Fólk hefur stundum á orði við mig að ég láti allt eftir kisunum mínum. Það er eðlilegt. Það er ekki þeim að kenna að þær voru þvingaðar til að búa með mér strax sem litlir kettlingar og hafa aldrei komist í burtu frá mér eftir það. Reyndar tel ég að þær hafi ekki átt illa ævi hjá mér, heldur þvert á móti. Ef þær eru úti og ég kalla á þær, hlýða þær oftast nær og jafnvel þegar þær eru í rannsóknarleiðangri niður við Elliðaár, nægir að hrista lyklakippuna duglega og þær koma hlaupandi.
Ég gæti þess að hreinsa kassann þeirra ekki sjaldnar en á þriggja daga fresti og engar hömlur eru þeim settar ef þær vilja kúra í rúminu hjá mér. Þá fá þær fjölbreytt fæði, velja á milli dósamats og þurrfæðis en fá stundum harðfisk á kvöldin og ýsuflak um helgar, val á milli vatns og AB-mjólkur og síðan þeyttan rjóma á skál á jólum.
Þær eru samt dálítið sjálfhverfar. Það þýðir nefnilega ekkert að bjóða kisunum mínum hvaða dósamat sem er. Það verður að vera Pussi-kattamatur og þurrfóðrið verður að vera frá Whiskas. Það þýðir ekkert að snúa hlutunum við og gefa þeim þurrfóður frá Pussi og dósamat frá Whiskas. Þá fara þær í fýlu og mjálma ekki við mig í heila viku.
Hvaðan ætli þær hafi þessa matvendni? Ekki frá mér, það er alveg víst!
þriðjudagur, október 14, 2008
15. október 2008 - Matvendni!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:53
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli