Einn kennarinn minn í Gaggó átti ekki orð yfir það hve Danir og þá sérstaklega danskir fjölmiðlar væru lélegir, byggðu sér óhóflegar væntingar, gerðu sigrana í íþróttum enn stærri með risastórum fyrirsögnum og minntust einungis á töpin á innsíðum ef þeir gerðu það þá yfirleitt. Á þessum árum voru Íslendingar núll og nix í íþróttum og höfðu einungis einu sinni unnið silfur á ólympíuleikum, í Melbourne áratug fyrr og jafntefli í fótbolta var túlkað sem stórsigur. Orð kennarans brenndu sig inn á sálartetrið og hefi ég reynt að forðast þjóðrembu síðan og ekki haft ástæðu til þess.
Vissulega hefur stundum verið ástæða til að fagna, þótt lítið væri, Íslendingum sigri í handboltamóti B-þjóða, sænsku bronsi á heimsmeistaramóti í fótbolta 1994 og að sjálfsögðu stukkum ég og öll íslenska þjóðin með Völu Flosadóttur er hún náði bronsi í stangarstökki á Ólympíuleikum árið 2000. Samt hefi ég reynt að forðast ofurvæntingar og fremur reynt að draga úr fyrirfram ætluðum sigrum í hópíþróttum sem ávallt hafa endað með vonbrigðum nema í þetta eina skipti sem Ísland vann í handboltamóti B-þjóða.
Ísland hefur aldrei náð verðlaunasæti á heimsmeistaramóti eða ólympíuleikum í hópíþróttum ófatlaðra nema auðvitað í bridge. Því sé ég enga ástæðu til að tryllast fyrirfram af fögnuði fyrr en ég sé verðlaunagripinn í höfn þar sem hann hefur aldrei komið. Því síður fyllist ég þjóðrembu en geri gjarnan grín að Íslendingunum þegar kemur að keppni og allir fara að reikna sér stigin fyrirfram minnug orða kennarans míns forðum daga.
En Íslendingar eru þó langbestir miðað við fólksfjölda, segir þá einhver. Er það rétt? Ég sá einhversstaðar úttekt á skiptingu verðlauna á ólympíuleikum frá upphafi. Þar kom í ljós að Ísland stóð sig lakast af sjálfstæðu Norðurlöndunum miðað við fólksfjölda og vantaði, minnir mig, tólf verðlaunapeninga til að ná því sem næstlakast stóð miðað við fólksfjölda. Er þá ekki tekið tillit til málmtegundar verðlaunanna.
Þessa dagana er þjóðremban á fullu hjá íslensku þjóðinni. Ég get ekki annað en hæðst að grobbinu.
-----oOo-----
Einn er sá Íslendingur sem væri örugglega einn sá fremsti í heiminum ef keppt væri í hans sérgrein. Laddi er 61 árs í dag.
sunnudagur, janúar 20, 2008
20. janúar 2008 - Enn af þjóðrembu
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:26
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli