Þá er búið að stoppa af niðurrif húsanna við Laugaveg 4-6 í Reykjavík. Ég sé lítið spennandi við þessa kofa sem hafa staðið þarna og mun ekki sjá eftir þeim. Þau gengið í gegnum svo margvíslegar breytingar í gegnum árin að lítið er orðið eftir af upprunalegu húsunum annað en minningin. Eftir að húsunum var breytt til samræmis við nútímann og settir á þau risastórir verslunargluggar dettur manni helst til hugar að búið sé að stinga úr þeim augun eða sálina og ekkert annað eftir en fúatimbur.
Ef horft er á þessi hús frá gangstéttinni andspænis eða úr gluggum hússins á móti er bakhlið Skólavörðustígs 1 mest áberandi og því spurningamerki hvort ekki sé betra að fela hana með fallegri byggingu sem kemur í staðinn fyrir kofaræksnin. Þá er götumynd Laugavegarins orðin svo furðuleg blanda af nýjum og gömlum húsum að minnir helst á bastarð.
Ég vil taka fram að ég hefi ekkert á móti húsinu að Laugavegi 2. Það sómir sér vel á horni Laugavegar og Skólavörðustígs, en nær væri að byggja upp heilstæða götumynd frá því húsi og austur að næsta alvöruhúsi, en að henda fúatimbrinu sem er þar í dag.
Sú hugmynd að byggja upp lágreista húsaþyrpingu í Hljómskálagarðinum finnst mér góðra gjalda verð, en það hlýtur að vera margfalt ódýrara að byggja ný lágreist hús þar í gömlum stíl en að endurbyggja gamla draslið. Við höfum séð góðan árangur af slíku við sunnanvert Aðalstræti.
Ef Torfusamtökin vantar verkefni, geta þau krafist endurbóta framhliðar Lækjargötu 2a þar sem Iða er nú til húsa til að hressa upp á götumyndina þar. Ekki veitir af.
laugardagur, janúar 05, 2008
6. janúar 2008 - Löngu augnstungnir hjallar!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:57
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli