mánudagur, ágúst 21, 2006

21. ágúst 2006 - Nú brást Þórður


Það var fyrirhuguð Esjuganga á sunnudaginn. ég var búin að baka og hella upp á könnuna og beið þess að væntanlegir göngugarpar dagsins mættu í litla eldhúsið mitt til að fá sér örlitla hressingu fyrir gönguna góðu er síminn hringdi. Það var Þórður:
“Hurðu, ég kemst ekki í göngu í dag. Ég er fárveikur.”
“Jæja Þórður minn, ertu ekki bara með timburmenn eftir menningarnóttina?”
“Nei,nei, ég drakk sáralítið og var ekki að nema til klukkan sex í morgun”

Ég tók veikindaforföll Þórðar góð og gild, rétt eins og forföll Guðrúnar Völu sem var að lesa undir próf og Guðrúnar Helgu sem var með harðsperrur eftir maraþonhlaup gærdagsins sbr mynd hér til hliðar.

Ég hringdi í Kjóann:
“Ég er að hringja í þig til að minna þig á Esjugöngu á eftir.”
“Hurðu, ég kemst ekki í göngu í dag. Ég er dauðþreyttur eftir að hafa borið út blöð í alla nótt”

Eftir sat ég ein heima með hlaðið borð með veislukosti og nýlöguðu kaffi og velti fyrir mér hvað ég ætti að gera um eftirmiðdaginn því vart nennti ég að labba ein á fjall. Þá hringdi síminn. Það var aðdáandi Þórðar.
“Hurðu, er Þórður mættur? Ég er hér fyrir utan hjá þér með nesti og nýja skó og tilbúin til að leggja í fjallgöngu”

Ég varð að hryggja Sigrúnu með því að Þórður lægi fyrir dauðanum, en ég gæti alveg farið á fjall með henni í stað Þórðar. Síðan héldum við tvær, ég og nýjasti meðlimur gönguhópsins þreytta, upp að Mógilsá og héldum til fjalla. Sigrún telst vera óvön göngum, enda höfðum við allan eftirmiðdaginn fyrir okkur og ákváðum að rölta bæjarhólinn í rólegheitum, en ekki í hægðum okkar eins og Þórður vill.

Við fikruðum okkur upp eftir fjallinu í rólegheitum en þegar ég kom upp að hamrabeltinu, var Sigrún horfin upp fyrir klettana og komin á toppinn þótt ég ætti enn eftir heilmikið klifur. Ég lenti reyndar á stuttu spjalli við einn fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins og konu hans og gleymdi myndavélinni að venju, en það var óþarfi að fara í fýlu við mig vegna þess. Sjálfri tókst mér að klöngrast upp á toppinn og rakst þar á einn deildarstjóra hjá Orkuveitunni sem var ekki með í hópnum sem átti að draga með á Esjuna þennan dag. (sjá myndaalbúm).

Við urðum samferða hjónum með þrjá stráka af toppnum, einn ungling og tvo fimm ára, sennilega tvíbura. Það var gaman að fylgjast með strákunum og ánægjunni sem skein úr andlitum þeirra er foreldrarnir notuðu beltin sín til að halda við þá er farið var niður fyrir klettabeltið. Mig grunar að þeir eigi eftir að njóta útivistar í framtíðinni.

Á leið niður hitti ég Hörð frænda minn Torfason sem var á uppleið ásamt sínum ektamaka. En sárast þótti mér þó að gleyma myndavélinni er ég mætti Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni stjórnarformanni Landsvirkjunar berum að ofan með öfuga derhúfu á hlaupum upp fjallið með hund í bandi. Það hefði orðið flott mynd, enda maðurinn flottur. Það er greinilegt að Esjan er heitur staður fyrir unga sem aldna. Hvenær fæ ég að sjá félaga Álfheiði á Esjunni? Myndir eru komnar inn af göngunni að öðru leyti.

-----oOo-----

Með þessum orðum sendi ég Þórði hamingjuóskir með 37 ára afmælið og vona að þynnkan verði ekki mjög slæm í dag.


0 ummæli:







Skrifa ummæli