fimmtudagur, október 23, 2008

23. október 2008 – Um hin nýju bankastjóralaun með meiru

Undanfarna daga hafa laun bankastjóra hins nýja Kaupþings verið mjög til umræðu, enda þykja laun hans með því mesta sem viðgengst meðal ríkisstarfsmanna og sennilega álíka há og laun forsætisráðherra og forstjóra hinnar nýju Varnarmálaskrifstofu til samans. Sjálf hefi ég lítið getað kynnt mér hvað liggur á bak við laun bankastjóra á þessum síðustu og verstu tímum, enda á ég sjálf fullt í fangi með að ná endum saman, búandi í gamalli þriggja herbergja íbúð í blokk og ek um á öldruðum eðalvagni án myntkörfuláns.

En bíddu nú hæg. Er ekki tækifæri til að spara þarna? Þegar loksins er vegið að sjálfstæði þjóðarinnar af slíkri alvöru að þjóðfélagið riðar til falls, er virkileg ástæða til að kalla til ítrustu varna og þá er eðlilegast að kalla á forstjóra hinnar nýju varnarmálaskrifstofu og heyra hvað hún hefur til málanna að leggja í vörnum þjóðarinnar gegn ofureflinu. Mikil ósköp. Hún er búin að gera heilan helling. Hún er meira að segja búin að kalla til heila hersveit til aðgæta okkar á meðan við höldum heilög jól. Allt væri þetta þetta gott og blessað ef ekki væri fyrir þá sök að þessi sama herdeild kemur beinustu leið frá þeim aðila sem gengur einna fremst í því að brjóta niður íslenskt þjóðfélag. Einhverntímann hefði slíkt athæfi flokkast undir landráð.

Með því að Varnarmálaskrifstofan telur eðlilegt að hættulegasti óvinurinn verði jafnframt látinn gæta okkar, má álykta sem svo að þessi skrifstofa sé óþörf með öllu og ber að leggja niður með hraði og afþakka frekari afskipti hennar af vörnum þjóðarinnar. Með því að leggja niður Varnarmálaskrifstofuna og starf forstjórans sparast að auki talsvert fjármagn í bláfátæku þjóðfélagi.

Ef við hinsvegar lítum á starf bankastjórans sem í dag er talið álíka verðmætt og starf forsætisráðherra og forstjóra Varnarmálaskrifstofu til samans og starf forstjóra Varnarmálaskrifstofu er í besta falli einskis virði, er þá ekki eðlilegt að laun bankastjórans verði lækkuð niður í einföld laun forsætisráðherra?

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/23/bankastjorarnir_med_of_ha_laun/


0 ummæli:







Skrifa ummæli