Ég var á næturvakt aðfararnótt miðvikudagsins um borð í Dettifossi, enda verð ég helst að vera í þremur vinnum ef ég vil eiga fræðilega möguleika á að komast í hóp 2400 ríkustu, fallegustu og gáfuðustu einstaklinganna sem þetta þjóðfélag hefur alið af sér. Ekki sá ég Stebba Rósu frænda hans Pedro de la Rosa á listanum, en Grímur á Felli var þar, greinilega skítblankur sem og fleiri ágætir Eyjamenn sem nú eru flúnir upp á land frá Þjóðhátíðarfárinu.
Eftir hádegið hélt gönguhópurinn Eitt skref í einu, sem Þórður vill helst kalla kleyfhugana, til fjalla. Ekki var ráðist á garðinn þar sem hann var hæstur, heldur tekið fyrir Skálafell á Hellisheiði sem mér skilst að sé um 574 metrar yfir sjávarmáli. Við Þórður töldum það nauðsynlegt að velja létt fjall því við vorum með óvanan göngumann með okkur sem þurfti á þjálfun að halda og við vildum ekki sprengja hann á fyrsta fjalli. Þetta var Sverrir sem er nýlega hættur að reykja og því áttum við von á hinu versta, maðurinn illa búinn til fjallaferða á léttum strigaskóm og án alls útbúnaðar. Við Þórður vorum fljót að hrista Sverrir af okkur og týndum honum í þokuslæðingi, en þegar við nálguðumst toppinn sáum við hvar hann var á fullu að taka myndir ofan af fjallstoppnum.
Stjórn gönguhópsins Eitt skref í einu á enn eftir að taka ákvörðun um hvort Sverri verður leyft að koma með í næstu gönguferð. Myndir frá ferðinni verða að bíða þar til ég hefi sofið eftir næturvaktina.
fimmtudagur, ágúst 03, 2006
3. ágúst 2006 - Gengið á fjall
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:06
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli