Löngu áður en fjármálakerfi Íslands hrundi eins og spilaborg, var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir farin að hvetja til opinskárrar umræðu um aðild að Evrópusambandinu, þótt sjálf væri hún efins um aðild Íslands að því. Þetta var í hrópandi ósamræmi við stefnumið útgerðarauðvaldsins sem hefur hingað til bannfært alla umræðu í þá veru.
Þessi ummæli eiga ágætlega heima hjá hófsömum hægrimönnum og jafnaðarmönnum um alla Evrópu sem telja að hag þjóða sinna sé best borgið með inngöngu í Evrópusambandið og beinni eða óbeinni þátttöku í myntbandalaginu.
Þorgerður hefur gert meira sem ekki er stýrt í blindni eftir ákvörðunum bláu handarinnar. Þess ber að minnast er hún réði son Magnúsar símstöðvarstjóra og eðalkrata í Vestmanneyjum sem útvarpsstjóra, enda strákurinn með mesta og besta reynslu af rekstri útvarps og sjónvarps á Íslandi og því hæfastur til starfans.
Nú síðast lét hún hafa eftir sér ummæli í Viðskiptablaðinu sem gætu verið hógvær gagnrýni á almætti Sjálfstæðisflokksins:
Seðlabankinn á ekki að vera með hnútukast við ráðherra
Ég fæ á tilfinninguna að einasta von Sjálfstæðisflokksins sé fólgin í að fá konu sem næsta formann, konu sem þorir að tala opinskátt og er ekki bundin af helsi bláu handarinnar.
http://www.vb.is/frett/1/49198/sedlabankinn-a-ekki-ad-vera-med-hnutukast-vid-radherra
föstudagur, október 31, 2008
31. október 2008 - Af næsta formanni Sjálfstæðisflokksins
31. október 2008 - Af eftirlaunafrumvarpinu
Aðfararnótt þess 29. maí síðastliðinn ritaði ég stuttan pistil þar sem ég ítrekaði andstöðu mína við framboð Íslands í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, en um leið ítrekaði ég kröfu mína um að draumalög Davíðs Oddssonar um eftirlaun æðstu ráðamanna yrðu afturkölluð og nefndi í því sambandi að ég krefðist þess að eftirlaunafrumvarpið yrði mál númer tvö á haustþinginu.
Heimurinn hafði vit fyrir Íslandi varðandi öryggisráðið og hafnaði þátttöku Íslands í ráðinu. Það er eðlilegt því Ísland situr enn með þá skömm að hafa verið taglhnýtingur Bandaríkja Norður-Ameríku í flestum málum allt til myndunar núverandi ríkisstjórnar, þar sem stuðningur Íslands við innrásina í Írak var toppurinn á hneisunni. Þótt Ísland hafi nú tekið sjálfstæðari stefnu í utanríkismálum með ákveðni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, er það hvergi nærri nóg, en um leið merki þess að sjálfstæð utanríkisstefna er hið eina rétta fyrir lítið land eins og Ísland.
Eitt af síðari lögum sem sett voru í tíð ríkisstjórnar undir stjórn Davíðs Oddssonar, voru illræmd eftirlaunalög til handa æðstu embættismönnum og stjórnmálamönnum. Þessi eftirlaun eru alvarlegur þyrnir í augum flestra Íslendinga og enn ein sönnunin um að spillingin á Íslandi er meiri en heimurinn gerir sér grein fyrir.
Tveimur dögum áður en þing kom saman í byrjun mánaðarins, hrundi íslenska fjármálakerfið og því eðlilegt að ekki yrði afnám sérréttinda lítils hóps fyrsta mál þingsins á eftir fjárlagafrumvarpinu. Nú er kominn mánuður frá því þing kom saman og þingmenn reyna að gleyma loforðum sínum um afnám sérréttinda sinna. Við höfum enn ekki gleymt því og ég vona heitt og innilega að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sýni okkur, alþýðu þessa lands að henni sé alvara með grunnstefnu Samfylkingarinnar um jöfnuð á erfiðum tímum, nú með endurupptöku frumvarps Valgerðar Bjarnadóttur um afnám eftirlaunalaga Davíðs Oddssonar og síðan flýtiafgreiðslu þeirra með lagasetningu fyrir jól.
Því minna sem við sjáum af nýfrjálshyggju og sérréttindum þeim sem Davíð Oddsson og félagar hans hafa tryggt sjálfum sér, því betra fyrir Ísland.
http://velstyran.blog.is/blog/velstyran/entry/553781/#comments
fimmtudagur, október 30, 2008
30. október 2008 - Enn af kreppunni!
Það var í kreppunni 1967 – 1969. Það hafði nýr maður verið ráðinn um borð til okkar, kornungur fjölskyldumaður með bæði konu og lítið barn sem kaus fremur að fara á sjóinn en að sitja heima atvinnulaus. Einhver áhafnarmeðlima heyrði á tal ungu hjónanna er þau voru að kveðjast áður en haldið var úr höfn og var óspart gert gys að orðum piltsins þegar hann heyrði ekki til, en hann hafði uppi einhver orð um að eignast peninga með ráðningu sinni um borð. Hann var ekki margar ferðir um borð hjá okkur, féll einangrunin og sjómennskan illa, en þó held ég að hann hafi spjarað sig ágætlega eftir að í land kom.
Í kreppunni 1967 – 1969 þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af atvinnuleysi. Ég hafði nóg að gera allan tímann þótt launin væru lág á sama tíma og fólk flúði land þúsundum saman. Sú kreppa var samt öðruvísi en nýja kreppan sem skall á okkur 29. september síðastliðinn. Öfugt við nýju kreppuna var hún af annarra völdum, hruns á síldarstofnum, verðhruns á þorski á Bandaríkjamarkaði. Nýja kreppan er af öðrum völdum, milljarðaþjófnaði fárra auðkýfinga framhjá blindum augum illa haldinna stjórnvalda sem sitja í skjóli Sjálfstæðisflokksins.
Sumar atvinnugreinar munu halda sínu þrátt fyrir kreppuna. Við sem vinnum í orkugeiranum erum í góðum málum, sömu sögu er að segja um starfsfólk í sjávarútvegi, landbúnaði, áliðnaði, ferðaþjónustu. Sömu sögu er að segja um Marel og Össur. Hinar ýmsu greinar hins opinbera munu þurfa að halda sínu, læknar og hjúkrunarfólk munu finna fyrir auknu álagi, lögregluþjónar þurfa fleiri brúsa af piparúða og sérstakar æfingar í að segja „gas“. Grunnstoðir samfélagsins munu halda áfram.
Ég er samt með áhyggjur. Tvö barna minna vinna við verslunarstörf í einkageiranum. Ég get ekki sagt að mér komi kreppan ekkert við á meðan mín eigin börn óttast atvinnuleysi, ekki síst þegar kreppan er enn að slíta barnsskónum. Þá er við því að búast að fólk sem telur sig í góðum málum, lendi í niðurskurði og uppsögnum.
Við skulum samt vona hið besta.
----oOo----
Litla systir er ein af þeim sem urðu fyrir barðinu á kreppunni áður en hún skall á. Hún var að vinna í Sparisjóðnum og var í hópi fjölmenns hóps kvenna hjá Sparisjóðnum yfir fimmtugt sem misstu vinnuna í vor sem leið. Síðan þá hefur hún prjónað til að forðast þunglyndi og einmanaleika á dagvinnutíma.
Það er ástæða til að hugsa hlýlega til litlu systur minnar, enda varð hún sextug í gær og má hún fá allar mínar hamingjuóskir. Eru nú einungis tvö yngstu systkinin undir sextugu, litli bróðir sem verður sextugur eftir tvö ár og svo ég sem er að sjálfsögðu rétt skriðin af barnsaldri.
miðvikudagur, október 29, 2008
29. október 2008 - Gjaldþrota svikamylla!
Ein frægasta svikamyllan í íslensku útrásinni, danska flugfélagið Sterling, verður væntanlega úrskurðuð gjaldþrota í dag. Hún er eitt skýrasta dæmið um það hvernig íslenskir milljarðaþjófar komust undan með fjármuni íslensku þjóðarinnar á silfurfati.
Það var fyrir rúmum þremur árum sem Eignarhaldsfélagið Fons keypti Sterling á fjóra milljarða króna, seldi það síðan innávið í einhver skipti fyrir stöðugt hærri upphæð þó að lítil verðmætaaukning ætti sér stað í rekstri félagsins, en síðast keypti Fons félagið á 20 milljarða. Með þessu tókst að þvinga fram aukið lánshæfi félagsins sem eigendur þess nýttu sér til fullnustu uns svikamyllan hrundi, rétt eins og lánveitandinn, íslenskir bankar
Ekki ætla ég að fara nákvæmlega út í þau svik og pretti sem áttu sér stað með kaupum og sölum á þessu félagi, enda hefi ég ekki nægt viðskiptavit til að fara út í þessa hluti. En það er löngu kominn tími til að eigendur þess verði sóttir til saka fyrir svik sín gagnvart íslensku þjóðinni, hvort heldur þeir verða sóttir heim með eða án aðstoðar Interpol.
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item233865/
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=3130&a=845454
þriðjudagur, október 28, 2008
28. október 2008 – Það er ljótt að sparka í liggjandi þjóð
Í síðustu viku hélt forsætisráðherra enn einn af þessum innihaldslausu blaðamannafundum sínum þar sem ekkert kom fram og talað í véfréttarstíl. Það mátti þó helst skilja á honum að blaðamannafundurinn væri um ekki neitt því ekki mætti ljóstra upp í hverju aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem ekki má heita aðstoð heldur samstarf, væri fólgin fyrr en eftir ca tíu daga.
Ekki veit ég hvort þessi sami forsætisráðherra hafi haldið blaðamannafund um nýju stýrivaxtahækkunina, en hún er samt staðreynd. Það breytir engu að þegar búið er að helfrysta eitt þjóðfélag á einum mánuði, er engin ástæða til að hækka vextina upp úr öllu valdi í kjölfarið.
þessi aðgerð ráðmanna og óhæfra embættismanna í Svörtuloftum mun því ekki endilega valda lækkun verðbólgu, en örugglega að koma nokkrum fjölskyldum og fyrirtækjum á hausinn.. Spurningin er bar hveru stórt hlutfall þjóðarinnar þarf að fara á hausinn áður en þessir ráðamenn verða ánægðir?
Mér og mínum hefur rækilega verið kennt það að sýna þeim virðingu sem hafa farið halloka í leik og lífi. Fyrir okkur sem virðum þessa reglu, geta aðgerðir ríkisstjórnar og ráðamanna í Svörtuloftum, að sparka í liggjandi þjóð sem hefur orðið fyrir barðinu á bestu vinum ráðamanna, ekki talist til neinnar fyrirmyndar.
27. október 2008 – Af nýju tölvudellunni og varasömum strætisvagnsstjóra.
Það er kominn rúmur áratugur frá því ég eignaðist fyrstu tölvuna mína og tengdist netinu. Síðan þá hefi ég gengið í gegnum hinar ýmsu tegundir netnotkunar, auk netpósts, irkið, icq, msn, vefspjallið, bloggið og núna síðast samþykkti ég að gerast fésbókarvinur einhvers og vissi ekkert hvað ég var að fara út í.
Ég var komin með á þriðja tug fésbókarvini þegar ég fór að skoða það eitthvað nánar. Þá lá einhver hrúga af allskyns tillögum um að ég ætti að kanna hvaða kvikmyndastjörnu ég átti að líkjast, hvaða Simpson karakter færi mér best og fleira sem höfðaði alls ekki til mín.
Fyrir nokkru óskaði tyrknesk vinkona mín eftir fésbókarvináttu og samþykkti ég hana. Síðan kom ein ensk frænka mín sem hafði misst sambandið við fjölskylduna og ég fór að skoða betur möguleikana. Nú er ég komin með álitlegan hóp gamalla og góðra vina á fésbók sem ég hefi kynnst í gegnum árin, bæði hér heima og erlendis, jafnt sænskan herforingja sem lögfræðing frá Venesúela.
Þetta fésbókardæmi er kannski ekki eins vitlaust og það virtist vera í upphafi.
-----oOo-----
Ég var úti að aka á mánudaginn og þar sem ég hélt niður í gegnum Hálsaskóg mætti ég strætisvagninum sem flytur Gurrí bloggvinkonu stundum til vinnu í Hálsaskóginn. Það var talsvert af fólki í vagninum, en ekki hreifst ég mjög af vagnstjóranum sem virtist önnum kafinn við að tala í síma í akstri.
mánudagur, október 27, 2008
27. október 2008 - Hvar er Silvía Nótt á neyðarstundu?
Fyrir nokkrum árum síðan vakti ungfrú Silvía Nótt verðskuldaða athygli er henni tókst að koma Íslandi úr Júróvisjón á eftirminnilegan hátt.
Þegar þessi orð eru rituð hafa rúmlega 55 þúsund manns skrifað sig á undirskriftarlistann gegn terroristalögum Gordons frá Brúnastöðum og Alistairs Elsku. Eins og gefur að skilja hafa undirskriftirnar og meðfylgjandi myndir vakið athygli víða utan landssteinanna, að minnsta kosti þar sem málstaður Íslands vekur samúð meðal fólks eins og í Svíþjóð og Kanada.
Þegar myndirnar eru skoðaðar sjást, ekki einungis íslenskur almenningur sem mótmælir orðum bresku ráðherranna Elsku og Gordon, heldur og nokkrir rammíslenskir terroristar undir sauðagærum og þorskroði.
Þegar ég fór að skoða þessar myndir fór ég að velta fyrir mér örlögum Silvíu Nætur. Hvar er Silvía nú þegar við virkilega þörfnumst hennar? Hver væri betri til að sýna álit íslensku þjóðarinnar gagnvart Elsku og Gordon að Downingsstræti en einmitt Silvía Nótt?
Ég er sannfærð um að ef Silvía Nótt yrði gerð út af örkinni til að leita sátta við Elsku og Gordon, þá myndu þeir gefast upp samstundis, aflétta öllum frekari hömlum gagnvart Íslandi og bjóða fram aðstoð sína til að bæta skaðann sem þeir hafa valdið með aðgerðum sínum. Ég neita allavega að trúa því að þeir séu svo húmorslausir að þeir segðu Silvíu Nótt og Íslandi stríð á hendur, en þá fengju þeir heldur ekki eitt einasta penný til baka og yrðu sjálfir að standa skil á Icesave reikningunum.
http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=148&a=844737
http://www.indefence.is/
sunnudagur, október 26, 2008
26. október 2008 - Fólk snýr baki við stjórninni ...
...segir Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum formaður Framsóknarflokksins í stuttu viðtali við Fréttablaðið í tilefni af skoðanakönnun þar sem Framsóknarflokknum er spáð verulegu fylgistapi þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu á þessum þrengingartímum. Sömuleiðis bætir hann við að þessi niðurstaða gefi honum nýja von um að fólkið muni vilja ný gildi og þá muni Framsókn rísa upp.
Kannski eru orð Guðna eðlileg í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn hefur misst tökin á landsmálunum. Daginn sem ný ríkisstjórn var mynduð fyrir rúmi ári síðan hætti Framsókn nefnilega að styðja þá nýfrjálshyggju sem hún hafði stutt um margra ára skeið í stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og hóf hina hörðustu baráttu gegn því sem hún hafði áður stutt einarðlega.
Þessi sinnaskipti Framsóknar breyta þó litlu þegar fylgistapið blasir við. Almenningur á Íslandi veit og skilur að Framsóknarflokkurinn ber mikla ábyrgð á því efnahagsástandi sem nú blasir við þrátt fyrir þung orð formannsins. Því er eðlilegt að rifja upp afskipti Framsóknarflokksins af landsmálunum um tólf ára frjálshyggjuskeið Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þegar kemur að næstu alþingiskosningum.
Þá verður full ástæða fyrir Framsóknarmenn að kvíða úrslitunum.
laugardagur, október 25, 2008
25. október 2008 - Nú er frost á Fróni nema í útvarpinu
Eins og gefur að skilja, er stundum dálítið erfitt að koma sér á fætur og til vinnu snemma á laugardagsmorgni eins og ég þurfti að gera í morgun. Kisurnar mjálmuðu og kærðu sig ekkert um að fara út, en notuðu tækifærið og skriðu undir sæng í hlýju bólinu mínu þegar ég var komin framúr og nóg pláss án þess að eiga á hættu að verða fyrir hnjaski af hálfu fullorðinnar manneskju.
Ég kom mér út úr húsi og gekk í átt til vinnu. Það var kalt og hráslagalegt og ég renndi flíspeysunni alveg upp í háls og sömuleiðis vetrarúlpunni og gekk rösklega til vinnu minnar því ekki mátti ég til þess hugsa að verða of sein til vinnu, sei sei nei, ónei og aldrei. Ég kom til vinnu á réttum tíma og leysti næturvaktina af og þar sem ég fór yfir kerfin heyrði ég fréttirnar í útvarpinu. Á eftir fréttunum var sagt frá veðri og lesnar hitatölur frá því klukkan sex.
„Reykjavík fjögurra stiga hiti“ glumdi í útvarpstækinu. Ég fann hvernig mér hlýnaði í kroppnum og sólin skein í heiði þótt enn væri myrkur utandyra og frost á öllum mælum. Ég byrjaði að fækka fötum og dró úr keyrslu á svo allt yfirfylltist ekki með hraði miðað við slík hlýindi.
Ætli útvarpið hafi fengið hitamælinn hans Gests Einars á Akureyri lánaðan suður yfir helgina? Þetta er víst mikill undrahitamælir sem hann notar nyrðra í stúdíóinu til að plata okkur höfuðborgarbúa til að ferðast norður með hlýlegum hitatölum.
föstudagur, október 24, 2008
24. október 2008 - Tekin í bólinu ... einu sinni enn!
Fyrir um tveimur árum fauk allt af vestursvölunum hjá mér sem fokið gat. Ég ætlaði ekki að láta slíkt endurtaka sig aftur, keypti sex millimetra plexígler í skilrúmið á milli svalanna í stað fjögurra millimetra sem upphaflega hafði verið sett upp svo kisurnar mínar hættu að bjóða sjálfum sér í mat til nágrannanna. Síðan festi ég allt eins kyrfilega og mögulegt var í von um að slíkt veður væri undantekning frá reglunni um leiðindaveður.
Nú á fimmtudagskvöldið kom samskonar veður og fyrir tveimur árum. Það leið ekki á löngu uns ég tók eftir sprungu í sex millimetra plexíglerinu í skilrúminu góða og þrátt fyrir tilraunir mínar til að bjarga því í heilu lagi varð vindurinn á undan mér og náði að kljúfa það í tvennt.
Nú sit ég hér heima með með brotið kisuskilrúm, tvö kisuklósett og fimm svalablómakassa inni á stofugólfi og og vona að ekki verði meira úr þessu leiðindaveðri.
Þá er nú suðaustanáttin betri. Ég legg svo á og mæli um að veðri þessu verði pakkað inn og sent til Gordons nokkurs Brown að Downingsstræti 10 í Lundúnaborg, honum til skapraunar og leiðinda.
fimmtudagur, október 23, 2008
23. október 2008 – Um hin nýju bankastjóralaun með meiru
Undanfarna daga hafa laun bankastjóra hins nýja Kaupþings verið mjög til umræðu, enda þykja laun hans með því mesta sem viðgengst meðal ríkisstarfsmanna og sennilega álíka há og laun forsætisráðherra og forstjóra hinnar nýju Varnarmálaskrifstofu til samans. Sjálf hefi ég lítið getað kynnt mér hvað liggur á bak við laun bankastjóra á þessum síðustu og verstu tímum, enda á ég sjálf fullt í fangi með að ná endum saman, búandi í gamalli þriggja herbergja íbúð í blokk og ek um á öldruðum eðalvagni án myntkörfuláns.
En bíddu nú hæg. Er ekki tækifæri til að spara þarna? Þegar loksins er vegið að sjálfstæði þjóðarinnar af slíkri alvöru að þjóðfélagið riðar til falls, er virkileg ástæða til að kalla til ítrustu varna og þá er eðlilegast að kalla á forstjóra hinnar nýju varnarmálaskrifstofu og heyra hvað hún hefur til málanna að leggja í vörnum þjóðarinnar gegn ofureflinu. Mikil ósköp. Hún er búin að gera heilan helling. Hún er meira að segja búin að kalla til heila hersveit til aðgæta okkar á meðan við höldum heilög jól. Allt væri þetta þetta gott og blessað ef ekki væri fyrir þá sök að þessi sama herdeild kemur beinustu leið frá þeim aðila sem gengur einna fremst í því að brjóta niður íslenskt þjóðfélag. Einhverntímann hefði slíkt athæfi flokkast undir landráð.
Með því að Varnarmálaskrifstofan telur eðlilegt að hættulegasti óvinurinn verði jafnframt látinn gæta okkar, má álykta sem svo að þessi skrifstofa sé óþörf með öllu og ber að leggja niður með hraði og afþakka frekari afskipti hennar af vörnum þjóðarinnar. Með því að leggja niður Varnarmálaskrifstofuna og starf forstjórans sparast að auki talsvert fjármagn í bláfátæku þjóðfélagi.
Ef við hinsvegar lítum á starf bankastjórans sem í dag er talið álíka verðmætt og starf forsætisráðherra og forstjóra Varnarmálaskrifstofu til samans og starf forstjóra Varnarmálaskrifstofu er í besta falli einskis virði, er þá ekki eðlilegt að laun bankastjórans verði lækkuð niður í einföld laun forsætisráðherra?
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/23/bankastjorarnir_med_of_ha_laun/
23. október 2008 - Persónuleg þjóðhagsspá!
Geir Haarde hefur enn sem komið er ekki viljað úttala sig um aðgerðir stjórnvalda um ráðstafanir vegna efnahagshrunsins. Það sýndi tómlegt drottningarviðtal við hann í Kastljósi sjónvarpsins í gær. Það er þó ljóst að það þarf að beita mjög hörðum aðgerðum gegn þjóðinni sem ekki vissi að verið var að gera hana að fíflum sem þurfa að borga reikninginn. Skattar og önnur gjöld munu hækka verulega, verðbólgan taka stórt stökk og við verðum öll mun fátækari en áður því það kostar miklar fórnir fyrir hverja einstaka manneskju að skulda allt í einu sex milljónum meira en fyrir einum mánuði.
Til er fólk sem ekki er reiðubúið að til að greiða þessar aukalegu sex milljónir og mun vafalaust leita út fyrir landssteinana að vænlegri framtíð. Sjálf er ég ekkert frábitin því að skoða mig um ef stjórnvöld gerast of stórtæk í skattheimtunni. Til þess að ég taki þátt í að greiða þessar sex milljónir, verð ég jafnframt að fá meira að segja um stjórn landsins en áður. Að minnsta kosti krefst ég þess að fá meiri áhrif til að hindra sölu ríkiseigna en hingað til, en jafnframt að landið verði opnað fyrir evrópskum áhrifum til að hindra spillingu undanfarinna ára.
Öfugt við íslenska innheimtulögfræðinga sem geta lítið sem ekkert aðhafst erlendis, en munu fitna eins og púkinn á fjósbitanum á Íslandi næstu árin, hefi ég talsverða möguleika erlendis. Ég get farið á sjóinn og siglt um höfin blá, fengið starf við orkuver í Svíþjóð og víðar. Svo er einnig um fjölda fólks sem senn mun yfirgefa landið í stað þess að byrja að stimpla í Reykjavík og verða áhorfendur að enduruppbyggingunni í skjóli skuldarinnar. Fjölmargir munu halda til Norðurlandanna og þeirra Evrópulanda sem standa okkur nærri í menningarlegu tilliti, dvelja þar um skeið og koma heim aftur uppfull reynslu og þroska.
Ekki ætti tungumálið að spilla fyrir. Það er auðvelt fyrir Íslendinga að læra norsku og sænsku þótt danskan standi mörgum fyrir þrifum. Þýskan er dásamleg þótt ég hafi aldrei getað lært hana þrátt fyrir tilraunir til slíks. Flæmska Hollendinga er sömuleiðis auðveld. Allsstaðar blasa við tækifærin fyrir Íslendinga sem vilja vinna vinnuna sína.
Mig grunar að fjöldi Íslendinga verði kominn niður fyrir 300.000 fyrir árslok 2009, en síðan fjölgar Íslendingum á ný.
Þegar þetta fólk snýr aftur verður það búið að snúast í skoðunum og orðið fylgjendur aðildar að Evrópusambandinu rétt eins og ég sjálf sem var mjög andvíg inngöngu Svíþjóðar í Evrópubandalagið á sínum tíma en snérist hugur þegar ég sá hve efnahagur Svíþjóðar batnaði með aðild að ESB.
Þá má þess geta að Ísland hefði sennilega aldrei hafnað í efnahagshruninu ef þjóðin hefði borið skynsemi til að ganga til liðs við ESB og myntbandalagið í lok síðustu aldar þegar staðan var slík að enn var möguleiki á inngöngu í myntbandalagið.
En hvort sem Davíð er á móti ESB eður ei (Geir er bara peð Davíðs), þá verðum við orðin meðlimir í ESB innan fjögurra ára, en fullgildir aðilar að myntbandalaginu nokkrum árum síðar.
miðvikudagur, október 22, 2008
22. október 2008 - Björgólfur Guðmundsson
Þessa dagana langar mann mest til að ganga hreint til verks gagnvart útrásarvíkingunum sem reyndust vera þrælar þegar á reyndi og sprengdu íslenska hagkerfið í loft upp. Þar er sennilega Hannes Smárason í broddi fylkingar, enda langt síðan ég heyrði vafasamar sögur af honum sem voru of ljótar til að hægt væri að trúa þeim, sögur sem virðast hafa verið sannar eftir allt saman.
Þrátt fyrir allt er þó einn útrásarvíkinganna sem ég ber meiri virðingu fyrir en öðrum í hópnum. Sá heitir Björgólfur Guðmundsson, var stjórnarformaður Landsbankans og fyrrum stjórnarformaður Hafskipa hf. Ég tek það fram hér og nú að ég hefi aldrei hitt hann í eigin persónu.
Þegar Hafskip varð gjaldþrota í desember 1985 gat ég ekki annað en fyllst samúð með Björgólfi og félögum. Þeir voru að reyna sitt besta til að gera Hafskip að stórfyrirtæki á alþjóðamælikvarða, útrásarvíkingar þess tíma. Það fór margt úrskeiðis og fyrstu mánuði ársins 1986 þurfti ég, sem vélstjóri hjá Eimskip, að sjá um daglegt eftirlit með tveimur skipum Hafskipa þar sem þau lágu bundin við bryggju í Reykjavík. Af einhverjum ástæðum varð mér vel til vina með nokkrum vélstjórum Hafskipa, kynntist síðar lítillega Páli Braga Kristjónssyni fjármálastjóra Hafskipa og hefi alla tíð talið Hafskipsævintýrið vera af hinu góða.
Á síðastliðnum árum hefi ég fylgst með Björgólfi Guðmundssyni með aðdáun, hve hann hefur verið í fararbroddi þess fólks sem vill færa íslenska menningu í hæstu hæðir. Þar nægir að nefna nýja tónlistarhúsið sem og væntanlegan Listaháskóla. Sjálf hefi ég einu sinni notið velvildar hans, en ég hlaut styrk úr minningarsjóði Margrétar dóttur hans vegna starfa minna í stjórn evrópsku Transgendersamtakanna TGEU sem nú eru loksins að verða pólitískt afl transgender fólks um alla Evrópu.
Ég tek það fram að þegar ég bölva útrásarvíkingunum í sand og ösku, þá er ég ekki með Björgólf Guðmundsson í huga.
Takk Björgólfur.
þriðjudagur, október 21, 2008
21. október 2008 - Krepputal
Í gær voru komnar þrjár vikur síðan kreppan skall á Íslandi. Fljótlega eftir að kreppan skall á fór að bera á samúðarkveðjum sem mér bárust frá vinafólki erlendis, Norðurlöndunum, Mið-Evrópu, Bretlandseyjum, Kanada, Ástralíu. Það var ljóst að Ísland var inni í alheimsumræðunni á neikvæðan hátt og fólk hélt ástandið á Íslandi mun verra en ríkisstjórnin vill vera láta.
Fljótlega fór þó að bera á öðruvísi netpóstum frá fólki sem vill kaupa allt Ísland á brot af raunvirði til eigin hagnaðar, fólki sem vill kaupa allar þær lúxuskerrur sem hægt er að fá fyrir brot af raunvirði og biður mig að gerast milligöngumanneskja við kaupin og að sjálfsögðu fyrir ekki neitt. Æ, þvílíkir vinir .
En ég einnig fengið öðruvísi pósta og þá einvörðungu frá Norðurlöndunum. Það eru atvinnuauglýsingar sem sumir sænskir vinir mínir telja að ég geti haft áhuga fyrir, þ.e. til starfa í orkuverum og á sjó á skipum í sænskri eigu því þótt Eimskip hafi ekki efni á að ráða íslenska vélstjóra á sjóræningjaskipin sín, þá er þeirra þörf annars staðar. Síðast í morgun fékk ég sömu fréttatilkynninguna frá tveimur óskyldum aðilum í Svíþjóð, en um er að ræða frétt þess efnis að samgönguráðherra Svíþjóðar ætli að skipa nefnd til að skoða hið alvarlega vandamál sem er að skapast á sænska verslunarflotanum vegna skorts á vélfræðingum/vélstjórum með full réttindi.
http://teknik360.idg.se/2.8229/1.186586/fler-ingenjorer-behovs-inom-sjofarten
Það er gott að hafa þetta í huga ef ríkisstjórnin ætlar að láta okkur borga allt tjónið sem útrásardrengirnir hafa valdið íslensku þjóðinni með sköttunum okkar með þeim afleiðingum að ekki verður líft lengur á Íslandi.
mánudagur, október 20, 2008
20. október 2008 - Þrjár vikur af hálfgerðu stjórnleysi
Í dag eru liðnar þrjár vikur síðan Seðlabankinn gerði Glitni sáluga upptækan að stórum hluta með skelfilegum afleiðingum fyrir íslensku þjóðina. Enn vitum við ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér og hið einasta sem hefur komið frá ríkisstjórninni og Seðlabankanum eru nokkrir blaðamannafundir þar sem Geir Haarde talar um ekki neitt í véfréttastíl og svo hótanir í garð Breta sem hafa valdið enn verri kreppu en ella væri. Þessar þrjár vikur hafa verið sem stjórnleysi.
Það er ekkert að ske. Almenningur í landinu getur ekkert skipulagt fram í tímann, ekki einu sinni skipulagt næstu vikur. Á meðan veltir ríkisstjórnin því fyrir sér hvort betra sé að ganga í Varsjárbandalagið sáluga undir stjórn Pútíns að hugmyndum Davíðs Oddssonar eða sækja um lán hjá Lánastofnun vanþróaðra ríkja. Og enn situr pólitískt og vanhæft bankaráð Seðlabankans sem fastast sem og enn vanhæfari bankastjórn þess sama banka. Og þjóðin bíður aðgerða á meðan eignir bankanna brenna upp og verða að engu vegna máttleysis ráðamanna og þess að þeim finnst ekkert liggja á.
Á meðan dunda stórþjófarnir sér við að koma undan milljörðum sem þeir hafa stolið svo ekkert verður eftir annað en sviðin jörð þegar ríkisstjórnin loksins skilur að við erum ekki öll í sama báti, þjóðin og þjófarnir.
Þó hefur ein lítil von vaknað um helgina. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er komin aftur til starfa að hluta og óskandi að henni takist að hrista svo upp í stjórninni að hún fari að vinna vinnuna sína. Ekki veitir af svo hægt sé að byrja undirbúning að nýju og réttlátara samfélagi án nýfrjálshyggju í anda Davíðs og Hannesar Hólmsteins.
sunnudagur, október 19, 2008
19. október 2008 - Íslensk hryðjuverkalög?
Nú þegar Gordon Brown er orðinn helsti óvinur Íslands, er ástæða til að velta fyrir sér hinum svokölluðu loftvörnum Íslands þegar sjálfur höfuðóvinurinn er fenginn til að verja landið gegn ímynduðum óvini.
Einn kunningi minn kom með áhugaverða tillögu vegna þessa máls. Við eigum að bjóða bresku flugsveitina velkomna til landsins og þegar hún er örugglega lent setjum við á hryðjuverkalög og kyrrsetjum þoturnar og hermennina. Í anda hryðjuverkalaganna gerum við svo þoturnar upptækar til ríkissjóðs.
„En hvað á svo að gera við þoturnar?“ spurði ég.
„Ekkert mál, við seljum þær til Rússlands“ svaraði maðurinn að bragði.
laugardagur, október 18, 2008
18. október 2008 - Hart í bak.
Á föstudagskvöldið gerðist ég snobbhænsni, fékk einn vinnufélaga minn til að taka vaktina mína og fór í leikhús. Það kom ekki til af góðu. Ég hefi aldrei gleymt því umtali sem Hart í bak eftir Jökul Jakobsson vakti á árunum eftir 1962 er það var sýnt í Iðnó og Brynjólfur Jóhannesson lék aðalhlutverkið. Ekki tókst að vekja Brynjólf heitinn upp til að endurtaka glæsilegan leiksigur og því þurfti Gunnar Eyjólfsson að taka upp þráðinn frá 1962 og leika skipstjórann á Goðafossi og tókst það með ágætum.
Sjálf hafnaði ég á góðum stað í leikhúsinu með boðsmiða í höndum og viðraði mig innan um elítu landsins um stund áður en haldið var, eftir góða leiksýningu, á Café Rosenberg og síðan á Næstabar.
Við sem fórum saman í leikhúsið hittum sænska stúlku og íslenskan mann hennar á Café Rosenberg. Hún ætlaði að segja eitthvert leyndarmál við vinkonu mína sem bauð okkur á sænsku, en áttaði allt í einu að eyrun sem skildu sænsku voru öllu fleiri en hún átti von á. Reyndar allur hópurinn.
Á Næstabar hitti ég gamla skólasystur og fagnaði henni ógurlega. Það var ekki nema von því mig hafði vantað netfangið hennar vegna samkvæmis í næsta mánuði. Þegar hún hafði skrifað netfangið sitt fyrir mig, áttaði ég mig á því að ég hafði farið kvennavillt. Sú sem ég hitti á Næstabar var vissulega gömul skólasystir frá öldungadeild MH, en alls ekki sú sem ég hafði leitað að, heldur fræg dagskrárgerðarkona á sjónvarpsstöð sem hafði verið á sömu frumsýningu og ég.
Hún veit allavega nú að hún er velkomin í samkvæmið okkar 14. nóvember.
föstudagur, október 17, 2008
17. október 2008 - Ísland, litlasta land í heimi?
Sjálfsvorkunn er vondur siður. Með sjálfsvorkunn er fólk oft á tíðum að niðurlægja sjálft sig og uppsker ekki annað en háð og fyrirlitningu, ekki síst þegar lítil eða engin ástæða er til sjálfsvorkunnar. Stundum gengur sjálfsvorkunin út í hinar verstu öfgar og stundum svo illa að tekst að eyðileggja hinn besta málstað.
Ég stundaði sjálfsvorkunn einu sinni. Það voru allir svo vondir við mig og ég fékk stuðning við sjálfsvorkunina frá fjölda fólks sem einnig var reiðubúið að taka á móti meðaumkvun. Þó með undantekningu frá einni vinkonu minni sem gerði grín að mér. Smám saman lærðist mér að ekkert lagast við sjálfsvorkunn og að ég var í reynd ófær um að hjálpa öðru fólki vegna eigin sjálfvorkunnar og ég lagði af þennan leiða ósið.
Í dag hefur heilt þjóðfélag lagst í sjálfsvorkunn og þunglyndi. Við erum svo lítil og vanmáttug að við þurfum á vorkunnsemi að halda. Það sem aflaga hefur farið, er allt hinum vonda Gordon frá hinum skosku Brúnastöðum að kenna. Íslendingar hafa ekkert gert rangt. Ekki einu sinni Geir, Árni og Davíð með ummælum sínum um að við borgum ekki, eða þá misskilningi enskra um að við borgum ekki.
Gordon frá Brúnastöðum er líka vorkunn. Hann vantaði blóraböggul til að lyfta sér upp í vinsældum því ekki eru persónutöfrarnir til að hjálpa honum. Hann vantaði eitthvað á borð við nýtt Falklandseyjastríð og hann fékk þetta stríð upp í hendurnar fyrirhafnarlaust. Þeir Geir, Árni og Davíð gáfu honum þetta tromp og hann nýtti sér það út í ystu æsar. Hann þurfti ekki að hafa áhyggjur af íslenskum atkvæðum. Íslensk atkvæði greiða ekki atkvæði í enskum kosningum. Íslensk þjóð gerði nákvæmlega það sem alls ekki má gera við slíkar aðstæður. Hún fór að gráta og óskaði meðaumkvunar frá heimsbyggðinni.
„Við erum svo fátæk og okkur líður svo illa. Komið og hjálpið okkur gegn hinum vondu Bretum“.
Og heimsbyggðin hlustaði og tók okkur á orðinu.
„Greyin mín, við skulum hjálpa ykkur. Komið með greiðslukortin ykkar og við skulum klippa þau svo þið eyðið ekki aftur umfram efni“.
Eftir situr stórskuldug íslensk þjóð, höfð að athlægi og fær ekki einu sinni greiðslufrest á skuldum sínum. Suður í Englandi situr vinaþjóð okkar og hefur tapað trúnni á víkingana úr norðri sem reyndust vera úr pappír þegar á reyndi og peningarnir sem þeir ætluðu að nota til að ná yfirráðum í Englandi reyndust vera matadorseðlar.
Hvernig væri það að hætta þessu væli, rétta úr bakinu og reyna að vinna okkur úr ósómanum, ekki með sjálfvorkun, ekki með stærilæti, heldur með hógværð og stolti?
Fyrir tveimur mánuðum var Ísland stórasta land í heimi, nú er það litlasta land í heimi!
fimmtudagur, október 16, 2008
16. október 2008 - Rúblur!
Þegar ég fór niður í anddyri heima hjá mér í morgun að sækja málgagnið sá ég auk Moggans, lítið grænt hulstur í póstkassanum hjá mér. Ég ætlaði að hoppa hæð mína í loft upp af reiði, enda kæri ég mig ekkert um annan ruslpóst en Moggann og Árbæjarblaðið auk venjulegs pósts og er póstkassinn rækilega merktur slíkum skilaboðum.
Þá tók ég eftir því að seðill datt út úr hulstrinu og við athugun reyndist um að ræða rússneskan tíu rúblu peningaseðil. Ég fór að skoða innihald hulstursins betur og reyndist það innihalda 140 rúblur í seðlum, einn hundrað rúblu seðil og fjóra tíu rúblu seðla.
Enga skýringu veit ég á þessu og dettur helst í hug að einhver rússneskur bankamaður sé að greiða út rúblurnar sem voru teknar af mér fyrir 35 árum síðan og lagðar inn á sovéskan banka sbr:
http://velstyran.blogspot.com/2008/10/13-oktber-2008-hugleiingar-um-averblgu.html
þriðjudagur, október 14, 2008
15. október 2008 - Matvendni!
Fólk hefur stundum á orði við mig að ég láti allt eftir kisunum mínum. Það er eðlilegt. Það er ekki þeim að kenna að þær voru þvingaðar til að búa með mér strax sem litlir kettlingar og hafa aldrei komist í burtu frá mér eftir það. Reyndar tel ég að þær hafi ekki átt illa ævi hjá mér, heldur þvert á móti. Ef þær eru úti og ég kalla á þær, hlýða þær oftast nær og jafnvel þegar þær eru í rannsóknarleiðangri niður við Elliðaár, nægir að hrista lyklakippuna duglega og þær koma hlaupandi.
Ég gæti þess að hreinsa kassann þeirra ekki sjaldnar en á þriggja daga fresti og engar hömlur eru þeim settar ef þær vilja kúra í rúminu hjá mér. Þá fá þær fjölbreytt fæði, velja á milli dósamats og þurrfæðis en fá stundum harðfisk á kvöldin og ýsuflak um helgar, val á milli vatns og AB-mjólkur og síðan þeyttan rjóma á skál á jólum.
Þær eru samt dálítið sjálfhverfar. Það þýðir nefnilega ekkert að bjóða kisunum mínum hvaða dósamat sem er. Það verður að vera Pussi-kattamatur og þurrfóðrið verður að vera frá Whiskas. Það þýðir ekkert að snúa hlutunum við og gefa þeim þurrfóður frá Pussi og dósamat frá Whiskas. Þá fara þær í fýlu og mjálma ekki við mig í heila viku.
Hvaðan ætli þær hafi þessa matvendni? Ekki frá mér, það er alveg víst!
14. október 2008 – Hvað er hlaupið í þessa aumu þjóð?
Nú eftir að nýfrjálshyggjan hefur beðið skipbrot með skelfilegum afleiðingum fyrir íslenskt samfélag er eins og að allur drifkraftur sé dreginn úr hinni íslensku þjóð. Allar bjargir eru bannaðar, sjávarútvegsráðherrann telur óábyrgt að auka kvótann og umhverfisráðherrann leggst gegn því að svifaseinu heildarumhverfismati verði flýtt. Forsætisráðherrann er einasti Íslendingurinn (nema auðvitað að Skallagrímur sé með honum í ráðum) sem enn trúir á íslensku krónuna og ungir Sjálfstæðismenn væla undan vondum utanríkisráðherra sem hefur ekki sagt Bretum stríð á hendur. Þvílíkir aular. Hvernig væri að horfa í eigin barm.
Það er eins og að ekkert megi gera til að bæta efnahagsástandið annað en að gera nýja tilraun til að byggja upp nýfrjálshyggjuna. Allur þróttur virðist farinn úr íslenskri þjóð. Undir Svörtuloftum sitja síðan helstu boðberar nýfrjálshyggjunnar, þeir Davíð og Hannes og gera ekki neitt. Eftir hverju bíða þeir? Fjöldagjaldþrotum á meðan þeir sjálfir eru að setja allskyns hömlur á verslunarfrelsið með 15,5% stýrivöxtum og gjaldeyrishöftum?
Ég er ekki ein um að bíða eftir því að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir komi til baka úr veikindaleyfi og taki til hendinni.
Jú, meðan ég man. Ég veit nú að stór hluti Samfylkingarinnar, sennilega stærstur hluti, er mér sammála um að hreinsa þurfi til í Seðlabankanum svo það er óþarfi að segja sig úr flokknum á næstunni, en það þarf grípa til aðgerða strax ef við viljum ekki vera aumingjar í eigin landi um langa framtíð.
Hefur þetta auma lið virkilega aldrei heyrt talað um að vinna sig útúr vandanum og að breyta kúrs í gjaldmiðilsmálum?
sunnudagur, október 12, 2008
13. október 2008 - Hugleiðingar um óðaverðbólgu.
Seinsumars 1973 gerðist ég óþekk í sovéskri hafnarborg sem nú er höfuðborg lítils ríkis við Eystrasalt. Við líkamsleit áður en mér var vísað til skips í lögreglufylgd fundust nokkrar heiðarlega fengnar rúblur í fórum mínum og þar sem ég gat gert grein fyrir þeim, mátti ekki gera þær upptækar. Þær voru samt teknar af mér og lagðar á banka í mínu nafni. Síðan liðu mörg ár áður en ég fékk að stíga fæti á sovéska grund að nýju þótt málin séu nú löngu fyrnd m.a. með hruni Sovétríkjanna. En rúblurnar á ég enn á sovéskum bankareikningi þótt kvittunin sé löngu týnd.
Í krafti þess að Pútín mun hafa boðið Íslendingum nokkrar rúblur að láni hefi ég fengið allnokkur skeyti á netinu þar sem sýndur er nýr peningaseðill með mynd af Pútín. Með þessu rifjast upp árin eftir 1980 þegar verðbólgan á Íslandi fór upp í 80% (oft sögð fara upp í 130%). Það þykir þó ekki mikið þegar ríki eru nálægt því að verða gjaldþrota eins og Ísland í dag.
Með friðarsamningunum í Versölum 1919 voru Þjóðverjum settir afarkostir og til greiðslu himinhárra stríðsskaðabóta til Frakklands og allir vita hvernig fór. Þýskaland varð nánast gjaldþrota. Þýska markið varð einskis virði og fólk fór heim með launin sín í hjólbörum sem voru miklu meira virði en peningarnir sem voru fluttir heim. Þótt vissulega tækist að koma böndum á óðaverðbólguna í desember 1923 var Þýskaland illa haldið næstu árin á eftir.
Í Zimbabwe kom ofbeldið innan frá sem olli kreppunni og síðan óðaverðbólgu og þjóðargjaldþroti. Fjárhagurinn í Zimbabwe er enn í kaldakoli þótt sjá megi merki um bættan hag þjóðarinnar á næstunni.
Það er enn ekki orðin óðaverðbólga á Íslandi þótt landið sé nánast gjaldþrota. Ekki getum við heldur gengið sömu þrautagönguna og Þýskaland, enda er það löngu búið að vinna sig útúr vandræðunum og auki búið að taka upp evru sem við fáum ekki að taka upp vegna bágborins efnahags. Það er enn möguleiki á að taka upp Zimbabwedollar sem er álíka mikils virði og íslenska krónan.
Þá þarf íslenska þjóðin bara að greiða stríðsskaðabætur til Englands og Hollands og kannski nokkurra ríkja í viðbót. Með þessu er lítil hætta á að verðbólgan fari í nema nokkur þúsund prósent á næstunni. Mér finnst að auki sennilegt að við lærum af mistökum hinna ríkjanna og gætum þess að sterkir leiðtogar á borð við ...hugs... afsakið, Hitler og Mugabe komist ekki til valda í kjölfar gjaldþrotsins og neiti að greiða stríðsskaðabæturnar.
Einhver benti á að við gætum farið sömu leið og grannþjóð okkar í suðvestri, Nýfundnaland. Það varð gjaldþrota 1949 og sameinaðist Kanada í kjölfarið. Eftir slíka sameiningu verðum við öll Westurfarar eins og frændfólk okkar á þarsíðustu öld. ég er viss um að Kanadadollarinn verði mun heppilegri mynt en Zimbawedollarinn, enda gamla Reichsmarkið löngu aflagt.
Ég er að velta því fyrir mér hvort Pútín ætli að lána Davíð Oddssyni rúblurnar mínar sem ættu að vera orðnar að dálaglegri summu á 35 árum með vöxtum og vaxtavöxtum.
12. október 2008 - Slúðursögur!
„Er það satt að þú sért komin með nýja kærustu?“ spurði góð vinkona mín í fyrradag sem ég hafði ekki heyrt í um nokkurt skeið. Ég neitaði því og bætti því við að ég hefði ekki verið með neina kærustu í mörg ár og væri ekkert á leiðinni að finna mér neina. Á mínum aldri fengi fólk sér fremur rúgbrauð með kæfu á kvöldin, en að standa í einhverjum stórræðum þegar kæmi að svefntímanum.
Mér finnst dálítið merkilegt hve fólk hefur mikinn áhuga fyrir kynhegðun og kynhneigð minni, reyndar miklu meiri áhuga en ég hefi sjálf. Ég hefi oft fengið þessa spurningar í opinberum viðtölum og gjarnan svarað út í hött, kannski með þeim afleiðingum að orð mín hafa verið túlkuð á ýmsa vegu, allt frá því að vera trukkalessa til þess að vera heterósexual og allt þar á milli. Þá mætti ætla af spurningunum að ég hefði aflað mér fjörlegrar reynslu í rúminu í gegnum árin, bæði með körlum og konum og þá sjálf verið í báðum hlutverkum.
Best að taka það fram hér og nú að reynsla mín af bólförum er ekkert meiri en meðaljónsins og meðalgunnunnar í samfélaginu. Þótt ég hafi vissulega prófað eitt og annað hefi ég alls ekki stundað neitt ofurkynlíf og rekkjunautarnir verið síst fleiri en hjá fjölda annarra Íslendinga.
Ég er vissulega meðlimur í Samtökunum 78 og styð kvennahóp Samtakanna heilshugar enda fékk ég fyrstu viðurkenningu mína á Íslandi frá þeim góða hóp og það árum áður en ég hélt til Svíþjóðar í von um að komast í aðgerðarferli til leiðréttingar á kyni. Um leið kemur engum það við hvernig ég lifi mínu kynlífi og hver kynhneigð mín er. Það eru mörg ár síðan ég kom út úr skápnum sem transgender og það á að nægja hnýsni íslensku þjóðarinnar. Kynhneigð mín er svo mitt einkamál og kemur engum við nema sjálfri mér og þeim sem ég stunda kynlíf með.
Um leið kitlar það athyglissýkina að heyra ósannar en magnaðar lýsingar af kynhegðun minni.
laugardagur, október 11, 2008
11. október 2008 - Gamalt Gyðingabragð
Ég var einhverju sinni á leið frá Rinkeby til Södertälje með almenningsfarartækjum, fyrst með Tunnelbanan og síðan með Pendeltåget. Ég var með talsvert af rammíslenskri soðningu í plastpokum og virtist fólk hafa lúmskt gaman af öllum gaddfreðnu fisksporðunum sem stóðu upp úr plastpokunum sem ég hafði meðferðis á laugardagskvöldi. Ég reyndi að láta lítið bera á plastpokunum en hið gómsæta innihald hafði ég keypt af íslenskum námsmanni í Stokkhólmi sem hafði fengið risasendingu af ýsu að heiman til sölu meðal Íslendinga í Stokkhólmi. Heim komst ég, en ég bjó á þeim tíma í Södertälje og vann við vélaprófanir hjá Scania. Þetta varð mér hinsvegar til hugleiðinga um verslunartengsl fólks.
Þegar kreppti að Evrópuþjóðum fyrr á öldum voru Gyðingar í þessum löndum skynsamir. Þeir beindu allri verslun sinni inn á við, fyrst og fremst að fjölskyldunni, síðan að vinum og kunningjum og loks að öðrum Gyðingum. Í dag horfi ég á fólk frá Austurlöndum nær gera slíkt hið sama, Kúrdar versla við Kúrda, Tyrkir við Tyrki, Pólverjar á Íslandi við aðra Pólverja á Íslandi og Íslendingar í útlöndum versla gjarnan við aðra Íslendinga sem búa í útlöndum.
Af hverju ekki á Íslandi kreppunnar? Af hverju á ég að kaupa ljósaperur í Glóey þegar sonur minn selur perur í Lumex og eins spyr ég mig hví ég skuli rölta út í Nóatún eða Bónus til að kaupa í matinn þegar dóttir mín selur hið sama í Nettó?
Stundum fæ ég á tilfinninguna að við eigum að gera slíkt hið sama og Gyðingar, Tyrkir og Kúrdar, versla inná við. Ég tek það fram að ég hefi átt ágætis viðskipti við Hauk í Glóey og starfsfólk Bónuss og Nóatúns í Árbæjarhverfi og ekkert undan þeim að kvarta.
Ég lendi að vísu í enn einni sjálfhverfunni þegar haft er í huga að mágkona mín vinnur í Glitni og systir mín var í Sparisjóðnum en sjálf á ég góð viðskipti við Landsbankann eins og fram hefur komið áður í skrifum mínum. Ég get þó huggað mig við það að þjónustufulltrúinn minn í Landsbankanum er ættingi minn í fjórða lið (langömmur okkar voru systur).
Nú þarf ég bara að finna góða frænku sem vinnur í Ríkinu og aðra á bensínstöð og lífið er fullkomið þrátt fyrir allar kreppur!
föstudagur, október 10, 2008
10. október 2008 - En það er nóg eftir samt.
Þegar kreppan skall á 1967, þá átti íslenska þjóðin ágætan síldveiðiflota, en úreltan fiskveiðiflota að öðru leyti, gamlan vertíðarflota og rúmlega tuttugu gamla síðutogara. Allt samfélagið miðaðist við fisk og aftur fisk og fiskurinn brást, síldin hvarf og gífurlegt verðfall á Bandaríkjamarkaði fyrir fiskflök. Samt tók aðeins tvö ár að rétta úr kútnum og í framhaldinu var fiskveiðiflotinn endurnýjaður að stórum hluta jafnframt því sem stóriðjan hófst með íslenska raforku sem undirstöðu.
Þrátt fyrir liðónýta ríkisstjórn, steingeldan Seðlabanka og örvæntingarfullan breskan forsætisráðherra sem reynir að slá sér til riddara á kostnað íslensku þjóðarinnar í veikri von um endurkjör, þá er margt eftir í íslensku samfélagi. Það eru glæsileg nótaskip gerð út frá höfnum landsins, skuttogarar stórir sem smáir, við eigum mörg glæsileg raforkuver og álverksmiðjurnar skila óhemju fjármagni í þjóðarbúið. Undirstöðurnar eru mun öflugri en var fyrir fjörtíu árum. Þar erum við miklu betur sett en flest ríki Evrópu. Ferðaþjónustan stendur sömuleiðis vel sem sést ágætlega á fjölda nýrra hótela sem sprottið hafa upp eins og gorkúlur á undanförnum árum.
Öll þessi atvinnutækifæri eru hér til að vera. Flest þeirra verða ekkert tekin frá okkur. Það er vissulega möguleiki á að skipaflotinn verði seldur nauðungarsölu úr landi, en það er ólíklegt, enda hefur stórfelld gengisfelling krónunnar aukið hagnað útgerðarinnar og mun þegar til lengdar lætur bæta fjárhag þjóðarinnar. Fallvötnin eða gufan í jörðinni verða ekkert flutt úr landi til notkunar erlendis, né heldur kerskálar álveranna á meðan orkan er hér. Hótelin verða ekki rifin til endurrisu í London og svo má lengi telja. Þarna erum við í miklu betri aðstöðu en breska þjóðin getur státað sig af.
Tækifærin eru óteljandi. Við munum sigla í gegnum erfitt tímabil, en það er ástæðulaust að örvænta fyrir mörg okkar. Svo fáum við nýjar kosningar eftir tiltölulega stuttan tíma og þá verður hægt að kjósa nýtt fólk yfir okkur, vonandi hæfara en það sem nú stjórnar lífi okkar.
Ég virði Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir þá ákvörðun hennar að segja sig úr bankaráði Seðlabankans. Um leið sakna ég þess að hafa ekki Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í forystu þegar mest á reynir.
fimmtudagur, október 09, 2008
9. október 2008 - Rekum Davíð Oddsson!
Það er alveg ljóst eftir atburði gærdagsins að Davíð Oddsson er rúinn trausti. Hann er ekki bara rúinn trausti, hann hefur valdið íslensku þjóðinni óbætanlegu tjóni og það verður að láta þennan mann fara úr Seðlabankanum strax til að lágmarka tjónið sem hann olli með orðum sínum í Kastljósi í fyrrakvöld. Það þarf ekkert að kenna atburðum í Bretlandi um fall Kaupþings. Bretar svöruðu Davíð Oddssyni á þann hátt sem þeir gerðu.
Það er ekki nóg að láta hann fara. Það þarf einnig að reka hirðina sem Davíð hefur safnað í kringum sig í bankaráði Seðlabankans og það þolir enga bið. Síðan þarf nýtt bankaráð fagfólks að taka við Seðlabankanum, lækka vextina og reyna að laga ástandið eins og hægt er.
Jafnvel það er ekki nóg. Það verður þegar í stað að setja á fót opinbera rannsóknarnefnd til að yfirfara störf Seðlabankans síðustu vikurnar og draga þá menn til ábyrgðar sem ollu þessu tjóni.
Ég segi sem meðlimur í Samfylkingunni. Ef Samfylkingin leggur ekki þegar fram kröfu í ríkisstjórn um þessi mál með stjórnarslitum að veði, þá verð ég ekki lengur meðlimur í Samfylkingunni né heldur stuðningsaðili Samfylkingarinnar eftir helgina.
http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2008/10/09/atburdir_i_bretlandi_felldu_kaupthing/
9. október 2008 - Útrásin búin
Þá er ljóst skv. nýjustu útvarpsfréttum að Kaupþing er farið sömu leið og hinir bankarnir. Það væri gaman að vita hversu mjög orð Davíðs í Kastljósinu í fyrrakvöld áttu í þessu skyndilega falli.
Nú er kominn tími til að sumir ráðamenn fái að fjúka og hefi ég þá í huga í byrjun, stjórn og bankaráð Seðlabanka Íslands!
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item230373/
9. október 2008 - Um ljósatyppið í Viðey
Þegar áætlanir um uppsetningu ljósatyppis Yoko Ono í Viðey voru ræddar fyrir fáeinum árum, ræddi Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúi hátíðlega um framtíðina er ljósatyppið kallaðist á við nýja tónlistarhúsið í höfninni. Nú er ljósatyppið komið en tónlistarhúsið enn í smíðum og spurning hafa vaknað um framhald byggingarinnar.
Í gær var verið að prófa ljósatyppi ekkjunnar, enda hefði tónlistarmaðurinn eiginmaður hennar átt 68 ára afmæli í dag. Ekki tókst að láta það kallast á við tónlistarhúsið, en þess í stað kallaðist það á við Svörtuloft sem er jú næsta hús við hið hálfbyggða tónlistarhús og spurningin vaknar hvort aðgerðir sem ákveðnar voru í Svörtuloftum eigi þátt í að kollvarpa glæsilegum hugmyndum um tónlistarhúsið.
miðvikudagur, október 08, 2008
8. október 2008 - Hvað sagði Geir?
Ég var að horfa og hlusta á blaðamannafund sem Geir Haarde hélt núna áðan, en því miður gleymdi ég íslensk-íslensku orðabókinni heima. Ég skildi orðin sem hann sagði, en skildi ekki í hverju yfirlýsingar hans voru fólgnar. Hann hefði alveg eins getað ávarpað mig á rússnsku.
Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin ráði sér fjölmiðlafulltrúa sem kemur fram með yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar á tungumáli sem þjóðin skilur?
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/08/vidskipti_milli_landa_verda_tryggd/
8. október 2008 - Góður þjónustufulltrúi er gulli betri
„Mér er sama hvað þú gerir, en talaðu við mig ef þú sérð fram á greiðsluvandræði“
Ég er í hópi þess fólks sem kann ekki með peninga að fara. Mér tekst ávallt að eyða hraðar en ég afla auranna og þarf eiginlega að vera með virkan fjárhaldsmann sem stýrir eyðslunni minni svo ég eyði ekki umfram efni.
Eftir að ég flutti heim frá Svíþjóð og hóf störf hjá Hitaveitu Reykjavíkur, kynntist ég ágætlega hjálpsemi konu einnar, en þar sem ég festi bíl minn seint um kvöld í snjóskafli á Nesjavallavegi nokkrum dögum fyrir jól, birtist hún eins og engill út úr myrkrinu með skóflu í hönd. Tveimur dögum síðar átti ég erindi í banka og þá reyndist gjaldkerinn sem afgreiddi mig vera sama konan. Ég festist í þessum banka. Áður en langt um leið var launareikningur minn kominn í sama bankaútibú og síðan fylgdi á eftir greiðsludreifing, VISA-kort, yfirdráttarlán og síðar íbúðarlán.
Ég var einmitt að ganga frá fyrstu greiðsludreifingaráætluninni minni í bankanum þegar þjónustufulltrúinn sagði þessi fleygu orð við mig sem voru upphaf þessa pistils. Ég hefi farið eftir þessum orðum og nokkrum sinnum hefi ég lent í erfiðleikum sem hefðu getað valdið vanskilum ef ekki hefði verið vegna þessara orða. Í þessi skipti nægði að hringja eða mæta á staðinn og málin leystust fljótt og vel.
Þessum tveimur starfsmönnum Landsbankans á ég sérstaklega mikið að þakka, Ólafíu sem var gjaldkeri er ég hóf viðskipti við Grensásútibú Landsbankans í desember 1996 og Sólveigu sem hefur verið þjónustufulltrúinn minn öll þessi ár frá því fljótlega eftir þetta. Ólafía hefur fyrir löngu fært sig um set innan Landsbankans og er nú við bókhaldsstörf, en Sólveig starfar nú við útibúið í Kópavogi eftir að Grensásútibú og síðar Háaleitisútibú voru lögð niður.
Það er ekki gaman að standa frammi fyrir þeirri stöðu að vinnustaðurinn sem staðið hefur allt af sér í 123 ár er á barmi gjaldþrots. Ólafía og Sólveig, annað starfsfólk Landsbankans sem og annað venjulegt starfsfólk þeirra fyrirtækja sem nú eru að loka, á samúð mína alla og vona ég innilega að þær og allt þetta góða fólk fái réttan hlut sinn og stöðu á þessum erfiðleikatímum.
þriðjudagur, október 07, 2008
7. október 2008 - Þegar stjórnin fór á sjóinn...
Undanfarna daga hefur Geir Haarde reynt að vera landsföðurslegur og reynt að tala kjark í fólk, nánast eins og að það sé ekkert að óttast og allt í himnalagi. Á sama tíma hefur hann verið að tóna niður áhyggjur fólks af efnahagsvandanum sem virðist vera að hrella þjóðina og alheiminn.
Á mánudag mætti þessi sami Geir Haarde sjálfur fyrir alþjóð og tilkynnti henni með sorgarsvip að allt væri á leiðinni til helvítis. Hann dró orðin eins og gamall sveitaprestur í jarðarför, syrgði krónuna og hugsanlega Landsbankann og og boðaði aðgerðir. Hann hefði vart getað gert verr til að auka á áhyggjur þjóðarinnar.
Öfugt við Geir ætla ég að vera bjartsýn, enda þarf ég lítt að óttast atvinnuleysi fyrr en allt verður farið til fjandans. Það eru nefnilega til ráð gegn vandanum, kannski engar skyndilausnir en nóg samt til að viðhalda atvinnu í landinu á erfiðleikatímum.
Byrjum á kvótanum. 130 þúsund tonn af þorski á þessu fiskveiðiári? Til hvers að gera þorskinn ellidauðan? Hækkum kvótann upp í 200 þúsund tonn. Hækkum aðrar tegundir einnig um nokkur þúsund tonn.
Hverahlíðarvirkjun bíður þess að vera reist. Sömuleiðis Bitruvirkjun. Þótt ég sé ákaflega mikið í vafa um hana, þorir enginn að segja neitt ef hún verður reist í hvelli. Sömu sögu er að segja um virkjanirnar hans Hreins á Húsavík sem hann ætlar að nýta fyrir álverið á Bakka.
Borum á Austfjörðum, Vestfjörðum, Vaðlaheiði. Sýnum umheiminum að það er kraftur í íslensku þjóðinni og að hún er reiðubúin að vinna sig frá erfiðleikunum í stað þess að ganga um með hausinn undir hendinni og tautandi um að hengja þurfi útrásardrengina. Við getum svo gert það sem kaupbæti þegar búið verður að rétta samfélagið af að nýju, kannski ekki í bókstaflegri meiningu, en allt í lagi að draga suma til ábyrgðar þótt seint verði.
Allavega ætla ég að hressa upp á atvinnuskírteinið mitt og sjá til hvort ekki verði hægt að ná sér í túr og túr ef einhver vill fá miðaldra konu til afleysinga einn og einn túr á togara þegar ég er í fríi.
mánudagur, október 06, 2008
6. október 2008 - Fjallið fékk jóðsótt
Ríkisstjórn Íslands hefur þingað alla helgina með alþingismönnum og aðilum vinnumarkaðarins sem og stjórnendum lífeyrissjóða. Niðurstaðan var mjög lítil og einföld og ekki í samræmi við tilefnið sem er alvarlegar efnahagshorfur þjóðarinnar:
Fjallið fékk jóðsótt og það fæddist lítil mús
sunnudagur, október 05, 2008
5. október 2008 - Grunnstoðir eða yfirbygging?
Einhverju sinni, á síðasta námsári mínu í Vélskólanum þurfti ég á peningum að halda, en þótt kominn væri möguleiki á námslánum þegar ég var við nám, sótti ég aldrei um námslán. Ég rölti niður í Sparisjóð vélstjóra og óskaði aðstoðar. Hallgrímur sparisjóðsstjóri var í leyfi og stjórnarformaðurinn tók sjálfur á móti mér.
„Því miður, þú ert ekki með nógu mikil viðskipti til að eiga rétt á víxilláni“ svaraði stjórnarformaðurinn og orð mín um að ég væri í Vélskólanum og væri þarafleiðandi ekki með neinar tekjur að sinni, breyttu engu þar um og ég hrökklaðist út aftur með tóma vasa.
Daginn eftir rölti ég niður í Landsbanka við Austurstræti og hitti fyrir sjálfan Jónas Haralz þáverandi Landsbankastjóra og óskaði þriggja mánaða víxilláns.
„Þú getur ekkert greitt þetta á þremur mánuðum“ svaraði Jónas, „höfum þetta tólf mánuði svo þú þurfir ekki að framlengja víxilinn í sífellu.“
Eftir þetta hefur mér ávallt verið hlýtt til bankastjóra Landsbankans. Ég vil taka fram að Hallgrímur Jónsson þáverandi sparisjóðsstjóri SPV benti mér á síðar, að höfnun stjórnarformannsins hafi verið í trássi við starfsreglur sparisjóðsins.
Í fyrradag birtist viðtal við Jónas Haralz í útvarpinu. Þar benti hann á að munurinn á kreppunni 1967-1969 og þeirri kreppu sem skall á síðastliðinn mánudag, hafi verið sá að kreppan 1967-1969 hafi verið kreppa grunnstoða samfélagsins en nýja kreppan sé kreppa yfirbyggingarinnar. Þótt ég hafi ekki mikið vit á einstöku kreppuþáttum, get ég ekki annað en verið honum sammála. Árið 1967 brást síldin og markaðirnir í Bandaríkjunum hrundu fyrir þorskflökin. Það varð alvöru kreppa með þeim afleiðingum að fólk flúði land þúsundum saman og hefur sumt ekki enn snúið heim aftur.
Ég hefi stundum bent á í pistlum mínum að það sé álið sem bjargar okkur frá því að lenda í hinu sama og 1967. Nú hefur loðnan brugðist og þorskveiðikvótinn er langt undir öllu eðlilegu og þetta tvennt væri tilefni til kreppu ef þjóðfélagið væri svipað og 1967. Munurinn er sá að í dag eru eggin í fleiri körfum. Við höfum þrjú stór álver og ýmsan annan iðnað, margfalda ferðaþjónustu frá því sem var fyrir 40 árum. Við lendum vonandi ekki aftur í kreppu sem þeirri sem við kynntumst 1967.
Nýja kreppan er hagsældarkreppa, kreppa yfirbyggingarinnar. Nýja kreppan getur orðið enn dýpri en sú sem hrjáði okkur 1967, en hún getur sömuleiðis batnað á stuttum tíma. Nú er tækifærið að fjárfesta í hlutabréfum og sparnaði, nokkru sem Íslendingar hafa aldrei kunnað.
Hvernig væri að við hlustuðum aðeins betur á þá sem hafa reynsluna og þroskann?
laugardagur, október 04, 2008
4. október 2008 - Kreppa eða gróðavon?
Ekki ætla ég að kætast mikið með þessum pistli, til þess eru efnahagsmálin of erfið þessa dagana. En um leið má segja með sanni að eins dauði er annars brauð.
Verðbréfamarkaðurinn er hruninn. Stórfellt atvinnuleysi bíður handan við hornið og við sem erum eldri en tvævetur rifjum gjarnan upp kreppuna 1967-1969 og sjáum ýmis líkindi þar á milli. Ég var að vísu heppin því ég hélt vinnu á þeim tíma þótt ekki væru tekjurnar neitt til að hrópa húrra fyrir, ekki síst þegar haft er í huga að gripið var til sérstakra ráðstafana í tengslum við gengisfellinguna 1968 sem lækkaði hásetahlutinn um fjórðung sem styrk til útgerðarinnar. (Það var ekki ríkisstjórn og Alþingi sem styrktu útgerðina umfram það sem henni var rétt með gengisfellingunni, heldur var aumasta fólkið látið styrkja bláfátæka útgerðarmennina einnig).
Fyrir okkur sem ekki höfum tekið gengistryggð lán nýlega, höldum fastri vinnu og erum með verðtryggðan sparnað á mörgum stöðum er málið bara alls ekki svo slæmt. Vissulega fáum við líka á okkur vondan skell, en ekkert á borð við fólkið sem er að missa vinnuna, húsið og bílinn.
Ofaná allt sjáum við líka ljós í myrkrinu. Gengi hlutabréfa er í sögulegu lágmarki, en eins og kennt er í hagfræðinni, þá á að kaupa ódýrt og selja dýrt. Nú á að kaupa hlutabréf! Ég mæli með Glitni á nýja genginu!
föstudagur, október 03, 2008
3. október 2008 - Kvefpest
Þar sem ég hefi verið með einhverja kvefpest frá því á miðvikudag, ætla ég að sleppa djúphugsuðum pælingum um alkul og efnahagsmál, snjókomu, kuldakast og aðra óáran í pólitíkinni þar til á föstudagskvöldið. Reyni að bæta ykkur ritleysið þegar ég hefi sofið þetta úr mér.
Munið svo að nota hjálminn ef þið verðið fyrir fallandi krónum.
fimmtudagur, október 02, 2008
2. október 2008 - Kominn tími á nýjan bíl?
Ég var úti að aka á miðvikudag. Þurfti að skreppa í vesturbæinn í vinnuerindum að skoða upptekningu á dælum. Á leiðinni til baka í austurbæinn þar sem ég ók eftir Hringbrautinni veitti ég athygli svörtum Subaru Tribeka við hliðina á mér um leið og ég skaust framfyrir hann inn á Melatorg. Það fór ekkert á milli mála hver var undir stýri á bílnum sem bar einkennislit Svörtulofta.
Þrátt fyrir áratuga gamalt dálæti mitt á Subaru eðalvögnum fór ég að efast um heilindi mín í trúnaði við sömu bílategundina. Ekki síst þegar haft er í huga að þessi sami bíll hefur sést nokkrum sinnum síðustu dagana flytjandi ónefndan stjóra undir stýri með þý sín, ónefndan forsætisráðherra í farþegasæti við hlið bílstjóra og ónefndan fjármálaráðherra í aftursætinu.
Eftir að vinnu lauk, fór ég að skoða bifreiðar annarar tegundar sem eru til sölu hjá Brimborg. Er kannski kominn tími til að skipta?