föstudagur, ágúst 25, 2006

25. ágúst 2006 - Svikist um fjallgöngu

Aðfararnótt miðvikudagsins óskaði ég eftir sjálfboðaliðum til að koma með mér í þægilega fjallgöngu á fimmtudag. Og viti menn, hér var allt barið utan um hádegi á fimmtudag og engin ég tilbúin í fjallgöngu. Sjálf lá ég í rúminu með einhverja kveisu og gat ekki hugsað mér að skríða á fætur fyrir klukkan þrjú. Ég get huggað stjórnendur Orkuveitunnar með því að ég er að taka út sumarleyfisdaga og hafði því ekki einu sinni þessa afsökun fyrir því að nenna ekki að mæta í vinnuna. Þar sem ég gat ekki hugsað mér að eyða fríinu í rúminu varð lítið úr veikindunum og ég komst á fætur fyrir kaffi.

Þetta minnir mig svo aftur á einustu afsökun sem togarasjómenn í gamla daga höfðu fyrir því að vera ekki standbæ úti á dekki alla vaktina þegar allt var á kafi í fiski, en það var mikilvægt verkefni á náðhúsinu. Það var svo hann Siggi gamli á Hrafnistu sem lenti í útvarpsviðtali og spyrillinn spurði hvert væri eftirminnilegasta atvikið sem hann hefði lent í á sínum langa sjómannsferli.
“Það var þegar ég þurfti að bregða mér á kamarinn á frívaktinni” svaraði Siggi gamli.

-----oOo-----

Ég ók á eftir einum sem ég hélt að væri með biluð stefnuljós í kvöld. Þegar ég var búin að skrifa bílnúmerið á handabakið á mér svo ég myndi það alveg örugglega til að setja á bloggið, gaf fíflið stefnuljós og lét sig hverfa inn einhverja hliðargötu og ég sat uppi með einskis nýtt bílnúmer párað á handarbakið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli