þriðjudagur, ágúst 15, 2006

16. ágúst 2006 – Stjörnudýrkun?

Ónefndur kunningi minn var mikill aðdáandi ensk-rússneska fórboltafélagsins sem kennt er við Seltjörn og hafði verið frá því ég heyrði hann fyrst tala um fótbolta í mín eyru. Með öðrum orðum, einlægur aðdáandi. Mér fannst það í góðu lagi þótt ekki væri ég mjög hrifin af mansali þeirrar gerðar sem rússneski arðræninginn Abramóvitsj stundar. Fyrir nokkrum vikum veitti ég því athygli að flöggin og veifurnar voru horfin og í staðinn komnar stærri veifur merktar spænska fótboltafélaginu Barþelóna. Ekki dytti mér til hugar að hætta að halda með Halifaxhreppi þótt markmaðurinn geðþekki, Lárus Bryti færi á eftirlaun.

Þetta flaug í gegnum huga mér í gær er ég heyrði af einhverjum leik milli Íslands og Spánar í boltasparki. Þó skyldist mér að enginn leikmaður áður umrædds fótboltafélags tæki þátt í leiknum, enda væri þetta bara æfingaleikur sem skipti litlu eða engu máli. Mikið var gert úr fjarveru leikmanna áðurnefnds fótboltafélags og mátti ætla að þeir lægju fyrir dauðanum eftir þátttöku í baráttu úti í heimi og þá helst fótboltamaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen. Af fjölmiðlum mátti ráða að fjarvera drengsins væri sem vörusvik, bullandi markaregn og hræðilegur ósigur framundan.

Ég veit ekki af hverju. Ég hefi ekki séð að Ísland hafi staðið sig vel í fotbolta á undanförnum árum, hvort heldur Eiður þessi spilar með eða ekki. Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að aðdáun Íslendinga á þessum dreng jaðri við stjörnudýrkun.

-----oOo-----

Ég er hálfslöpp er ég rita þennan stutta pistil og læt þetta nægja að sinni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli