Auðvitað var ég að grínast með því að stofna nýtt sveitarfélag í Árbæ á tímum þegar verið er að sameina sveitarfélög og fækka þeim. Það er nefnilega til önnur lausn vandamáls þess sem fylgir hinum nýja borgarstjóra í Reykjavík.
Hinn nýi borgarstjóri Reykjavíkur hefur boðað endurreisn nítjándu aldar götumyndar Laugavegarins í Reykjavík. Ég skil ekki af hverju hann vill rífa flest eða öll hús við Laugaveginn, en úr því honum er nítjánda öldin svo hugleikin, af hverju má ekki færa alla Reykjavík til nítjándu aldar? Það mætti t.d. hugsa sér að færa bæjarmörk Reykjavíkur til þess horfs sem var í lok nítjándu aldarinnar þegar Ólafur F. Magnússon var ungur drengur á Akureyri.
Eins og við vitum sem erum eldri en tvævetur, náði Reykjavík einungis inn að Elliðaám um aldamótin 1900. Hinir ýmsu bæir þar fyrir austan tilheyrðu Mosfellssveit, þar á meðal Árbær, Ártún, Gufunes og Grafarholt. Því legg ég til að gömlu hreppamörkin verði færð til fyrri vegar sem hlýtur einnig að vera fróm ósk hins nýja borgarstjóra.
Rafmagn hafa íbúar Reykjavíkur ekkert að gera við með svo heitan borgarstjóra, hvað þá heitt vatn. Það var hvort eð er ekkert heitt vatn eða rafmagn í Reykjavík við lok nítjándu aldarinnar svo það hlýtur að vera krafa hins nýja borgarstjóra að lokað sé fyrir rafmagnið og skrúfað fyrir heita vatnið vestur fyrir Elliðaár.
Með sameiningunni við Mosfellssveit þarf ekkert nýtt stjórnvaldsbatterí. Við höfum prýðilegan forseta bæjarstjórnar í Mosfellsbæ og ég trúi ekki öðru en að hinir nýju íbúar bæjarfélagsins muni flykkja sér um Kalla Tomm í áframhaldandi embætti sem forseti bæjarstjórnar í Mosfellsbæ. Að auki höfum við ágætis bæjarfulltrúa úr öllum flokkum sem munu örugglega veita okkur þá þjónustu sem okkur vantar. Við erum hinsvegar með ágætis kandidat í bæjarstjórastólinn, sjálfan Dag B. Eggertsson. Vart verður hann verri bæjarstjóri í Mosfellsbæ en Árni Sigfússon Johnsen í Reykjanesbæ.
Ég var ánægð með Spaugstofuna á laugardagskvöldið, dálítið illkvittin, en leikarinn sem lék hinn nýja borgarstjóra lék sitt hlutverk með prýði.
P.s. Hver ætli verði heildarkostnaðurinn við Laugaveg 4-6 þegar búið verður að endurbyggja hjallana? Milljarður? Hver vill borga milljarð fyrir þessa hjalla eftir endurbyggingu í nítjándu aldar stíl án vatns, hita og rafmagns?
Sem fyrr legg ég til að draslið verði rifið og byggð hús á lóðinni.
sunnudagur, janúar 27, 2008
27. janúar 2008 - Ekkert grín í Árbæ
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:29
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli