þriðjudagur, ágúst 22, 2006

22. ágúst 2006 - Fundist hefur húsfreyjugen!

Nú er illt í efni. Bæði Þórður sjóari og Steini litli flóttamaður hjá hinum sebrahestunum suður í Afríku, búnir að finna húsfreyju- og hommagenið í sér og Þórður að auki búinn að þróa það svo vel með sér, að hann er farinn að skipta á kúkableyjum eins og ekkert sé. Á meðan sit ég hér heima í óburstuðum skóm og hleyp á fjöll í stað tiltekta og saumaskapar. Það verður að gera eitthvað í þessu máli.

Í morgun var mér nóg boðið, hristi af mér slyðruorðið, henti köttunum út í garð og þurrkaði af og skúraði, þvoði nokkrar þvottavélar og tróð pappírsbunkanum inn í skáp þar sem hann mun liggja uns annar bunki leggst ofan á hann eða þá að ég yfirfer bunkann og raða í möppur. Þvílíkur dugnaður. Ég gerði betur því ég endurnýjaði dyraskrána hjá mér til samræmis við nýja masterkerfið sem var sett hér í húsið fyrir tveimur mánuðum. Síðan hljóp ég með gamlan dagblaðabunka út í blaðagám og kembdi síðan kettina um leið og ég hleypti þeim inn aftur. Ekki gerðist ég samt eins gróf og Þórður sem fær börn lánuð til að skipta á þeim. Þess þarf ekki í mínu tilfelli því barnabörnin eru laus við bleyjuna og farin að draga til stafs.

Hvernig ætli standi á þessum dugnaði hjá mér? No komment, en fæst orð hafa minnsta ábyrgð.


0 ummæli:







Skrifa ummæli