Það á fyrir okkur að liggja að deyja, fyrr eða síðar.
Að undirbúa sig undir hið óvænta þykir mér vera hið besta mál, ekki eingöngu fyrir hið svokallaða fræga fólk, heldur einnig fyrir okkur hin. Reglulega heyrast fréttir af hálfgerðum harmleikjum innan fjölskyldna þegar kemur að minningargreinum um hinn látna, um skiptingu eigna, setu í óskiptu búi, auk ýmissa smáatriða.
Margt af þessu er hægt að gera á meðan allt leikur í lyndi og hinn látni er enn í fullu fjöri. Það er hægt að útbúa möppu með helstu fyrirmælum, hverjar eignirnar eru, leyndar sem ljósar, hver eigi að fá hvað við skyndilegt fráfall, hvað eigi að koma fram í ræðu prestsins og jafnvel hvaða lög og sálma eigi að flytja við jarðarförina.
Sjálf er ég með slíka möppu í fórum mínum þar sem fram kemur hver eigi að fá hvað af mínum fátæklegu eigum auk þeirra sem falla undir almenn erfðalög, hvaða prestur eigi að jarðsyngja, hver eigi að vera formáli að hugsanlegum minningargreinum, hvað eigi að gera við líkið. Ég get svo huggað mig við að ég get ávallt breytt innihaldinu á meðan ég er enn með réttu ráði. Ef ég skyldi deyja skyndilega, til dæmis í bílslysi eða af hjartaáfalli, er bara að leita uppi möppuna á heimilinu og skipta eignunum til samræmis við viljann.
Þrátt fyrir þessi fyrirmæli mín verður nóg eftir fyrir erfingjana að rífast um, hvaða sálma eigi að flytja þar sem Pink Floyd endar, hvort boðið verður uppá whiský fremur en kaffi í erfidrykkjunni. Þetta þýðir samt ekki að ég sé á leið í gröfina, enda vonast ég til að lifa í hundrað ár til viðbótar.
Á sama hátt er sjálfsagt að gera ráð fyrir hinu óvænta varðandi Britney og Parísi og öll hin. Eruð þið nokkuð búin að gleyma Díönu?
http://mbl.is/mm/folk/frettir/2008/01/21/minningargreinin_um_britney_tilbuin/
mánudagur, janúar 21, 2008
21. janúar 2008 - II - Af hverju ekki?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 12:17
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli