mánudagur, ágúst 28, 2006

28. ágúst 2006 - Vegvillur á Selvogsgötunni


Sunnudagurinn rann upp bjartur og fagur og nú átti að leggja í langa göngu, nánar tiltekið Selvogsgötuna frá Selvogi til Hafnarfjarðar. Kannski var dagurinn ekki alveg eins bjartur og fagur og ætla mátti því heima lá Þórður og átti við fylgifiska þess að hafa farið á tónleika á laugardagskvöldinu og hann hringdi í mig og spurði syfjulega:
“Hurðu, hefurðu séð hvernig veðrið er?”
“Já Þórður minn, ég veit að það er smásúldarvottur á köflum, en það er spáð að létti til með morgninum og það verður væntanlega orðið þurrt þegar við leggjum í gönguna klukkan níu.”
“Jæja, ég kem þá á hjólinu til þín” svaraði syfjuleg röddin í tólinu mínu.

Eftir kortér hringdi Þórður aftur, greinilega enn með stýrurnar í augunum:
“Ég kem ekkert, það rignir allt of mikið”

Þar með misstum við af GéPéEssinum og Þórði og urðum að treysta á fararstjórann, Guð og lukkuna það sem eftir var. Ég lagði því af stað að heiman án Þórðar og varð að tilkynna aðdáendum hans sem biðu í hóp fyrir utan húsið hjá mér að venju, að Þórður væri með timburmenn og kæmist ekki í göngu dagsins.


Við vorum fimm sem hófum ferðina, fararstjórinn sem við skulum ekki nefna hér, en fyrsti stafurinn er Guðrún Helga, kortalesarinn Vigdís, Guðrún Vala og loks tvær stafkerlingar sem fá að fylgja með af alkunnri vorkunnsemi Guðrúnar Helgu, Sigrún og svo sú sem skrásetti þessa frásögn. Við fórum á vinstrigræna eðalvagninum suður í Selvog þar sem hann var skilinn eftir og lagt af stað. Það rigndi smávegis, ekki nóg til að fæla fimm ofurkerlingar frá, en öðru máli gegndi um suma sem lágu heima með timburmenn. Við héldum hinsvegar för okkar áfram og brátt sást ekki lengur til sólar og urðum við að ganga eftir stopulu minni því eins og vorir ástkæru lesendur vita, þá lá Þórður heima með GéPéEssinn og notaði hann til að mæla hraðann á sínum manni í Formúlu saumavél.

Við gengum alllengi og eftir að hafa fikrað okkur eftir neðri hluta Selvogsgötunnar, fundum við stikaða leið og þóttumst nú heldur betur hafa komist inn á rétta leið og gengum glaðar í bragði inn í þokuna. Eftir fjögurra stunda gang sáum við hvar rofaði til í fjarska og gall þá upp úr kortalesaranum Vigdísi:
“Þetta lítur út eins og Vestmannaeyjar þarna úti við sjóndeildarhring.”
“Ha, Vestmannaeyjar? Það getur ekki verið”

Herráðið var þegar kallað saman og haldinn fundur og aðstæður skoðaðar. Kortalesarinn dró upp kortin og kom þá í ljós að hún kunni ekki að lesa á kort og snéri þeim öfugt. Niðurstaðan varð því svo skelfileg að Þórður og GéPéEssinn hans máttu prísa sig sæla að hafa ekki fengið boð um að fara á sama stað og óskir hafa borist um hæli fyrir ónefndan sértrúarprédikara. Fyrir fótum okkar var Þorlákshöfn og Vestmannaeyjar í fjarska. Við höfðum þá gengið í austur allan tímann.


Við höfðum vart uppgötvað þennan nýja sannleika, en að fararstjórinn sem ekki hafði sagt eitt orð á meðan á öllu stóð, en legið í símanum, við skulum ekki nefna nein nöfn, en fyrsti stafurinn er Guðrún Helga, tilkynnti að það væri beðið eftir sér niðri í Þorlákshöfn og þar með var hún rokin af stað til Þorlákshafnar og kortalesarinn Vigdís á eftir henni. Eftir stóð Guðrún Vala með tvær stafkerlingar sér til halds og trausts og hefði vafalaust farið að hágráta ef nógu stórt tissjú hefði fundist í nágrenninu.

Þar sem flótti hafði hlaupið í liðið var ekki um annað að ræða en að rölta frá Þorlákshöfn til Selvogs, taka bílinn og aka grátandi heim á leið.

Muna að klikka á myndirnar til að fá þær í fullri stærð og svo eru myndir í myndaalbúminu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli