þriðjudagur, október 07, 2008

7. október 2008 - Þegar stjórnin fór á sjóinn...

Undanfarna daga hefur Geir Haarde reynt að vera landsföðurslegur og reynt að tala kjark í fólk, nánast eins og að það sé ekkert að óttast og allt í himnalagi. Á sama tíma hefur hann verið að tóna niður áhyggjur fólks af efnahagsvandanum sem virðist vera að hrella þjóðina og alheiminn.

Á mánudag mætti þessi sami Geir Haarde sjálfur fyrir alþjóð og tilkynnti henni með sorgarsvip að allt væri á leiðinni til helvítis. Hann dró orðin eins og gamall sveitaprestur í jarðarför, syrgði krónuna og hugsanlega Landsbankann og og boðaði aðgerðir. Hann hefði vart getað gert verr til að auka á áhyggjur þjóðarinnar.

Öfugt við Geir ætla ég að vera bjartsýn, enda þarf ég lítt að óttast atvinnuleysi fyrr en allt verður farið til fjandans. Það eru nefnilega til ráð gegn vandanum, kannski engar skyndilausnir en nóg samt til að viðhalda atvinnu í landinu á erfiðleikatímum.

Byrjum á kvótanum. 130 þúsund tonn af þorski á þessu fiskveiðiári? Til hvers að gera þorskinn ellidauðan? Hækkum kvótann upp í 200 þúsund tonn. Hækkum aðrar tegundir einnig um nokkur þúsund tonn.

Hverahlíðarvirkjun bíður þess að vera reist. Sömuleiðis Bitruvirkjun. Þótt ég sé ákaflega mikið í vafa um hana, þorir enginn að segja neitt ef hún verður reist í hvelli. Sömu sögu er að segja um virkjanirnar hans Hreins á Húsavík sem hann ætlar að nýta fyrir álverið á Bakka.

Borum á Austfjörðum, Vestfjörðum, Vaðlaheiði. Sýnum umheiminum að það er kraftur í íslensku þjóðinni og að hún er reiðubúin að vinna sig frá erfiðleikunum í stað þess að ganga um með hausinn undir hendinni og tautandi um að hengja þurfi útrásardrengina. Við getum svo gert það sem kaupbæti þegar búið verður að rétta samfélagið af að nýju, kannski ekki í bókstaflegri meiningu, en allt í lagi að draga suma til ábyrgðar þótt seint verði.

Allavega ætla ég að hressa upp á atvinnuskírteinið mitt og sjá til hvort ekki verði hægt að ná sér í túr og túr ef einhver vill fá miðaldra konu til afleysinga einn og einn túr á togara þegar ég er í fríi.


0 ummæli:







Skrifa ummæli