miðvikudagur, janúar 23, 2008

23. janúar 2008 - Póstsending frá Argentínu

Ég fékk sendingu frá Argentínu með póstinum í dag. Sendingin hafði greinilega lent í einhverju misjöfnu á leiðinni því búið var að setja umslagið í glæran plastpoka merktum bresku póstþjónustunni og á plastpokann var prentuð yfirlýsing þess efnis að sendingin hefði komið skemmd til Englands.

Ég opnaði sendinguna og reyndist hún innihalda tvær bækur á ensku um mannréttindamál LGBT-hópa í Rómönsku Ameríku. Þar sem ég hefi verið virk í mannréttindasamtökum eins og Amnesty og víðar, koma bækurnar mér ekkert á óvart. Það eina sem kom mér á óvart var að enginn sendandi var skráður með sendingunni og ekkert fann ég bréfið með bókunum.

Það sem ég velti fyrir mér núna, hver sendi mér bækurnar? Var það einhver mannréttindahópur í Argentínu, eða annars staðar í Rómönsku Ameríku eða voru það vinkonur mínar frá Argentínu sem ég kynntist í Sviss fyrir tveimur árum? Hafði eitthvert bréf fylgt með frá upphafi? Vantaði eitthvað í sendinguna? Er kannski einhver kominn á bak við lás og slá fyrir þá sök eina að hafa dreift prentuðu efni um skort á mannréttindum í Rómönsku Ameríku um heiminn?

Ég þarf allavega ekkert að óttast skort á lesefni í kvöld eða næstu kvöld.

P.s. LGBT er skammstöfun fyrir Lesbian-Gay-Bisexual-Transgender


0 ummæli:







Skrifa ummæli