Samkvæmt fréttum Ríksiútvarpsins hefur slitnað upp úr viðræðum um bætt kjör vaktavinnufólks hjá hinu opinbera.
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item185898/
Ég kom aðeins að viðræðum um kaup og kjör við síðustu kjarasamninga Vélstjórafélags Íslands og setti meðal annars fram kröfu um bókun þar sem viðræður skyldu eiga sér stað á milli samningsaðila á samningstímabilinu um vinnutímastyttingu vaktavinnufólks. Þegar mér var það ljóst að ekki átti að efna þessa bókun, gat ég ekki litið öðruvísi á en að um vantraust væri að ræða og neitaði þátttöku í samninganefndinni sem senn tekur til starfa.
Á Íslandi er samningsbundinn virkur vinnutími 37,05 tímar á viku þegar búið er að draga matar og kaffitíma frá virka vinnutímanum. Virkur vinnutími hjá vaktavinnufólki getur verið 40 stundir án sérstakrar yfirvinnugreiðslu fyrir þess þrjá umframtíma. Þessi mismunur er löngu orðinn viðurkenndur á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Þannig er tvískipt vakt í morgunvakt og kvöldvakt á virkum dögum í Svíþjóð 38 tímar en vaktir allan sólarhringinn sjö daga vikunnar 34,33 tímar. Þar sem ég vann í Svíþjóð fengum við að auki einn aukalegan frídag á sex vikna fresti til að vega á móti vaktaskiptum. Þannig var hann í reynd rúmir 33 tímar á viku.
Ísland er á eftir í þessum málum eins og svo víða. Mér er einungis kunnugt um vaktavinnufólk hjá Landsvirkjun og Landsneti sem fær ígildi 36 stunda vinnuviku vegna vakta sinna.
Ég get ekki kennt Orkuveitunni um þennan drátt á viðræðum. Þar má alveg eins og jafnvel frekar kenna um fyrrum formanni Vélstjórafélags Íslands eða hvað sem það nú heitir á þessum síðustu og verstu tímum. Ég er hinsvegar reiðubúin að berjast fyrir nauðsynlegri styttingu vinnutíma vaktavinnufólks og þótt ég hafi samþykkt síðustu samninga vegna falskra loforða formannsins, mun ég ekki hika við að segja nei þar til styttingin niður í 36 tíma vinnuviku vaktavinnufólks nær fram að ganga.
P.s. Það væri fróðlegt að vita hvort vitað sé um aðra hópa en hjá Landvirkjun og Landsnet sem hafa 36 tíma vinnuviku eða styttri.
mánudagur, janúar 14, 2008
14. janúar 2008 - Um vaktavinnu
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:39
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli