Það var góður dagur fyrir Samfylkinguna þegar Anna Pála Sverrisdóttir gekk til liðs við hana fyrir einu eða tveimur árum og kosið var til stjórnar Ungra jafnaðarmanna. Það býr einhver fítonskraftur í henni sem þarf svo sannarlega að virkja, þó án þess að brenna hana út með yfirálagi.
Ég kom við í ráðhúsinu í gær nokkru áður en borgarstjórnarfundur átti að hefjast og þótt ekki væri neitt fjölmenni á gangstéttinni í kuldanum, þá fór ekkert á milli mála hver stjórnaði aðgerðum. Sjálf er ég orðin það gömul að ég nenni ekki lengur að öskra mig hása, heldur læt ég yngra fólk um slíkt. Þegar komið var að því að fólk flykktist inn og upp á áhorfendapallana þar sem hvítliðarnir voru þegar viðbúnir, nennti ég ekki einu sinni að að fylgja með upp heldur lét mér nægja að standa neðan við stigann og bíða átekta ásamt mörgum öðrum. Vissulega heyrði ég ekkert hvað fór fram, en það leið ekki langur tími uns okkur var bent á að það væri ekki gott að standa þar sem við stóðum þegar kæmi að því að ryðja áhorfendastæðin.
Þá varð mér það ljóst að versta tegund af hægristjórn væri komin til valda í Reykjavík. Þá verður gott að kominn er hópur ungs fólks fram á sjónarsviðið sem er reiðubúinn til að berjast fyrir betra þjóðfélagi. Á meðan Anna Pála Sverrisdóttir er fremst í flokki þarf ekki að kvíða framtíðinni.
föstudagur, janúar 25, 2008
25. janúar 2008 - Róstur í ráðhúsi
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:59
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli