laugardagur, ágúst 26, 2006

26. ágúst 2006 – Náttúruhamfarir í Bláfjöllum?

Það á að reisa tónlistarhús ofan í höfninni í Reykjavík. Það á að verða hið glæsilegasta mannvirki, enda mun það kosta marga milljarða. Þar við hliðina á að reisa nýjar höfuðstöðvar Landsbanka Íslands. Út um allt spretta ný íbúðarhús, þjónustuíbúðir fyrir aldraða, skólar, jafnvel sjúkrahús. Vita menn ekki á hvernig svæði er verið að byggja öll þessi mannvirki? Eru yfirvöld gjörsamlega að ganga af göflunum? Hvað ætla þau að gera ef eldgos verður í Bláfjöllum og þunnfljótandi basaltið rennur yfir vatnsverndarsvæðið í Heiðmörk og fyllir Elliðavatnið á örskotsstundu svo það tæmist á augnabliki og flæðir yfir Árbæjarhverfið og Elliðaárdalinn, til sjávar og tekur með sér allar brýr á leiðinni?

Í næsta nágrenni Reykjavíkur eru virk eldstöðvasvæði, í Bláfjöllum, Hengli og úti á Reykjanesi. Jarðskjálftar eru tíðir með upptök við Kleifarvatn, í einungis 20 km fjarlægð frá Alþingishúsinu. Hér í Reykjavík erum við á miðju hugsanlegu hamfarasvæði. Samt er tugum milljarða hent í vafasamar fjárfestingar á þessu svæði á hverju einasta ári.

Ég er ekki að fara með neitt fleipur. Hengillinn er virkt eldfjall sem talið er að hafi síðast gosið fyrir einungis 2000 árum síðan. Síðasta eldgos í Bláfjöllum (Brennisteinsfjöllum) er talið hafa verið í kringum árið 1000 og jafnvel einhver smágos enn síðar. Miklir jarðskjálftar eru þekktir í kringum Kleifarvatn. Mikill hluti byggðar í Hafnarfirði og austurhluta Garðabæjar er á nýlega runnu hrauni. Samt er byggt austar og austar og sjálft Málgagnið búið að koma sér fyrir á sprungusvæðinu sem Sjálfstæðismenn hræddust svo mjög og vöruðu við fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1982. Ofan á þessu virka eldfjallasvæði hafa verið reistar nýjar jarðgufuvirkjanir sem munu án efa farast verði stórgos á svæðinu eða öflugir jarðskjálftar.

Á árunum eftir 1970 var borað eftir gufu í námunda við Kröflu ætlað fyrir nýja jarðgufuvirkjun sem reist var á Kröflusvæðinu. Árið 1975 hófust síðustu Kröflueldar, hrina 22 eldgosa sem stóðu yfir í samtals áratug. Heyrt hefi ég því fleygt fram að hinar miklu gufuboranir á svæðinu hafi orsakað slíkan létti á þrýstingi á svæðinu að það hafi flýtt fyrir eldgosahrinunni. Ekki vil ég fullyrða neitt í því sambandi, en hvernig munu Hengilssvæðið og Bláfjöll svara hinum miklu borunum sem nú eiga sér stað á svæðinu í námunda við sjálfa höfuðborgina?

Hinar miklu vatnsaflsvirkjanir á Þjórsársvæðinu eru á virku jarðeldasvæði og sjálf drottningin Hekla í næsta nágrenni. Jarðskjálftar eru þar tíðir og svæðið hlaut verulega eldskírn í Suðurlandsskjálftunum árið 2000. Virkjanirnar stóðust prófið með sóma og getum við svo sannarlega þakkað verk- og jarðfræðingum þeim sem stóðu að hönnun mannvirkja þar austur frá fyrir gott verk og mikla tæknikunnáttu. Margir þessir sömu jarð- og verkfræðingar hafa síðan unnið við framkvæmd hinnar nýju Kárahnjúkavirkjunar og þeir hafa sýnt það og sannað að þeim er treystandi fyrir hinu nýja verki. Þá hafa mannvirkin á Nesjavöllum fengið sinn skerf af jarðskjálftum og skjálftar sem hafa orðið á svæðinu hafa ekki einu sinni leyst út virkjunina og er það enn eitt dæmið um góða tækniþekkingu og verklag við hönnun nýrra virkjana hér á landi.

Í alvöru. Hættan er lítil á mjög alvarlegum náttúruhamförum á næstu áratugum eða öldum, en þær koma. Kannski eftir þúsund ár, kannski eftir tíu þúsund ár. Við skulum heldur ekki gleyma að Helgafellið í Vestmannaeyjum var talið útbrunnið fyrir 1973.

Ef allt fer til fjandans hérna, veit ég um eitt svæði sem er tiltölulega öruggt og utan við verstu hamfarasvæðin. Þangað munu sum okkar geta leitað ef Bláfjöll eða Hengill leggja Reykjavíkursvæðið í eyði. Það er Jökuldalurinn, neðan við hina nýju Kárahnjúkastíflu.

-----oOo-----

P.s. Það væri gaman að sjá samanburð á hættumati fyrir Kárahnjúkavirkjun annarsvegar og jarðgufuvirkjanir á Hellisheiði og Reykjanesi hinsvegar.

-----oOo-----

Ég týndi úrinu mínu í síðasta mánuði og fann hvergi þrátt fyrir mikla leit. Í gærkvöldi var ég forvitnast um dauða Strandamenn og fann þá úrið inni í Strandamönnum 1703-1953 bls. 387, en þar er getið áa ónefnds verkfræðings sem er að vinna við Kárahnjúkavirkjun.


0 ummæli:







Skrifa ummæli