Þegar Guðrún Helga stakk upp á því að við klifum Ásfjallið í vor er við vorum á göngu suður í Hafnarfirði, átti ég ekki von á öðru en að slíkt erfiði myndi einvörðungu leiða af sér svita og tár. Svo fór erfiðið að spyrjast út og nokkrum hólum síðar vildi Þórður bætast í hópinn. Það var sjálfsagt, enda sér maðurinn mun lengra en við, þó ekki væri nema sökum hæðar sinnar og ekki skemmir GéPéEssinn fyrir. Svo kom kjóinn og svo birtist hópur aðdáenda Þórðar sem óskaði eftir skráningu í hópinn. Þar með segi ég stopp. Við verðum ekki fleiri en tuttugu á fjalli í einu. Það þýðir ekkert að draga með þessar vinkonur hans sem virðast óska inngöngu af annarlegum ástæðum. Nei Pollý mín, þú færð ekki að vera með fyrr en þú hefur sannað þig með því að labba þrjá hringi um Elliðaárdalinn.
Þegar Þórður villtist á Kaldadal í leit sinni að Eyktarási á laugardaginn var, sáum við nokkra girnilega hóla sem kosta munu bæði svita og tár á næstu árum. Er nú slegist um hver verður næstur hóla að verða sigraður. Ég er með tvo hóla í huga, en stjórnarformaðurinn er úti í Finnlandi og ekkert má gera án hans samþykkis.
-----oOo-----
Það eru nokkur blogg sem hafa ekki verið uppfærð í mánuði. Bráðum fer ég að færa þau blogg sem ekki er skráð í minnst mánaðarlega, á varalistann.
-----oOo-----
Enn og aftur ítreka ég kertafleytinguna á Tjörninni á miðvikudagskvöldið klukkan 22.30
þriðjudagur, ágúst 08, 2006
8. ágúst 2006 – Hvernig endar þetta eiginlega?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:27
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli