Ég er þess enn minnug er ég átti að vera á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrir allmörgum árum, en í stað þess að heyra Ása í Bæ stjórna brekkusöng á Breiðabakka, var ég samferða bæjarfógetanum til Reykjavíkur sama dag og þjóðhátíð hófst. Hann sá sitt óvænna og ákvað að koma sér upp á land, svo hann yrði ekki brenndur á báli fyrir að hafa látið loka Ríkinu á miðvikudagsmorgni fyrir þjóðhátíð. Ástæða þess að ég þurfti að yfirgefa samkvæmið var önnur og betri, en dóttir mín fæddist viku síðar, á miðvikudegi eftir þjóðhátíð. Nú á dóttir mín afmæli og fær hún að sjálfsögðu hamingjuóskir frá mér í tilefni dagsins.
Um leið óska ég sjálfri mér til hamingju með daginn því nú er liðinn 2191 dagur síðan ég hætti að reykja eða nákvæmlega sex ár.
-----oOo-----
Það hefur komið fyrir undanfarna daga að sannleiksást mín hafi verið dregin í efa. Því er ljóst að ég verð að ítreka það sem ég hefi haldið fram áður, að frásagnir mínar af fjallaferðum og öðrum þáttum tilverunnar eru heilagur sannleikur og ekkert nema sannleikur. Ég veit að Þórður á það til að ýkja svolítið, en ekki ég. Ég þori að rétta tíu fingur upp til Guðs því til staðfestingar. Ef þið sjáið eitthvert misræmi á frásögnum okkar Þórðar, er það vegna þess að hann klínir oft smjöri á sannleikann, ekki ég.
Þetta minnir mig svo aftur á gamalt sakamál þar sem ég var ranglega ákærð fyrir þátttöku í smygli á nokkrum flöskum af sterku áfengi á þeim árum er ég vann við það fórnfúsa verkefni að færa varninginn heim hjá Óskabarni þjóðarinnar á honum Álafossi. Ég var kölluð til yfirheyrslu og þrátt fyrir ítrasta vilja minn til að leysa úr vandræðum Rannsóknarlögreglunnar, gat ég ekki annað en sagt þeim þann sannleika sem ég vissi bestan og sannastan. Eitthvað voru þeir efins um frásögn mína og sendu málið til saksóknara sem sendi málið áfram til dómarans.
Dómarinn sem dæmdi í málinu, hafði áður starfað sem fulltrúi bæjarfógeta í Vestmannaeyjum. Hann áttaði sig fljótlega á að hér væri illa farið með gott mál, enda mundi hann ekki betur en að ég hefði í löghlýðni minni og uppfull kærleika og sannleiksástar, fylgt fyrrum yfirmanni hans upp á land um árið er sá lét loka Ríkinu. Slík heiðursmanneskja gæti ekki staðið í stórsmygli á áfengi og sýknaði hann mig með hraði af öllum ákærum, en veitti rannsóknaraðilum ávítur fyrir slæleg vinnubrögð í málinu.
sunnudagur, ágúst 06, 2006
6. ágúst 2006 – 31 ár, 2191 dagur og sannleiksástin
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:06
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli