flokksráðsfundi Vinstri grænna hafi verið samþykkt einróma að taka aftur árið 1979. Á myndinni var Steingrímur sýndur þar sem hann hélt fram ýmsum kröfum flokksins eins og hærri skatta, bankana aftur í ríkiseign, herinn heim og svo aftur burt, lífgum mjólkurbúðirnar og fleira og fleira.
Þegar haft er í huga að ég hefi sagt skilið við hugsjónir Alþýðubandalagsins með því að ég gekk til liðs við Samfylkinguna fyrir fáeinum árum eftir að hafa stutt Vinstri græna frá endalokum Alþýðubandalagsins, þá get ég ekki verið myndinni sammála þótt brosleg sé. Í stað þess að horfa á árið 1979, kemur allt annað ár upp í hugann sem hið ákjósanlegasta ár fyrir Vinstri græna. Það er 1968. Ekki vegna stúdentauppreisna í París, heldur vegna stöðu mála á Íslandi á þeim tíma sem að mörgu leyti líkist mjög stefnumálum Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs.
Árið 1968 voru mjólkurbúðir enn við lýði á Íslandi, kannski einnig 1979, ég man það ekki. Árið 1968 voru aflabrögð að miklu leyti svipuð og nú, síldin hafði brugðist, verðfall af mannavöldum (markaðarins) á þorski. Nú er veiði á þorski í lágmarki af mannavöldum og loðnan hefur brugðist en síldin á enn erfitt uppdráttar eftir ofveiði á sjöunda áratugnum. Árið 1968 höfðu Búrfellsvirkjun og álverið í Straumsvík hvorugt komið í gang. Hvorutveggja eru eitur í augum margra vinstrigrænna. Árið 1968 var til sérstök Viðtækjaverslun ríkisins sem sá um að skrá öll útvarpstæki í landinu. Þá var Ísland ekki komið með í efnahagsbandalag, ekki einu sinni í EFTA og tollamúrar umluku landið, bannað að drekka áfengi á veitingastöðum á miðvikudögum, ekkert sjónvarp á fimmtudögum og í júlí, ölið var bannað og gjaldeyrir naumt skammtaður til ferðamanna. Flest af þessu átti reyndar einnig við 1979, en þá var farið að létta á hinum ýmsu boðum og bönnum enda vorum við komin í EFTA.
Árið 1968 var kreppa, ekki nú þótt sumir óski kreppu ef marka má málflutninginn enda voru öll eggin í sömu körfunni. Kannski voru það stóriðnaður á borð við álver sem vantaði 1968. Allavega er ég löngu hætt að bölsótast út í álver og atvinnuuppbyggingu á sama tíma og bannað er að draga fisk úr sjó nema með sérstökum fiskveiðikvóta.
Ég held að samþykkt flokksráðsfundar Vinstri grænna hafi verið að taka upp árið 1968.
þriðjudagur, september 02, 2008
2. september 2008 -- Af raunum Hrafnhildar ofurkisu
Í janúar síðastliðnum var Hrafnhildur ofurkisa komin með gröft í lyktarkirtil í endaþarminum svo ég þurfti að láta laga þetta á dýraspítalanum. Nú veitti ég því athygli að hún var aftur farin að kvarta yfir hinu sama og því tími til kominn að fara með tvær kisur til dýralæknis.
Eftir hádegið á mánudag dró ég fram kattabúrið og auðvitað var Hrafnhildur fljót að koma sér fyrir í búrinu, enda vissi hún að búrið er fyrir hennar eigið öryggi þegar farið er í ökuferð. Öllu verr gekk að kljást við Tárhildi ofurvælu því hún harðneitaði að fara inn. Eftir nokkrar tilraunir tók ég hana í fangið, greip búrið og út í bíl.
Á leiðinni upp á dýraspítala vældi Tárhildur þessi lifandis ósköp þar sem hún reyndi að halda sér ofan á búri systur sinnar. Það var samt enginn griður gefinn og ég hélt þessa stuttu leið upp á dýraspítala. Þegar þangað var komið kom stór og vinalegur hundur hlaupandi að bílnum og vildi heilsa að mannasið. Tárhildur varð þá svo hrædd að um leið og ég opnaði búrið, skaust hún inn og ég lokaði á eftir henni.
Eftir það gekk allt vel, báðar kisurnar fengu sprautuna sína og ormalyf og dýralæknirinn náði að kreista út bólguna á Hrafnhildi og báðar fóru þær glaðar heim, þ.e. Hrafnhildur og dýralæknirinn. Það fer færri sögum af Tárhildi, en hún er núna skriðin upp í rúm og ánægð með afrek dagsins.
http://velstyran.blogspot.com/2008/01/22-janar-2008-af-ofurkisum.html
-----oOo-----
Ég horfði á fótboltaleik í sjónvarpinu í kvöld, algjöran hörmungarleik, en þótti það samt skylda að horfa á hann með öðru auganum enda KR að spila. Þvílík hörmung að þetta ömurlega uppáhaldslið mitt á Íslandi skuli vera komið í úrslit bikarkeppninnar. Það er greinilega af sem áður var, þegar Þórólfur Beck var í framlínunni, Bjarni Fel spilaði fúllbakk og Heimir Guðjónsson var í markinu. Má ég þá heldur biðja um hetjurnar í Halifaxhrepp eða þá kappana í United of Manchester.
mánudagur, september 01, 2008
1. september 2008 - Landhelgismálið
Í dag er liðin hálf öld frá því fyrsta stóra útfærsla landhelginnar átti sér stað, þá úr fjórum sjómílum í tólf og fyrsta þorskastríðið hófst með öllu því brambolti sem fylgdi. Í dag sé ég hvergi minnst þessa afmælis landhelgismálsins í vefmiðlunum þótt þess sé vafalaust víða minnst á þeim slóðum þar sem hagsmunirnir liggja, þ.e. hjá þeim sem vilja friða þorskinn fyrir öllum veiðum, þeim sem fengu kvótann að gjöf á sínum tíma og svo hjá Landhelgisgæslunni.
Þegar hafður er í huga sá samhugur sem ríkti meðal íslensku þjóðarinnar á sínum tíma, ætli megi þá segja að hér gildi hið fornkveðna með öfugum formerkjum, þ.e. orustan vannst en stríðið tapaðist?