miðvikudagur, ágúst 09, 2006

9. ágúst 2006 – Félagi Álfheiður


Álfheiður Ingadóttir kom fram í sjónvarpi í fréttunum á þriðjudagskvöldið 8. ágúst og kvartaði hástöfum yfir því að hún og 30 manna hópur góðborgara sem var með henni í för, hafi verið undir eftirliti lögreglumanna. Sagði hún tilfinninguna óhuggulega, en þar sem fólkið var að nesta sig í grænni lautu, hafi skyndilega 7 manna hópur lögreglumanna í neongrænum vestum birst hinum megin við Jöklu með myndavélar og sjónauka.

Öðruvísi mér áður brá.

Félagi Álfheiður hefur löngum verið einörð baráttumanneskja gegn stóriðju og virkjunum og jafnframt stuðningsmanneskja þjóðlegra atvinnuvega eins og notað var um sjávarútveg og landbúnað á sjöunda áratugnum þegar hátt var látið í baráttunni gegn Búrfellsvirkjun og álveri í Straumsvík. Guði sé lof að sá tími er liðinn þegar útgerðarauðvaldið stjórnaði ríkisstjórninni og ákvað kaup og kjör í landinu með stjórn gengismála. Þá voru öll eggin í einni körfu og það notfærði útgerðarauðvaldið sér út í ystu æsar. Betur að völd þess minnkuðu enn frekar. Nú eru þó körfurnar þrjár (sjávarútvegur, stóriðja og ferðaþjónusta).

Þegar Álfheiður mætti á mótmælafundi fyrr á árum ásamt hundruðum og þúsundum íslenskra góðborgara gegn fjöldamorðum og blóðugum styrjöldum og stríðsglæpum úti í heimi, eða þá gegn hernum og Nató, eða þegar hún tók þátt í friðsamlegum Keflavíkurgöngum, mættu henni ekki einungis lögreglumenn í svörtum júníformum, heldur einnig leynilöggur á mála bandarísku leyniþjónustunnar í hvítum frökkum og tóku af henni myndir. Þessu hefur vesalings Álfheiður greinilega gleymt. Ég hefi ekki gleymt því. Hún ætti frekar að þakka lögreglunni fyrir að mæta í neongrænum einkennisfötum svo eftir þeim verði tekið.

Það eru komnir dagar og ár síðan ég og félagi Álfheiður vorum í sama flokki. Að nokkru leyti hafa skoðanir okkar fjarlægst hvorar aðrar, t.d. gagnvart iðnvæðingunni og Evrópusambandinu, en við getum alveg haldið áfram að fallast í faðma í baráttunni gegn herstöðvum, stríði og kúgun í heiminum. Af nógu er að taka.

-----oOo-----

Ég hefi tekið aðeins til á listanum mínum til hliðar, fækkað þeim aðilum sem eru hættir að blogga, en bætt við nokkrum öðrum í þeirra stað (Álfhildur, Erla, Erna, Guðríður, Sigríður) Sömuleiðis hefi ég sett inn krækju á Amnestyvefinn um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Ef einhverjir vilja losna frá þeirri áþján að vera með á listanum er bara að láta mig vita. Sama gildir ef einhver vill vera með á listanum, en er þar ekki.

-----oOo-----

Enn og aftur minni ég á kertafleytinguna á Tjörninni á miðvikudagskvöldið. Hún hefst klukkan 22.30 við suðurenda Tjarnarinnar og friðarsinnar munu selja kerti til fleytingar á viðráðanlegu verði eða aðeins á 400 krónur stykkið. Ég verð þar og væntanlega verður félagi Álfheiður þar líka sem og aðrir góðborgarar og friðarsinnar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli