...réði sjávarútvegurinn öllu á Íslandi og það skipti engu máli hvaða flokkar sátu í ríkisstjórn. Í hvert sinn sem verðfall var á fiski á mörkuðum erlendis eða aflasamdráttur, var gengið fellt. Í hvert sinn sem illa svikin alþýðan fékk einhverja leiðréttingu launa sinna eftir síðustu gengisfellingu, var gengið fellt aftur og svo koll af kolli og það var óðaverðbólga í landinu.
Þjóðartekjur Íslendinga framanaf tuttugustu öldinni komu frá fiskveiðum. Frá því að veiðarnar höfðu verið svo litlar að það rétt dugði fyrir fátæka alþýðu að draga fram lífið á laununum, varð Ísland að einu allsherjar vertíðarsamfélagi þar sem allt snérist um fisk og fiskveiðar. Það var ekki fyrr en um miðjan sjöunda áratuginn sem fór að örla á breytingum í átt til aukinnar fjölbreytni í atvinnuvegum þjóðarinnar. Þá var samþykkt á Alþingi að virkja Þjórsá við Búrfell sem og að reisa kísilgúrverksmiðju í Mývatnssveit og álver í Straumsvík sunnan Hafnarfjarðar. Síðan þá hafa Hafnfirðingar ekki þurft að bursta í sér tennurnar.
Þegar frumvörp um þessar verksmiðjur voru til meðferðar á Alþingi, greiddu allir alþingismenn Alþýðubandalagsins atkvæði gegn þessum stóriðjuáformum sem og flestir þingmenn Framsóknarflokksins. Það verður reyndar að hafa í huga að Framsóknarmenn spyrja ekki hvað er best fyrir þjóðina, heldur hvað er best fyrir eigin völd. Þannig gat bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði ómögulega ákveðið sig hvort hann ætti að vera með eða á móti samningi við Alusuisse, því þann 26. apríl 1966 greiddi hann ýmist atkvæði með eða á móti samningi Hafnarfjarðarbæjar við Alusuisse. Meðal stjórnarandstöðunnar var höfuðáhersla lögð á þjóðlega atvinnuvegi, þ.e. landbúnað og sjávarútveg, óskaplega sætt markmið, en ekki alveg raunhæft.
Með byggingu álvers í Straumsvík og kísiliðju í Mývatnssveit var hafin ný sókn til uppbyggingar nýrra atvinnuvega á Íslandi. Það dugði þó ekki til því þrátt fyrir að Íslendingar væru í hópi tekjuhæstu þjóða árið 1966, urðu þáttaskil árið 1967. Fyrst hrundu síldarstofnarnir og svo varð verulegt verðfall á þorski á Ameríkumarkaði. Í einum vettvangi varð íslenska þjóðin sem hafði verið ein sú ríkasta í Evrópu 1966, ein sú fátækasta. Þetta kostaði fólksflótta af landinu og geysilegt atvinnuleysi. Þótt ástandið lagaðist aftur eftir tvær stórar gengisfellingar, var ljóst að það þyrfti að koma fleiri stoðum undir atvinnulíf Íslendinga. Það skeði fátt næstu áratugina, raunverulega ekkert að ráði fyrr en á tíunda áratugnum þegar farið var að byggja fleiri álver. Þá hafði landsbyggðin nákvæmlega sömu úrræðin og forðum, fisk og aftur fisk. Sjálf kynntist ég Austfjörðum nokkuð 1996-2000 og sá hvernig stefndi í fólksflótta. Fólkið sem ekki vildi vinna í fiski fór í burtu og í staðinn komu aðkeyptir útlendingar. Síðan þá hefi ég verið einlægur álverssinni fyrir hönd Austfirðinga.
Það hefur margt breyst frá sjöunda áratugnum. Það mikilvægasta er að nú eru fleiri þættir sem halda atvinnulífinu gangi en áður. Það eru ekki lengur öll eggin í sömu körfunni, heldur er atvinnulífið orðið verulega fjölbreyttara en áður. Nú getum við valið um álver eða ferðaþjónustu eða fjármálastarfsemi. Við þurfum ekki lengur að fara á togara eftir grunnskólann.
Ég vona að við þurfum aldrei aftur að upplifa einokunartíma gamla útgerðarauðvaldsins.
fimmtudagur, ágúst 24, 2006
24. ágúst 2006 – Fyrstu 35 ár ævi minnar....
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:30
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli