Þessa dagana langar mann mest til að ganga hreint til verks gagnvart útrásarvíkingunum sem reyndust vera þrælar þegar á reyndi og sprengdu íslenska hagkerfið í loft upp. Þar er sennilega Hannes Smárason í broddi fylkingar, enda langt síðan ég heyrði vafasamar sögur af honum sem voru of ljótar til að hægt væri að trúa þeim, sögur sem virðast hafa verið sannar eftir allt saman.
Þrátt fyrir allt er þó einn útrásarvíkinganna sem ég ber meiri virðingu fyrir en öðrum í hópnum. Sá heitir Björgólfur Guðmundsson, var stjórnarformaður Landsbankans og fyrrum stjórnarformaður Hafskipa hf. Ég tek það fram hér og nú að ég hefi aldrei hitt hann í eigin persónu.
Þegar Hafskip varð gjaldþrota í desember 1985 gat ég ekki annað en fyllst samúð með Björgólfi og félögum. Þeir voru að reyna sitt besta til að gera Hafskip að stórfyrirtæki á alþjóðamælikvarða, útrásarvíkingar þess tíma. Það fór margt úrskeiðis og fyrstu mánuði ársins 1986 þurfti ég, sem vélstjóri hjá Eimskip, að sjá um daglegt eftirlit með tveimur skipum Hafskipa þar sem þau lágu bundin við bryggju í Reykjavík. Af einhverjum ástæðum varð mér vel til vina með nokkrum vélstjórum Hafskipa, kynntist síðar lítillega Páli Braga Kristjónssyni fjármálastjóra Hafskipa og hefi alla tíð talið Hafskipsævintýrið vera af hinu góða.
Á síðastliðnum árum hefi ég fylgst með Björgólfi Guðmundssyni með aðdáun, hve hann hefur verið í fararbroddi þess fólks sem vill færa íslenska menningu í hæstu hæðir. Þar nægir að nefna nýja tónlistarhúsið sem og væntanlegan Listaháskóla. Sjálf hefi ég einu sinni notið velvildar hans, en ég hlaut styrk úr minningarsjóði Margrétar dóttur hans vegna starfa minna í stjórn evrópsku Transgendersamtakanna TGEU sem nú eru loksins að verða pólitískt afl transgender fólks um alla Evrópu.
Ég tek það fram að þegar ég bölva útrásarvíkingunum í sand og ösku, þá er ég ekki með Björgólf Guðmundsson í huga.
Takk Björgólfur.
miðvikudagur, október 22, 2008
22. október 2008 - Björgólfur Guðmundsson
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:10
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli