Í hvert sinn sem ég hefi hitt Eyjamann uppi á landi á undanförnum árum, eða frá því ég flutti aftur til Íslands fyrir áratug síðan, hefur samtalið endað með orðum Eyjamannsins: “Þú mætir svo á Þjóðhátíð í sumar.” Ég hefi enn ekki mætt, hefi ekki komið til Vestmannaeyja síðan haustið 1988 og ekki mætt á þjóðhátíð síðan 1980. Ég viðurkenni þó að mig langar. Ég er þess fullviss að ég eigi enn góða vini í Eyjum sem myndu taka vel á móti mér.
Ég var að hugsa um þjóðhátíð á meðan ég var að hlusta á Árna Johnsen stjórna brekkusöng í útvarpinu áðan, svo skömmu eftir að móðir hans, hún Imba í blómabúðinni, kvaddi þessa veröld og hélt á framandi slóðir.
-----oOo-----
Ég vil minna fólk á kertafleytinguna á miðvikudagskvöldið klukkan 22.30 við Tjörnina í Reykjavík. Ég verð þar að venju og vonandi sem flestir vina minna, hvort heldur það eru bloggvinir, veraldlegir vinir, eða hvorutveggja. Þar verða seld kerti til fleytingar fyrir lítinn pening, einungis 400 krónur.
Í ljósi atburða liðinna daga í Líbanon má segja að áður hafi verið þörf, en nú er nauðsyn. Mætum öll.
mánudagur, ágúst 07, 2006
7. ágúst 2006 - Af þjóðhátíð og fleiru
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:20
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli