sunnudagur, apríl 29, 2007

30. apríl 2007 - Drottningin gleymdi mér, eða hvað?


Hún Júlíana Hollandsdrottning gleymdi að bjóða mér í afmælið sitt 30. apríl. Það gerir að vísu ekkert til því gamla konan hefur legið í gröf sinni í þrjú ár og þar niðri er bæði kalt og dimmt, annað en hér uppi á yfirborðinu. Ég ætla þess í stað að eyða deginum við að njóta fólksmergðarinnar í miðborg Amsterdam og svo að heilsa upp á vinkonur mínar sem heimsóttu mig um páskana.

Harðstjórinn okkar píndi okkur allan sunnudaginn. Fundurinn sem átti að taka þrjá tíma endaði í tíu tímum og voru þá enn fjölmörg mál óleyst. Eins gott að það verður fundur í Berlín í september. Þegar við loksins sluppum út af fundinum klukkan hálfátta um kvöldið, datt Evu til hugar að kíkja á kínverskan veitingastað. Að sjálfsögðu mótmælti ég og linnti ekki látum fyrr en við höfðum fundið ósköp notalegt argentínskt steikhús þar sem hægt var að borða fylli sína án þess að fara á hausinn.

Eftir matinn var farið í góða gönguferð um bæinn og mannlífið skoðað. Það var geggjað ef frá er talinn áhugi Jó fyrir hollenskum portkonum. Það var hvergi hægt að snúa sér við fyrir drukknum Hollendingum sem vildu njóta næturinnar. Allar krár voru yfirfullar og á endanum hrökklaðist ég heim á hótel enda erfiður mánudagur framundan þótt drottningin vildi ekki bjóða mér í afmælið sitt.

-----oOo-----

Svo fær Kalli kóngur í Sverige hamingjuóskir með 61 árs afmælið sitt.

fimmtudagur, apríl 26, 2007

26. apríl 2007 - Hætt, búin, farin?



Nei kæri lesandi, þér er alveg óhætt að hætta að gleðjast því ég er ekki hætt að blogga. Ég var hinsvegar að ljúka góðu verkefni í gær og get því fagnað.

Undanfarna mánuði hefi ég tekið þátt í bráðabirgðastjórn lítils hópverkefnis sem nú er orðið formlegt félag með aðalfundi sem haldinn var í gær. Um leið sagði ég mig úr stjórn og er því óbreyttur meðlimur um leið og ég held áfram um sinn að starfa að baráttumálum okkar á alþjóðasviði. Að sjálfsögðu er ég að tala um félagið Trans-Ísland, en held áfram í Transgender Europe (TGEU).

Í þeim tilfellum þar sem ég hefi verið í forsvari fyrir félagi, hefi ég ávallt lagt áherslu á valddreifingu, að margar hendur vinna létt verk og að sem flestir komi að stjórn hvort heldur er að stjórn félags eða einstakra verkefna. Með því að Trans-Ísland er orðið formlegt félag er sjálfsagt að víkja af hólmi þótt ekki sé til annars en að forðast einræðistilburði, en sú er hættan ef ein manneskja er of áberandi í umræðunni. Því færi ég mig út á hliðarlínuna án þess að segja alveg skilið við félagið.

Meðal ályktana sem samþykktar voru á fundinum var eftirfarandi ályktun:
Orðið kynskiptingur er náskylt orðinu kynvillingur og ber í sér bæði neikvæða og villandi merkingu.
Félagið vill hérmeð vekja athygli á að transgender fólk álítur að bæði þessi orð séu niðrandi. Félagið vill sérstaklega vekja athygli þeirra sem skrifa og fjalla um málefni transgender fólks, á neikvæðri merkingu orðsins, og að umfjöllun sem notar þetta orð mun verða álitin jafn neikvæð og fordómafull og umfjöllun sem notar orðið kynvillingur.
Félagið mælir með notkun orðanna trans eða transgender, ásamt orðalaginu, fólk sem leitar leiðréttingar á kyni.

miðvikudagur, apríl 25, 2007

25. apríl 2007 - Vesalings Bogga.

Hún Bogga sem er fjarskyld frænka mín á allar mínar samúðarkveðjur í dag því Þorsteinn bróðir hennar er dáinn. Hann lést fyrir 12 dögum síðan á líknardeildinni og jarðsettur í dag 25. apríl. Því er Bogga ein eftirlifandi af sex systkina hópi þeirra Eyjólfs og Guðnýjar í Hákoti í Bessastaðahreppi.

Ég er ekki að hæðast að neinum með fyrirsögninni, en í viðtali sem birtist í Morgunblaðinu 12. september síðastliðinn skein kærleikurinn af Þorbjörgu Eyjólfsdóttur til bróður síns þar sem hún, tæplega 102 ára gömul, var í hópi afmælisgesta í 100 ára afmæli Þorsteins sem nú er látinn saddur lífdaga.

Ekki get ég sagt að ég hafi þekkt Þorstein Eyjólfsson mikið, reyndar aðeins heyrt hann af afspurn. Ég man óljóst eftir elstu systrunum sem bjuggu suður í Garði, Guðrúnu og Kristínu, en þekkti lítillega Eyjólf Þorkelsson á Bíldudal systurson Þorsteins sem og Yrsu Sigurðardóttur verkfræðing og rithöfund, barnabarn Þorsteins.

Samt var aldrei langt í Þorstein. Móðir mín talaði oft um hann og systkini hans og eldri systkini mín töluðu hlýlega um systkinin frá Hákoti. Þá var einn móðurbróðir minn, Eyjólfur veðurfræðingur skírður í höfuðið á foreldrum Þorsteins, Eyjólfi og Guðnýju (sjá Húsafellsætt 1. bindi bls 156).

Án þess að ég vilji fullyrða neitt, leyfi ég mér að halda að stærsta áfall fjölskyldunnar frá Hákoti hafi verið 18. febrúar 1943. Þá fórst vélbáturinn Þormóður frá Bíldudal og með honum 31 manneskja, áhöfn og farþegar. Þar fórst yngsta systirin, Sigríður 33 ára gömul ásamt eiginmanni og eldri syni, en Eyjólfur Þorkelsson yngri sonur þeirra hafði verið skilinn eftir í umsjá föðurforeldra sinna og einn eftir.

Sjálfur var Þorsteinn skipstjóri í Hafnarfirði og annálaður aflamaður. Megi minning hans og Laufeyjar Guðnadóttur eiginkonu hans lifa um langa framtíð.

Með þessum orðum er óþarfi að senda mér samúðarkveðjur, enda þekkti ég Þorstein einungis af afspurn, en munum að sýna öldruðum ættingjum okkar þann kærleika sem þau eiga skilið.

þriðjudagur, apríl 24, 2007

24. apríl 2007 - Goodbye Cruel World...

Ég átti erfiða nótt fyrir tólf árum síðan, aðfararnótt 24. apríl 1995 því senn kæmi að stóru stundinni í lífi mínu, endalokum þess gamla og upphafi hins nýja. Ég var orðin ágætlega undirbúin andlega, hafði gengið í gegnum slíkan fjölda af sálfræðiprófum og rannsóknum að það þurfti andlega nautsterka manneskju til að ganga í gegnum það allt, þurfti að gangast undir allskyns prófanir og erfið viðtöl, loks að sitja frammi fyrir einskonar dómi sem kvað úr um hæfni mína til að gangast undir leiðréttingu á kynferði mínu. Og nú lá ég á Karólínska sjúkrahúsinu í Solna og beið þess sem verða vildi.

Klukkan 07.30 um morguninn kom skurðlæknirinn Jan Eldh inn til mín, horfði ákveðið á mig og spurði eins og uppfullur efasemda:
“Ertu alveg viss um að þú viljir þetta?”

Spurningunni var auðsvarað og þar með var gefið grænt ljós á að fara með mig í rúminu niður á skurðstofu. Á leiðinni niður var mér hugsað til teiknibrandara af sjúklingi sem var á leiðinni á skurðarborðið og stendur á rúminu af angist yfir því sem biður hans. ég gjóaði augunum upp í loftið og sá að það var tæplega næg lofthæð á göngum sjúkrahússins til að standa uppi á rúminu. Auk þess sá ég enga ástæðu til að óttast neitt.

Ég hafði fengið kæruleysissprautu áður en mér var ekið niður á skurðstofu og hún var farin að virka. Inni á skurðstofunni voru hjúkrunarfræðingar að undirbúa aðgerðina og ég fór að gantast við þær og þetta væru endalokin fyrir ákveðinn líkamspart sem senn myndi hefja upp raust sína og syngja stefið góða úr The Wall með Pink Floyd:
“Goodbye cruel world, I´m leaving you today, Goodbye, Goodbye, Goodbye.
Goodbye all you people, There´s nothing you can say, To make me change my mind,
Goodbye.”
Ég sofnaði.

Þegar ég vaknaði aftur var ég á uppvakningunni. Ég var þreytt, en mér leið ágætlega samt og fann ekki fyrir sársauka. Ég lyfti upp lakinu sem lá yfir mér og það leyndi sér ekki að aðgerðin var afstaðin. Mér varð hugsað til ýmissa ævisagna fólks sem hafði gengið í gegnum svipaðar aðgerðir og ég, fólks á borð við Caroline Cossey og April Ashley og þeirra vítiskvala sem þær lýstu eftir aðgerðir sínar og í huga mér hljómuðu orð Jan Eldh sem lýsti því eitt sinn yfir á fundi að ef nokkur myndi líða slíkar þjáningar sem þær stöllur lýstu, þá myndi hann hætta samstundis að gera svona aðgerðir.

Allt í kringum mig lágu sjúklingar í rúmum sínum eftir hinar ýmsu aðgerðir. Einn eða tveir voru ælandi. Hjúkrunarfólk á þönum út um allt. Rúm með fólki voru sótt, Önnur komu í staðinn. Í einu rúminu lá Danni, sænskur vinur minn. Hann hafði farið í aðgerð í hina áttina mánuði áður, en nú hafði hann farið í litla lagfæringaraðgerð. Hann var vaknaður og rúminu hans var rennt þétt upp að mínu. Hann teygði handlegginn í átt til mín og ég teygði mig á móti þar til við gátum tekist í hendur. Síðan lágum við hvort í sínu rúmi og héldumst í hendur. Öll orð voru óþörf. Við höfðum barist langri baráttu fyrir tilverurétti okkar og nú var stærsti sigurinn unninn.

Um kvöldið þegar ég var komin inn á stofuna, leið mér yndislega þótt ég gæti vart hreyft mig. Á náttborðinu var blómvöndur í vasa. Áður en sjúkrahúsdvölinni lauk voru blómvendirnir í litlu sjúkrastofunni minni orðnir ellefu. Það eru komin tólf ár frá þessari góðu stundu.

P.s. Af skepnuskap mínum sendi ég bróður mínum póstkort af spítalanum og að sjálfsögðu stóð þar:
Til hamingju bróðir, þú hefur eignast systur!

mánudagur, apríl 23, 2007

23. apríl 2007 - Spítalareykingar


Eins og fólk sem hefur þekkt mig lengi ætti að vita, þá var ég stórreykingamanneskja í mörg ár og skilaði mínum 30 sígarettum af mengun út í andrúmsloftið að meðaltali á hverjum degi. Mér var ljós skaðsemin og þrátt fyrir vilja minn til að hætta, var fíknin jafnan slík að það reyndist ómögulegt.

Í apríl 1995 gerði ég enn eina tilraunina til að hætta. Ég hafði fengið boð um að leggjast inn á spítala og vitandi um ýmsar skorður við reykingum á sjúkrahúsum í Svíþjóð, ákvað ég að reyna að hætta áður en ég legðist inn. Nokkrum dögum áður hætti ég að reykja fyrir hádegi og minnkaði verulega reykingar á kvöldin. Svo þegar kom að innlögninni að kvöldi 23. apríl 1995, fékk ég mér eitt gott bloss á tröppunum áður en ég hélt inn á spítalann og taldi mér um leið þá trú að ég væri hætt.

Nóttin var þolanleg. Um morguninn fór ég í aðgerð og hafði lítinn tíma til að hugsa um reykingar næstu tvo dagana, enda gaf heilsufarið mér ekki færi á hugsa mikið um slíkt, gjörsamlega ófær um eitt né neitt með mænustungu og þvaglegg. Þó fór ég óðum að hressast í góðum höndum hjúkrunarfólksins á Karólinska sjúkrahúsinu þar sem ég lá á einkastofu.

Brátt fór ég þó að taka eftir ýmsu í umhverfinu. Á svölum annarrar álmu spítalans sem blasti við augum mínum þar sem ég lá, var stöðugur straumur starfsfólks og sjúklinga úti að reykja. Hjúkkurnar sem sáu um mig loftræstu vel og reglulega stofuna sem ég lá á og fóru svo út á svalir við hliðina á stofunni að reykja. Reykinn lagði beint inn til mín. Það var ekki liðinn langur tími uns ég vissi nákvæmlega hvaða tegundir af sígarettum hver reykti þar sem örþunnir hjúkkuslopparnir leyndu fremur illa því sem var í vösum þeirra.

Ég hélt út í viku. Þá var ég orðin svo hress að mér tókst með erfiðismunum að komast út á svalir í smók með hinum.

sunnudagur, apríl 22, 2007

22. apríl 2007 - Enn af Lækjargötubrunanum


Á þeirri stundu sem húsin við Lækjartorg brunnu enn, gaf Vilhjálmur Vilhjálmsson borgarstjori út stórar yfirlýsingar um endurreisn húsanna. Sumir fylgjendur hans líktu frumkvæði hans við Giuliani borgarstjóra í New York er tvíburaturnarnir hrundu árið 2001. Sjálfri datt mér fremur í hug viðbrögð flokksbróður hans í Moderata samlingspartiet í Svíþjóð, Carl Bildt þáverandi forsætisráðherra, þegar Estoniu hvolfdi 28. september 1994, en skipið hafði ekki legið margar klukkustundir á hafsbotni er hann vildi ná því upp aftur. Til kynningar fyrir óupplýsta, þá liggur skipið enn á hafsbotni.

Vilhjálmur borgarstjóri hefur kveðið upp þá skoðun sína að endurreisa beri húsin á gatnamótum Lækjargötu og Austurstrætis í sem næst upprunalegri mynd. Spurningin er bara, hvaða upprunalegu mynd?

Í upphafi var ekkert, ekki einu sinni Austurstræti. Því er ákaflega erfitt að leita aftur til upphafsins, svona álíka erfitt og kröfur Frjálslynda flokksins um varðveislu upprunalega Laugavegarins í borgarstjórnarkosningunum í fyrra. Sú krafa þýddi í reynd að setja skyldi jarðýtu á Laugaveginn. Krafan um að endurbyggja hornið á Austurstræti og Lækjargötu í upphaflegri mynd er álíka fáránleg ef hún er ekki skilgreind miðað við ákveðinn tímapunkt. Þannig er ég ekki í nokkrum vafa um að bróðir minn vildi helst sjá Austurstræti 22 endurbyggt miðað við þann tíma er hann var að selja teppi á efri hæð hússins og vefnaðarvöruverslun í eigu sama fyrirtækis var á neðri hæðinni. Sjálf er ég ekki jafnhrifin og kunni bara ágætlega að sjá litlu gluggana á efri hæðinni fremur en flennistóra verslunarglugga sjöunda áratugarins þar uppi. Vilhjálmur borgarstjóri er svo kannski með þriðju hugmyndina að draumaútliti hússins, því hver og einn á sína minningu af þessu götuhorni.

Ef við höldum svo áfram með nostalgíuna, má rifja upp að einhver kom með þá hugmynd fyrir skömmu að opna Lækinn aftur, þ.e. lækinn sem Lækjargata er kennd við enda þykir fínt í útlöndum að hafa opinn læk í miðborgum. Ég er hinsvegar ekki jafnhrifin af þeirri hugmynd, enda gæti ég trúað að napurlegt væri að ganga eftir Lækjargötunni í norðanbáli með opinn læk sér til hliðar. Önnur hugmynd svona álíka vitlaus væri sú að færa gamla Íslandsbankahúsið (nú Héraðsdóm Reykjavíkur) við Lækjartorg í upprunalegt horf, þ.e. eins og það leit út áratugina frá 1906 og þar til byggt var ofan á húsið.

Það sem ég held að sé þó mikilvægast þegar litið er til þarfa íbúanna, er að byggja fremur lágreist hús á þessum stað þannig að það skyggi ekki um of á sólina, hús að hámarki þrjár hæðir. Það þarf ekkert að vera nákvæmlega eins og húsin sem brunnu en gjarnan í svipuðum stíl svo að sú götumynd sem flestir eiga sér af Lækjartorgi í minningunni raskist ekki um of.

Að endingu legg ég svo til að framhliðar húsanna Lækjargötu 2B og Lækjargötu 12 verði rifnar og byggð ný framhlið á húsin til að skapa samræmda götumynd af Lækjargötu.

laugardagur, apríl 21, 2007

21. apríl 2007 - Er Sovét-Ísland komið?


Sovét-Ísland, draumalandið, hvenær kemur þú? Þessi orð eins hinna Rauðu penna hafa löngum verið höfð að háði og spotti meðal íslenskra hægrimanna sem fundu skoðunum íslenskra vinstrimanna allt til foráttu á fyrri hluta tuttugustu aldar og þá sérstaklega trú þeirra á hinum ungu Sovétríkjum, en einnig misréttinu sem ríkti þar austur frá.

Nú er misréttið komið til Íslands til að vera. Hér er búsett ný stétt manna sem ferðast á milli á einkaþotum og lifa lífi sem við sauðsvartur almúginn þekkjum ekki og vart í okkar villtustu draumum, fá dýrustu skemmtikrafta heims til að skemmta sér og fjölskyldum sínum í afmælum og um áramót og eiga allt það flottasta sem hægt er að komast yfir. Þessi nýja stétt veður í peningum og greiðir einungis 10% skatt en fær þó fulla þjónustu. Ég er í sjálfu sér ekki að mótmæla þessu að sinni, fremur því þjóðskipulagi sem mismunar þegnunum á þann hátt að hún skiptist í tvær þjóðir í sama landinu, hina forríku og alla hina. Í Sovétríkjunum voru líka tvær þjóðir, háttsettir í flokknum og svo allir hinir.

Nú hefur hið hataða skrifræði Sovétríkjanna einnig náð til Íslands. Lettneskur trésmiður og eiginkona hans sem vinnur við þrif, fá ekki dagheimilispláss fyrir börn sín. Ástæðan. Íslenskt skrifræði á tímum sem hörð hægristjórn hefur setið hér við völd í tólf ár.

Ekki verður lettnesku hjónunum kennt um að lifa á félagslega kerfinu, greinilega harðdugleg hjón sem skila sínu til samfélagsins og fá ekkert í staðinn. Alls ekkert. Ekki einu sinni dagheimilispláss fyrir börnin. Í þessu tilfelli er börnunum refsað fyrir að vera til og að hafa ekki uppfyllt ítrustu kröfur um gildistíma vegabréfa og nú bíður fjölskyldunnar löng og ströng leið um hið íslenska skrifræði áður en þau fá að njóta dvalar sinnar hér á landi.

Ég held að við þurfum ekki lengur að bíða eftir komu Sovét-Íslands. Það er hérna undir vökulum augum ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, allavega sá hluti þess sem líkt er við misrétti og skrifræði.


http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item151478/

-----oOo-----

Svo fær Luton aðdáandinn Stefán Pálsson, samúðarkveðjur frá okkur á Moggabloggi eftir fall Luton um deild á föstudagskvöldið. Megi þeir rísa upp aftur jafnskjótt og Stefán kemur yfir á Moggabloggið.

föstudagur, apríl 20, 2007

20. apríl 2007 - FC United of Manchester

Fyrir tveimur árum fóru nokkrir rótgrónustu stuðningsmenn Manchester United í fýlu. Einhver Kani sem hafði ekki hundsvit á fótbolta, keypti uppáhaldsliðið þeirra. Það var nú meira en sumir þoldu og þegar ljóst var að Malcolm Glazer hafði náð meirihluta í félaginu, var slegið á fundi. Menn horfðu þar hver á annan og veltu fyrir sér stóru orðunum, hvort þeir ættu að efna þau eða bara að gleyma hótunum sínum og láta kyrrt liggja. Malcolm Glazer yrði svosem ekkert að þvælast fyrir þeim og hefði aldrei séð knattspyrnuleik.

Hinir hörðustu í hópnum voru ekkert að éta ofan í sig stóru orðin og stóðu fastir á því að stofna nýtt félag. Að endingu var ákveðið á öðrum fundinum sem haldinn var 30. maí 2005, að ef 1000 manns yrðu búnir að skrifa sig á stuðningsmannalista nýs félags fyrir lok júlí, yrði félagið stofnað.

Það tók ekki marga daga að safna 1000 stuðningsmönnum og eftir skoðanakönnun var nafnið FC United of Manchester tilkynnt þann 14. júní 2005. Einkennisorð félagsins urðu að sjálfsögðu “I don´t have to sell my soul” Fyrsti leikurinn var síðan vináttuleikur gegn Leigh RMI 16 júlí 2005 og endaði leikurinn 0-0.

Eins og nýburum sæmir, hóf félagið svo keppni á botninum eða í neðstu Vestfjarðadeild
haustið 2005 (North West Counties League Division 2), en þaðan liggja allar leiðir upp á við. Það þarf víst ekkert að fjölyrða um árangurinn, en fyrsta dollan kom í væntanlegt safn um vorið. Nú í vetur hafa tvær dollur bæst við, ein fyrir deildarbikar Vestfjarðadeildar og síðan bættist önnur við á miðvikudag, er liðið tryggði sér sigur í efstu Vestfjarðadeild (North West Counties League Division one), þótt það eigi enn þrjá leiki til góða.

Næsta vetur ætlar liðið að halda áfam sigurgöngu sinni og spilar þá í áttundu deild. Þeim fækkar stöðugt deildunum sem þarf að vinna uns gamla móðurfélagið verður lagt að velli um leið og Rassenal, Lifrarpollur og Efratún verða að lúta í gras.

http://en.wikipedia.org/wiki/FC_United_of_Manchester

fimmtudagur, apríl 19, 2007

19. apríl 2007 - Gullið tækifæri til endurreisnar

Þegar gömlu húsin við Aðalstræti voru rifin og nýtt hótel á horni Aðalstrætis og Túngötu var byggt, var þess gætt að halda gömlu götumyndinni og byggja nýja hótelið í gamla götustílnum með safn til sögu Reykjavíkur í kjallaranum. Þessi enduruppbygging heppnaðist stórkostlega og er til mikillar fyrirmyndar.

Öfugt við enduruppbyggingu Aðalstrætis var farin þveröfug leið við uppbygginguna við Lækjargötu eftir Nýja bíó brunann fyrir nokkrum árum. Þar var byggt forljótt glerhýsi í staðinn, hús sem er sem afskræming á götumynd Lækjargötu.

Húsin við Lækjargötu 2 og Austurstræti 22 eru ónýt. Það má vera að hægt sé að endurbyggja húsið að Lækjargötu 2, en það er þó óvíst auk þess sem húsið hefur gengið í gegnum svo ítrekaðar endurnýjanir í gegnum árin að lítið er eftir af upphaflega húsinu. Því er eðlilegast að bæði húsin verði rifin til grunna og ný byggð á lóðinni. Mér finnst eðlilegast að notast verði við reynsluna af enduruppbyggingu Aðalstrætis og ný hús byggð í svipuðum stíl og gömlu húsin þó þannig að fari verði eftir ítrustu bygginga- og brunavarnareglugerðum. Þannig mætti hugsa sér að hækka mætti Lækjargötu 2 um allt að hálfan metra svo nýta mætti betur rishæðina.

Í leiðinni má Jón Ásgeir sýna af sér örlitla umhverfisvernd í verki og skipta út glerveggnum á Topshop (Iðuhúsinu) í eitthvað sem samræmist götumynd Lækjargötu.

-----oOo-----

Ég er að velta einu fyrir mér. Af hverju skyldu lögreglumenn vera svo sparsamir á notkun hjálma? Við Lækjartorgsbrunann sást mikill fjöldi fólks að störfum og margir með hjálma, en flestir lögreglumenn voru með húfur, þar á meðal lögreglustjórinn sjálfur. Sömu sögu var að segja af tjóninu við Vitastíg, en þar voru lögreglumenn með húfur og endurskinsvesti. Að öðru leyti tjái ég mig ekki um Vitastígstjónið.

þriðjudagur, apríl 17, 2007

17. apríl 2007 - Bowling for Virginia Tech



Það eru komin fjögur ár síðan Michael Moore fékk Óskarsverðlaun fyrir kvikmynd sína sem fjallaði um fjöldamorðin í Colombine skólanum, alvarlega ádeilu á innri vígbúnað bandarísku þjóðarinnar, þjóðar sem er í sífelldu stríði við sjálfa sig auk annarra þjóða og enn hefur bandaríska þjóðin orðið fyrir áfalli vegna atburða af þessu tagi. Nú í Virginia Tech tækniháskólanum í Blacksburg í Virginíufylki.

Ef að líkum lætur mun verða aukið verulega við öryggisgæslu við bandaríska skóla í kjölfar þessa hræðilega atburðar og enn mun aukið á vígbúnað heimilanna og áfram verða heimilin eins og lítil vopnabúr þar sem óttinn ræður ríkjum undir öruggri forystu ofstækisfullra hvítra karla sem sjá enga lausn aðra í stöðunni en að auka enn frekar á vopnaburðinn. Enn munu vopnin valda dauða og limlestingum í stað þess að farin verði mýkri leiðin og reynt að draga úr vopnaburði í landinu með takmörkunum á vopnakaupum og vopnaburði.

Það er grátlegt að það skuli þurfa friðarsinna á borð við Michael Moore til að fjalla um þessa atburði á mjög svo gagnrýninn hátt, en enn grátlegra er að vita til þess að ráðamenn á borð við George Dobbljú Bush skuli enn vera með lokuð eyrun fyrir kröfum hans.

http://www.michaelmoore.com/

mánudagur, apríl 16, 2007

16. apríl 2007 – Kunna alþingismenn ekki að keyra?

Það þykir góður siður að gefa stefnuljós og aka eftir aðstæðum. Ég held að ég megi fullyrða að meirihluti almennings sé sammála mér, þó síst unglingar og alþingismenn.

Frægt er dæmið af Seingrími Jóhanni “umhverfisverndarsinna” er hann endastakkst í Bólstaðarhlíðarbrekkunni fyrir rúmu ári á tveggja tonna jeppanum sínum. Ég legg hinsvegar engan trúnað á þá sögu gárunganna að Steingrímur hefði fyrst hringt í fréttastofur áður en hann hringdi í neyðarlínuna. Einhverntímann heyrði ég að bifreið Valgerðar Sverrisdóttur hefði eyðilagst í Skagafirði fyrir einhverjum árum. Sömuleiðis veit ég ekkert um tilurð þess slyss, hvort Valgerður hafi verið í bílnum eða hvort bílstjórinn hafi verið í sérstökum erindum?

Fyrir fáeinum dögum eyðilagði Einar Kr. Guðfinnsson bílinn sinn á svipuðum slóðum og bíll Valgerðar átti að hafa eyðilagst (það mætti ætla að róttæklingar væru í Skagafirði), en á sunnudag tókst Kristni H. Gunnarssyni að lenda utanvegar á sínum jeppa. Kunna þessir menn ekki að keyra?

Ef satt er með Valgerði, þá hafa þingmenn allra stjórnmálaflokka sem nú eiga sæti á Alþingi nema Samfylkingar, lent í umferðarslysum á kjörtímabilinu. Ég er að velta fyrir mér hvort ekki sé tími til kominn að alþingismenn verði prófaðir í ökuleikni áður en þeir taka sæti á Alþingi eftir kosningar?

-----oOo-----

Svo er ávallt ánægjulegt tl þess að vita að Magga smókur Friðriksdóttir í Amalíenborg er komin í tölu löggildra gamalmenna, en hún er 67 ára gömul í dag.

laugardagur, apríl 14, 2007

14. apríl 2007 - Ein hræðilega ómannglögg á landsfundi



“Hvað ert þú að gera hér?”
Er það nema von að ég spyrði gamla vinkonu eins og bjáni er ég hitti hana á landsfundi Samfylkingarinnar í Egilshöll á föstudag. Fyrir góðum þremur áratugum síðan höfðum við unnið ötullega að því að bylta þjóðskipulaginu í anda hins kínverska landsföður, reka herinn og ganga úr NATÓ. Síðan þá höfðum við einungis hist við örfá tilfelli og þá helst við “ættarmót” gamalla vinstrimanna við Tjörnina í tengslum við kertafleytingu í minningu fórnarlamba kjarnorkusprengjunnar og svo við friðargönguna á Þorláksmessu.

Og nú var hún komin á landsfund Samfylkingarinnar og ég vissi ekki einu sinni að hún væri gengin í Samfylkinguna. Hún var ekkert ein um það, því margan sá ég gamlan Allaballann á landsfundinum auk eins og annars byltingarsinna fyrri ára.

-----oOo-----

Ég var nýmætt á landsfund Samfylkingarinnar í Egilshöll, er ég taldi mig sjá góða bloggvinkonu mína í hópi nýkominna Norðlendinga og fagnaði henni ákaft og hún fagnaði mér sömuleiðis ákaft, enda ávallt gaman er stuðningsfólk jafnaðarstefnu hittast.
“Og hvernig gekk ferðin suður?”
“Suður? Ég bý nú í Suðurkjördæmi” svaraði konan.
Ég horfði betur á konuna og áttaði mig á að ég var að tala við Ragnheiði Hergeirsdóttur borgarstjóra í Árborg, en ekki Láru Stefánsdóttur varaþingmann og tölvufræðing á Akureyri.

Ég skammast mín alveg ofan í tær eftir þennan misskilning, en hafa verður í huga að bloggvinkonur lenda oft í vandræðum er þær hittast í fyrsta sinn í raunheimum.

-----oOo-----

Í starfshóp um jafnrétti tókst mér að vekja athygli á málefnum transgender einstaklinga. Eitt lítið hænufet í einu :)

-----oOo-----

Mona Sahlin stóð sig alveg snilldarlega! Góðar bloggvinkonur mínar stóðu sig og prýðilega á landsfundinum, en af öðrum bloggvinkonum ólöstuðum, fær Ingibjörg Stefánsdóttir bestu einkunn. Hún hefur aldrei látið fara mikið fyrir sér, en heillaði alla í kringum sig á landsfunginum :)

föstudagur, apríl 13, 2007

13. apríl 2007 - Smókur á kojustokknum










Þegar ég byrjaði til sjós fyrir rúmum fjórum áratugum þótti sjálfsagt og eðlilegt að áhafnarmeðlimir væru með öskubakka á kojustokknum sínum. Stundum voru öskubakkarnir hinir vönduðustu og mátti oft rekja handbragðið á öskubökkunum til handlagins vélstjóra á skipinu. Aðrir létu sér nægja að klippa út öskubakka úr niðursuðudósum.

Ekki fór alltaf vel. Veit ég sorgleg dæmi um reykingar í koju með banvænum afleiðingum og fimmtán árum eftir að ég byrjaði til sjós, man ég eftir viðvörunarskiltum í klefum skipa þar sem varað var við reykingum í kojunni. Sjálf reykti ég alla mína sjómennsku og reykti mikið í þrjá áratugi.

Í lok sjómennsku minnar, þegar ég var að leysa af á skipunum hjá Hraðfrystihúsi Eskifjarðar voru komnar hertar reglur. Víða var fólk rekið upp í stakkageymslu til að reykja eða þá út á dekk og fannst sumum þetta alveg ómögulegt. Um leið má segja að með því að ég hætti að reykja, hætti ég að leysa af til sjós og hefi hvorki farið á sjó né reykt eftir árið 2000.

Ég hefi engar áhyggjur af velferð íslenskra sjómanna þótt bannað verði að reykja í borðsalnum eða í svefnherberginu eftir 1. júlí næstkomandi. Ég hefi hinsvegar meiri áhyggjur af skemmtilegu fólki sem stundar Næstabar og aðrar slíkar menningarstofnanir.

Sömuleiðis verður ekki gaman að vera i höllinni hjá Möggu smók eftir 15. ágúst þegar svipað reykingabann tekur gildi í Danmörku.

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1264325

fimmtudagur, apríl 12, 2007

12. apríl 2007 - Eftir afmælisveisluna


Eins og fram kom í fyrri færslu minni, áttu kisurnar Hrafnhildur og Tárhildur tveggja ára afmæli í gær. Þær gerðu sér glaðan dag í tilefni afmælisins, léku sér fram eftir morgni og fengu síðan dýrindis afmælisverð, rækjur í forrétt, soðningu í aðalrétt og loks rjóma í eftirrétt. Eins og gefur að skilja, er slíkur málsverður þungur í maga og leið ekki á löngu uns þær lágu báðar afvelta eftir máltíð dagsins eins og sést ágætlega á myndunum og vissu vart sitt rjúkandi ráð.



Hvorug hafði áhuga á því að fara út að fagna ásamt öðrum kisum, en létu þó sjá sig um stund utandyra áður en ég hélt á vaktina um kvöldið.

miðvikudagur, apríl 11, 2007

11. apríl 2007 - Nýting jarðvarma!!!



Í mörg ár stóð ég í þeirri trú að Ísland væri einstakt og fremst allra í notkun jarðhita til húshitunar og rafmagnsframleiðslu. Þessu hélt ég að auki fram við alla sem nenntu að hlusta á mál mitt og vissulega eru Íslendingar í fararbroddi þjóða á þessu sviði.

Nokkru eftir að ég hóf störf hjá Hitaveitunni var ég að ræða þessi mál við Steinar Frímannsson verkfræðing sem benti mér á að notkun jarðhita til húshitunar hefði hafist mun fyrr vestur í Bandaríkjunum, en nútíma hitaveituvæðing þar hefði hafist árið 1892 eða 38 árum fyrr en Laugaveitan í Reykjavík hóf starfsemi sína. Í dag eru jarðgufuvirkjanir víða í vesturríkjum Bandaríkjanna, Idaho, Nevada, Kaliforníu, Utah, Hawaii og víðar og eru þær notaðar bæði til rafmagnsframleiðslu sem og beint til húshitunar.

Við nánari lestur á sögu hitaveitu í Idaho kom í ljós að verkamenn við námagröft í Idaho höfðu nýtt sér jarðhita til baða og þvotta allt frá því um miðja nítjándu öld, en frumbyggjarnir,
indjánar, á undan þeim.

Auk þessa eru til jarðvarmavirkjanir víðar í heiminum, Nýja-Sjálandi, Japan og víðar auk áðurnefndra landa.

Þegar ofangreint er haft í huga, varð ég í fyrstu uppfull efasemda er ég heyrði fyrst af væntanlegri heimsókn nefndar á vegum bandaríska orkumálaráðuneytisins til að kynna sér notkun gufuafls á Íslandi og fór að ímynda mér iðnaðarnjósnir og að einhverjir ætluðu að ræna íslenska vísindamenn heiðrinum af frumkvöðlastarfi sínu í þágu uppbyggingar jarðhitaiðnaðar í heiminum, en í reynd er ekkert að óttast.

Íslendingar eru og munu áfram verða í fremstu röð vísindamanna á sviði jarðhita, hvort heldur er einir sér eða í samstarfi við vísindamenn annarra þjóða. Sjálf mun ég að sjálfsögðu halda áfram að vera stolt af samstarfsfólki mínu hjá Orkuveitunni sem og hjá öðrum orkufyrirtækjum sem hafa unnið ótrúlegt starf, íslensku þjóðinni sem og öðrum þjóðum til heilla.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item150473/

http://www1.eere.energy.gov/geothermal/history.html

http://www.idwr.idaho.gov/energy/
alternative_fuels/geothermal/history.htm


-----oOo-----

Svo fá kisurnar mínar, þær Tárhildur og Hrafnhildur, hamingjuóskir með tveggja ára afmælið.

þriðjudagur, apríl 10, 2007

10. apríl 2007 - Eftir góða lesbíuheimsókn



“Af hverju varstu eiginlega að fara í aðgerð ef þú hefur engan áhuga fyrir strákum?”
Oft hefi ég fengið þessa spurningu og ég viðurkenni fúslega að ég á alltaf jafnerfitt með að útskýra tilfinningar mínar gagnvart karlmönnum.

Senn verða komin 12 ár frá því ég fór í fræga aðgerð mína í Svíþjóð og þessi örfáu skipti sem ég hefi lifað með karlmönnum hafa ekki veitt mér neina sérstaka ánægju. Ég hefi því fremur kosið að lifa einlífi með kisunum mínum en reynt að vera opin gagnvart öllu því sem kalla má Queer theories. Þegar að auki er haft í huga, að minn besti stuðningur á Íslandi áður en ég hélt af landi brott fyrir hartnær tveimur áratugum voru lesbískar konur, þá hefi ég ávallt reynt að endurgjalda stuðninginn með gagnkvæmum stuðningi. Því gekk ég úr rúmi fyrir nokkrum stelpum frá Hollandi um helgina og vona að kisurnar mínar fyrirgefi mér að þær fengu ekki sofa i herbergjunum sínum um helgina.

Það var líka alveg tilvalið fyrir keppendur í lesbíska blakmótinu að gista hjá mér í örfárra mínútna göngufæri frá mér að mótsstað og nóg pláss því þröngt mega sáttar sitja. Sjálfa grunar mig að ég hafi eignast nokkrar góðar vinkonur sem verður gaman að hitta aftur hvort heldur verður hér á landi eða í Hollandi, en þangað verður næstu utanlandsför minni heitið eftir nokkra daga.

-----oOo-----

Hetjurnar mínar í Halifaxhreppi voru burstaðar í ensku kvenfélagsdeildinni á öðrum degi páska og mega nú óttast um sinn hag þegar senn sér fyrir endann á Englandsmeistaramótinu í fótbolta. Öllu betur gekk hjá köppunum í Sameiningu Mannshestahrepps sem unnu eitthvert smálið með þremur mörkum gegn engu og getur nú einungis stórslys eða kraftaverk komið í veg fyrir sigur þeirra í efstu Vestfjarðadeild. Með sigri í vor bæta þeir þriðja bikarnum í safnið á tveimur árum, en áður hafa þeir unnið deildarbikar Vestfjarðadeildarinnar auk sigurs í neðri Vestfjarðadeild í fyrra og væntanlegum sigri í efri Vestfjarðadeild á næstu vikum.

mánudagur, apríl 09, 2007

9. apríl 2007 - Álver á Keilisnesi?

Nú er Alcan farið að huga að álveri við Keilisnes. Það er vafalaust hið besta mál auk þess sem það er utan lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar. Það er hinsvegar álitamál hversu lengi það fær að vera í friði á þessum stað.

Álverið í Straumsvík var byggt fjarri öllum mannabyggðum fyrir fjörtíu árum. Nú er byggðin að komin að mörkum álverslóðarinnar og forljótar verksmiðjur eru ekki vinsælar séðar út um stofugluggann hjá fólki. Sama saga getur orðið uppi að fjörtíu árum liðnum á Vatnsleysuströnd. Reyndar mun öll strandlengan frá Hafnarfirði til Keflavíkur byggjast meira og minna á næstu hundrað árum og erfitt að sjá hvar verksmiðjan verði ekki til ama þeim sem ekki þola að sjá verksmiðju í næsta nágrenni. Því er eðlilegast að Alcan fari í burtu úr nágrenninu og skipuleggi framtíð sína annars staðar á landinu, t.d. í Þorlákshöfn eða þá utan við Keflavík, t.d. í Helguvík.

-----oOo-----

Svo fær yngsti sonurinn hjartanlegar hamingjuóskir með 25 ára afmælið! Er ég virkilega orðin svona gömul?

sunnudagur, apríl 08, 2007

8. apríl 2007 - Af lessublaki

Það var hringt í mig á laugardagsmorguninn og ég beðin um að taka tvær til þrjár stelpur frá Hollandi í gistingu. Það var ekki nema sjálfsagt, enda hafði ég áður boðist til að lofa tveimur stelpum að gista, en þá var talið að slíkt væri óþarfi. Því var ekki nema sjálfsagt að verða við þessari beiðni og finna pláss fyrir þrjár stelpur.

Það er ekkert gaman að þurfa að greiða himinháar upphæðir fyrir gistingu á Íslandi. Sjálf þekki ég erfiðleikana við að fá ódýra gistingu eftir að hafa gist á ósköp einföldu en rándýru hóteli í Genf sem og á fleiri stöðum. Að þessu sinni var mér beiðnin meir en svo ljúf því ég er á leiðinni á fund í Amsterdam eftir þrjár vikur og það verður gott að eiga góðar að þegar þangað verður komið, þó ekki verði til annars en að fá góða leiðsögn um borgina á hinum fræga “Queens day”. Hollendingar halda enn reglulega upp á afmælisdag gömlu drottningarinnar, hennar Júlíönu heitinnar og gera það með stæl. Mætti Svíar taka Hollendinga sér til fyrirmyndar, en Kalli kóngur á afmæli sama dag.

Svo veit ég einnig að nokkrir vinir mínir sem ekki eru sáttir við samkynhneigð, eru vísir til að reka upp ramakvein ef þeir sjá hversu vel Fylkismenn taka vel á móti stelpunum :)

-----oOo-----

Bæði liðin mín í enska boltanum unnu leiki sína á laugardag. Hetjunum í Halifaxhreppi tókst enn einu sinni að koma sér úr botnbaráttunni í kvenfélagsdeildinni með eins marks sigri á Cambridge, en United of Manchester vann Hrútarassana (Ramsbottom United) í efstu Vestfjarðadeild (NorthVest Counties Football League, Division one) með tveimur mörkum gegn einu. Getur nú fátt stöðvað þá úr þessu og óhætt að ryðja til í hillunum fyrir bikarinn.

-----oOo-----

Svo fær drengurinn sem langar til að komast á Moggabloggið hamingjuóskir með 32 ára afmælið. Megi kaninkan og Stefán Pálsson lifa sem lengst öllum til gleði.

laugardagur, apríl 07, 2007

7. apríl 2007 - Ég kem þessu á nágranna minn!



Á skírdagsmorguninn lenti ég í morgunkaffi hjá ónefndum borgarfulltrúa og bauðst til að taka að mér að bera kosningabæklinga fyrir flokkinn í eina litla götu í Árbænum. Ég taldi þetta létt verk og löðurmannlegt, enda bæklingurinn einungis ætlaður (h)eldri borgurum hverfisins. Þegar við skiptum hverfinu á milli okkar, fannst mér eðlilegast að taka götuna sem ég bý við og bauðst því til að bera út í Hraunbæinn að nr 120.

Þú gerir þér grein fyrir því að þetta er dálítið mikið verk sagði mér einhver. Ekkert mál hugsaði ég, læt nágranna minn sem er í flokknum og mikill göngugarpur um að bera megnið af þessu út, en tek sjálf næstu stigaganga. Upphátt sagði ég að þetta væri ekki mikið mál, eintómar blokkir!

Þegar heim var komið, bar ég snarlega út í næstu stigaganga og hugsaði nágranna mínum þegjandi þörfina á góðum göngutúr og hringdi hjá honum. Enginn heima. Um kvöldið reyndi ég aftur að ná sambandi, en hann var enn ekki kominn heim. Ekki heldur að morgni föstudagsins langa. Hvert hefur drengurinn farið? Jæja, ég verð þá að taka nokkrum húsnúmerum meira, hugsaði ég og rölti af stað með bæklingana.

Þremur klukkutímum síðar kom ég heim aftur dauðþreytt, búin með allt ætlunarverkið, að bera út bæklingana í fjölmennustu götu Reykjavíkur. Það verður sko bið á því að ég taki að mér verk til að láta nágrannann leysa!

-----oOo-----

Í prentMogganum á fimmtudag (skírdag) var sagt frá því er Norröna slitnaði frá bryggju á Seyðisfirði og fyrirsögnin var eftirfarandi: “Skipstjórinn snaraði vélunum í gang og sigldi í var”.

Hvar var vakthafandi vélstjóri á meðan skipstjórinn tók fram fyrir hendurnar á honum og snaraði vélunum í gang?

föstudagur, apríl 06, 2007

6. apríl 2007 - Að krossfesta mann

Páskarnir voru alltaf dálítið sérstakir hjá mér sem barni. Ekki var það einvörðungu vegna páskaeggsins ljúffenga, fremur vegna þess atburðar sem átti sér stað á hverju ári, að Jesús Kr. Jósefsson var krossfestur. Í gegnum alla mína bernsku var vesalings maðurinn krossfestur minnst einu sinni á ári, eða svo mátti ætla af þeim hryllingssögum sem lesnar voru upp í kirkjum landsins á hverju ári. Alltaf las presturinn upp píslarsöguna með tilþrifum eins og hún hefði skeð í gær Og alltaf vorkenndi ég vesalings Jesús jafn mikið að láta krossfesta sig. Af hverju reyndi hann ekki að flýja eða fá aðstoð við að frelsa sig frá mönnunum sem reyndu að krossfesta hann. Sjálf sór ég og sárt við lagði að gera mitt besta til að koma í veg fyrir að hann yrði krossfestur næsta ár. Það var þó örlítil bót í máli, að hann reis upp frá dauðum á þriðja degi og fór ekki til pabba síns fyrr en á uppstigningardag. Kannski var þessu best lýst í ljóði Steins Steinarr, Passíusálm nr 51.

Um leið og Jesús Kr. Jósefsson hvarf okkur sjónum með uppstigningu sinni, var um leið lagður grundvöllur að endurfæðingunni á jólunum, því að sjálfsögðu fæddist Jesús á hverjum jólum, rétt eins og hann dó á hverjum leiðinlegum föstudeginum langa þegar ekkert skemmtilegt mátti gera. Á páskadag fékk maður allavega páskaegg í sárabætur fyrir að mega ekki leika sér.

Síðan presturinn las píslarsöguna með tilþrifum er liðinn langur tími. Ímyndun bernskunnar og hin sterku tengsl við raunveruleikann sitja enn í mér, þótt það sé að verða hálf öld frá því ég komst að því að þessi saga var nærri tveggja árþúsunda gömul.



-----oOo-----

Í gærkvöldi gleymdi ég auðvitað að segja nýjustu fréttir frá köppunum í United of Manchester,
en þeir unnu eitthvað lið í botnbaráttunni á miðvikudag með átta mörkum gegn engu. Það segir kannski heilmikið um breiddina í liðinu að sjö leikmenn skoruðu þessi átta mörk.

fimmtudagur, apríl 05, 2007

5. apríl 2007 -Bara einn?

Það er hættulegt starf að vera hermaður og enn hættulegra að vera hermaður í stríði en sýnu hættulegra er þó að vera bandarískt fallbyssufóður í Írak, en samkvæmt opinberum bandarískum tölum hafa 3257 bandarískir hermenn látið lífið í Írak frá því stríðið hófst (og 3118 síðan stríðinu lauk samkvæmt yfirlýsingum George Dobbljú Bush) . Þetta þýðir að 2,2 hermenn hafa fallið að jafnaði á hverjum degi frá því stríðið hófst fyrir rúmum fjórum árum.

Þegar haft er í huga að margfalt fleiri Írakar hafa fallið í stríðinu, þykir mannfall Bandaríkjamanna ekki mikið. Þó rak mig í rogastans þegar Morgunblaðið sá ástæðu til að geta eins hermanns sem fallið hafði í stríðinu eins og Mogginn gerði á miðvikudag, en sá hermaður er væntanlega númer 3257 í röð fallinna Bandaríkjamanna og sá ellefti sem fellur í apríl 2007.

Þetta mannfall Bandaríkjamanna þykir kannski ekki mikið miðað við höfðatölu allra Bandaríkjamanna og kannski talið eðlilegur fórnarkostnaður ríkis sem er í stríði, en þessir menn sem hafa fallið, féllu í tilgangsleysi rétt eins og það var talið eðlilegur fórnarkostnaður að drekkja 20-50 íslenskum sjómönnum á hverju ári frá örófi alda til seinni hluta tuttugustu aldarinnar.

-----oOo-----

Halldór Ásgrímsson vildi gera sem minnst úr stuðningi sínum og Davíðs við stríðsreksturinn í Írak og benti á að Íslendingar hefðu ekki tekið þátt í stríðinu. Hann er greinilega búinn að gleyma því að með stuðningi sínum þurftu Íslendingar að greiða fyrir vopna- og herflutninga til Írak og jafnvel taka þátt í þeim. Þótt enginn íslenskur hermaður hafi ekki barist í stríðinu, þá er sökin eftir sem áður hin sama, því með aðgerðum sínum studdu Halldór og Davíð við innrásina og því samsekir innrásinni.

Það væri fróðlegt að vita hversu mörgum atkvæðum Framsóknarflokkurinn hefur tapað vegna þeirrar þrjósku Halldórs Ásgrímssonar að neita að biðjast afsökunar á frumhlaupinu frá 2003.

miðvikudagur, apríl 04, 2007

4. apríl 2007 - Umhverfissóðinn Anna Kristjánsdóttir

Síðustu dagana og þá sérstaklega eftir álverskosninguna í Hafnarfirði er ég skyndilega orðin hið gráa mótvægi við hinn græna Ómar Ragnarsson. Til mín er vitnað eins og ég éti ál í öll mál og sé hinn versti umhverfissóði. Ofan á allt saman er ég ákaflega stolt af þessu orðspori sem af mér fer. Þó finnst mér eins og að verið sé að færa mér ákveðni í skoðunum sem erfitt sé að standa undir.

Það var sumarið 1996 sem Eskifirðingar með Emil Thorarensen í broddi fylkingar sýndu mér meiri virðingu en aðrir Íslendingar og þá sérstaklega íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Á þeim árum var ég ákaflega vinstrisinnuð og er reyndar enn, studdi enn Alþýðubandalagið sem ég hafði gert í fjölda ára og færði skoðanir mínar yfir á vinstrigræna við stofnun Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs þótt ekki væri ég sammála þeim í öllum málum.

Vegna kynna minna af Eskfirðingum, sá ég hvernig byggð fór hnignandi á Austfjörðum á síðustu árum tuttugustu aldarinnar sumpart vegna margsvikinna loforða stjórnvalda um fleiri undirstöður undir fábreytta atvinnuvegi þeirra. Þegar loks var farið út í framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun og álver á Reyðarfirði, var ekki hægt annað en að hrífast með og sjá hvernig vonarglampinn kom í stað vonleysis, hvernig fólk virtist vakna til lífsins og öll framkvæmdagleði reis upp úr öskustónni. Barátta Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs gegn virkjanframkvæmdum fyrir austan voru fyrir bragðið eins og hnefahögg í andlitið

Eftir áratugastörf sem vélfræðingur og á sjó sem vélstjóri hefi ég kynnst ágætlega kostum og göllum ýmissa málma og geri mér fulla grein fyrir hagnýti léttmálma umfram þyngri málma þar á meðal kostum áls fyrir umhverfi sitt. Þrátt fyrir þessa hagnýtu þekkingu á áli, er ég ekkert hætt að fara með dagblaðabunkana út í blaðagám, fer með áldósirnar eftir drykkju mína í endurvinnsluna, reyni eftir bestu getu að flokka annað sorp, nota sparperur og geng í vinnuna. Þar mættu margir svokallaðir umhverfisverndarsinnar taka mig sér til fyrirmyndar.

Ég er löngu hætt að styðja Vinstri hreyfinguna grænt framboð og held mig við Samfylkinguna, því rétt eins og ég hefi snúist í umhverfismálum, hefi ég einnig kynnst því hve Evrópusambandsaðild býður upp á marga kosti umfram ókosti rétt eins og ál býður stundum upp á kosti umfram stál.


Mér þykir hrefnukjöt gott á bragðið!

-----oOo-----

P.s. Minn vinstrigræni Subaru átti 10 ára afmæli í gær. Í tilefni dagsins skolaði ég lauslega af honum skítinn, enda er hann búinn að þjóna mér dyggilega í næstum helming af líftíma sínum, en innan við 40 þúsund kílómetra af sínum 150 þúsund kílómetrum. Til hamingju.

þriðjudagur, apríl 03, 2007

3. apríl 2007 - Vafasamt heiti á verðlaunum

Útgáfa ættfræðirita verður seint talin til gróðafyrirtækja á Íslandi. Snemma á níunda áratug tuttugustu aldar stofnaði Þorsteinn Jónsson ættfræðibókaútgáfuna Sögustein og hóf útgáfu ættfræðirita, fyrst í formi bæklinga, en um 1985 hóf hann útgáfu vandaðra ættfræðirita með nýju útliti þar sem myndir voru hafðar með viðeigandi texta, nýtt fyrirkomulag sem hafði lítt verið gert áður á Íslandi. Titlarnir urðu tíu ef mig misminnir ekki, niu niðjatöl og byggðatalið Ölfusingar og urðu bindin samtals 17. Með þessari útgáfu braut Þorsteinn blað í íslenskri ættfræðibókaútgáfu, ekki eingöngu vegna breyttrar uppsetningar niðjatalanna, heldur og með mjög svo stórhuga útgáfustarfsemi. Um 1990 fór Sögusteinn á hausinn.

Þrátt fyrir áfallið, lét Þorsteinn ekki deigan síga, en stofnaði Líf og sögu á rústunum sem síðar rann inn í Þjóðsögu og alltaf urðu útgáfurnar vandaðri og vandaðri. Svo stofnaði Þorsteinn útgáfufyrirtækið Byggðir og bú sem urðu að Sögusteini hinum seinni sem rann svo inn í Geneologia Islandorum og varð gjaldþrota um árið 2000.

Nú hafa verið stofnuð barnabókaverðlaun sem bera nafnið Sögusteinn. Þegar skoðuð er saga og andlát hinna tveggja útgáfufyrirtækja sem báru nafnið Sögusteinn, myndi maður ætla að nafnið Sögusteinn þætti ekki gæfulegt nafn á slíkt þarfaþing sem barnabókaverðlaun eru.

mánudagur, apríl 02, 2007

2. apríl 2007 - Hinn hataði málmur

Enn og aftur er ál orðið hinn versti málmur. Hér gengur maður undir manns hönd og bölvar þessum ágæta málmi út í ystu myrkur og vill helst losna við það úr umhverfi sínu, án þess að gera sér grein fyrir því að ál er allsstaðar meðal okkar, jafnvel í barmmerkjunum gegn áli.

Það eru vissulega til önnur efni sem hafa svipaða eiginleika og ál, eins og magnesíum og koltrefjaefni sem að auki eru miklu léttara en ál. Af hverju eru þá ekki fleiri umhverfissinnaðir Íslendingar sem mótmæla áli á reiðhjólum úr þessum efnum? Svarið er einfalt. Reiðhjól úr koltrefjum eru of dýr og magnesíum er oft notað til íblöndunar í ál til að styrkja það. Að auki láta “umhverfissinnaðir” Íslendingar ekki sjá sig á reiðhjóli dags daglega að örfáum undanskildum þar á meðal Magnúsi Bergssyni. Hinir halda að þeir spari með því að nota smábíla sem ekki eru úr áli. (sic!)

Mótmælendurnir ferðast um á bílum. Vélarblokkin í bílunum þeirra er nær undantekningarlaust úr áli, sömuleiðis gírkassinn og drifhúsið. Einstöku slitþættir í vélunum eru úr áli eins og stimplarnir. Þá eru heilmargir aðrir hlutir í bílunum þeirra úr áli. Sömu sögu er að segja um flugvélar. Þær eru að miklu leyti úr áli og sagt er að um 75 tonn af áli fari í hverja Boeing 747. Þá er heilmikið ál í flugvél álmótmælandans Ómars Ragnarssonar hvort sem honum líkar það betur eða verr og sennilega einnig í smábílnum hans

Ég hefi áður nefnt að ál er mikið notað í leiðara og var harðlega mótmælt. Satt er það engu að síður og má nefna að burðarvirkin myndu varla bera loftlínur úr þyngri málmum sem eru allt að fjórum sinnum þyngri nema með mikilli fjölgun burðarvirkjanna.

Allt í kringum okkur er ál. Ef það er ekki í hlutunum í kringum okkur er það örugglega til í framleiðsluferlinu eins og saumvélunum sem notaðar eru til að sauma fötin á okkur. Þá er eldhúsið yfirfullt af áli, sem finnst í ísskápnum, uppþvottavélinni, lömpum, tölvum, farsímum, sjónvörpum. Sökum léttleika álsins og verðsins hefur það víða komið í staðinn fyrir þyngri málma og léttleikinn er að auki orkusparandi. Því er furðulegt að mótmælendurnir skuli ekki hvetja til notkunar á áli í stað þess að mótmæla því.

Vissulega má bæta endurvinnsluna á áli. Það er skilagjald á álumbúðum eins og dósum, en minna um skilagjald á öðrum umbúðum eins og tilbúnum mat í álbökkum. Það er hinsvegar ekki skilagjald á flestum öðrum umbúðum eins og niðursuðudósum. Hvert á t.d. að skila dósum undan grænum baunum?

Við vitum ósköp vel að Steingrímur Jóhann er á móti áli, en hann hefur löngum verið á móti öllum framförum og kemur það ekki á óvart. Öllu furðulegri finnst mér afstaða Ómars Ragnarssonar sem ég hélt vera umhverfissinna af einlægni. Grátlegust finnst mér þó afstaða félaga minna í Samfylkingunni, að hlaupa svona undir öfgastefnu Steingríms Jóhanns í stað þess að stuðla orkusparnaði fyrir allan heiminn með framleiðslu á enn meira áli í stað þyngri málma.

Vissulega unnu Vinstrigrænir nauman sigur í Hafnarfirði í fyrradag, en umhverfið tapaði.

1. apríl 2007 - II - Aprílgabb



1. apríl 1976.
Ég var rétt komin úr skólanum rétt eftir hádegið þegar síminn hringdi hjá mér. Ég svaraði.
“Ertu að selja Cadillac?” spurði röddin í símanum.
“Enginn Cadillac hér til sölu,” svaraði ég með góðri samvisku enda enginn bíll í eigu bláfátæks skólanemandans á árinu 1976 og ég lagði á.
Síminn hringdi strax aftur og aftur var spurt um Cadillac til sölu og enn neitaði ég. Svo var hringt í þriðja sinn og spurt eftir eðalvagninum. Ég fór að verða forvitin og spurði manninn hvernig honum dytti í hug að leita að Cadillac hjá mér?
“Hann var auglýstur í Dagblaðinu í síma 19069.”

Þetta fór að verða grunsamlegt. Þetta var símanúmerið mitt. Ég hljóp út í búð og keypti Dagblaðið sem var nýlega stofnað, frjálst og óháð dagblað á þessum tíma og í harðri samkeppni við dagblaðið Vísir. Í smáauglýsingum blaðsins var auglýsingin:
Cadillac Eldorado árgerð 1968 til sölu. Eins og nýr. Glæsikerra og allt í rafmagni. Verð 400 þúsund, 100 þúsund út og 20 þúsund á mánuði. Upplýsingar í síma 19069.
Nú hringdi síminn látlaust hjá mér og ég komst ekki til þess að hringja úr eigin síma til að kanna þennan misskilning með símanúmerið. Að endingu fór ég yfir í næstu íbúð og fékk að hringja þaðan í Dagblaðið og spurði hvort þetta væri ekki örugglega vitlaust símanúmer. Því var harðneitað á Dagblaðinu, en er ég spurði hver hefði lagt inn auglýsinguna fékk ég að heyra að hún hefði verið lögð inn í mínu nafni. Þá vissi ég skýringuna!!!!

Ári fyrr hafði ég verið að stríða góðum vini mínum. Tvær stelpur höfðu auglýst eftir spilafélögum í bridge og ég hafði sent inn bréf í nafni þessa vinar míns þar sem hann lýsti yfir vankunnáttu í bridge en væri þess betri í fatapóker. Síðan setti ég nafn hans undir og sendi bréfið. Nokkrum dögum síðar fékk þessi vinur minn bréf frá stúlkunum þar sem þær voru uppfullar vandlætingar á hugsunum bréfritara, hvort hann hugsaði bara með neðri hlutanum.

Nú var semsagt komið að hinni sætu hefnd fyrir hrekkinn árinu áður. Það var ekki liðið langt á eftirmiðdaginn þennan fyrsta apríldag ársins 1976 þegar vinurinn kom “óvænt” í heimsókn og þar með fékk ég staðfest að hann hefði lagt inn auglýsinguna þótt hann neitaði því. Ég hirti þó ekki um að kreista hann til játninga, en síminn var ónothæfur hjá mér næstu dagana. Í hvert sinn sem símanum var stungið í samband byrjaði hann að hringja, jafnt eftir miðnætti sem klukkan sjö að morgni. Fyrst eftir viku var hægt að hafa símann tengdan og ró komst á hjá mér.

Vini mínum hafði vissulega tekist að koma fram hefndum eftir hrekkinn forðum, en nú tók verra við hjá honum. Í fjölda ára eftir þetta beið hann þess að ég svaraði fyrir mig á 1. apríl. Í mörg ár þorði hann vart að svara síma þennan dag, fullviss um að ég væri að gera sér einhvern grikk. Mín hefnd var hinsvegar fólgin í að gera ekki neitt.

Það fer að koma tími á hefndaraðgerðir. Hugmynd óskast! .

Þessi frásögn birtist áður 1. apríl 2005.