fimmtudagur, janúar 31, 2008

31. janúar 2008 - Frægari en Bláa lónið og Hallgrímskirkja?

Ég hefi oft séð Hallgrímskirkju sem og Bláa lónið. Ég hélt þó að ég hefði aldrei komið inn á þennan heimsfræga skemmtistað sem ber nafnið Sirkus þegar ég heyrði fyrst af undirskriftasöfnun til bjargar staðnum sem er frægari en Bláa lónið og Hallgrímskirkja ef marka má aðstandendur umræddrar söfnunar.

Þegar ég fór að skoða betur Klapparstíginn, áttaði ég mig á því að ég hafði rangt fyrir mér. Þetta var þá húsið sem hýsti Grand Rokk þar til sá ágæti staður flutti yfir á Smiðjustíginn fyrir nokkru síðan þegar til stóð að rífa hjallinn sem geymdi skemmtistaðinn. Þá áttaði ég mig á því að saga Sirkus spannar yfir svo örskamma stund af sögunni að auðvelt er að finna honum stað hvar sem er þótt þetta hús víki fyrir öðru betra, rétt eins og að Grand Rokk flutti aðeins um 50 metra og komst á miklu betri stað. Ef minnið svíkur mig ekki, byrjaði Innipúkahátíðin fyrst á Grand Rokk á meðan hann var enn á Klapparstígnum, svo saga Grand Rokk á þessum stað og víðar er miklu merkilegri en saga þessa nýlega stofnaða Sirkus.

-----oOo-----

Ég er að velta einu fyrir mér. Segjum ég leggist í rúmið í einhverja mánuði og verð mér úti um læknisvottorð á meðan ég er frá vinnu. Síðan mæti ég aftur til vinnu eins og ekkert hafi í skorist og held því að auki fram að ekkert hafi verið að mér, einungis andlegt mótlæti. Hvort ætli ég yrði rekin eða hýrudregin um þessa mánuði sem ég skráði mig veika þótt ekkert væri að mér annað en andlegt mótlæti?


0 ummæli:







Skrifa ummæli