Ég var einhverju sinni á leið frá Rinkeby til Södertälje með almenningsfarartækjum, fyrst með Tunnelbanan og síðan með Pendeltåget. Ég var með talsvert af rammíslenskri soðningu í plastpokum og virtist fólk hafa lúmskt gaman af öllum gaddfreðnu fisksporðunum sem stóðu upp úr plastpokunum sem ég hafði meðferðis á laugardagskvöldi. Ég reyndi að láta lítið bera á plastpokunum en hið gómsæta innihald hafði ég keypt af íslenskum námsmanni í Stokkhólmi sem hafði fengið risasendingu af ýsu að heiman til sölu meðal Íslendinga í Stokkhólmi. Heim komst ég, en ég bjó á þeim tíma í Södertälje og vann við vélaprófanir hjá Scania. Þetta varð mér hinsvegar til hugleiðinga um verslunartengsl fólks.
Þegar kreppti að Evrópuþjóðum fyrr á öldum voru Gyðingar í þessum löndum skynsamir. Þeir beindu allri verslun sinni inn á við, fyrst og fremst að fjölskyldunni, síðan að vinum og kunningjum og loks að öðrum Gyðingum. Í dag horfi ég á fólk frá Austurlöndum nær gera slíkt hið sama, Kúrdar versla við Kúrda, Tyrkir við Tyrki, Pólverjar á Íslandi við aðra Pólverja á Íslandi og Íslendingar í útlöndum versla gjarnan við aðra Íslendinga sem búa í útlöndum.
Af hverju ekki á Íslandi kreppunnar? Af hverju á ég að kaupa ljósaperur í Glóey þegar sonur minn selur perur í Lumex og eins spyr ég mig hví ég skuli rölta út í Nóatún eða Bónus til að kaupa í matinn þegar dóttir mín selur hið sama í Nettó?
Stundum fæ ég á tilfinninguna að við eigum að gera slíkt hið sama og Gyðingar, Tyrkir og Kúrdar, versla inná við. Ég tek það fram að ég hefi átt ágætis viðskipti við Hauk í Glóey og starfsfólk Bónuss og Nóatúns í Árbæjarhverfi og ekkert undan þeim að kvarta.
Ég lendi að vísu í enn einni sjálfhverfunni þegar haft er í huga að mágkona mín vinnur í Glitni og systir mín var í Sparisjóðnum en sjálf á ég góð viðskipti við Landsbankann eins og fram hefur komið áður í skrifum mínum. Ég get þó huggað mig við það að þjónustufulltrúinn minn í Landsbankanum er ættingi minn í fjórða lið (langömmur okkar voru systur).
Nú þarf ég bara að finna góða frænku sem vinnur í Ríkinu og aðra á bensínstöð og lífið er fullkomið þrátt fyrir allar kreppur!
laugardagur, október 11, 2008
11. október 2008 - Gamalt Gyðingabragð
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:20
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli