sunnudagur, janúar 13, 2008

13. janúar 2008 - Skemmtanalífið í Reykjavík

Eins og fram kemur í síðasta bloggi, fékk ég mér í annan fótinn á föstudagskvöldið. Ekki bara það, heldur skrapp ég ásamt fleira fólki til miðborgar Reykjavíkur þar sem ætlunin var að kíkja á krár. Hvergi sá ég löggur, hvorki barðar né óbarðar. Ekki heldur sá ég neinn pissa utan í vegg, hvorki miginn né ómiginn.

Ég leit inn á tvo staði, B5 og Næstabar. Á B5 komum við okkur fyrir í fjárhvelfingum Verzlunarbankans. Þar var lítið um peninga en þess meira um plastkort og full ölglös. Eftir stutta viðkomu þar rölti ég svo yfir á Næstabar. Þar var fámennt og góðmennt.

Alveg merkilegt hvað reykbannið hefur farið illa með aðsóknina að þessum ágæta stað. Mér dettur til hugar úr því leyfilegt er að reykja í lokuðum rýmum í Alþingishúsinu og Leifsstöð, hvort ekki megi koma fyrir lítilli reykkompu á Næstabar og í eins og einu bankahólfi á B5.

Ekki veitir af. Næstibar er orðinn eitt af því fáa sem fær mig til að fara vestur fyrir Elliðaárnar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli