laugardagur, janúar 26, 2008

26. janúar 2008 - Sjálfstætt sveitarfélag í Árbæ?

Mér er enn í fersku minni er Árni Johnsen hélt því fram í útvarpsviðtali nokkru fyrir gos, að Eyjamenn gætu séð um sig sjálfir og stofnað sjálfstætt ríki í Vestmannaeyjum. Nú þegar komin er fjandsamleg borgarstjórn í Reykjavík sem að auki ætlar sér að byggja nýtt Árbæjarsafn í miðborginni í samkeppni við hið eina sanna Árbæjarsafn, má velta því fyrir sér hvort Árbæingar þurfi ekki að velta þessu sama fyrir sér og stofna nýtt sveitarfélag austan við Elliðaár?

Rétt eins og í Vestmannaeyjum fyrir gos, þá höfum við allt til alls í Árbænum. Ríkið er hér í Hálsaskógi, sömuleiðis blandið og mjólkin, osturinn og smjörið. Einhver kjötvinnslufyrirtæki eru hér, en ef það nægir ekki, má ávallt sækja meira austur í sveitir. Þrjú dagblöð eru hér sem og ýmis önnur menningarrit eins og Nýtt líf og Vikan svo ekki skortir menninguna. Þá má ekki gleyma því að í hjarta Árbæjar trónir sjálf Orkuveitan eins og drottning meðal þegna sinna og stjórnar vatni og rafmagni til hins nýja borgarstjóra og þegna hans í Reykjavík sem senn munu taka aftur upp hið gamla heiti, Vík í Seltjarnarneshreppi til samræmis við átjándu aldar hugsunarhátt sinn.

Vissulega vantar okkur flugvöll enn sem komið er. Það mál leysist farsællega þegar nýr flugvöllur verður gerður á Hólmsheiði og verður hann öllu fullkomnari en Vatnsmýrarflugvöllur. Efa ég ekki að allt innanlandsflug muni flytja þangað að frátöldum þeim ferðum þegar þingmaður Akureyrar og hinn nýi borgarstjóri í Vík í Seltjarnarneshreppi þurfa að fara norður að vitja fæðingarheimilis síns.

Einhver kynni að halda að þetta nægði ekki til að tryggja innkomu íbúa Árbæjar, en því er auðvelt að svara. Við leggjum einfaldlega vegaskatt á alla sem hyggjast aka í gegnum Árbæinn á leið til Reykjavíkur, en einnig má selja þeim heitt vatn, kalt vatn og rafmagn á viðráðanlegu verði, þ.e. þeim fáu sem enn vilja búa í Reykjavík Ólafs F. Magnússonar.

Ekki þurfum við að gráta skort á stjórnendum. Fyrir svona lítið og sætt samfélag sem Árbærinn er og þar sem allir búa í sátt og samlyndi eins og dýrin í Hálsaskógi, nægir að hafa þrjár manneskjur í bæjarstjórn til að gæta lýðræðis og Árbæingurinn Dagur Bergþóruson Eggertsson verður að sjálfsögðu bæjarstjóri í Árbæ.

Ef gos kemur upp í Hengli eða Bláfjöllum og hraun fer að renna hraðbyri til Árbæjar, þurfum við ekkert að flýja til Reykjavíkur. Veit ég að við eigum góða að í Mosfellsbæ en þar var vel tekið á móti Eyjamönnum eftir gosið 1973, svo vel að sumir Eyjamenn eru þar enn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli