sunnudagur, ágúst 27, 2006

27. ágúst 2006 - Sunnudagsgönguferðin

Ég iða í skinninu eins og lítill krakki á leið í fyrsta skólaferðalagið. Ég er búin að pakka ofan í bakpokann minn, aukanærbuxum, aukasokkum, húfu og vettlingum, nesti, og guð má vita hvað fleira hefur lent í pokanum.

Það er þó ekki eins og einhver sæla sé framundan. Þvert á móti sjáum við fram á erfiði og þrældóm á sunnudag. Þá ætlum við að ganga frá Selvogi til Hafnarfjarðar. Um leið verður þetta fyrsta þolraunin okkar ef þolraun skyldi kalla.

Þetta hljóta að vera ansi skemmtilegar göngur hjá okkur. Við byrjuðum tvær að rölta og nú verðum við sex í göngu sunnudagsins sem höfum staðfest þátttöku.

-----oOo-----

Það er mikið um að vera á íþróttasviðinu þessa dagana. Hetjurnar fótfráu í Halifaxhreppi unnu loksins sinn fyrsta sigur á haustinu er þær lögðu Cambridge United á útivelli og og blasir nú ekkert nema sæla við þeim og sífelldir sigrar. Þar er að vísu við ramman reip að draga, því fimm efstu liðin í kvenfélagsdeildinni hafa ekki tapað leik enn sem komið er þar af hafa tvö þau efstu unnið alla sína leiki. Þau verða samt að sætta sig við tapið þegar mínir menn fara að herða upp hugann og nálgast toppinn.

Sameiningu Mannshestanna gengur sömuleiðis ljómandi vel og hafa þeir unnið alla fimm fyrstu leikina í fyrstu deild Vestfjarðakjálkans (NorthWest Countys Division One) og virðast þeir hafa burstað mótherjana í fimmtu umferð með sjö marka mun ef marka má óstaðfestar tölur. Ef heldur áfram sem horfir verða þeir komnir í langefstu deild eftir átta ár og þá má gamla Mannshestafélagið sem lenti í klónum á Malcolm Glazer fara að gæta sín.

Loks er ég þess fullviss að fjarvera GéPéEss tækisins á öxlum Þórðar muni koma hans hetju langt í góðaksturskeppninni í Tyrklandi í dag. Öllu verri eru horfurnar hjá mínum manni og er ég enn miður mín. Fyrir tveimur árum, eftir að hafa horft á heimsmethafann geðþekka vinna hvert mótið á fætur öðru, skrapp ég austur á Kárahnjúka einn sólríkan sunnudag og olli sá sunnudagur jafnframt þáttaskilum í sigurgöngu kappans á rauða bílnum því hann hefur tapaði flestum keppnum eftir það þar til nú nýlega.


0 ummæli:







Skrifa ummæli