Þegar kreppan skall á 1967, þá átti íslenska þjóðin ágætan síldveiðiflota, en úreltan fiskveiðiflota að öðru leyti, gamlan vertíðarflota og rúmlega tuttugu gamla síðutogara. Allt samfélagið miðaðist við fisk og aftur fisk og fiskurinn brást, síldin hvarf og gífurlegt verðfall á Bandaríkjamarkaði fyrir fiskflök. Samt tók aðeins tvö ár að rétta úr kútnum og í framhaldinu var fiskveiðiflotinn endurnýjaður að stórum hluta jafnframt því sem stóriðjan hófst með íslenska raforku sem undirstöðu.
Þrátt fyrir liðónýta ríkisstjórn, steingeldan Seðlabanka og örvæntingarfullan breskan forsætisráðherra sem reynir að slá sér til riddara á kostnað íslensku þjóðarinnar í veikri von um endurkjör, þá er margt eftir í íslensku samfélagi. Það eru glæsileg nótaskip gerð út frá höfnum landsins, skuttogarar stórir sem smáir, við eigum mörg glæsileg raforkuver og álverksmiðjurnar skila óhemju fjármagni í þjóðarbúið. Undirstöðurnar eru mun öflugri en var fyrir fjörtíu árum. Þar erum við miklu betur sett en flest ríki Evrópu. Ferðaþjónustan stendur sömuleiðis vel sem sést ágætlega á fjölda nýrra hótela sem sprottið hafa upp eins og gorkúlur á undanförnum árum.
Öll þessi atvinnutækifæri eru hér til að vera. Flest þeirra verða ekkert tekin frá okkur. Það er vissulega möguleiki á að skipaflotinn verði seldur nauðungarsölu úr landi, en það er ólíklegt, enda hefur stórfelld gengisfelling krónunnar aukið hagnað útgerðarinnar og mun þegar til lengdar lætur bæta fjárhag þjóðarinnar. Fallvötnin eða gufan í jörðinni verða ekkert flutt úr landi til notkunar erlendis, né heldur kerskálar álveranna á meðan orkan er hér. Hótelin verða ekki rifin til endurrisu í London og svo má lengi telja. Þarna erum við í miklu betri aðstöðu en breska þjóðin getur státað sig af.
Tækifærin eru óteljandi. Við munum sigla í gegnum erfitt tímabil, en það er ástæðulaust að örvænta fyrir mörg okkar. Svo fáum við nýjar kosningar eftir tiltölulega stuttan tíma og þá verður hægt að kjósa nýtt fólk yfir okkur, vonandi hæfara en það sem nú stjórnar lífi okkar.
Ég virði Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir þá ákvörðun hennar að segja sig úr bankaráði Seðlabankans. Um leið sakna ég þess að hafa ekki Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í forystu þegar mest á reynir.
föstudagur, október 10, 2008
10. október 2008 - En það er nóg eftir samt.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:59
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli