Pistillinn sem ég setti inn á miðnætti var svo lélegur að gæðum að ég verð að bæta um betur. Ástæður þessa voru að ég var enn örþreytt og syfjuð eftir erfiði dagsins.
Ég hefi tvisvar komið til Slóvakíu. Ekki er það vegna einlægs áhuga míns á landinu, fremur vegna þess að það er ódýrt að fljúga með RyanAir til Bratislava í Slóvakíu og taka síðan strætó til Vínarborgar.
Einu sinni átti Tékkóslóvakía sterkt handboltalið. Liðið safnaði titlum fyrir hönd lands síns og var í fremstu röð handknattleiksþjóða. Síðan klofnaði landið í tvö ríki, en af einhverjum ástæðum sem ég kann ekki að nefna, lentu bikararnir og betri handboltastrákarnir í Tékkó en Slóvakar sátu eftir með sárt ennið og vindlausa tuðru. Þeir blésu svo lofti í tuðruna og komust í úrslitakeppni EM í fyrsta sinn árið 2006 þar sem þeir lentu í 16. sæti, þessu ágæta sæti sem löngum hefur verið í uppáhaldi Íslendinga. Af botninum getur leiðin bara legið upp á við og óska ég þeim alls hins besta í handboltamótinu sem nú stendur yfir.
Fyrir Íslendinga er ekkert verra að fá mótherja sem eru af svipuðum gæðum hvað snertir getu og þol. Því getur leikurinn í dag farið á hvorn veginn sem er.
Af einhverri þjóðrembu tók ég þátt í einhverju veðmáli í gær þar sem ég gerðist svo djörf að spá Íslandi eins marks sigri í leiknum í dag. Ég er samt ekki viss um að sigurinn verði neitt auðveldur og sennilega eru aurarnir sem ég lagði í púkkið glataðir rétt eins og sigurvonir Íslands í handboltamótinu.
Ég stend enn við mín frómu orð, að Íslendingar eiga fremur að snúa sér að krullu í stað boltaleikja.
http://www.mbl.is/mm/sport/handbolti/2008/01/19/slovakar_eru_sannarlega_med_haettulegt_lid/
laugardagur, janúar 19, 2008
19. janúar 2008 - II - Slóvakía
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 10:47
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli