miðvikudagur, janúar 23, 2008

23. janúar 2008 - Gos

Það var á þessum degi árið 1973 sem ég vaknaði upp með andfælum klukkan fjögur um nóttina við að útvarpið var í gangi. Þetta var í þá gömlu “góðu” daga sem hér var aðeins ein útvarpsstöð og klukkan hálftólf á kvöldin fór útvarpið að sofa og vaknaði ekki aftur fyrr en klukkan sjö á morgnanna. Ég var í námi á þessum árum og nýtti mér þögn útvarpsins sem vekjaraklukku, fór að sofa fyrir miðnætti á kvöldin og vaknaði við að útvarpið fór í gang klukkan sjö, nægilega snemma til að koma mér á fætur og í skólann.

En nú var eitthvað skrýtið á seyði og í svefnrotunum heyrði ég stöðugar tilkynningar til fólks um að koma sér niður á bryggju úti í Vestmannaeyjum. Ég kom mér á lappir og ákvað að líta við hjá foreldrum mínum sem bjuggu ekki fjarri. Þegar þangað var komið var allt í fastasvefni. Ég vakti gömlu hjónin, en þau nefndu að einhver kall hefði hringt fyrr um nóttina og verið að spyrja eftir mér. Mig grunaði að það hefði verið í sambandi við gosið því ég var á einhverri skrá hjá Almannavörnum á þeim árum yfir fólk sem væri hægt að kalla til starfa. Rúmum klukkutíma síðar var ég komin upp í skýli Almannavarna í Mosfellsdal og tók þátt í að taka til ýmsan viðleguútbúnað fyrir neyðartilvik sem þetta og koma fyrir í skólum í Reykjavík.

Næstu vikur og mánuði var mikið umleikis hjá mér, var talsvert í aðstoð við búslóðaflutningana frá Vestmannaeyjum ásamt skólafélögum mínum, tók þátt í vikurmokstri í Eyjum og síðar við að ná upp búslóðum sem ekki hafði unnist að ná úr húsum í austurhluta bæjarins undan öskufallinu á fyrstu dögum gossins. Þarna kynntist ég Eyjum ágætlega og því skemmtilega og stórhuga viðmóti sem ávallt einkennir Eyjamenn. Síðar bjó ég og starfaði í Eyjum um nokkurra ára skeið og tók þátt í uppbyggingu samfélagsins í Eyjum eftir gosið.

Ég er að velta einu fyrir mér. Árin eftir gos var hitinn frá nýja hrauninu notaður til að hita upp nýja fjarvarmaveitu Vestmannaeyja. Nú spyr ég hvort Eyjamenn séu búnir að tengja varmadælur við fjarvarmaveituna sína? Það væri þeim líkt.

-----oOo-----

Mig langar til að votta Kolbrúnu Ragnheiði og öðrum aðstandendum Þórdísar Tinnu Aðalsteinsdóttur samúðarkveðjur mínar vegna fráfalls hennar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli