Til að byrja með, ber að taka það fram að Kjóinn var dæmdur í einnar ferðar bann fyrir að þjófstarta, er við gengum á Skálafell og vonandi að hann verði stilltari næst. Hann var því ekki með í föstudagsgöngunni, en hann verður væntanlega orðinn nógu stilltur að hægt sé að taka hann með á Vífilfellið eða eitthvað annað fell seinnihluta vikunnar.
Föstudagsgangan hófst með þvi að ég ásamt einum aðstoðarmanni, nafn hans skiptir ekki máli, en við skulum kalla hann Þórð, héldum í austurveg og var ætlunin að klífa hið fagurbláa og himinháa Ármannsfell ofan við Þingvelli. Er við komum austur á Þingvelli lá súldin yfir öllu og ljóst að erfitt yrði að finna topp fjallsins nema með aðstoð Þórðarnefs þess sem getið var í pistli Þórðar sjóara síðastliðinn miðvikudag sem og kompáss og GéPéEss þess hins sama. Það varð þó fljótt ljóst að það var lítt hægt að taka mark á tækjum og tólum Þórðar svo ekki sé talað um Þórðarnefið mikla, því eftir að hafa gengið í þrjú kortér í þokunni, komum við að pulsuskálanum í þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum.
Eftir þetta greip ég til minna ráða, tróð Þórði inn í minn vinstrigræna eðalvagn, héldum upp að Bolabás og hófum nýja leit að fjallinu þaðan. Ég gerði mér um leið grein fyrir því að Ármannsfellið væri fullmikið fyrirtæki að unnt væri að finna það allt á einum degi og því ákváðum við að leita einungis að hinum sögufræga Eyktarási sem bræðurnir Jónas og Jón Múli gerðu ódauðlegan í ljóðinu góða.
Það var gengið af stað og gengið og gengið. Brátt var þokan orðin svo dimm að við sáum ekki handa okkar skil og Þórður sá ekki niður á fæturna á sér, enda maðurinn með afbrigðum hávaxinn. Áfram héldum við og vorum brátt orðin rammvillt. Er við sáum ekki aðra leið úr ógöngunum en að setjast á dönskunámskeið og reyna að kalla til danska björgunarþyrlu, rofaði skyndilega til um stund og við áttuðum okkur á því að við værum allnærri Eyktarási, en ekki olli uppgötvun okkar neinni bjartsýni því þarna rákust við á útbúnað leitarmannanna sem héldu frá Þingvöllum til leitar að Eyktarási um miðjan sjöunda áratuginn og hafði aldrei spurst til þeirra síðan.
Aftur dimmdi yfir og við héldum áfram og ráfuðum í þokunni uns við rákumst á umferðarskilti sem sett var upp eftir að Skúli og Sörli voru þarna á ferð á átjándu öld og ber það mynd þeirra félaga og hefur Skúlaskeið ekki borið sitt barr síðan og er nú vandlega skráð í bækur. Þarf ekki að eyða frekari orðum á það.
Öfugt við það sem ætla mátti er við fjarlægðumst mannabyggðir frekar, jókst umferð gangandi, ríðandi og akandi ferðalanga og ljóst að erfitt mun fyrir útilegumenn að dyljast yfirvöldum á þessum slóðum í framtíðinni Enn létti til og vorum við þá upp undir Eiríksjökli í allri sinni dýrð, en áfram skyldi haldið. Við héldum áfram yfir fjöll og dali, niðdimma hella og vorum við að gefast upp er Þórður hrópaði skyndilega upp fyrir sig þar sem höfuð hans stóð eitt upp úr þokunni, en Þórður er mjög hávaxinn maður eins og ég hefi nefnt áður: “Ég er búinn að finna Eyktarás.”
Mikið rétt. Þarna var Eyktarás í allri sinni dýrð og eftir myndatökur, gátum við haldið heim á leið og fagnað áunnum sigri.
föstudagur, ágúst 04, 2006
5. ágúst 2006 - Svaðilför á Eyktarás
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:54
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli