þriðjudagur, janúar 22, 2008

22. janúar 2008 - Af ofurkisum

Ég hafði veitt því athygli að að Hrafnhildur ofurkisa virtist sem með einhverja óværu í afturendanum síðustu vikurnar og því ákvað ég að skreppa með þær systur í sína árlegu sprautu og læknisskoðun á mánudag. Vel gekk að koma kisunum í búrin sín og síðan á Dýraspítalann og þar var Tárhildur fyrst í skoðun. Áður en tókst að koma ofan í hana árlegri ormapillu, stökk hún af borðinu og undir skáp svo ég þurfti að skríða undir til að sækja hana.

Síðan kom að Hrafnhildi. Eftir sprautuna og ormalyfin kom að skoðun og notaði ég tækifærið og benti á þessa hegðun hennar að undanförnu. Dýralæknirinn setti upp gúmmíhanska og ég hélt kisunni að framan á meðan dýri þuklaði á henni afturendann, hóf svo að kreista bólginn kirtil í endaþarminum. Allt í einu var sem eitthvað losnaði, gröftur spýttist út og yfir dýralækninn og næsta nágrenni og slíkur ódaunn gaus upp að þurfti að sótthreinsa á eftir.

Þegar heim var komið, fengu kisurnar hrogn og malt í verðlaun fyrir dugnaðinn. Nú liggja þær hvor í sínu bælinu sælar og ánægðar eftir afrek dagsins. Ég hefi þó samúð með dýralækninum, ungri stúlku, fyrir óheppnina að fá gröftinn yfir sig.

Þetta fannst mér miklu merkilegra en meirihlutaskiptin í borgarstjórn þar sem Ólafur F. Magnússon komst loksins heim í faðm íhaldsins eftir langa útilegu, þangað sem hann hafði ávallt viljað vera.


0 ummæli:







Skrifa ummæli