Ekki ætla ég að kætast mikið með þessum pistli, til þess eru efnahagsmálin of erfið þessa dagana. En um leið má segja með sanni að eins dauði er annars brauð.
Verðbréfamarkaðurinn er hruninn. Stórfellt atvinnuleysi bíður handan við hornið og við sem erum eldri en tvævetur rifjum gjarnan upp kreppuna 1967-1969 og sjáum ýmis líkindi þar á milli. Ég var að vísu heppin því ég hélt vinnu á þeim tíma þótt ekki væru tekjurnar neitt til að hrópa húrra fyrir, ekki síst þegar haft er í huga að gripið var til sérstakra ráðstafana í tengslum við gengisfellinguna 1968 sem lækkaði hásetahlutinn um fjórðung sem styrk til útgerðarinnar. (Það var ekki ríkisstjórn og Alþingi sem styrktu útgerðina umfram það sem henni var rétt með gengisfellingunni, heldur var aumasta fólkið látið styrkja bláfátæka útgerðarmennina einnig).
Fyrir okkur sem ekki höfum tekið gengistryggð lán nýlega, höldum fastri vinnu og erum með verðtryggðan sparnað á mörgum stöðum er málið bara alls ekki svo slæmt. Vissulega fáum við líka á okkur vondan skell, en ekkert á borð við fólkið sem er að missa vinnuna, húsið og bílinn.
Ofaná allt sjáum við líka ljós í myrkrinu. Gengi hlutabréfa er í sögulegu lágmarki, en eins og kennt er í hagfræðinni, þá á að kaupa ódýrt og selja dýrt. Nú á að kaupa hlutabréf! Ég mæli með Glitni á nýja genginu!
laugardagur, október 04, 2008
4. október 2008 - Kreppa eða gróðavon?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:24
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli