Geir Haarde hefur enn sem komið er ekki viljað úttala sig um aðgerðir stjórnvalda um ráðstafanir vegna efnahagshrunsins. Það sýndi tómlegt drottningarviðtal við hann í Kastljósi sjónvarpsins í gær. Það er þó ljóst að það þarf að beita mjög hörðum aðgerðum gegn þjóðinni sem ekki vissi að verið var að gera hana að fíflum sem þurfa að borga reikninginn. Skattar og önnur gjöld munu hækka verulega, verðbólgan taka stórt stökk og við verðum öll mun fátækari en áður því það kostar miklar fórnir fyrir hverja einstaka manneskju að skulda allt í einu sex milljónum meira en fyrir einum mánuði.
Til er fólk sem ekki er reiðubúið að til að greiða þessar aukalegu sex milljónir og mun vafalaust leita út fyrir landssteinana að vænlegri framtíð. Sjálf er ég ekkert frábitin því að skoða mig um ef stjórnvöld gerast of stórtæk í skattheimtunni. Til þess að ég taki þátt í að greiða þessar sex milljónir, verð ég jafnframt að fá meira að segja um stjórn landsins en áður. Að minnsta kosti krefst ég þess að fá meiri áhrif til að hindra sölu ríkiseigna en hingað til, en jafnframt að landið verði opnað fyrir evrópskum áhrifum til að hindra spillingu undanfarinna ára.
Öfugt við íslenska innheimtulögfræðinga sem geta lítið sem ekkert aðhafst erlendis, en munu fitna eins og púkinn á fjósbitanum á Íslandi næstu árin, hefi ég talsverða möguleika erlendis. Ég get farið á sjóinn og siglt um höfin blá, fengið starf við orkuver í Svíþjóð og víðar. Svo er einnig um fjölda fólks sem senn mun yfirgefa landið í stað þess að byrja að stimpla í Reykjavík og verða áhorfendur að enduruppbyggingunni í skjóli skuldarinnar. Fjölmargir munu halda til Norðurlandanna og þeirra Evrópulanda sem standa okkur nærri í menningarlegu tilliti, dvelja þar um skeið og koma heim aftur uppfull reynslu og þroska.
Ekki ætti tungumálið að spilla fyrir. Það er auðvelt fyrir Íslendinga að læra norsku og sænsku þótt danskan standi mörgum fyrir þrifum. Þýskan er dásamleg þótt ég hafi aldrei getað lært hana þrátt fyrir tilraunir til slíks. Flæmska Hollendinga er sömuleiðis auðveld. Allsstaðar blasa við tækifærin fyrir Íslendinga sem vilja vinna vinnuna sína.
Mig grunar að fjöldi Íslendinga verði kominn niður fyrir 300.000 fyrir árslok 2009, en síðan fjölgar Íslendingum á ný.
Þegar þetta fólk snýr aftur verður það búið að snúast í skoðunum og orðið fylgjendur aðildar að Evrópusambandinu rétt eins og ég sjálf sem var mjög andvíg inngöngu Svíþjóðar í Evrópubandalagið á sínum tíma en snérist hugur þegar ég sá hve efnahagur Svíþjóðar batnaði með aðild að ESB.
Þá má þess geta að Ísland hefði sennilega aldrei hafnað í efnahagshruninu ef þjóðin hefði borið skynsemi til að ganga til liðs við ESB og myntbandalagið í lok síðustu aldar þegar staðan var slík að enn var möguleiki á inngöngu í myntbandalagið.
En hvort sem Davíð er á móti ESB eður ei (Geir er bara peð Davíðs), þá verðum við orðin meðlimir í ESB innan fjögurra ára, en fullgildir aðilar að myntbandalaginu nokkrum árum síðar.
fimmtudagur, október 23, 2008
23. október 2008 - Persónuleg þjóðhagsspá!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:07
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli