fimmtudagur, ágúst 31, 2006

31. ágúst 2006 - Geir Jón Þórisson ....

.... yfirlögregluþjónn er hinn mætasti maður, og drengur góður. Ég á góðar minningar af honum frá því hann var lögregluþjónn og jafnframt tollvörður í hjáverkum í Vestmannaeyjum og hefi alla tíð litið upp til hans, ekki einungis vegna hæðarinnar, en hann er með hærri mönnum. Stefna hans í trúmálum hefur ekki breytt skoðun minni á honum, þótt við séum öndverðrar skoðunar í afstöðunni til ákveðinna sértrúarsafnaða og lifi ég í þeirri von að hann sé meðal hinna frjálslyndari á þeim trúmálavængnum.

Ekki get ég þó neitað því að mér þótti einkennileg afstaða hans til íslenskrar leyniþjónustu sem og kunnátta eða réttara sagt kunnáttuleysi á leyniþjónustum. Í útvarps- og sjónvarpsviðtölum ruglaði hann saman leyniþjónustu og rannsóknarlögreglu og steypti í sama mótið. Ljótt var að heyra.

Í þessum viðtölum sló Geir Jón saman þáttum sem hægt er að líkja við FBI (alríkislögreglu Bandaríkjanna) og CIA (Leyniþjónustu Bandaríkjanna) og ruglaði hann þannig saman persónunjósnum á hendur fólki sem hugsanlega gæti einhverntíma verið í andstöðu við þjóðskipulagið við ótýnda glæpamenn. Lögreglan hefur þegar ýmis ráð til að stunda persónunjósnir á hendur grunuðum afbrotamönnum og notar þau óspart. Að láta einhverja draumóraleyniþjónustu af gerð Björns Bjarnasonar fara í samkeppni við lögregluna um persónunjósnirnar er hinsvegar fráleit hugmynd. Hún er einungis réttlæting á ætluðum víðtækum persónunjósnum á hendur pólitískum andstæðingum valdamanna og ber að hafna á frumstigi.

-----oOo-----

Eins og lesendur mínir vita, þjáist ég af athyglissýki á hæsta stigi. Því lét ég hafa mig út í stutt spjall á síðum Vikunnar um daginn og birtist viðtalið í 34. tbl. blaðsins sem kemur út í dag.

Á sínum tíma sór ég þess eið að hafa aldrei neitt eftir mér á síðum Vikunnar eftir ákaflega bitra grein um mig sem birtist þar fyrir sex árum síðan. Með því að skipt hefur verið um stjórnendur í brúnni, hefur afstaða mín linast mjög og jafnvel orðið jákvæð sem ég átti ekki von á frá sjálfri mér. Sjálf er ég orðin svo meir í viðtalinu að ég er jafnvel farin að hrósa pólitískum andstæðingum mínum. Ég er mjög sátt við nýja viðtalið. Takk Gurrí :)

þriðjudagur, ágúst 29, 2006

30. ágúst 2006 - Atvinna: Atvinnumorðingi?

Einhver ófyrirleitinn náungi sá ástæðu til að senda mér skilaboð í gegnum Morgunblaðsvefinn í gær á eftirfarandi hátt:Einhver hefur kosið að senda þér eftirfarandi frétt af mbl.is
Skilaboð frá viðkomandi: "Þessi á nú líka eftir að fá Fálkaorðun, sómi lands síns sverð þess og skjöldur."
Þess má geta að sá sem sendi þessi skilaboð til mín, þorði ekki að láta nafns síns getið.

Skelfing finnst mér sumir leggjast lágt. Ungur Íslendingur var sendur til Írak til að drepa innfædda, stóð sig svo vel þarna suðurfrá, að hann hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir dugnaðinn. Ekki veit ég hvort eigi að draga Íslendinginn unga til ábyrgðar fyrir þau morð sem hann hefur hugsanlega framið fyrir hönd dönsku krúnunnar, en alveg örugglega yfirmenn hans sem eru ábyrgir fyrir morðunum. Drengurinn verður hvort eð er, einungis í besta falli samsekur um lítinn hluta þeirra grimmdarverka sem danski herinn hefur verið að fremja í Írak í samstarfi í ýmsa aðra heri og með stuðningi Halldór Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar

Þess má geta að tæplega 3000 bandarískir hermenn hafa fallið í stríðinu gegn “hryðjuverkum” í Írak og Afganistan, öllu fleiri en fórust í árásunum 11. september 2001 auk þess sem 230 hermenn bandalagsþjóða þeirra hafa fallið. Þá má ekki gleyma að yfir 20.000 bandarískir hermenn eru sárir eftir þátttöku sína í hryðjuverkunum í Írak. Með öðrum orðum, George Dobbljú Bush hefur fyrir löngu stungið vini sínum Osama Bin Laden ref fyrir rass í hryðjuverkum á bandarískum borgurum auk þess sem hann og fylgisveinar hans eru taldir bera ábyrgð á milli 41.000 til 100.000 íröskum mannslífum. Árangur: Margt bendir til að Írak leysist upp í þrjú smáríki sem munu berjast á banaspjótum um ókomna framtíð eftir svokallaða frelsun landsins frá harðstjóranum Saddam Hussein.

Ég vil ráðleggja öllum sem lesa þennan pistil minn að fara inn á http://www.google.is/ og slá inn orðið failure sem leitarorð. Fyrsta greinin sem kemur upp er mjög áhugaverð. Gjörið svo vel.

-----oOo-----

Hér átti að koma stuttur pistill um heitavatnsleysi í Breiðholtinu, en ég hætti við hann, enda var ég í sumarfríi þar til klukkutíma áður en vatninu var hleypt á aftur.

-----oOo-----

Loks er sjálfsagt að óska sebradýrunum í vesturbænum til hamingju með timburmenn morgundagsins.

-----oOo-----

Ég þoli ekki SMS. Það er löngu búið að finna upp talsímann sem leysti af ritsímann.

29. ágúst 2006 – Gróa á Leiti komin í dagsljósið

Oddur “spekingur” Helgason og neftóbaksættfræðingur var í útvarpsviðtali fyrr í sumar þar sem hann vildi ekki tjá sig um öfundarfólk sitt og óvini, en nefndi Gróu á Leiti til sögunnar. Sjálfri datt mér strax til hugar að ég væri í þessum hópi öfundarmanna Odds. Nú hefur heldur betur rekið á fjörur þess gamla því nú er hann að verða kvikmyndastjarna. Það er verið að gera heimildarkvikmynd um íslenska ættfræði og kvikmyndagerðarmenn mættu til Odds um daginn og mynduðu hann við iðju sína.

Kona ein sem ég kannast við og býr úti á landi, fann hjá sér þörf til að fræðast aðeins um einstöku kima ættfræðinnar og hringdi í Odd Helgason í gær. Samtalið var eitthvað á þessa leið:

Ég fór og hringdi í kvikmyndastjörnuna, og nefndi það við hann að það vantaði upplýsingar um útgáfuna hans á heimasíðunni, ég er ekkert að gefa út sagði karl, nú sagði ég, en færð útgáfustyrki...já þeir kalla þetta það, ég er að búa til þjóðargrunn handa skjalasöfnum og öðrum sagði karl þá, já sagði ég og ert búinn að fá 2,6 milljónir í útgáfustyrk, nei nei segir hann það var ekki nema milljón....já en á 3 árum sagði ég er upphæðin þessi. Það skiptir ekki nokkru máli, hver ert þú annars spurði hann, ég sagði þú veist hver ég er, þú skelltir á mig í fyrra, þá geri ég það bara núna líka og þú getur verið Gróa á Leiti eins og Anna Kristjáns, nú sagði ég er hún orðin Gróa á Leiti? já lestu bara það sem hún skrifar sagði karl þá, já sagði ég hvar er hún að skrifa...er hún með heimasíðu eða hvað, já sagði karl þá og spurði hvort að ég vissi hvaða gögn hann væri með á 200 fermetrum, ég sagðist hafa séð myndir frá honum hann væri jú alltaf í fjölmiðlum og flaggaði bókum Þorsteins, þá kvaddi hann.
Skemmtilegt samtal.
Heyrumst
kveðja
hin Gróan”

Ég ætti eiginlega að skammast mín, en ég er svo óskammfeilin að ég kann ekki slíkt, ekki síst í ljósi þess að Oddur Helgason setti mig á listann sinn yfir óvini sína og það gerði hann alveg einn og óstuddur. Hinsvegar getur vel verið að pistill minn frá 12. júní síðastliðnum hafi bætt á fyrirlitningu Odds á hendur mér:

http://velstyran.blogspot.com/2006/06/12-jn-2006-skja-sr-f.html


-----oOo-----

Það er búið að ákveða refsingu mína fyrir lélega frammistöðu í Selvogsgöngunni síðasta sunnudag. Hún felst í því að senda mig öðru sinni þessa sömu leið og skal ég uppfylla skyldu mína eigi síðar en um næstu helgi.

-----oOo-----

Það var slegið nýtt aðsóknarmet á síðunni minni í gær er 386 heimsóknir voru inn á síðuna. Skýringin er einföld. Guðrún Vala var of þreytt til að blogga og setti inn link hjá sér inn á mína síðu svo ég fékk líka hennar heimsóknir.

mánudagur, ágúst 28, 2006

28. ágúst 2006 - Vegvillur á Selvogsgötunni


Sunnudagurinn rann upp bjartur og fagur og nú átti að leggja í langa göngu, nánar tiltekið Selvogsgötuna frá Selvogi til Hafnarfjarðar. Kannski var dagurinn ekki alveg eins bjartur og fagur og ætla mátti því heima lá Þórður og átti við fylgifiska þess að hafa farið á tónleika á laugardagskvöldinu og hann hringdi í mig og spurði syfjulega:
“Hurðu, hefurðu séð hvernig veðrið er?”
“Já Þórður minn, ég veit að það er smásúldarvottur á köflum, en það er spáð að létti til með morgninum og það verður væntanlega orðið þurrt þegar við leggjum í gönguna klukkan níu.”
“Jæja, ég kem þá á hjólinu til þín” svaraði syfjuleg röddin í tólinu mínu.

Eftir kortér hringdi Þórður aftur, greinilega enn með stýrurnar í augunum:
“Ég kem ekkert, það rignir allt of mikið”

Þar með misstum við af GéPéEssinum og Þórði og urðum að treysta á fararstjórann, Guð og lukkuna það sem eftir var. Ég lagði því af stað að heiman án Þórðar og varð að tilkynna aðdáendum hans sem biðu í hóp fyrir utan húsið hjá mér að venju, að Þórður væri með timburmenn og kæmist ekki í göngu dagsins.


Við vorum fimm sem hófum ferðina, fararstjórinn sem við skulum ekki nefna hér, en fyrsti stafurinn er Guðrún Helga, kortalesarinn Vigdís, Guðrún Vala og loks tvær stafkerlingar sem fá að fylgja með af alkunnri vorkunnsemi Guðrúnar Helgu, Sigrún og svo sú sem skrásetti þessa frásögn. Við fórum á vinstrigræna eðalvagninum suður í Selvog þar sem hann var skilinn eftir og lagt af stað. Það rigndi smávegis, ekki nóg til að fæla fimm ofurkerlingar frá, en öðru máli gegndi um suma sem lágu heima með timburmenn. Við héldum hinsvegar för okkar áfram og brátt sást ekki lengur til sólar og urðum við að ganga eftir stopulu minni því eins og vorir ástkæru lesendur vita, þá lá Þórður heima með GéPéEssinn og notaði hann til að mæla hraðann á sínum manni í Formúlu saumavél.

Við gengum alllengi og eftir að hafa fikrað okkur eftir neðri hluta Selvogsgötunnar, fundum við stikaða leið og þóttumst nú heldur betur hafa komist inn á rétta leið og gengum glaðar í bragði inn í þokuna. Eftir fjögurra stunda gang sáum við hvar rofaði til í fjarska og gall þá upp úr kortalesaranum Vigdísi:
“Þetta lítur út eins og Vestmannaeyjar þarna úti við sjóndeildarhring.”
“Ha, Vestmannaeyjar? Það getur ekki verið”

Herráðið var þegar kallað saman og haldinn fundur og aðstæður skoðaðar. Kortalesarinn dró upp kortin og kom þá í ljós að hún kunni ekki að lesa á kort og snéri þeim öfugt. Niðurstaðan varð því svo skelfileg að Þórður og GéPéEssinn hans máttu prísa sig sæla að hafa ekki fengið boð um að fara á sama stað og óskir hafa borist um hæli fyrir ónefndan sértrúarprédikara. Fyrir fótum okkar var Þorlákshöfn og Vestmannaeyjar í fjarska. Við höfðum þá gengið í austur allan tímann.


Við höfðum vart uppgötvað þennan nýja sannleika, en að fararstjórinn sem ekki hafði sagt eitt orð á meðan á öllu stóð, en legið í símanum, við skulum ekki nefna nein nöfn, en fyrsti stafurinn er Guðrún Helga, tilkynnti að það væri beðið eftir sér niðri í Þorlákshöfn og þar með var hún rokin af stað til Þorlákshafnar og kortalesarinn Vigdís á eftir henni. Eftir stóð Guðrún Vala með tvær stafkerlingar sér til halds og trausts og hefði vafalaust farið að hágráta ef nógu stórt tissjú hefði fundist í nágrenninu.

Þar sem flótti hafði hlaupið í liðið var ekki um annað að ræða en að rölta frá Þorlákshöfn til Selvogs, taka bílinn og aka grátandi heim á leið.

Muna að klikka á myndirnar til að fá þær í fullri stærð og svo eru myndir í myndaalbúminu.

sunnudagur, ágúst 27, 2006

27. ágúst 2006 - Sunnudagsgönguferðin

Ég iða í skinninu eins og lítill krakki á leið í fyrsta skólaferðalagið. Ég er búin að pakka ofan í bakpokann minn, aukanærbuxum, aukasokkum, húfu og vettlingum, nesti, og guð má vita hvað fleira hefur lent í pokanum.

Það er þó ekki eins og einhver sæla sé framundan. Þvert á móti sjáum við fram á erfiði og þrældóm á sunnudag. Þá ætlum við að ganga frá Selvogi til Hafnarfjarðar. Um leið verður þetta fyrsta þolraunin okkar ef þolraun skyldi kalla.

Þetta hljóta að vera ansi skemmtilegar göngur hjá okkur. Við byrjuðum tvær að rölta og nú verðum við sex í göngu sunnudagsins sem höfum staðfest þátttöku.

-----oOo-----

Það er mikið um að vera á íþróttasviðinu þessa dagana. Hetjurnar fótfráu í Halifaxhreppi unnu loksins sinn fyrsta sigur á haustinu er þær lögðu Cambridge United á útivelli og og blasir nú ekkert nema sæla við þeim og sífelldir sigrar. Þar er að vísu við ramman reip að draga, því fimm efstu liðin í kvenfélagsdeildinni hafa ekki tapað leik enn sem komið er þar af hafa tvö þau efstu unnið alla sína leiki. Þau verða samt að sætta sig við tapið þegar mínir menn fara að herða upp hugann og nálgast toppinn.

Sameiningu Mannshestanna gengur sömuleiðis ljómandi vel og hafa þeir unnið alla fimm fyrstu leikina í fyrstu deild Vestfjarðakjálkans (NorthWest Countys Division One) og virðast þeir hafa burstað mótherjana í fimmtu umferð með sjö marka mun ef marka má óstaðfestar tölur. Ef heldur áfram sem horfir verða þeir komnir í langefstu deild eftir átta ár og þá má gamla Mannshestafélagið sem lenti í klónum á Malcolm Glazer fara að gæta sín.

Loks er ég þess fullviss að fjarvera GéPéEss tækisins á öxlum Þórðar muni koma hans hetju langt í góðaksturskeppninni í Tyrklandi í dag. Öllu verri eru horfurnar hjá mínum manni og er ég enn miður mín. Fyrir tveimur árum, eftir að hafa horft á heimsmethafann geðþekka vinna hvert mótið á fætur öðru, skrapp ég austur á Kárahnjúka einn sólríkan sunnudag og olli sá sunnudagur jafnframt þáttaskilum í sigurgöngu kappans á rauða bílnum því hann hefur tapaði flestum keppnum eftir það þar til nú nýlega.

laugardagur, ágúst 26, 2006

26. ágúst 2006 – Náttúruhamfarir í Bláfjöllum?

Það á að reisa tónlistarhús ofan í höfninni í Reykjavík. Það á að verða hið glæsilegasta mannvirki, enda mun það kosta marga milljarða. Þar við hliðina á að reisa nýjar höfuðstöðvar Landsbanka Íslands. Út um allt spretta ný íbúðarhús, þjónustuíbúðir fyrir aldraða, skólar, jafnvel sjúkrahús. Vita menn ekki á hvernig svæði er verið að byggja öll þessi mannvirki? Eru yfirvöld gjörsamlega að ganga af göflunum? Hvað ætla þau að gera ef eldgos verður í Bláfjöllum og þunnfljótandi basaltið rennur yfir vatnsverndarsvæðið í Heiðmörk og fyllir Elliðavatnið á örskotsstundu svo það tæmist á augnabliki og flæðir yfir Árbæjarhverfið og Elliðaárdalinn, til sjávar og tekur með sér allar brýr á leiðinni?

Í næsta nágrenni Reykjavíkur eru virk eldstöðvasvæði, í Bláfjöllum, Hengli og úti á Reykjanesi. Jarðskjálftar eru tíðir með upptök við Kleifarvatn, í einungis 20 km fjarlægð frá Alþingishúsinu. Hér í Reykjavík erum við á miðju hugsanlegu hamfarasvæði. Samt er tugum milljarða hent í vafasamar fjárfestingar á þessu svæði á hverju einasta ári.

Ég er ekki að fara með neitt fleipur. Hengillinn er virkt eldfjall sem talið er að hafi síðast gosið fyrir einungis 2000 árum síðan. Síðasta eldgos í Bláfjöllum (Brennisteinsfjöllum) er talið hafa verið í kringum árið 1000 og jafnvel einhver smágos enn síðar. Miklir jarðskjálftar eru þekktir í kringum Kleifarvatn. Mikill hluti byggðar í Hafnarfirði og austurhluta Garðabæjar er á nýlega runnu hrauni. Samt er byggt austar og austar og sjálft Málgagnið búið að koma sér fyrir á sprungusvæðinu sem Sjálfstæðismenn hræddust svo mjög og vöruðu við fyrir borgarstjórnarkosningarnar 1982. Ofan á þessu virka eldfjallasvæði hafa verið reistar nýjar jarðgufuvirkjanir sem munu án efa farast verði stórgos á svæðinu eða öflugir jarðskjálftar.

Á árunum eftir 1970 var borað eftir gufu í námunda við Kröflu ætlað fyrir nýja jarðgufuvirkjun sem reist var á Kröflusvæðinu. Árið 1975 hófust síðustu Kröflueldar, hrina 22 eldgosa sem stóðu yfir í samtals áratug. Heyrt hefi ég því fleygt fram að hinar miklu gufuboranir á svæðinu hafi orsakað slíkan létti á þrýstingi á svæðinu að það hafi flýtt fyrir eldgosahrinunni. Ekki vil ég fullyrða neitt í því sambandi, en hvernig munu Hengilssvæðið og Bláfjöll svara hinum miklu borunum sem nú eiga sér stað á svæðinu í námunda við sjálfa höfuðborgina?

Hinar miklu vatnsaflsvirkjanir á Þjórsársvæðinu eru á virku jarðeldasvæði og sjálf drottningin Hekla í næsta nágrenni. Jarðskjálftar eru þar tíðir og svæðið hlaut verulega eldskírn í Suðurlandsskjálftunum árið 2000. Virkjanirnar stóðust prófið með sóma og getum við svo sannarlega þakkað verk- og jarðfræðingum þeim sem stóðu að hönnun mannvirkja þar austur frá fyrir gott verk og mikla tæknikunnáttu. Margir þessir sömu jarð- og verkfræðingar hafa síðan unnið við framkvæmd hinnar nýju Kárahnjúkavirkjunar og þeir hafa sýnt það og sannað að þeim er treystandi fyrir hinu nýja verki. Þá hafa mannvirkin á Nesjavöllum fengið sinn skerf af jarðskjálftum og skjálftar sem hafa orðið á svæðinu hafa ekki einu sinni leyst út virkjunina og er það enn eitt dæmið um góða tækniþekkingu og verklag við hönnun nýrra virkjana hér á landi.

Í alvöru. Hættan er lítil á mjög alvarlegum náttúruhamförum á næstu áratugum eða öldum, en þær koma. Kannski eftir þúsund ár, kannski eftir tíu þúsund ár. Við skulum heldur ekki gleyma að Helgafellið í Vestmannaeyjum var talið útbrunnið fyrir 1973.

Ef allt fer til fjandans hérna, veit ég um eitt svæði sem er tiltölulega öruggt og utan við verstu hamfarasvæðin. Þangað munu sum okkar geta leitað ef Bláfjöll eða Hengill leggja Reykjavíkursvæðið í eyði. Það er Jökuldalurinn, neðan við hina nýju Kárahnjúkastíflu.

-----oOo-----

P.s. Það væri gaman að sjá samanburð á hættumati fyrir Kárahnjúkavirkjun annarsvegar og jarðgufuvirkjanir á Hellisheiði og Reykjanesi hinsvegar.

-----oOo-----

Ég týndi úrinu mínu í síðasta mánuði og fann hvergi þrátt fyrir mikla leit. Í gærkvöldi var ég forvitnast um dauða Strandamenn og fann þá úrið inni í Strandamönnum 1703-1953 bls. 387, en þar er getið áa ónefnds verkfræðings sem er að vinna við Kárahnjúkavirkjun.

föstudagur, ágúst 25, 2006

25. ágúst 2006 - Svikist um fjallgöngu

Aðfararnótt miðvikudagsins óskaði ég eftir sjálfboðaliðum til að koma með mér í þægilega fjallgöngu á fimmtudag. Og viti menn, hér var allt barið utan um hádegi á fimmtudag og engin ég tilbúin í fjallgöngu. Sjálf lá ég í rúminu með einhverja kveisu og gat ekki hugsað mér að skríða á fætur fyrir klukkan þrjú. Ég get huggað stjórnendur Orkuveitunnar með því að ég er að taka út sumarleyfisdaga og hafði því ekki einu sinni þessa afsökun fyrir því að nenna ekki að mæta í vinnuna. Þar sem ég gat ekki hugsað mér að eyða fríinu í rúminu varð lítið úr veikindunum og ég komst á fætur fyrir kaffi.

Þetta minnir mig svo aftur á einustu afsökun sem togarasjómenn í gamla daga höfðu fyrir því að vera ekki standbæ úti á dekki alla vaktina þegar allt var á kafi í fiski, en það var mikilvægt verkefni á náðhúsinu. Það var svo hann Siggi gamli á Hrafnistu sem lenti í útvarpsviðtali og spyrillinn spurði hvert væri eftirminnilegasta atvikið sem hann hefði lent í á sínum langa sjómannsferli.
“Það var þegar ég þurfti að bregða mér á kamarinn á frívaktinni” svaraði Siggi gamli.

-----oOo-----

Ég ók á eftir einum sem ég hélt að væri með biluð stefnuljós í kvöld. Þegar ég var búin að skrifa bílnúmerið á handabakið á mér svo ég myndi það alveg örugglega til að setja á bloggið, gaf fíflið stefnuljós og lét sig hverfa inn einhverja hliðargötu og ég sat uppi með einskis nýtt bílnúmer párað á handarbakið.

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

24. ágúst 2006 – Fyrstu 35 ár ævi minnar....

...réði sjávarútvegurinn öllu á Íslandi og það skipti engu máli hvaða flokkar sátu í ríkisstjórn. Í hvert sinn sem verðfall var á fiski á mörkuðum erlendis eða aflasamdráttur, var gengið fellt. Í hvert sinn sem illa svikin alþýðan fékk einhverja leiðréttingu launa sinna eftir síðustu gengisfellingu, var gengið fellt aftur og svo koll af kolli og það var óðaverðbólga í landinu.

Þjóðartekjur Íslendinga framanaf tuttugustu öldinni komu frá fiskveiðum. Frá því að veiðarnar höfðu verið svo litlar að það rétt dugði fyrir fátæka alþýðu að draga fram lífið á laununum, varð Ísland að einu allsherjar vertíðarsamfélagi þar sem allt snérist um fisk og fiskveiðar. Það var ekki fyrr en um miðjan sjöunda áratuginn sem fór að örla á breytingum í átt til aukinnar fjölbreytni í atvinnuvegum þjóðarinnar. Þá var samþykkt á Alþingi að virkja Þjórsá við Búrfell sem og að reisa kísilgúrverksmiðju í Mývatnssveit og álver í Straumsvík sunnan Hafnarfjarðar. Síðan þá hafa Hafnfirðingar ekki þurft að bursta í sér tennurnar.

Þegar frumvörp um þessar verksmiðjur voru til meðferðar á Alþingi, greiddu allir alþingismenn Alþýðubandalagsins atkvæði gegn þessum stóriðjuáformum sem og flestir þingmenn Framsóknarflokksins. Það verður reyndar að hafa í huga að Framsóknarmenn spyrja ekki hvað er best fyrir þjóðina, heldur hvað er best fyrir eigin völd. Þannig gat bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hafnarfirði ómögulega ákveðið sig hvort hann ætti að vera með eða á móti samningi við Alusuisse, því þann 26. apríl 1966 greiddi hann ýmist atkvæði með eða á móti samningi Hafnarfjarðarbæjar við Alusuisse. Meðal stjórnarandstöðunnar var höfuðáhersla lögð á þjóðlega atvinnuvegi, þ.e. landbúnað og sjávarútveg, óskaplega sætt markmið, en ekki alveg raunhæft.

Með byggingu álvers í Straumsvík og kísiliðju í Mývatnssveit var hafin ný sókn til uppbyggingar nýrra atvinnuvega á Íslandi. Það dugði þó ekki til því þrátt fyrir að Íslendingar væru í hópi tekjuhæstu þjóða árið 1966, urðu þáttaskil árið 1967. Fyrst hrundu síldarstofnarnir og svo varð verulegt verðfall á þorski á Ameríkumarkaði. Í einum vettvangi varð íslenska þjóðin sem hafði verið ein sú ríkasta í Evrópu 1966, ein sú fátækasta. Þetta kostaði fólksflótta af landinu og geysilegt atvinnuleysi. Þótt ástandið lagaðist aftur eftir tvær stórar gengisfellingar, var ljóst að það þyrfti að koma fleiri stoðum undir atvinnulíf Íslendinga. Það skeði fátt næstu áratugina, raunverulega ekkert að ráði fyrr en á tíunda áratugnum þegar farið var að byggja fleiri álver. Þá hafði landsbyggðin nákvæmlega sömu úrræðin og forðum, fisk og aftur fisk. Sjálf kynntist ég Austfjörðum nokkuð 1996-2000 og sá hvernig stefndi í fólksflótta. Fólkið sem ekki vildi vinna í fiski fór í burtu og í staðinn komu aðkeyptir útlendingar. Síðan þá hefi ég verið einlægur álverssinni fyrir hönd Austfirðinga.

Það hefur margt breyst frá sjöunda áratugnum. Það mikilvægasta er að nú eru fleiri þættir sem halda atvinnulífinu gangi en áður. Það eru ekki lengur öll eggin í sömu körfunni, heldur er atvinnulífið orðið verulega fjölbreyttara en áður. Nú getum við valið um álver eða ferðaþjónustu eða fjármálastarfsemi. Við þurfum ekki lengur að fara á togara eftir grunnskólann.

Ég vona að við þurfum aldrei aftur að upplifa einokunartíma gamla útgerðarauðvaldsins.

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

23. ágúst 2006 – Húsfreyjugeninu skilað

Þá er ég laus við húsfreyjugenið til Pollýönnu. Reyndar þóttist Steini litli eiga það, en það stenst ekki því að honum tókst að brenna við steikina á grillinu áður en hann kveikti á því. Það er einnig tíðinda að Tárhildur litla gerðist ljósmyndafyrirsæta í gær, en Hrafnhildur lét ekki sjá sig á meðan, vafalaust í fýlu úti í garði á meðan. Hún svaraði ekki einu sinni þegar ég kallaði í hana, öfugt við Tárhildi sem ávallt svarar þegar ég mjálma að henni.

Fyrsta frétt í seinni fréttum sjónvarpsins á þriðjudagskvöldið var um einhvern forðafræðing hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem fær ekki að tjá sig neikvætt um Landsvirkjun opinberlega. Ég veit ekkert um þetta mál, þræti eins og sprúttsali og hefi aldrei séð eða heyrt þennan starfsmann Orkuveitunnar, þótt ég hafi starfað þar í tæp tíu ár. Að auki er hann örugglega á miklu hærri launum en ég.

Hver vill koma með mér í þægilega fjallgöngu á fimmtudag eftir hádegi?

-----oOo-----

Ég las það í fréttum að lögreglan hefði sektað nokkra fyrir leyniakstur með því að gefa ekki stefnuljós. Það var kominn tími til.

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

22. ágúst 2006 - Fundist hefur húsfreyjugen!

Nú er illt í efni. Bæði Þórður sjóari og Steini litli flóttamaður hjá hinum sebrahestunum suður í Afríku, búnir að finna húsfreyju- og hommagenið í sér og Þórður að auki búinn að þróa það svo vel með sér, að hann er farinn að skipta á kúkableyjum eins og ekkert sé. Á meðan sit ég hér heima í óburstuðum skóm og hleyp á fjöll í stað tiltekta og saumaskapar. Það verður að gera eitthvað í þessu máli.

Í morgun var mér nóg boðið, hristi af mér slyðruorðið, henti köttunum út í garð og þurrkaði af og skúraði, þvoði nokkrar þvottavélar og tróð pappírsbunkanum inn í skáp þar sem hann mun liggja uns annar bunki leggst ofan á hann eða þá að ég yfirfer bunkann og raða í möppur. Þvílíkur dugnaður. Ég gerði betur því ég endurnýjaði dyraskrána hjá mér til samræmis við nýja masterkerfið sem var sett hér í húsið fyrir tveimur mánuðum. Síðan hljóp ég með gamlan dagblaðabunka út í blaðagám og kembdi síðan kettina um leið og ég hleypti þeim inn aftur. Ekki gerðist ég samt eins gróf og Þórður sem fær börn lánuð til að skipta á þeim. Þess þarf ekki í mínu tilfelli því barnabörnin eru laus við bleyjuna og farin að draga til stafs.

Hvernig ætli standi á þessum dugnaði hjá mér? No komment, en fæst orð hafa minnsta ábyrgð.

mánudagur, ágúst 21, 2006

21. ágúst 2006 - Nú brást Þórður


Það var fyrirhuguð Esjuganga á sunnudaginn. ég var búin að baka og hella upp á könnuna og beið þess að væntanlegir göngugarpar dagsins mættu í litla eldhúsið mitt til að fá sér örlitla hressingu fyrir gönguna góðu er síminn hringdi. Það var Þórður:
“Hurðu, ég kemst ekki í göngu í dag. Ég er fárveikur.”
“Jæja Þórður minn, ertu ekki bara með timburmenn eftir menningarnóttina?”
“Nei,nei, ég drakk sáralítið og var ekki að nema til klukkan sex í morgun”

Ég tók veikindaforföll Þórðar góð og gild, rétt eins og forföll Guðrúnar Völu sem var að lesa undir próf og Guðrúnar Helgu sem var með harðsperrur eftir maraþonhlaup gærdagsins sbr mynd hér til hliðar.

Ég hringdi í Kjóann:
“Ég er að hringja í þig til að minna þig á Esjugöngu á eftir.”
“Hurðu, ég kemst ekki í göngu í dag. Ég er dauðþreyttur eftir að hafa borið út blöð í alla nótt”

Eftir sat ég ein heima með hlaðið borð með veislukosti og nýlöguðu kaffi og velti fyrir mér hvað ég ætti að gera um eftirmiðdaginn því vart nennti ég að labba ein á fjall. Þá hringdi síminn. Það var aðdáandi Þórðar.
“Hurðu, er Þórður mættur? Ég er hér fyrir utan hjá þér með nesti og nýja skó og tilbúin til að leggja í fjallgöngu”

Ég varð að hryggja Sigrúnu með því að Þórður lægi fyrir dauðanum, en ég gæti alveg farið á fjall með henni í stað Þórðar. Síðan héldum við tvær, ég og nýjasti meðlimur gönguhópsins þreytta, upp að Mógilsá og héldum til fjalla. Sigrún telst vera óvön göngum, enda höfðum við allan eftirmiðdaginn fyrir okkur og ákváðum að rölta bæjarhólinn í rólegheitum, en ekki í hægðum okkar eins og Þórður vill.

Við fikruðum okkur upp eftir fjallinu í rólegheitum en þegar ég kom upp að hamrabeltinu, var Sigrún horfin upp fyrir klettana og komin á toppinn þótt ég ætti enn eftir heilmikið klifur. Ég lenti reyndar á stuttu spjalli við einn fyrrverandi ráðherra Framsóknarflokksins og konu hans og gleymdi myndavélinni að venju, en það var óþarfi að fara í fýlu við mig vegna þess. Sjálfri tókst mér að klöngrast upp á toppinn og rakst þar á einn deildarstjóra hjá Orkuveitunni sem var ekki með í hópnum sem átti að draga með á Esjuna þennan dag. (sjá myndaalbúm).

Við urðum samferða hjónum með þrjá stráka af toppnum, einn ungling og tvo fimm ára, sennilega tvíbura. Það var gaman að fylgjast með strákunum og ánægjunni sem skein úr andlitum þeirra er foreldrarnir notuðu beltin sín til að halda við þá er farið var niður fyrir klettabeltið. Mig grunar að þeir eigi eftir að njóta útivistar í framtíðinni.

Á leið niður hitti ég Hörð frænda minn Torfason sem var á uppleið ásamt sínum ektamaka. En sárast þótti mér þó að gleyma myndavélinni er ég mætti Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni stjórnarformanni Landsvirkjunar berum að ofan með öfuga derhúfu á hlaupum upp fjallið með hund í bandi. Það hefði orðið flott mynd, enda maðurinn flottur. Það er greinilegt að Esjan er heitur staður fyrir unga sem aldna. Hvenær fæ ég að sjá félaga Álfheiði á Esjunni? Myndir eru komnar inn af göngunni að öðru leyti.

-----oOo-----

Með þessum orðum sendi ég Þórði hamingjuóskir með 37 ára afmælið og vona að þynnkan verði ekki mjög slæm í dag.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

20. ágúst 2006 – Jón, Halldór og allir hinir

Þá er hinni miklu dramatík Framsóknarflokksins lokið og Jón orðinn formaður, en Halldór farinn heim með skottið á milli lappanna.

Sagt var í fréttum að Jón Sigurðsson væri líklegri til að ná sáttum innan flokksins en Siv Friðleifsdóttir. Það má vel vera. Ég er ekki í flokknum né styð hann. Ég studdi Alfreð Þorsteinsson til allra góðra verka sem og Sigrúnu Magnúsdóttur og síðar nöfnu mína Kristinsdóttur á meðan R-listinn var og hét þótt ekki styddi ég Framsóknarflokkinn sem slíkan. Með því að Björn Ingi Hrafnsson tók sæti þeirra beggja lauk stuðningi mínum við einstöku Framsóknarmenn og ég gat snúið mér að öðrum málefnum og öðrum og betri flokkum. Vegna þessa kemur mér það ekkert við hver situr í formennsku í Framsókn og á erfitt með að meta hver er líklegastur til að ná sáttum innan flokksins.

Sem kjósandi hefi ég aftur á móti fulla skoðun á þessu flokksþingi. Þar er ég ekki viss um að Jón Sigurðsson eigi mikið fylgi utan Framsóknarflokksins. Með því að velja hann til formennsku er forystan í reynd að setja flokkinn í biðstöðu uns æskilegur formaður kemur til sögunnar sem getur leitt flokkinn til sigurs. Spurningin er bara, hvort sá arftaki komi áður en flokkurinn lognast útaf? Ekki veit ég.

Í viðtali við föstudagsblað Morgunblaðsins forðast Halldór Ásgrímsson að nefna að stuðningur hans við árásina á Írak hafi verið hans mestu mistök, en bendir á nokkrar aðrar “þjóðir” (les: ríkisstjórnir) sem hafi stutt innrásina. Þessi orð Halldór lýsa ágætlega hve maðurinn er óábyrgur gerða sinna, því opinber stjórnmálamaður á ekki og má ekki styðja glæpi og fjöldamorð, þótt einstöku vinir hans hafi gerst samsekir gerandanum og jafnvel þátttakendur í hryðjuverkunum. Ég vonaðist til að Halldór myndi biðja íslensku þjóðina afsökunar á stuðningi sínum við árásina á Írak þegar hann hélt sína lokaræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins. Það gerði hann ekki og er maður að minni fyrir bragðið og má mín vegna draga þessa byrði stríðsglæpa með sér út í ellina á meðan hann lærir ekki að skammast sín.

Það verða Jón Sigurðsson, Guðni Ágústsson og Sæunn Stefánsdóttir sem munu erfa stuðning Halldórs við innrásina í Írak. Nú er það þeirra að biðja íslensku þjóðina afsökunar fyrir hönd Halldórs því annars mun stuðningurinn verða svartur blettur á sögu Framsóknarflokksins um ókomna framtíð.

-----oOo-----

Það blæs ekki byrlega fyrir hetjunum hugumprúðu í Halifaxhreppi, því eftir þrjár umferðir í kvenfélagsdeildinni sitja þær í 21. sæti í kvenfélagsdeildinni með aðeins eitt stig og fjögur mörk í mínus. Ég ætla að vona að opinber heimsókn mín til liðsins í síðasta mánuði hafi ekki haft þessi áhrif á hetjurnar. Við getum þó allavega huggað okkur við að nú getur leiðin bara legið upp á við því erfitt er hægt að komast neðar.

-----oOo-----

Svo ber að sjálfsögðu að óska göngufélaganum, Guðrúnu Helgu, til hamingju með að hafa tekist að ljúka heilu maraþonhlaupi í gær.

laugardagur, ágúst 19, 2006

19. ágúst 2006 – Af kristindómi

Það sá einhver ástæðu til að hnýta í mig vegna stutts pistils í gær um kristindóminn. Vegna þess vil ég árétta skoðun mína á kristindómnum og kærleiksboðskap.

Ég get vart sagt að ég hafi lesið mikið í biblíunni frá fermingu fyrir rúmum fjórum áratugum síðan. Það er heldur engin ástæða til þess að vera sífellt að blaðra í biblíunni ef þau skilaboð sem troðið var í mig sem barni náðu að festast í mér og að mér tókst að lifa eftir þeim. Það er þessi barnatrú sem ég bý enn við og mun gera það sem eftir er. Það hefur vissulega margt farið úrskeiðis á langri ævi, en rétt eins og kærleiksboðskapurinn og fyrirgefningin boða, þá get ég iðrast gerða minna og bætt mig. Sömuleiðis ber mér að bæta mig og reyna allt sem mér er unnt til að gera betur.

Ég viðurkenni fúslega að ég hefi löngum þurft að eiga við ýmsa eigin fordóma. Ég bjó mér til fordóma þar sem ég óttaðist að upp um tilfinningar mínar kæmist. Aðra lærði af mér reyndara fólki sem taldi sig vita betur. Í dag veit ég oft betur en ég gerði og ég þarf ekki að mæta í kirkju alla sunnudaga til að hressa upp á trú mína.

Ég hefi ávallt litið á boðorðið gegn morðum eða drápum sem eitt hið mikilvægasta. Það ásamt mörgum öðrum reglum eru það gróin við siðferðiskennd mína, að brot á slíkri reglu er óhugsandi, nema hreinlega í ítrustu sjálfsvörn. Öll morð og dráp stríða gegn réttlætiskennd minni, enda get ég ekki með nokkru móti séð að slíkt athæfi samræmist kærleiksboðskapnum. Sama gildir um dauðarefsingar. Í hvert sinn sem ég heyri einhvern mæla með dauðarefsingu get ég ekki annað en mótmælt. Því miður eru nokkrir aðilar á Íslandi sem telja dauðarefsingu vera eðlilega, þeirra á meðal einn sem haldið hefur uppi vörnum fyrir auglýsingu gegn samkynhneigð sem birtist í Morgunblaðinu fyrir viku síðan. Með slíkri skoðun er sá hinn sami að segja að bókstafurinn gildi, ekki kærleikurinn.

Ég hefi ávallt verið í vafa um einstöku bókstafi í biblíunni. Ég get ekki fest hugann við almættið, eitthvað sem kallað er Guð. Ég sé ekki Guð fyrir mér sem gamlan mann í hvítum kjól og með alskegg. Ég get ekki einu sinni séð Guð sem mann, einungis sem hið góða í okkur öllum. Sömuleiðis hefi ég aldrei botnað í hinni heilögu eimyrju og veit ekkert hvað bíður mín á hinum efsta degi. Ég kvíði litlu eða engu, það væri þá helst sársaukinn, hvort dauðinn verði endanlegur eða eitthvað bíði mín hinum megin grafar.

Ég á þó örfá orð, tekin frá þeim sem þjáðist á krossinum til handa þeim aðilum sem hafa haldið uppi fordómum í garð samkynhneigðra að undanförnu:

Guð, fyrirgefðu þeim, því þeir vita eigi hvað þeir gjöra.

föstudagur, ágúst 18, 2006

18. ágúst 2006 - 2. kafli - Rekin á dyr!!!

Í útvarpsfréttum í morgun var sagt frá kristinni sjö manna fjölskyldu í Berlín í Þýskalandi sem sagt hefur verið upp íbúðinni vegna hávaða. Fram kom í fréttinni að ástæða uppsagnarinnar hefði verið hávaði, en fjölskyldan hefði viðhaft háværar bænir í þeim tilgangi að halda djöflinum í burtu.

Mér þótti fréttin merkileg, þá helst fyrir þá sök að fjölskyldan taldist kristin samkvæmt fréttinni. Einasta fólkið sem ég veit sem er umsetið "djöflum", er fólk sem getur ekki talist kristið, brýtur gróflega á réttindum annarra og hefur gleymt kærleikanum og fyrirgefningunni. Þetta fólk er hlynnt dauðarefsingum og brýtur þannig á boðorðum biblíunnar, gjarnan fólk sem er í sértrúarsöfnuðum og þar birtist þeim djöfullinn með biblíuna í annarri hendi, en sverðið í hinni og guðsorð á munn.

18. ágúst 2006 - Segir fátt af einni

Héðan er fátt að frétta þessa dagana. Ég svaf frameftir degi í undirbúningi fyrir næturvaktina, en eftir nauman hádegismat fékk ég mér hádegislúr og vaknaði klukkan þrjú til að hleypa kisu inn, en ég hafði hent henni út þegar ég fór á fætur skömmu fyrir hádegið. Nú sit ég hér á vaktinni í næsta húsi við kisurnar og vona að þær séu ekki með eitthvað næturteiti á meðan ég er hinum megin við götuna.

Ég er farin að hafa áhyggjur af Þórði og Framsóknarflokknum.

-----oOo-----

Ég læt svo heyra í mér ef mér skyldi detta eitthvað gáfulegt til hugar

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

17. ágúst 2006 - Bush, Blair og Olmert

Árið 1933 komst Adolf Hitler til valda í Þýskalandi. Hann hafði ekki verið lengi við völd er hann hóf að herja á nágranna sína, fyrst Austurríki, síðar Bæheim og Mæri og síðan alla Tékkóslóvakíu. Vesturveldin gerðu lítið til hjálpar þessum ríkjum sem lentu undir járnhælnum, en þegar Hitler fann hversu auðveld bráð andstæðingarnir voru, gekk hann enn lengra, samdi við vini sína í Róm og Tókýó og með þá að bakhjarli gat hann haldið áfram. Næst var það Pólland sem hann náði í blóðugri styrjöld og síðan fjöldi annarra ríkja, ýmist í nafni Þýskalands eða að bandamenn hans náðu ríkjunum með hans stuðningi. Að lokum varð græðgin honum að falli og hann svipti sig lífi vinafár í neðanjarðarbyrgi í Berlín árið 1945 eftir rúm 12 ár við völd.

Árið 2001 komst George Dobbljú Bush til valda í Bandaríkjunum. Sama árið lagði hann til atlögu við eitt fátækasta ríki heims með stuðningi Breta, Ísraela og fleiri og sendi aftur á steinöld. Tveimur árum síðar réðist hann á gamlan óvin sem faðir hans hafði sent aftur á steinöld nokkrum árum áður og sendi þá þjóð öðru sinni aftur á steinöld með hjálp Breta, Ísraela og nokkurra leppríkja sinna. Næst var það Ísraels að gera slíkt hið sama og sendu þeir hið margmolaða ríki Líbanon aftur á steinöld með hjálp Bush og Blair. Að auki hefur Bush haldið við ógnarstjórnum í öðrum ríkjum eins og Úsbekistan sem berst hatrammlega gegn þjóðinni þar í landi.

Ýmis þjóðarbrot og ríki sem sloppið höfðu við árás Þjóðverja bundust samtökum og reiðin óx og loksins tókst þeim að velta af sér oki nasismans. Nú er viðbúið að þjóðir og þjóðarbrot í arabaheiminum og víðar í heiminum fari að svíða nauðgun Bush og félaga á þjóðunum og er þá viðbúið að draga muni til tíðinda.

Bandaríkin hafa þó einn kost framyfir Þýskaland nasismans. Hámarkstími Bandaríkjaforseta á valdastóli er átta ár, en Hitler ríkti í tólf ár.

-----oOo-----

Ég hefi enn ekki heyrt Halldór Ásgrímsson fráfarandi formann Framsóknarflokksins biðja íslensku þjóðina afsökunar á stuðningi sínum við innrás og fjöldamorð í Írak. Ætlar hann virkilega að láta arftaka sinn á formannsstól Framsóknarflokksins bera þessa blóðugu byrði skammarinnar með sér inn í framtíðina?

-----oOo-----

Kynlífsfræðsla í skólum er í molum, var sagt í útvarpinu í gær. Hefur hún þá verið einhver? Ég fór að velta fyrir mér þeirri kynlífsfræðslu sem ég fékk í gaggó. Kynlífsfræðslan var nákvæmlega ein setning:
"Það þarf ekki að lesa blaðsíður 82-83 til prófs!"

þriðjudagur, ágúst 15, 2006

16. ágúst 2006 – Stjörnudýrkun?

Ónefndur kunningi minn var mikill aðdáandi ensk-rússneska fórboltafélagsins sem kennt er við Seltjörn og hafði verið frá því ég heyrði hann fyrst tala um fótbolta í mín eyru. Með öðrum orðum, einlægur aðdáandi. Mér fannst það í góðu lagi þótt ekki væri ég mjög hrifin af mansali þeirrar gerðar sem rússneski arðræninginn Abramóvitsj stundar. Fyrir nokkrum vikum veitti ég því athygli að flöggin og veifurnar voru horfin og í staðinn komnar stærri veifur merktar spænska fótboltafélaginu Barþelóna. Ekki dytti mér til hugar að hætta að halda með Halifaxhreppi þótt markmaðurinn geðþekki, Lárus Bryti færi á eftirlaun.

Þetta flaug í gegnum huga mér í gær er ég heyrði af einhverjum leik milli Íslands og Spánar í boltasparki. Þó skyldist mér að enginn leikmaður áður umrædds fótboltafélags tæki þátt í leiknum, enda væri þetta bara æfingaleikur sem skipti litlu eða engu máli. Mikið var gert úr fjarveru leikmanna áðurnefnds fótboltafélags og mátti ætla að þeir lægju fyrir dauðanum eftir þátttöku í baráttu úti í heimi og þá helst fótboltamaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen. Af fjölmiðlum mátti ráða að fjarvera drengsins væri sem vörusvik, bullandi markaregn og hræðilegur ósigur framundan.

Ég veit ekki af hverju. Ég hefi ekki séð að Ísland hafi staðið sig vel í fotbolta á undanförnum árum, hvort heldur Eiður þessi spilar með eða ekki. Einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að aðdáun Íslendinga á þessum dreng jaðri við stjörnudýrkun.

-----oOo-----

Ég er hálfslöpp er ég rita þennan stutta pistil og læt þetta nægja að sinni.

15. ágúst 2006 – Vel mælt Heimir Már

Síðastliðinn laugardag birtist heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu frá svokölluðum Samvinnuhóp kristinna trúfélaga þar sem bent er á það sem kallað er frelsi frá samkynhneigð. Eftir að hafa alist upp og búið stærstan hluta lífsins í harkalegu gagnkynhneigðu samfélagi þar sem samkynhneigð var fordæmd þar til fyrir örfáum árum síðan, hélt ég að ekki þyrfti að læra neitt um gagnkynhneigð, en nú er það ljóst nokkrir hægrisinnaðir bókstafstrúarmenn og öfgamenn telja að hægt sé að læra gagnkynhneigð.

Þegar ég heyrði fyrst af þessari auglýsingu, veitti ég henni litla athygli og taldi hana lýsa best gömlum fordómum og afturhaldi. Þá taldi ég enga ástæðu til að gera veður úr henni, því eins og ég hefi sagt áður á þessu bloggi mínu, þá lýsir opinberun af þessu tagi best þeim sjálfum sem settu hana fram. Hun er sömuleiðis öðruvísi en meiðandi fordómar af sama meiði sem birtust í athugasemdum við bloggið, að hún var á ábyrgð ákveðinna nafngreindra aðila og því án ábyrgðar ritstjórnar viðkomandi dagblaðs, þ.e. Morgunblaðsins. Fordómafullar athugasemdir við bloggið mitt um daginn voru undir dulnefni og að auki undir IP tölu fyrirtækisins sem ég vinn hjá og hefði því auðveldlega verið hægt að benda á mig sem hugsanlegan bréfritara.

Það var fjallað um auglýsinguna í Kastljósi sjónvarpsins á mánudagskvöldið. Viðmælendur stjórnandans voru tveir kunningjar mínir, hinn samkynhneigði Heimir Már Pétursson fréttamaður og hinn gagnkynhneigði Jón Valur Jensson guðfræðingur og ættfræðigrúskari. Ég verð að viðurkenna að mér hefur alltaf þótt örlítið vænt um Jón Val vegna starfa hans í þágu ættfræðinnar. Þá hefur hann grafið fram nokkra gullmola af ættfræðibókum mér til handa og þakka ég honum kærlega fyrir það. Ég deili samt ekki skoðunum mínum með honum.

Jón Valur er ákafur hægrimaður og þrátt fyrir yfirlýsingar sínar þess efnis að hann sé kristinn, neita ég að trúa því. Hvorki er fyrirgefningin honum í blóð borin né er hann hlynntur hinum tíu boðorðum. Hann hefur lýst opinberlega yfir stuðningi við dauðarefsingar og sá sem gerir slíkt er ekki kristinn maður. Heimir Már er algjör andstæða við Jón Val, vinstrisinnaður friðarsinni og lifir eftir kristnum lífsgildum, þ.e. aðhyllist fyrirgefninguna og kærleikann.

Er ég fylgdist með Kastljósþættinum gladdi mig mjög að sjá hve Heimir Már var yfirvegaður og vel inni í öllum málum sem snertu þau mál sem voru til umræðu, það er ímyndaða lækningu af samkynhneigð. Það var lítið farið inn á haturstengda glæpi gagnvart samkynhneigð, en þeir eru margir. Sjálf hefi ég tekið þátt í baráttuhóp í Evrópu gegn hatursglæpum með áherslu á morðið á Gisbertu í febrúar síðastliðnum. Þar voru unglingar undir umsjón kaþólsku kirkjunnar sem réðust að Gisbertu, misþyrmdu henni hrottalega og myrtu síðan. Morðið var ekki í þágu kirkjunnar, en verður blettur á sögu kaþólsku kirkjunnar í Portúgal um langa framtíð.

Spurningin er hversu mjög svokallaðir kristnir söfnuðir eru ábyrgir þegar slíkir glæpir eru látnir viðgangast?

-----oOo-----

Hvað veldur því að heimsóknir á síðuna mína voru vel yfir 300 í gær? Má kannski búast við því að sjálfsmyndin í rigningunni á toppi Strútsins verði á forsíðu Séð og heyrt á miðvikudag? Það yrði ekki í fyrsta sinn sem rigningarmynd af mér villtist á forsíðuna á því virðulega blaði.

mánudagur, ágúst 14, 2006

14. ágúst 2006 – Sjáið tindinn, þarna fór ég


Áður en ég fer að monta mig af afrekum dagsins vil ég taka fram að ég missti af viðtalinu við Önnu Jonnu vinkonu mína á Stöð 2 á sunnudagskvöldið. Ég kom ekki heim úr fjallgöngu dagsins fyrr en klukkan var farin að ganga tíu um kvöldið.

Sunnudagsfjallgangan var bæði létt og ljúf, enda fjallið sem klifið var einungis 936 metra hátt. Eins og gefur að skilja, voru bæði Þórður og Kjói ennþá miður sín eftir föstudagsgönguna og þorðu ekki að koma með. Ég get glatt þá með því að ganga á Strútinn er slík kellingaganga að þangað upp fara stelpurnar helst á háhæluðu og sáum við merki þess á leiðinni upp. Því er Þórði alveg óhætt að koma með næst, hvort heldur hann er á flatbotna eða á háum hælum.

Á meðan við vorum á leiðinni upp hrönnuðust upp óveðursskýin í fjarska, en við létum það lítt á okkur fá og héldum áfram ofar og ofar. Um það leyti sem við gengum upp efsta hrygginn skall þokan á með tilheyrandi regni og hvassviðri. Við héldum samt áfram uns Guðrún Helga labbaði beint á GSM-mastur á toppnum og sáum við þá að hærra yrði ekki komist nema við nenntum að klífa mastrið sem við nenntum alls ekki. Í skjóli af vörðu tók hún svo upp skyrdollu og kom þá í ljós að hún hafði gleymt að borða morgunmatinn um morguninn.


Það verður að játast eins og er að það var sorglega lélegt útsýni af toppnum, þótt vissulega væri bæði kalt og blautt þar uppi. Því ákváðum við að flýta okkur niður aftur og tók ferðin niður öllu styttri tíma en leiðin upp. Við héldum síðan að Surtshelli og eftir stuttan stans þar, héldum við aftur til byggða og lentum að sjálfsögðu beint í umferðinni á leið til höfuðborgarinnar eftir helgina.

-----oOo-----

Ég veit um gott tækifæri fyrir lögregluna til að ná sér í aukaprik. Hún felst í því að fara út á þjóðvegina og mæla umferðarhraða þegar umferðin er mjög þétt eins og á sunnudagskvöldið. Kippa síðan þeim út á kantinn sem aka of hægt á meðan umferðin fer framhjá og lofa þeim hinum sömu síðan að halda áfram. Það er stórhættulegt að láta gamlingja á gömlum Toyota Touring keyra um á 60-70 km hraða í mikilli umferð þar sem hámarkshraðinn er 90 km og jafnaðarhraðinn væri einnig 90 ef gamlinginn væri heima hjá sér.

-----oOo-----

Ef fólki finnst myndirnar sem birtast á blogginu of litlar, er bara að klikka á þær og þær munu stækka. Svo eru nýjar myndir í myndaalbúminu að venju.

P.s. Hinn mjög svo þægilegi göngustígur upp á fjallið mun hér eftir verða kallaður Þórðarsveigur til minningar um manninn sem ekki kom með upp.

sunnudagur, ágúst 13, 2006

13. ágúst 2006 – Brúðkaup og þróunarkenningin


Hún dóttir mín gifti sig í gær. Ég var þar, skemmti mér vel og tók fullt af myndum, en mun ekki setja inn myndir að sinni. Ástæðan er sú að sumum þætti það viðkvæmt að lenda á netinu án sérstakrar heimildar þótt helst vildi ég setja nokkrar valdar myndir öðrum til gleði. Að auki virðist sem “red eye” stillingin hafi verið aftengd og því eru börn jafnt sem fullorðnir með rauð augu á sumum myndanna. Ég verð því að laga sumar myndanna. Ég sendi hinar bestu framtíðaróskir til ferskra brúðhjónanna.

-----oOo-----

Einn góður vinnufélagi minn í Svíþjóð var frá Finnlandi, ákaflega trúaður og var meðlimur í kirkjudeild babtista. Hann var stríðsbarn, þ.e. eitt þeirra mörgu barna sem höfðu verið send í fóstur til Svíþjóðar meðan á vetrarstríðinu stóð sem og eftirhreytum þess og snéru aldrei heim aftur, heldur ólust upp í Svíþjóð við misjafnt atlæti en ákveðið öryggi gagnvart heimsstyrjöldinni síðari. Við ræddum oft saman um lífið og tilveruna og allt milli himins og jarðar, en einhverntímann bárust hlutir í tal sem vörðuðu þróunarkenningu Darwins. Þá snérist Stig til varnar og afneitaði öllu sem hafði að gera með þróun tegundanna. Jörðin væri einungis 6000 ára gömul og við það sat.

Þegar við höfðum unnið saman á vakt í um tvö ár, hætti hann og flutti niður til Småland í hið svokallaða Biblíubelti Svíþjóðar þar sem hann gæti verið örlítið nær Guði sínum. Ég heimsótti hann og konu hans einu sinni eftir það, en skömmu síðar varð hann bráðkvaddur og var jarðaður frá litlu grafarkapellunni örskammt frá staðnum þar sem við höfðum unnið saman í Hässelby.

Þessi afneitun Stigs á þróunarkenningunni rifjaðist upp fyrir mér er ég las ákaflega athyglisverða grein um þróunarkenninguna í Dagens nyheter. Þar kemur fram að að einungis 40% Bandaríkjamanna trúa þróunarkenningunni, en 21% að auki eru í vafa um hvort hún sé rétt. Þetta þýðir í reynd að 39% Bandaríkjamanna afneita þróunarkenningunni.

Í Bandaríkjunum berjast hægrisinnuðu bókstafstrúaröflin fyrir því að sköpunarsaga Biblíunnar verði kennd sem hin eina sanna útskýring á tilvist mannsskepnunnar og að þróunarkenningunni verði afneitað. Þar í landi er ástandið þó ekki verst. Það má benda á að því minni sem þekking almennings er, því verra er ástandið. Þannig afneitar um helmingur Tyrkja tilvist þróunarkenningarinnar, en innan við 10% Íslendinga og Japana. Ástandið í Vestur- og Norður-Evrópu er yfirleitt svipað, þ.e. að um eða yfir 80% fólks trúir þróunarkenningunni og 10-15% fólks afneita henni.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=145&a=564362&previousRenderType=6

laugardagur, ágúst 12, 2006

12. ágúst 2006 – Fanntófell, brúðkaup og umferðarslys

Á föstudaginn var farið á Fanntófellið á Kaldadalsleið. Ég viðurkenni það fúslega að Fanntófellið er erfiðasta fjall sem ég hefi farið á fram að þessu, 901 metri á hæð yfir sjávarmáli, en mjög laust í sér. Það var í sjálfu sér ekki hættulegt, en efstu skriðurnar í fjallinu voru slíkar að stundum var runnið niður tvo metra eftir að hafa gengið upp einn. Þórður tók að sér göngustafaviðgerðir og er enn í skýjunum yfir því mikla afreki að hafa gert við göngustafina mína. Það var lagt af stað frá Reykjavík um klukkan tvö, en við urðum fyrir um hálftíma töf vegna umferðarslyss í Leirársveitinni. Eitthvað var tekið af myndum, en ekki var komið til Reykjavíkur fyrr en eftir miðnættið og þá hafði ég ekki tíma til að setja inn myndir, en ég geri það á laugardagskvöldið.

-----oOo-----

Frumburðurinn minn ætlar að gifta sig í dag. Ekki veitir af eftir að hún hefur verið í sambúð í áratug og eignast tvö börn með sínum heittelskaða. Hún fær allar mínar hamingjuóskir í tilefni þessa merkisdags í lífi sínu.

-----oOo-----

Partídrottningin á Skipaskaga fær svo hamingjuóskir með afmælið sem og allar lessur og hommar sem ég þekki og ætla að halda gleðigöngu í dag.

-----oOo-----

Eins og ég nefndi áður, urðum við fyrir um hálftíma töf við Beitistaði í Leirársveit á föstudaginn vegna umferðarslyss. Við komum að bílaröðinni rétt við slysstaðinn um klukkan 14.40 og biðum þar í um hálftíma á meðan verið var að ná slösuðum úr bíl og koma í burtu með sjúkrabíl. Ég efa ekki að sjúkralið og lögregla hafi unnið starf sitt af kostgæfni og öryggi. Hinsvegar var annar þáttur málsins sem ekki var eins vel heppnaður. Ég var með Rás 2 í gangi, en aldrei var útsending rofin til að segja frá slysinu og hugsanlega að vísa bílum á aðrar leiðir. Í fréttatíma klukkan þrjú var ekki sagt orð af þessu slysi. Við sátum bara í bílnum og biðum þess að sjúkralið lyki verkefnum sínum. Fyrir mig hefði verið hægðarleikur að fara Hvalfjörðinn og upp Svínadalinn í gegnum Skorradalinn hefði ég heyrt af slysinu í tíma.

Þarna má Umferðarútvarpið bæta sig og koma betur að tilkynningum um slys sem þetta segir ein sem veit að bloggvinkonan á Umferðarstofu er í sumarfríi.

föstudagur, ágúst 11, 2006

11. ágúst 2006 – Að skapa ótta

Mikið var gert úr ætluðum hermdarverkum í flugvélum á milli Bretlands og Bandaríkjanna í gær. Heimavarnarráðherra Bandaríkjanna fann sér gullið tækifæri til að fá mynd af sér í heimspressunni, stillti sér upp framan við skilti frá Homeland Security og lýsti því yfir að þessar ætluðu sprengjuárásir væru skipulagðar af Al Qaida og hann veit ekki einu sinni hvað Al Qaida er. Ástandið var þó öllu verra í Bretlandi þar sem hópur fólks var handtekinn grunaður um ætluð hryðjuverk. Þetta er sorglegt mál.

Eitt veigamesta atriðið til að fá nægt fjármagn og tryggja framgang lögregluríkisins er að skapa ótta. Stundum með því að hræða almenning sem fær á tilfinninguna að lífi þess sé ógnað, stunduð með því að læða inn hjá fólki að öryggi þess sé ógnað á einhvern hátt. Dæmi um hið síðarnefnda var þegar sovéski kafbáturinn U-137 strandaði skammt undan landi fyrir utan Karlskrona árið 1981. Þótt í dag sé almennt talið að ástæða strandsins sé vanþekking og lélegur tækjabúnaður um borð, beitti sænski herinn þessu strandi óspart fyrir sig til að fá umtalsverðar fjárveitingar í baráttuna gegn ímyndaðri innrásarógn frá Sovétríkjunum.

Bresk yfirvöld eru í vondum málum þessa dagana. Þau hafa ásamt Bandaríkjunum, stutt við bakið á ísraelska hernum þar sem hann er að fremja hryðjuverk og fjöldamorð í Palestínu og Líbanon. Það er því nauðsynlegt að leiða athyglina frá þessum atburðum og hvað er betra en að láta hina hættulegu Araba fremja næstumþvíhryðjuverk á breskum flugvöllum. Ég veit ekkert hvort það sé satt, en tímasetningin gæti ekki verið betri ef leiða skal athyglina frá Miðausturlöndum og auka á hatrið gegn Aröbum. Eitt sem ýtir undir þessa kenningu er sú staðreynd að yfirvöld hafa meðvitað ýtt undir óttann með harkalegustu viðbrögðum sem um getur. Þeir segjast vera búnir að ná hryðjuverkamönnunum og þykjast vita að þar séu Al Qaida að verki þótt þeir geti ekki einu sinni sagt með fullri vissu hvað Al Qaida er fyrir samtök. Samt er ráðist í þessar ógnvænlegu öryggisráðstafanir á breskum flugvöllum og þær auglýstar um allan heim.

(Einhverntímann heyrði ég þá skýringu á Al Qaida, haft eftir sérfræðingi í málefnum Arabaþjóða, að það væri lauslega tengt tengslanet ólíkra trúarhópa innan íslamstrúar, en ekki vel skipulögð hryðjuverkasamtök).

Ég ætla ekki að fullyrða neitt í þessum málum. Það getur vel verið að satt sé og að einhverjir bjánar hafi ætlað sér að tortíma nokkrum flugvélum á leiðinni til Bandaríkjanna frá Bretlandi. Það væri þá eðlilegt svar við stuðningi Tonys Blair og George Dobbljú Bush við hryðjuverkin sem nú eiga sér stað í Miðausturlöndum.

Bretar geta auðveldlega losnað við hryðjuverkaógnina ef þeir kæra sig um. Hún felst í því að kalla þegar í stað herinn heim frá Írak og fordæma stjórn Ísraels fyrir fjöldamorðin í Palestínu og Líbanon.

Undirrituð telst vera af gyðingaættum að 1/256 hlutum og er þrátt fyrir allt, ákaflega stolt af uppruna sínum og formóður sem virðist hafa þvælst með hörmangarakaupmönnum til Íslands snemma á átjándu öld.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

10. ágúst 2006 – Kertafleyting


Á miðvikudagskvöldið hélt ég niður að Tjörn til þátttöku í árlegri kertafleytingu í minningu fórnarlamba kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki árið 1945. Rigningarspá gerði það að verkum að ekki var jafnfjölmennt og hefur verið síðustu ár, en þó mjög ásættanlegt. (P.s. Það var fjölmennt þó varla væri sett met í þetta sinn) Það var heldur ekki sami ættarmótsbragurinn og var oft á árum áður, en eins og félagi SIA orðaði hlutina, þá halda gamlir vinstrimenn ættarmót tvisvar á ári, við kertafleytinguna á Tjörninni og í friðargöngunni á Þorláksmessu. Ég saknaði margra gamalla félaga úr baráttunni, en á móti kom að margt ungt fólk var við Tjörnina sem ég hafði ekki hitt áður.

Freyr Eyjólfsson útvarpsmaður með meiru var kynnir við kertafleytinguna og stóð sig með prýði eins og hans er von og vísa. Sömu sögu er að segja af magnaðri ræðu Guðrúnar Guðmundsdóttur sem vakti fólk til umhugsunar um eðli styrjalda.

Ég vildi hitta sem flesta bloggara á staðnum, en rakst á fáa þeirra. Kollegi frú Guðríðar frá Fróða var þarna þótt ekki sé hann bloggari. Hinsvegar hitti ég ekki Guðríði sjálfa þótt hún hefði fengið ókeypis far á Skagann með mér á vinstrigrænum Súbarú hefði hún mætt og hitt mig. Kannski lesa færri bloggið mitt en ég vil trúa. ég þarf að athuga hvort refresh takkinn á lyklaborðinu hafi ekki festst niðri. Svo var Birna vinkona Þórðardóttir á staðnum að venju. Þá sýndist mér ég sjá glitta í félaga Álfheiði, en var ekki viss þar sem ég er fremur ómannglögg.

Svo er kveðja til Vals sem ekki komst frá Steinunni sem kom. :)

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

9. ágúst 2006 – Félagi Álfheiður


Álfheiður Ingadóttir kom fram í sjónvarpi í fréttunum á þriðjudagskvöldið 8. ágúst og kvartaði hástöfum yfir því að hún og 30 manna hópur góðborgara sem var með henni í för, hafi verið undir eftirliti lögreglumanna. Sagði hún tilfinninguna óhuggulega, en þar sem fólkið var að nesta sig í grænni lautu, hafi skyndilega 7 manna hópur lögreglumanna í neongrænum vestum birst hinum megin við Jöklu með myndavélar og sjónauka.

Öðruvísi mér áður brá.

Félagi Álfheiður hefur löngum verið einörð baráttumanneskja gegn stóriðju og virkjunum og jafnframt stuðningsmanneskja þjóðlegra atvinnuvega eins og notað var um sjávarútveg og landbúnað á sjöunda áratugnum þegar hátt var látið í baráttunni gegn Búrfellsvirkjun og álveri í Straumsvík. Guði sé lof að sá tími er liðinn þegar útgerðarauðvaldið stjórnaði ríkisstjórninni og ákvað kaup og kjör í landinu með stjórn gengismála. Þá voru öll eggin í einni körfu og það notfærði útgerðarauðvaldið sér út í ystu æsar. Betur að völd þess minnkuðu enn frekar. Nú eru þó körfurnar þrjár (sjávarútvegur, stóriðja og ferðaþjónusta).

Þegar Álfheiður mætti á mótmælafundi fyrr á árum ásamt hundruðum og þúsundum íslenskra góðborgara gegn fjöldamorðum og blóðugum styrjöldum og stríðsglæpum úti í heimi, eða þá gegn hernum og Nató, eða þegar hún tók þátt í friðsamlegum Keflavíkurgöngum, mættu henni ekki einungis lögreglumenn í svörtum júníformum, heldur einnig leynilöggur á mála bandarísku leyniþjónustunnar í hvítum frökkum og tóku af henni myndir. Þessu hefur vesalings Álfheiður greinilega gleymt. Ég hefi ekki gleymt því. Hún ætti frekar að þakka lögreglunni fyrir að mæta í neongrænum einkennisfötum svo eftir þeim verði tekið.

Það eru komnir dagar og ár síðan ég og félagi Álfheiður vorum í sama flokki. Að nokkru leyti hafa skoðanir okkar fjarlægst hvorar aðrar, t.d. gagnvart iðnvæðingunni og Evrópusambandinu, en við getum alveg haldið áfram að fallast í faðma í baráttunni gegn herstöðvum, stríði og kúgun í heiminum. Af nógu er að taka.

-----oOo-----

Ég hefi tekið aðeins til á listanum mínum til hliðar, fækkað þeim aðilum sem eru hættir að blogga, en bætt við nokkrum öðrum í þeirra stað (Álfhildur, Erla, Erna, Guðríður, Sigríður) Sömuleiðis hefi ég sett inn krækju á Amnestyvefinn um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Ef einhverjir vilja losna frá þeirri áþján að vera með á listanum er bara að láta mig vita. Sama gildir ef einhver vill vera með á listanum, en er þar ekki.

-----oOo-----

Enn og aftur minni ég á kertafleytinguna á Tjörninni á miðvikudagskvöldið. Hún hefst klukkan 22.30 við suðurenda Tjarnarinnar og friðarsinnar munu selja kerti til fleytingar á viðráðanlegu verði eða aðeins á 400 krónur stykkið. Ég verð þar og væntanlega verður félagi Álfheiður þar líka sem og aðrir góðborgarar og friðarsinnar.

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

8. ágúst 2006 – Hvernig endar þetta eiginlega?


Þegar Guðrún Helga stakk upp á því að við klifum Ásfjallið í vor er við vorum á göngu suður í Hafnarfirði, átti ég ekki von á öðru en að slíkt erfiði myndi einvörðungu leiða af sér svita og tár. Svo fór erfiðið að spyrjast út og nokkrum hólum síðar vildi Þórður bætast í hópinn. Það var sjálfsagt, enda sér maðurinn mun lengra en við, þó ekki væri nema sökum hæðar sinnar og ekki skemmir GéPéEssinn fyrir. Svo kom kjóinn og svo birtist hópur aðdáenda Þórðar sem óskaði eftir skráningu í hópinn. Þar með segi ég stopp. Við verðum ekki fleiri en tuttugu á fjalli í einu. Það þýðir ekkert að draga með þessar vinkonur hans sem virðast óska inngöngu af annarlegum ástæðum. Nei Pollý mín, þú færð ekki að vera með fyrr en þú hefur sannað þig með því að labba þrjá hringi um Elliðaárdalinn.

Þegar Þórður villtist á Kaldadal í leit sinni að Eyktarási á laugardaginn var, sáum við nokkra girnilega hóla sem kosta munu bæði svita og tár á næstu árum. Er nú slegist um hver verður næstur hóla að verða sigraður. Ég er með tvo hóla í huga, en stjórnarformaðurinn er úti í Finnlandi og ekkert má gera án hans samþykkis.

-----oOo-----

Það eru nokkur blogg sem hafa ekki verið uppfærð í mánuði. Bráðum fer ég að færa þau blogg sem ekki er skráð í minnst mánaðarlega, á varalistann.

-----oOo-----



Enn og aftur ítreka ég kertafleytinguna á Tjörninni á miðvikudagskvöldið klukkan 22.30

mánudagur, ágúst 07, 2006

7. ágúst 2006 - Af þjóðhátíð og fleiru

Í hvert sinn sem ég hefi hitt Eyjamann uppi á landi á undanförnum árum, eða frá því ég flutti aftur til Íslands fyrir áratug síðan, hefur samtalið endað með orðum Eyjamannsins: “Þú mætir svo á Þjóðhátíð í sumar.” Ég hefi enn ekki mætt, hefi ekki komið til Vestmannaeyja síðan haustið 1988 og ekki mætt á þjóðhátíð síðan 1980. Ég viðurkenni þó að mig langar. Ég er þess fullviss að ég eigi enn góða vini í Eyjum sem myndu taka vel á móti mér.

Ég var að hugsa um þjóðhátíð á meðan ég var að hlusta á Árna Johnsen stjórna brekkusöng í útvarpinu áðan, svo skömmu eftir að móðir hans, hún Imba í blómabúðinni, kvaddi þessa veröld og hélt á framandi slóðir.

-----oOo-----


Ég vil minna fólk á kertafleytinguna á miðvikudagskvöldið klukkan 22.30 við Tjörnina í Reykjavík. Ég verð þar að venju og vonandi sem flestir vina minna, hvort heldur það eru bloggvinir, veraldlegir vinir, eða hvorutveggja. Þar verða seld kerti til fleytingar fyrir lítinn pening, einungis 400 krónur.

Í ljósi atburða liðinna daga í Líbanon má segja að áður hafi verið þörf, en nú er nauðsyn. Mætum öll.

sunnudagur, ágúst 06, 2006

6. ágúst 2006 – 31 ár, 2191 dagur og sannleiksástin

Ég er þess enn minnug er ég átti að vera á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fyrir allmörgum árum, en í stað þess að heyra Ása í Bæ stjórna brekkusöng á Breiðabakka, var ég samferða bæjarfógetanum til Reykjavíkur sama dag og þjóðhátíð hófst. Hann sá sitt óvænna og ákvað að koma sér upp á land, svo hann yrði ekki brenndur á báli fyrir að hafa látið loka Ríkinu á miðvikudagsmorgni fyrir þjóðhátíð. Ástæða þess að ég þurfti að yfirgefa samkvæmið var önnur og betri, en dóttir mín fæddist viku síðar, á miðvikudegi eftir þjóðhátíð. Nú á dóttir mín afmæli og fær hún að sjálfsögðu hamingjuóskir frá mér í tilefni dagsins.

Um leið óska ég sjálfri mér til hamingju með daginn því nú er liðinn 2191 dagur síðan ég hætti að reykja eða nákvæmlega sex ár.

-----oOo-----

Það hefur komið fyrir undanfarna daga að sannleiksást mín hafi verið dregin í efa. Því er ljóst að ég verð að ítreka það sem ég hefi haldið fram áður, að frásagnir mínar af fjallaferðum og öðrum þáttum tilverunnar eru heilagur sannleikur og ekkert nema sannleikur. Ég veit að Þórður á það til að ýkja svolítið, en ekki ég. Ég þori að rétta tíu fingur upp til Guðs því til staðfestingar. Ef þið sjáið eitthvert misræmi á frásögnum okkar Þórðar, er það vegna þess að hann klínir oft smjöri á sannleikann, ekki ég.

Þetta minnir mig svo aftur á gamalt sakamál þar sem ég var ranglega ákærð fyrir þátttöku í smygli á nokkrum flöskum af sterku áfengi á þeim árum er ég vann við það fórnfúsa verkefni að færa varninginn heim hjá Óskabarni þjóðarinnar á honum Álafossi. Ég var kölluð til yfirheyrslu og þrátt fyrir ítrasta vilja minn til að leysa úr vandræðum Rannsóknarlögreglunnar, gat ég ekki annað en sagt þeim þann sannleika sem ég vissi bestan og sannastan. Eitthvað voru þeir efins um frásögn mína og sendu málið til saksóknara sem sendi málið áfram til dómarans.

Dómarinn sem dæmdi í málinu, hafði áður starfað sem fulltrúi bæjarfógeta í Vestmannaeyjum. Hann áttaði sig fljótlega á að hér væri illa farið með gott mál, enda mundi hann ekki betur en að ég hefði í löghlýðni minni og uppfull kærleika og sannleiksástar, fylgt fyrrum yfirmanni hans upp á land um árið er sá lét loka Ríkinu. Slík heiðursmanneskja gæti ekki staðið í stórsmygli á áfengi og sýknaði hann mig með hraði af öllum ákærum, en veitti rannsóknaraðilum ávítur fyrir slæleg vinnubrögð í málinu.

föstudagur, ágúst 04, 2006

5. ágúst 2006 - Svaðilför á Eyktarás


Til að byrja með, ber að taka það fram að Kjóinn var dæmdur í einnar ferðar bann fyrir að þjófstarta, er við gengum á Skálafell og vonandi að hann verði stilltari næst. Hann var því ekki með í föstudagsgöngunni, en hann verður væntanlega orðinn nógu stilltur að hægt sé að taka hann með á Vífilfellið eða eitthvað annað fell seinnihluta vikunnar.

Föstudagsgangan hófst með þvi að ég ásamt einum aðstoðarmanni, nafn hans skiptir ekki máli, en við skulum kalla hann Þórð, héldum í austurveg og var ætlunin að klífa hið fagurbláa og himinháa Ármannsfell ofan við Þingvelli. Er við komum austur á Þingvelli lá súldin yfir öllu og ljóst að erfitt yrði að finna topp fjallsins nema með aðstoð Þórðarnefs þess sem getið var í pistli Þórðar sjóara síðastliðinn miðvikudag sem og kompáss og GéPéEss þess hins sama. Það varð þó fljótt ljóst að það var lítt hægt að taka mark á tækjum og tólum Þórðar svo ekki sé talað um Þórðarnefið mikla, því eftir að hafa gengið í þrjú kortér í þokunni, komum við að pulsuskálanum í þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum.

Eftir þetta greip ég til minna ráða, tróð Þórði inn í minn vinstrigræna eðalvagn, héldum upp að Bolabás og hófum nýja leit að fjallinu þaðan. Ég gerði mér um leið grein fyrir því að Ármannsfellið væri fullmikið fyrirtæki að unnt væri að finna það allt á einum degi og því ákváðum við að leita einungis að hinum sögufræga Eyktarási sem bræðurnir Jónas og Jón Múli gerðu ódauðlegan í ljóðinu góða.


Það var gengið af stað og gengið og gengið. Brátt var þokan orðin svo dimm að við sáum ekki handa okkar skil og Þórður sá ekki niður á fæturna á sér, enda maðurinn með afbrigðum hávaxinn. Áfram héldum við og vorum brátt orðin rammvillt. Er við sáum ekki aðra leið úr ógöngunum en að setjast á dönskunámskeið og reyna að kalla til danska björgunarþyrlu, rofaði skyndilega til um stund og við áttuðum okkur á því að við værum allnærri Eyktarási, en ekki olli uppgötvun okkar neinni bjartsýni því þarna rákust við á útbúnað leitarmannanna sem héldu frá Þingvöllum til leitar að Eyktarási um miðjan sjöunda áratuginn og hafði aldrei spurst til þeirra síðan.


Aftur dimmdi yfir og við héldum áfram og ráfuðum í þokunni uns við rákumst á umferðarskilti sem sett var upp eftir að Skúli og Sörli voru þarna á ferð á átjándu öld og ber það mynd þeirra félaga og hefur Skúlaskeið ekki borið sitt barr síðan og er nú vandlega skráð í bækur. Þarf ekki að eyða frekari orðum á það.


Öfugt við það sem ætla mátti er við fjarlægðumst mannabyggðir frekar, jókst umferð gangandi, ríðandi og akandi ferðalanga og ljóst að erfitt mun fyrir útilegumenn að dyljast yfirvöldum á þessum slóðum í framtíðinni Enn létti til og vorum við þá upp undir Eiríksjökli í allri sinni dýrð, en áfram skyldi haldið. Við héldum áfram yfir fjöll og dali, niðdimma hella og vorum við að gefast upp er Þórður hrópaði skyndilega upp fyrir sig þar sem höfuð hans stóð eitt upp úr þokunni, en Þórður er mjög hávaxinn maður eins og ég hefi nefnt áður: “Ég er búinn að finna Eyktarás.”


Mikið rétt. Þarna var Eyktarás í allri sinni dýrð og eftir myndatökur, gátum við haldið heim á leið og fagnað áunnum sigri.

4. ágúst 2006 - Sigurður Kári og Valdi koppasali

Í dagblaði einu sem gefið er út í Reykjavík, er sagt frá svaðilförum hinna ungu alþingismanna Björgvins Sigurðssonar og Sigurðar Kára auk hins gamalreynda Jóns Kristjánssonar er þeir héldu á ráðstefnu norður til Kiruna. Að sögn þeirra félaga var þetta hin versta svaðilför og misstu þeir af stórum hluta ráðstefnunnar og hefðu misst af henni allri ef þeir hefðu ekki sjálfir gripið til sinna ráða. Miklar hetjur, Björgvin og Sigurður Kári. Ekki veit ég hvernig íslensk dagblöð færu að ef þau hefðu ekki Björgvin Sigurðsson og Sigurð Kára Kristjánsson til að bera í sig fréttirnar af svaðilförum sínum.

Í desember 2004 var Sigurður Kári Kristjánsson í flugvél á leið til Lundúna frá Mið-Evrópu í hópi einhverra alþingismanna, en ekki þori ég að fullyrða hvort Björgvin hafi verið í þeim hópi. Þar sem hann sat í vélinni fannst einhver ókennileg lykt í farþegarýminu. Skömmu síðar heyrði Sigurður Kári flugfreyju hvísla einhverju að annarri flugfreyju og sú hin sama svaraði hinni fyrstu með orðunum “Oh my God”. Fáum sögum fer af því hvort lyktin hafi magnast í farþegarýminu eftir þetta, en Sigurður Kári Kristjánsson sá ástæðu til að tilkynna þetta sérstaklega í blöðin eftir að heim var komið. Taldi Sigurður Kári að hann hefði lent þarna í mikilli lífshættu og mátti ráða af fréttaflutningi af málinu að furðulegt hafi verið að ekkert var tilkynnt um þetta til farþeganna og ekki einu sinni reynt að nauðlenda vélinni.

Mér finnst það ætti að vara flugmenn sérstaklega við því ef Sigurður Kári á bókað far með vélinni, svo hægt sé að halda blaðamannafund eftir lendingu og tilkynna til fjölmiðla að allt hafi gengið að óskum.

-----oOo-----

Ég týndi hjólkopp af bílnum mínum um daginn. Hann hafði greinilega verið illa festur eftir viðgerð á framdrifinu og einn daginn veitti ég því athygli eftir að ég hafði skroppið suður í Smáralind, að koppurinn var horfinn. Mér finnst alltaf ljótt að sjá svarta og skítuga felguna á bíl svo ég notaði tækifærið á fimmtudag, eftir að hafa verslað lítilsháttar í bænum og fór að kíkja á bílapartasölur í von um að þeir ættu svipaðan kopp og þann sem ég týndi. Allsstaðar sem ég kom sögðust menn ekki eiga svona koppa, en Valdi koppur á örugglega eitthvað til handa þér.

Að lokum renndi ég uppeftir til Valda. Mikil ósköp. Valdi átti til kopp sem passaði. Hann hafði meira að segja fundið kopp, nákvæmlega eins og mig vantaði, kvöldið áður við mislægu gatnamótin við Smáralindina.

Týndi koppurinn er kominn heim.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

3. ágúst 2006 - Gengið á fjall

Ég var á næturvakt aðfararnótt miðvikudagsins um borð í Dettifossi, enda verð ég helst að vera í þremur vinnum ef ég vil eiga fræðilega möguleika á að komast í hóp 2400 ríkustu, fallegustu og gáfuðustu einstaklinganna sem þetta þjóðfélag hefur alið af sér. Ekki sá ég Stebba Rósu frænda hans Pedro de la Rosa á listanum, en Grímur á Felli var þar, greinilega skítblankur sem og fleiri ágætir Eyjamenn sem nú eru flúnir upp á land frá Þjóðhátíðarfárinu.

Eftir hádegið hélt gönguhópurinn Eitt skref í einu, sem Þórður vill helst kalla kleyfhugana, til fjalla. Ekki var ráðist á garðinn þar sem hann var hæstur, heldur tekið fyrir Skálafell á Hellisheiði sem mér skilst að sé um 574 metrar yfir sjávarmáli. Við Þórður töldum það nauðsynlegt að velja létt fjall því við vorum með óvanan göngumann með okkur sem þurfti á þjálfun að halda og við vildum ekki sprengja hann á fyrsta fjalli. Þetta var Sverrir sem er nýlega hættur að reykja og því áttum við von á hinu versta, maðurinn illa búinn til fjallaferða á léttum strigaskóm og án alls útbúnaðar. Við Þórður vorum fljót að hrista Sverrir af okkur og týndum honum í þokuslæðingi, en þegar við nálguðumst toppinn sáum við hvar hann var á fullu að taka myndir ofan af fjallstoppnum.

Stjórn gönguhópsins Eitt skref í einu á enn eftir að taka ákvörðun um hvort Sverri verður leyft að koma með í næstu gönguferð. Myndir frá ferðinni verða að bíða þar til ég hefi sofið eftir næturvaktina.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

2. ágúst 2006 - Afsökunarbeiðni

 src=
Eins og mínir ágætu lesendur hafa tekið eftir, kom ekkert blogg frá mér í nótt. Ástæðan er ekki sú að ég sé hætt að blogga, heldur var ég utan þjónustusvæðis, slökkt á tölvunni eða allar línur uppteknar eftir klukkan 17.00 í gær. Ástæða ritleysis míns er sú að ég var kölluð til vinnu í aukavinnunni í nótt með vinum hans Þórðar og þar er ekkert net.

Ég hlýt að geta fundið mér eitthvað að skrifa um næstu nótt, ef ekki um kisur, þá um gönguhópinn sem sumir vilja kalla Kleyfhugana.

-----oOo-----

Ég sá þessa dönsku þyrlu á æfingu í gærkvöldi.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

1. ágúst 2006 – Að bera ábyrgð

Á undanförnum mánuðum hafa allnokkrir dómar fallið gegn fyrrum ritstjórum DV þeim Mikael Torfasyni, Illuga Jökulssyni og Jónasi Kristjánssyni vegna ýmiss þess efnis sem birtist á síðum blaðsins. Það skipti engu hver skrifaði, ritstjórarnir báru ábyrgð á efni blaðsins og voru dæmdir vegna ritstjórnarlegrar ábyrgðar sinnar.

Bloggsíða er eins og fjölmiðill. Allt sem birtist á bloggsíðu er opinbert efni um leið og ýtt er á enter og eftir það ber eigandi síðunnar ábyrgð á öllu sem þar birtist, að minnsta kosti ef það birtist og látið óátalið af eiganda síðunnar. Eigandi síðunnar ber fulla ábyrgð á sinni síðu, einnig athugasemdum sem aðrir gera við skrifin þótt þau séu frá aðilum sem skrifa undir nafni, þó með ákveðnum undantekningum sem geta tengst IP-tölu í eigu eiganda athugasemdanna.

Síðustu nótt skrifaði Hlerinn ákaflega neikvæðar athugasemdir um samkynhneigða sem athugasemd við skrif mín frá því á miðnætti. Ég ætlaði að láta þessi orð hans standa, honum sjálfum til háðungar, en eftir hádegið var haft símasamband við mig og mér bent á ritstjórnarlega ábyrgð mína á öllu sem birtist á minni síðu. Í framhaldi af þessu símtali ákvað ég að henda athugasemdum Hlerans út og setja IP-tölu hans í bann á athugasemdakerfinu.

Að endingu hvet ég hann til að opna sína eigin bloggsíðu þar sem hann getur ausið úr viskubrunn sínum yfir landslýð og ég lofa honum því að hann muni fá góða aðsókn að síðunni sinni.