Áður en ég fer að monta mig af afrekum dagsins vil ég taka fram að ég missti af viðtalinu við Önnu Jonnu vinkonu mína á Stöð 2 á sunnudagskvöldið. Ég kom ekki heim úr fjallgöngu dagsins fyrr en klukkan var farin að ganga tíu um kvöldið.
Sunnudagsfjallgangan var bæði létt og ljúf, enda fjallið sem klifið var einungis 936 metra hátt. Eins og gefur að skilja, voru bæði Þórður og Kjói ennþá miður sín eftir föstudagsgönguna og þorðu ekki að koma með. Ég get glatt þá með því að ganga á Strútinn er slík kellingaganga að þangað upp fara stelpurnar helst á háhæluðu og sáum við merki þess á leiðinni upp. Því er Þórði alveg óhætt að koma með næst, hvort heldur hann er á flatbotna eða á háum hælum.
Á meðan við vorum á leiðinni upp hrönnuðust upp óveðursskýin í fjarska, en við létum það lítt á okkur fá og héldum áfram ofar og ofar. Um það leyti sem við gengum upp efsta hrygginn skall þokan á með tilheyrandi regni og hvassviðri. Við héldum samt áfram uns Guðrún Helga labbaði beint á GSM-mastur á toppnum og sáum við þá að hærra yrði ekki komist nema við nenntum að klífa mastrið sem við nenntum alls ekki. Í skjóli af vörðu tók hún svo upp skyrdollu og kom þá í ljós að hún hafði gleymt að borða morgunmatinn um morguninn.
Það verður að játast eins og er að það var sorglega lélegt útsýni af toppnum, þótt vissulega væri bæði kalt og blautt þar uppi. Því ákváðum við að flýta okkur niður aftur og tók ferðin niður öllu styttri tíma en leiðin upp. Við héldum síðan að Surtshelli og eftir stuttan stans þar, héldum við aftur til byggða og lentum að sjálfsögðu beint í umferðinni á leið til höfuðborgarinnar eftir helgina.
-----oOo-----
Ég veit um gott tækifæri fyrir lögregluna til að ná sér í aukaprik. Hún felst í því að fara út á þjóðvegina og mæla umferðarhraða þegar umferðin er mjög þétt eins og á sunnudagskvöldið. Kippa síðan þeim út á kantinn sem aka of hægt á meðan umferðin fer framhjá og lofa þeim hinum sömu síðan að halda áfram. Það er stórhættulegt að láta gamlingja á gömlum Toyota Touring keyra um á 60-70 km hraða í mikilli umferð þar sem hámarkshraðinn er 90 km og jafnaðarhraðinn væri einnig 90 ef gamlinginn væri heima hjá sér.
-----oOo-----
Ef fólki finnst myndirnar sem birtast á blogginu of litlar, er bara að klikka á þær og þær munu stækka. Svo eru nýjar myndir í myndaalbúminu að venju.
P.s. Hinn mjög svo þægilegi göngustígur upp á fjallið mun hér eftir verða kallaður Þórðarsveigur til minningar um manninn sem ekki kom með upp.
mánudagur, ágúst 14, 2006
14. ágúst 2006 – Sjáið tindinn, þarna fór ég
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:14
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli