þriðjudagur, október 31, 2006

31. október 2006 – Dugnaður!

Ég veit ekki hvaða dugnaður kom yfir mig á mánudagsmorguninn. Ég mátti sofa fram eftir degi og átti reyndar að sofa vel, því næturvaktin beið mín að kvöldi. Í stað þess að sofa fram eftir degi og láta dugnaðinn líða úr mér, þeyttist ég á fætur klukkan átta, dreif mig í bláan samfesting og hóf að slípa svalahandriðin af miklum móð og síðan að grunna þau.

Nú eru tvær taugaveiklaðar kisur einar heima og óttast enn að einhver komi í bláum samfesting og framleiði meiri hávaða.

-----oOo-----

Ég settist niður fyrir framan sjónvarpið á mánudagskvöldið og ákvað að horfa á þennan nýja þátt með Auðunn Blöndal þar sem hann hrekkir þekkt fólk. Ég hafði aldrei séð þennan þátt áður, en samkvæmt auglýsingunum er þetta orðið einn vinsælasti sjónvarpsþátturinn í íslensku sjónvarpi og nú átti að hrekkja Bubba Mortens. Ég verð eiginlega að viðurkenna að það var Bubbi sem hrekkti Auðun Blöndal en ekki öfugt, svo illa tókst hrekkurinn. Ég held ég nenni ekki að horfa á fleiri þætti af þessu tagi.

mánudagur, október 30, 2006

30. október 2006 – Enn af prófkjörum

Ég varð geysilega roggin með mig eftir að úrslit voru ljós í prófkjöri Íhaldsins í Reykjavík á laugardagskvöldið og þakkaði sjálfri mér kærlega fyrir að hafa fellt kriegsminister Bjarnason úr öðru sætinu í prófkjöri þeirra. Að minnsta kosti mátti ætla það af orðum orðum Geira harða, Bjarnasonar sjálfs og Guðlaugs Þórðarsonar. Samt var eins og einhver hjáróma rödd hvíslaði að mér að ég ætti engan þátt í þessu, þetta væri verk flokksbundinna Sjálfstæðismanna en ekki mitt.

Það var nokkuð til í þessu. Ég hafði jú talað illa um bæði Guðlaug Þór Þórðarson og Björn Bjarnason og því væru þessi úrslit ekki mér að þakka. Kannski skrökvuðu þeir allir, er þeir kenndu andstæðingum Sjálfstæðisflokksins um úrslitin, en vildu bara kenna okkur um innri valdabaráttu. Allavega fá andstæðingar Sjálfstæðisflokksins ekki að taka þátt í prófkjörinu.

Enn hefi ég ekki fengið að vita hversu mjög Jói vinur minn var rassskelltur í prófkjörinu.

-----oOo-----

Þegar haft er í huga að Sjálfstæðisflokkurinn er dæmigerður karlrembuflokkur, þóttu mér úrslitin í prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi öllu grátlegri. Þótt ekki mætti ég heldur kjósa þar, veðjaði ég á nöfnu mína Gunnarsdóttur og Helgu Völu, en varð ekki að ósk minni þar sem þær virðast hafa lent í þriðja og fimmta sæti. Þetta voru því vond úrslit fyrir Samfylkinguna á landsvísu í ljósi þess að Samfylkingin hefur stutt kvennabaráttuna. Við verðum því að rétta af hlut okkar fólks í Reykjavík og víðar.

laugardagur, október 28, 2006

29. október 2006 – Vesalings Kókómó

Þá er prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lokið þótt enn sé eftir að telja nokkur atkvæði þegar þessi orð eru skrifuð. Það sem bar helst til tíðinda var að kriegsminister Bjarnason kenndi andstæðingum Sjálfstæðisflokksins um ósigur sinn í prófkjörinu og því að hann skuli hafa lent í þriðja sæti. Þessu ber að fagna, því það er sjaldgæft að fólk sem ekki tekur þátt í prófkjöri, skuli hafa svona mikil áhrif í einum flokki.

Ekki er allt samt jafngott. Þegar átta þúsund atkvæði hafa verið talin, eru aðeins tvær konur í níu efstu sætunum. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að halda áfram að vera testósteronflokkur, þó innan þeirra marka sem tækjasalir geta gefið af sér. Allir þeir karlar sem náð hafa ofar en í 12 sæti eru dæmigerðir hvítflibbar og grunar mig að þeir sem geta ekki flokkast sem slíkir hafi lent í neðstu sætum prófkjörsins. Þeirra á meðal er gamall skipsfélagi minn, Jóhann Páll Símonarson sem mig grunar að hafi lent í einu af allraneðstu sætunum.

Kannski er Jói dæmigerður fyrir lágstéttarfólkið sem heldur íhaldinu gangandi.

-----oOo-----

Enn heldur Sameining Mannshestahrepps áfram að koma okkur á óvart, komnir með 48 stig úr 17 leikjum og 60 mörk í plús. Á laugardag unnu þeir Glossop North End með átta mörkum gegn engu. Þá halda hetjur vorar í Halifaxhreppi áfram að viðhalda ólympíuhugsuninni, nú með því að láta kasta sér út úr bikarkeppninni (FAcup).

-----oOo-----

Loks fá Kobbi bróðir og Sesselja systir hamingjuóskir með afmælisdaginn.

28. október 2006 – Njósnir og spurning til gáfnaljósanna

Ég fór inn á vef Þjóðskjalasafnsins á fimmtudagskvöldið og sá fátt af viti í Stóra litla hlerunarmálinu. Þar var einvörðungu um að ræða þurrar upptalningar á einstöku leitarheimildum sem og að þeim hafi lokið. Ekkert um það hjá hverjum var leitað né hvað kom út úr þessum hlerunum. Fyrir bragðið sögðu þessar heimildir ekkert annað en að það hafi verið stundaðar símahleranir á dögum kalda stríðsins.

Það var ekkert sagt til um hjá hvaða stofnunum eða félagsamtökum var hlerað. Það var ekkert sagt um það skemmtilega mál þegar símaboð fóru fram á milli Fylkingarinnar og ónefndra stúdentasamtaka þess efnis að vegna prófa væri ekki hægt að standa í mótmælum vegna komu þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna William Rogers til Íslands í maí 1972. Lögreglan trúði eigin hlerunum og hafði lítinn viðbúnað. Því var lítill viðbúnaður lögreglu þegar hann kom í Árnagarð og mætti mótmælendum. Þá var ekkert sagt frá áralöngum símahlerunum í síma Samtaka herstöðvaandstæðinga.

Þessar upplýsingar sem birtust á vef Þjóðskjalasafnsins voru einskis nýtar, hvort heldur var fórnarlömbum, fræðimönnum eða almenningi.

-----oOo-----

Hér með kasta ég fram eftirfarandi spurningu dagsins. Hvaða bloggari leggur næst fram spurningu til handa gáfnaljósum þjóðarinnar?:
a. Ármann Jakobsson, http://skrubaf.blogspot.com/
b. Stefán Pálsson, http://kaninka.net/stefan/
c. Þórdís Gísladóttir, http://thordis.blogspot.com/
d. Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir, http://thorunnh.blogspot.com/

Svari hver fyrir sig, því það verða engin verðlaun fyrir rétta svarið.

-----oOo-----

Sjálf tók ég þátt í gáfnaljósakeppninni "Orð skulu standa" á Rás 1 á föstudagsmorguninn, keppni sem verður send út að viku liðinni, laugardaginn 4. nóvember klukkan 16.10. Ég var þar Davíð Þór Jónssyni til aðstoðar, en Lísa Pálsdóttir stóð eins og traust stytta við hlið Hlínar Agnarsdóttur. Frammistaða mín var vægast sagt hörmuleg, en ég hafði verið með þrálátan höfuðverk í tvo daga á undan (og er enn). Davíð bjargaði mér um botn á fyrripart og svaraði flestum spurningunum. Sjálf hikstaði ég á svörunum og held að ég verði seint látin taka þátt í svona keppni aftur. Úrslitin ekki gefin upp!

föstudagur, október 27, 2006

27. okóber 2006 – Að tapa stríði

Þegar Bandaríkin, Bretland, Ástralía, Danmörk og fleiri árásarríki réðust inn í og hernumdu Írak með stuðningi Íslands og fleiri örríkja, var ljóst að þetta gæti ekki farið vel. Sex vikum eftir innrásina lýsti George Dobbljú Bush því yfir að stríðinu væri lokið með sigri Bandaríkjanna og nokkru síðar lýsti Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra Íslands því yfir að það væri friður í nánast öllu Írak, kannski að fimm prósentum eða héruðum frátöldum. Síðan þetta var, eru liðin meira en þrjú ár og enn er barist og enn eru hin vestrænu möndulveldi að glata mannslífum í tilgangslausri styrjöld sem er löngu lokið að þeirra mati.

Þegar ráðist var inn í Írak var aðeins ein leið út aftur, með því að skipta Írak upp í nokkur smærri ríki. Nú eru vesturveldin komin í sjálfheldu þarna austurfrá og einungis ein leið er sjáanleg í náinni framtíð, að skipta landinu upp í þrjú ríki, Kúrdistan, Súnníta-Írak og Shíta-Írak. Þar með er ekki sagt að friður komist á í landinu. Stór svæði eru blönduð og þar verður barist áfram um völd og yfirráð auk baráttu um olíuna.

Það eru komin fimm ár síðan Bandaríkin sprengdu Afganistan aftur á steinöld. Síðan þá hefur ríkt borgarastyrjöld í landinu sem stjórnað er af hinum ýmsu ættbálkum auk talíbana sem enn ráða hluta landsins. Það ríkir enn kvenfyrirlitning í landinu, auk þess sem ópíumræktin stefnir í að verða hin mesta í heimi undir öruggri vernd Bandaríkjanna og leppríkja þeirra.

Bandaríkin og fylgifiskar þeirra hafa misst á fjórða þúsund mannslíf í þessum tveimur ríkjum það sem af er, minnst 3041 líf í Írak og 341 líf í Afganistan. Kannski eru mannslífin mun fleiri, en ríki í styrjöldum hafa tilhneigingu til að gera sem minnst úr mannfalli eigin herja. Þá er talið að Írakar hafi misst á milli 50.000 og 650.000 manns á þessum þremur árum, aðallega óbreytta borgara, konur, karla, börn.

Í stað þess að beita skynseminni, biðja þjóðirnar afsökunar á árásum sínum, hætta árásum og byrja að byggja upp löndin útfrá mannúðarsjónarmiðum, hafa Bandaríkin hafið styrjaldaráróður gegn öðrum ríkjum eins og í undirbúningi undir væntanlegar innrásir í þessi ríki, Íran og Norður-Kóreu. Ég óttast afleiðingar þessa áróðurs. Ætla þeir aldrei að skilja það að nærveru þeirra er ekki óskað í þessum löndum?

Loks vil ég taka fram að ég er sátt við hina breyttu stefnu gagnvart Afganistan sem Valgerður Sverrisdóttir hefur boðað og miðast við mannúðarsjónarmið fremur en jeppagengi í leit að útsölu á teppabútum.

fimmtudagur, október 26, 2006

26. október 2006 – 2. kafli – Sorgleg staðreynd í jafnréttismálum í Færeyjum

Það er ljótt að hugsa til þess hve Færeyingar eru enn aftarlega í jafnréttismálum og löngu kominn tími til að sýna afturhaldsöflunum í Færeyjum að slík framkoma er ólíðandi meðal siðaðra þjóða. Því skora ég á alla sem bera virðingu fyrir jafnrétti þegnanna að skrifa sig á undirskriftalistann sem fylgir hér á eftir.

http://www.act-against-homophobia.underskrifter.dk/

26. október 2006 – Ísal (Alcan)

Hvað er í gangi hjá Ísal (Alcan)? Ég hefi ávallt staðið í þeirri trú að þar sé allt í himnalagi, ekki bara í öryggismálum heldur og öðrum málum og aldrei hefi ég heyrt annað en að þar sé gott að vera og mórallinn góður.

Skyndilega fara að berast aðrar sögur af álverinu. Mönnum er sagt upp störfum fyrir litlar eða engar sakir og gefið í skyn að það sé gert til að koma í veg fyrir að starfsmenn geti notað umsaminn rétt sinn og farið örlítið fyrr á eftirlaun en annars væri. Rafiðnaðarsambandið hefur lagt þeim lið sem sagt hefur verið upp, en hafa þó ekki gripið til raunhæfra aðgerða, þ.e. til einasta vopnsins sem verkamenn geta gripið til, verkfallsaðgerða. Ekki hefi ég heyrt neitt frá öðrum verkalýðsforingjum en Guðmundi Gunnarssyni. Ég hefi heyrt í tveimur aðilum sem sagt hefur verið upp störfum, annar í sjónvarpi, hinn í Morgunblaðinu. Báðir vilja meina að þeim hafi verið sagt upp án raunhæfra ástæðna. Ísal á móti neitar að gefa neitt upp um raunverulegar ástæður og vísar til þess að um trúnaðarmál sé að ræða.

Hvar eru hinir verkalýðsforingjarnir? Hvar er Alþýðusambandið? Af hverju þegja þessir menn? Er verkalýðshreyfingin virkilega orðin svo tannlaus að auðvaldið getur farið sínu fram án þess að neitt heyrist frá umbjóðendum verkamannanna?

Þarf ekki að leggja spilin á borðið?

miðvikudagur, október 25, 2006

25. október 2006 – Enn af hlerunum

Lögreglustjórinn í Reykjavík var í útvarpsviðtali á þriðjudagsmorguninn og harðneitaði þar að nokkuð væri hæft í þeim fréttum sem birtust í hinu Blaðinu á þriðjudagsmorguninn, þess efnis að lögreglan hefði hlerað síma ýmissa aðila.

Mikið rétt, mikið rétt. Ef ég væri sprúttsali og hefði ekki verið staðinn að verki, myndi ég líka þræta eins og sprúttsali. Þetta var nú einu sinni aðferð leynilögreglunnar við að stytta sér stundir á leiðinlegum vöktum þar sem þeir voru settir í að fylgjast með einhverjum smáglæponum sem voru ekki einu sinni hættulegir öryggi Flokksins. Þá var nú skemmtilegra að fylgjast með einhverjum ætluðum óvinum Ríkisins.

Um daginn var fréttamönnum sýnt inn í skrifstofuherbergi það, sem sagt var að hlustunartækin hefðu verið. Það má vel vera. Samt finnst mér þetta dálítið skrýtið, því mínar gömlu upplýsingar bentu á kjallara lögreglustöðvarinnar sem geymslustaðar fyrir njósnatækin. Ég ætla þó ekki að þræta fyrir það. Þetta herbergi segir hvort eð ekkert til um hvort hlerarnir eru stundaðar enn í dag eður ei. Það þarf ekki lengur heilt herbergi undir svona njósnatæki þótt þess hafi þurft á sjötta og sjöunda áratugnum. Tækninni hefur fleygt fram og orðin fullkomnari og meðfærilegri. Þetta kemst orðið allt fyrir í einni lítilli tölvu. Þetta gæti þessvegna verið allt í tölvu dómsmálaráðherrans auk margra annarra tölva og við höfum ekki hugmynd um að fylgst er með okkur.


-----oOo-----

Í tilefni dagsins gerðist ég boðflenna á Pressukvöldi í fylgd Guðrúnar Helgu þar sem fjölmiðlakonur hittust og báru saman bækur sínar. Ákaflega áhugavert, en Herdís Þorgeirsdóttir, Katrín Pálsdóttir og Hjördís Finnbogadóttir fluttu fróðleg erindi og síðan voru umræður á eftir undir skeleggri fundarstjórn Lóu Aldísardóttur. Ekki taldi ég hópinn sem var samankominn, (fullan salinn) en mér þótti athyglisvert að sjá frambjóðendur til prófkjörs mætta eins og til að veiða atkvæði. Allt gott um það að segja. Svo hitti ég frænku mína sem bloggar í fyrsta sinn, en náði ekki að tala við hana eftir fundinn því fleiri fundir kölluðu á athygli hennar

þriðjudagur, október 24, 2006

24. október 2006 – Af flutningum á hvalkjöti


Það var seinnihluta marsmánaðar árið 1987 sem við komum til hafnar í Hamborg á flutningaskipinu Álafossi eins og við gerðum reglulega á tveggja vikna fresti, allt samkvæmt áætlun og verkamennirnir biðu á bryggjunni eftir að geta farið að hífa gámana í land. Skömmu eftir að losun hófst, ruddist lítill hópur fólks niður niður bryggjuna og fylgdi mun stærri hópur fréttamanna og ljósmyndara þeim eftir, því hér skyldi búin til frétt. Litli hópurinn óð beint að ákveðnum frystigámum, reif innsiglin af þeim og opnaði þá. Hófu síðan að taka nokkra freðna pakka úr gámunum og sýna þá ljósmyndurunum. Lögregla kom svo fljótlega á vettvang og gætti laga og reglu eins og ætlast var til af þeim, en eftir sátu áhöfn og verkamenn og gátu lítið að gert.

Þessi aðgerð Greenpeace stóð yfir í einhverja klukkutíma, en eftir það var hægt að halda áfram að vinna við skipið, losa það og lesta, en vesalings skipstjórinn var í því að svara símanum allt kvöldið, því greinilega höfðu Greenpeace sent út fréttatilkynningu út um heim til að lýsa “hetjudáð” sinni. Að öðru leyti gat áhöfnin lítið að gert. Einhver okkar ræddum þann möguleika að setja upp andstöðuborða við Greenpeace á maskínupappír og festa á skipshliðina, en áður en nokkuð varð úr framkvæmdum, barst stýrimanni um borð sú frétt að dóttir hans hefði skyndilega látist vegna nýrnabilunar og varð andrúmsloftið um borð mjög þrúgað það sem eftir var dagsins vegna þessarar sorgarfréttar.

Þessi fjölmiðlasýning Greenpeace kom áhöfninni á Álafossi lítt á óvart, en fjórum árum áður höfðum við vitnað það á sömu slóðum, er Greenpeace hélt því fram að Íslendingar stæðu á útrýmingu (destruktion) hvala á sama tíma og þeir héldu því fram að Rússar og Japanir stunduðu einvörðungu hvalveiðar.

Því er ástæða til að nefna þessa atburði hér og nú, að Kristján Loftsson ætlar að flytja þessa tíu hvali til Japan þar sem hann telur sig hafa markað fyrir hvalkjöt. Spurningin er bara hvernig? Það er búið að setja upp allskyns hindranir fyrir flutning á hvalkjöti á milli Íslands og Japan. Kjötið verður tæplega flutt í gegnum Evrópu og enn síður í gegnum Bandaríkin. Helsta leiðin sýnist mér vera að flytja kjötið beint á staðinn og vona að ekki verði ráðist á flutningaskipið á leið í gegnum Suez eða Panama. Það er fáum að treysta í þeim efnum!

Úrklippan er af baksíðu Morgunblaðsins 21. mars 1987 og þarf að klikka á hana til að sjá hana í læsilegri stærð.

-----oOo-----

Ég er að velta fyrir mér þessum fréttum þess efnis að fyrsti hvalurinn þótti fremur magur eftir að hafa étið á sig spik sumarlangt við Íslandsstrendur. Ætli það geti verið að hvalirnir séu orðnir svo margir að þeir séu farnir að éta fæðuna frá hverjum öðrum, eða hvort átan sé búin að yfirgefa Íslandsmið vegna hlýnunar sjávar?

mánudagur, október 23, 2006

23. október 2006 – Schumacher og Zygmarr


Á sunnudagseftirmiðdaginn lauk einherjum glæsilegasta íþróttamannsferli sögunnar, er Michael Schumacher lagði stýrið á hilluna eftir 15 ára feril í Formúlu 1, en öllu lengri í heildina, 7 heimsmeistaratitla og 91 mótssigur í Formúlunni. Það munu líða mörg ár áður en slíkum árangri verður náð af þeim sem á eftir honum koma, ef það mun nokkurntímann ske.

Með þýskum járnaga og ítrustu kröfum til sjálfs síns hefur hann ávallt verið í fremstu röð kappakstursmanna og hefur hann auk þess sýnt heiminum að það skiptir engu máli hvar hann ber niður. Hann er og verður í fremstu röð, sama hvað hann tekur sér fyrir hendur.

Þeir íþróttamenn sem ná árangri á heimsmælikvarða og verða fremstir í sinni röð, verða ávallt fyrir mikilli öfund og jafnvel rógburði og fyrirlitningu. Er svo einnig um Michael Schumacher. Hann hefur samt sýnt það og sannað að hann hefur ávallt komið aftur sama hvað hefur gengið á. Þetta sýndi hann ágætlega í sínu síðasta móti er hann þurfti tvisvar að vinna sig upp úr vonlítilli stöðu, fyrst í upphafi keppninnar og svo aftur eftir að hann varð fyrir samstuði við Giancarlo Fisichella er sá síðarnefndi rak framvænginn í afturdekk Schumachers og eyðilagði það.

Það eru mörg ár síðan mér var það ljóst að Michael Schumacher væri að setja nafn sitt á blöð sögunnar með glæsilegum íþróttamannsferli. Í dag var punkturinn settur aftan við söguna og bókinni lokað. Nú get ég með góðri samvisku fundið mér eitthvað annað að gera á sunnudögum en að horfa á kappakstur hring eftir hring.

-----oOo-----


Meira þessu tengt. Með því að Michael Schumacher hefur kvatt Formúlu 1, blasir við sú staðreynd að jafnaldri Zygmarrs sem er einungis fjórum dögum yngri ökuskírteininu mínu, er hættur og kominn á eftirlaun. Sigmar Guðmundsson fréttamaður og bloggari af guðsnáð, hefur að undanförnu verið að gefa í skyn að Þórhallur Gunnarsson yfirmaður sinn og kollegi, sé orðinn svo gamall að það sé lífeðlisfræðilega útilokað að kalla hann ungan. Hvað skyldi þá Þórhallur segja um þá staðreynd, að jafnaldrar Sigmars Guðmundssonar eru nú hættir að keppa í Formúlunni vegna aldurs og komnir á eftirlaun, en nýi aldursforsetinn tveimur árum yngri en Sigmar Guðmundsson?

sunnudagur, október 22, 2006

22. október 2006 – 2.kafli – Flugfargjöld til útlanda

Ég þarf að mæta á fund suður á Ítalíu eftir miðjan nóvember. Þegar haft er í huga að ég er ákaflega fátæk þessa dagana eftir þak- og gluggaviðgerðir heima hjá mér, hafði ég ákveðið að sleppa því að mæta á fundinn. Nei, það var ómögulegt. Það þarf að ræða mörg mikilvæg málefni varðandi litlu samtökin okkar og þess krafist að sem flest okkar mætum og tökum þátt í ákvörðunum um framtíðarskipulagið.

Ég fór að hugsa mín mál og fór að skoða möguleika á ódýrum flugferðum til Ítalíu. Fyrst þarf ég að komast til Englands þar sem ekkert beint flug er lengur til Ítalíu. Ferðin til Stansted þessa ákveðnu daga með Æsland Express og heim aftur kostar 32490 krónur. Ef ég kýs að fara með British Airways til London Gatwick kostar það 32700 krónur. Ódýrastir að venju eru svo Flugleiðir eða hvað þeir nú heita á þessum síðustu og verstu tímum en farið með þeim til Heathrow kostar 30400 krónur. Þegar svo bætist við ferð á flugvöll sem hægt er komast frá með lággjaldaflugfélagi t.d. Ryan Air, kemur Æsland Express hagkvæmast út þótt ekki séu þeir ódýrastir (aldrei hefi ég skilið af hverju þeir mega kalla sig lággjaldaflugfélag)

Ferðin frá Stansted til Tórínó með lággjaldaflugfélaginu Ryan Air og til baka aftur er þó langódýrust eða 36,95 pund (4753 krónur) og eru þá öll gjöld innifalin. Hvenær getum við vænst slíkra fargjalda til og frá Íslandi?

22. október 2006 - Af kriegsminister Bjarnason

Geiri harði kvartaði hástöfum undan stjórnarandstöðunni sem vildi koma höggi á Björn Bjarnason kriegsminister á fundi í Valhöll í gær. Ekki vildi hann þó meina að stjúpsonurinn ætti einhvern þátt í þessari rógsherferð á hendur stríðsmálaráðherranum.

Ég get alveg fullvissað Geir um að stjórnarandstaðan er alsaklaus af rógi á hendur Birni Bjarnasyni. Honum hefur tekist að rýja sjálfan sig trausti alveg aleinn og án stuðnings annarra en aðmíráls Lárussonar og FBI sjéffans Jóhannesen. Það var Björn sjálfur sem vildi stofna hér her og leyniþjónustu og njósnadeild og auka hér á hatur og viðsjár og það hefur enginn lagt honum þessar tillögur í munn nema hann sjálfur.

Björn Bjarnason verður því sjálfur að skammast sín og getur ekki kennt neinum öðrum um slíkt.

-----oOo-----

Nýju vélarnar tvær á Hellisheiði voru gangsettar og vígðar í gær við hátíðlega athöfn. Ég komst ekki, enda dauðþreytt eftir að hafa vakað yfir þeim í gangi alla nóttina á undan sem og öðrum þeim gufuhverflum sem tilheyra rafmagnsframleiðslu Orkuveitunnar. Ég er ekki einu sinni viss um að þær hafi verið stöðvaðar til að Gulli litli og Geiri harði fengju að ræsa þær að nýju eða hvort þeir hafi bara ræst þær í plati.

-----oOo-----

Eftir að hafa unnið tvær viðureignir í röð töpuðu hetjurnar í Halifaxhreppi leik í kvenfélagsdeildinni á laugardaginn og eru því enn rétt ofan við rauða strikið sem skilur á milli feigs og ófeigs. Hetjurnar í stórborginni þarna rétt hjá og sem kenna sig við gamla liðið sem var selt til Ameríku, héldu hinsvegar áfram sigurgöngu sinni og eru nú með 45 stig eftir 16 viðureignir í ensku Vestfjarðadeildinni

laugardagur, október 21, 2006

21. október 2006 – Bloggleti

Ég þjáist af alvarlegri bloggleti. Ég nenni ekki að skrifa og ég nenni ekki að gera neitt nema hanga á þessari blessaðri vakt minni og fylgjast með sex gufuhverflum samtals rúmlega 200 MW auk þess að halda yl á Reykvíkingum og nærsveitungum, útvega þeim nægt vatn og koma kúknum fyrir kattarnef.

Kannski er eðlilegt að ég bloggi ekki í kvöld. Það er vart tími til þess.

-----oOo-----

Á mínum yngri árum hófst hvalvertíðin oftast að kvöldi sjómannadags og lauk áður en skólarnir byrjuðu að hausti. Nýhafin hvalvertíð hófst eftir miðjan október um svipað leyti og síðasta stórhvelið er farið suður um höfin. Ætli þetta leyfi sé kosningabragð?

föstudagur, október 20, 2006

20. október 2006 – Hækkun á hraðakstursskatti

Í kjölfar umræðu um glæfraakstur, hefur Sturla Böðvarsson samgönguráðherra ákveðið að hækka sektir vegna hraðaksturs og fjölga hraðamyndavélum auk einhverra aukarefsinga til handa þeim ökumönnum sem eru undir tvítugu. Honum finnst þetta vafalaust ógurlega sniðugt, en þessar aðgerðir Sturlu munu ekki hafa nein áhrif á umferðaröryggi. Þetta verður einungis hækkun á innheimtu ríkissjóðs vegna minniháttar hraðaksturs og verður gjörsamlega misheppnað nema fyrir ríkissjóð. Ef marka má fréttir af umræðum á Alþingi, má ætla að sektir fyrir að flýta sér upp í 70 km hraða á hinum nýja kafla Hringbrautarinnar fari úr 15.000 krónum í 25-30.000, en þar safnar ríkissjóður sektum með hjálp myndavélar. Slíkt mun einvörðungu skapa óánægju og þverrandi virðingu fyrir löggæslunni í borginni.

Til þess að ná virkilega fram bættu umferðaröryggi með refsingum, þarf að beita annars konar úrræðum. Þegar unglingar eru í kappakstri, kannski á tvöföldum hámarkshraða eða meira, þá þarf lögreglan að hafa heimild til að draga þá fyrir dómara og dæma til betrunarvistar. Hækkun sektar mun ekki hafa neitt að segja, því oft er hinn ungi ökumaður á rándýrum sportbíl sem hann fékk í afmælisgjöf á 17 ára afmælinu frá foreldrum sem vaða í peningum og veit ég nýleg dæmi um slíka unglinga sem eyðilögðu bílana með sorglegum afleiðingum.Valdi ökumaður sem grunaður er um ofsaakstur eða akstur undir áhrifum banaslysi, þarf að vera hægt að úrskurða hann í gæsluvarðhald uns málið er upplýst og sömuleiðis má velta fyrir sér hvort ekki sé ástæða til fangelsisdóms við slíkar aðstæður. Margt annað er hægt að gera, en í guðanna bænum, ekki hækka sektirnar fyrir að rétt skríða yfir sektarmörkin. Þeir sem stunda kappakstur á götunum munu einungis líta á þær sem minniháttar fórnarkostnað.

Svo má alveg bæta ökukennsluna hér á landi og kenna nýjum ökunemendum að nota stefnuljós og öryggisbelti.

-----oOo-----

Ég var að skoða nýjar myndir af hinni nýju Estelle Mærsk, systurskipi Emmu Mærsk á netinu. Ég bara get ekki annað en haldið áfram að dást að þessum nýju risaskipum:

http://www.fyens.dk/modules/xphoto/slideshow.php?slideshowid=146802

fimmtudagur, október 19, 2006

19. október 2006 – 2. kafli - Í tilefni af mótmælum ......

.....Breta og Bandaríkjamanna gegn hvalveiðum Íslendinga og frétt Ríkisútvarpsins um sama efni sem birst hefur á vefnum, sendi ég hér með út mína opinberu yfirlýsingu:

Hér með lýsi ég yfir megnustu óánægju minni með mannaveiðar Breta og Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan. Afstaða Breta og Bandaríkjamanna er óútskýranleg og óafsakanleg. Alþjóðasamfélagið er í uppnámi yfir svona smánarlegu broti gegn alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Engar forsendur eru fyrir þessari ákvörðun um áframhaldandi veiðar. Bretar og Bandaríkjamenn geta ekki einu sinni selt kjötið sem fæst af þessum mannaveiðum.

Er ekki kominn tími til fyrir Breta og Bandaríkjamenn að mótmæla einhverju öðru en hófsamri nýtingu sjávarafurða í Norður-Atlantshafi?

19. október 2006 – Vesalings Björn

Björn Bjarnason minnst þess örugglega enn þegar Heimdellingar og aðrir ungir Sjálfstæðismenn studdu flokkinn gegn verkamönnum á Austurvelli 30. mars 1949. Þeir mættu þá að Alþingishúsinu með hjálma og kylfur að vopni eins og reiðubúnir til harðvítugra átaka ef verkamenn ætluðu sér að grýta Alþingishúsið með smásteinum. Nú hafa hægrisinnaðir sagnfræðingar ákveðið að árás vopnaðra Heimdellinganna sé vörn gegn vopnuðum verkamönnum sem vopnuðust því sem hendi var næst er á þá var ráðist, steinhleðslunum af Austurvelli.

57 árum eftir þennan atburð bregður svo við að þegar maðurinn sem vill ganga í fótspor Rumsfeld og Bush fer fram á stuðning Heimdallar og annarra ungra Sjálfstæðismanna við fyrirætlanir sínar um persónunjósnir, segja þeir stopp. Hingað og ekki lengra. Það ber að fagna afstöðu ungra Sjálfstæðismanna til hugmynda Björns Bjarnasonar og eru þeir menn að meiri vegna þessarar afstöðu sinnar.

miðvikudagur, október 18, 2006

18. október 2006 – 3. kafli – Afnotagjöldin

Ég var að ræða við mann einn í dag sem var í heimsókn hjá okkur í vinnunni og bárust afsagnir sænskra ráðherra í tal vegna svartra launagreiðslna og gleymsku á greiðslu afnotagjalda. Maðurinn taldi sig vera kunnugan innheimtukerfi Ríkisútvarpsins og fullyrti að margir svokallaðir framámenn í íslensku þjóðfélagi greiddu aldrei afnotagjöldin og kæmust upp með slíkt.

Það væri fróðlegt að heyra álit innvígðra í kerfi Ríkisútvarpsins á þessari fullyrðingu mannsins. Ég get auðvitað ekki gefið upp nafn hans fremur en Jón Baldvin og Árni gefa upp nafn dularfulla litla símamannsins.

þriðjudagur, október 17, 2006

18. október 2006 – 2. kafli - Prófkjörsraunir Kókómó

Ágætur fyrrum skipsfélagi minn af þremur skipum, Jóhann Páll Símonarson að nafni, bauð sig fram í níunda sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar ef mig misminnir ekki. Ekki reið hann feitum hval frá prófkjörinu, því hann hafnaði í fjórtánda sæti. Í framhaldinu var honum hafnað af framboðslista Sjálfstæðisflokksins, en fékk sæti sem varamaður í stjórn Faxaflóahafna í sárabætur. Þótt mér þyki þetta lítil umbun fyrir gamlan sjójaxl, er ég sannfærð um að Jói standi sig ágætlega í varastjórn Faxaflóahafna, enda vanur að fást við öryggismál sjómanna og sjálfur fórnarlamb vinnuslyss á sjó.

Enn og aftur er Jói kominn í prófkjör, nú til sjötta sætis í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Um leið er skarð fyrir skildi þar sem fyrrverandi formaðurinn hans hættir á Alþingi í vor. Efa ég ekki að Jói láti sig dreyma um sæti Guðmundar Hallvarðssonar á Alþingi. Þótt Jói sé orðinn virðulegra 55 ára gamall og því ekki með legvatnið í hárinu eins og sumir mótframbjóðendur hans, óttast ég að fara muni fyrir honum á sama hátt og fyrrum, enda maðurinn skapstór og ákveðinn í skoðunum, hvort sem skoðanir hans eiga rétt á sér eður ei.

18. október 2006 – Hvalveiðar

Þá er fyrsti hvalbáturinn farinn til veiða eftir að hafa verið bundinn við bryggju síðan 1989. Ég viðurkenni fúslega að ég er með klofinn huga í þessu máli. Það hefur tekist að byggja upp mjög öfluga hvalastofna á liðnum áratugum og þeir eru löngu hættir að að vera í útrýmingarhættu, þá sérstaklega smáhveli. Um leið verður að taka tillit til þess að búið er að byggja upp mjög öfluga ferðaþjónustu um hvalaskoðun og vafamál hvort ekki sé verið að rústa því sem þegar er búið að byggja upp.

Ekki vil ég trúa því að allir útlendingar séu svo vitlausir að þeir láti alltof hófsamar veiðar stjórna því hvert þeir fara í sumarfrí. Þeir útlendingar sem láta hvalveiðarnar hafa áhrif á ferðavenjur sínar, eiga ekki skilið að koma til Íslands, enda munu þeir bara hafa allt á hornum sér, eins og lítil sæt álver svo notuð séu orð Kolbrúnar Halldórsdóttur og litlar sætar stíflur, byggðar af Kínverjum og Portúgölum lengst frá mannabyggðum.

Það var samt gaman að sjá gamlan skólafélaga í sjónvarpsfréttum á þriðjudagskvöldið þar sem hann var að koma gömlu gufuvélinni í Hval 9 í gang eftir öll þessi ár.

17. október 2006 - Haustkvöld.

Ég nennti engu á mánudagskvöldið. Naut þess að sitja með kisurnar mínar tvær yfir sjónvarpinu og síðan góðri bók. Rétt eins og aðrar bækur sömu tegundar, fjallar hún um ástir og framhjáhald og kynlíf og önnur skemmtileg ævintýri í lífinu, en einnig sjálfan dauðann. Bókin er nýkomin út og heitir Ættir Þingeyinga og er 14. bindið í ritröðinni. Bókin er talin vera nokkuð góð, því vinkona mín norður í landi er búin að lesa hana og fann einungis eina smávillu við fyrstu lesningu bókarinnar. Slíkt er talið mikið gæðamerki.

-----oOo-----

Amrískir dátar og leyniher Björns Bjarnasonar réðust gegn hryðjuverkamönnum í Hvalfirði á mánudaginn. Mér dettur bara í hug þegar öll þess læti eru í dómsmálaráðherranum, hvort ekki sé löngu tímabært að segja upp hinum nýja varnarsamningi og ganga með hraði úr Nató og setja manninn á hjúkrunarheimili fyrir einstaklinga sem festust í kaldastríðshugsunarhætti?

mánudagur, október 16, 2006

16. október 2006 – Samsæri um skáborun

Síðastliðinn föstudag gerði ég athugasemdir við orð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þess efnis að hún vildi að Innstidalur yrði tekinn af listanum yfir hugsanleg virkjanasvæði. Hér með tek ég orð mín aftur, því nú veit ég betur.

Með nýjustu bortækni er óþarfi að leggja pípulagnir um Innstadal þveran og endilangan með tilheyrandi borholum, gufustrókum og hávaða. Borholurnar á Skarðsmýrarfjalli geta hvort eð er borað á ská. Ef búið er að bora 3000 metra djúpar holur á ská, næst gufan undan Innstadal án þess að hreyfa þurfi við dalnum sjálfum. Þarna var Solla sniðug. Gaf loforð sem auðvelt er að efna án þess að draga úr öðrum möguleikum. Þetta myndu sumir kalla samsæri með starfsfólki Jarðborana.

Þá má velta öðru fyrir sér. Þegar Norðlingaöldustífla ver gerð, var eitt helsta kvörtunarmál virkjunarandstæðinga að þar væri verið að eyðileggja dýrmæt jarðhitasvæði. Með skáborunum sömu gerðar og framkvæmdar eru á Skarðsmýrarfjalli , má einnig bora á bökkum hins nýja Norðlingaöldulóns. Ég er þó hrædd um að fljótlega yrði kvartað yfir sjónmengun vegna mannvirkjagerðar á hálendinu ef slíkt yrði gert og þá væntanlega slíkt ramakvein að mótmæli vegna Kárahnjúkavirkjunar yrðu sem hjáróma rödd í samanburði.

-----oOo-----

Þá hafa fyrstu leitarflokkarnir vegna týndra rjúpnaskytta farið til leitar þetta haustið!

sunnudagur, október 15, 2006

15. október 2006 – Elvis endurborinn?


Ég var á árshátíð á laugardagskvöldið. Orkuveita Reykjavíkur fagnaði enn einu árinu í rekstrinum og skemmti starfsfólkið sér saman við gleði og söng. Það fór ekkert á milli mála hver sló í gegn á þessari árshátíð, því með einu skemmtiatriðinu birtist skyndilega Elvis sjálfur á dansgólfinu, söng einn sinna velþekktu slagara og var auðvitað þakkað með dynjandi lófaklappi. Það hefði mátt ætla að hér væri Elvis endurborinn ef ekki fyrir mjög svo áberandi hökuskarð Guðmundar Þóroddssonar forstjóra Orkuveitunnar sem þarna var komið á Elvis sjálfan. Með þessu tiltæki hefur forstjórinn sýnt svo ekki verður um villst, að hæfileikarnir eru víðar en á stjórnunarsviði.

Það er svo hreinn áróður og ítrasta neikvæðni hjá einum starfsmanninum sem hélt því fram, að sennilega hefði þurft þrjá menn til að slíta latexgallann utan af forstjóranum að sýningunni lokinni, því eins og allir geta séð, þá var hann ekki í latexgalla.

Rétt eins og með aðrar myndir sem ég set inn á síðuna, þarf að klikka á myndina til að fá hana upp í réttri stærð.

-----oOo-----

Bæði liðin mín í enska boltanum unnu leiki sína um helgina. Halifaxhreppur vann naumlega ótemjurnar í Tamworth og er sem stendur fyrir ofan hættumörkin.

Sameining Mannshestahrepps gerði þó betur, enda enn í rusli eftir tapið um daginn og ákveðnir í að sýna hvað í þeim býr í ensku Vestfjarðadeildinni. Þeir möluðu stórliðið Squires Gate með átta mörkum gegn engu og eru langt komnir með að sigra níundu deildina þótt enn sé keppnistímabilið ekki hálfnað. Eins og allir muna unnu þeir tíundu og neðstu deild síðasta vor, eftir fyrsta keppnisár sitt, en liðið var stofnað í maí 2005 eftir yfirtöku einhvers amríkana að nafni Malcolm Glazer á gamla móðurfélaginu, Sameinuðum Mannshestum.

-----oOo-----

Nú má blessuð rjúpan fara að vara sig. Óhræsið er ekki langt undan.

laugardagur, október 14, 2006

14. október 2006 – Hugverkastuldur og Valgerður valkyrja

Ég var búin að semja þennan líka fína pistil um hið nýja Friðarfélag Reykjavíkur og átti einungis eftir að setja það á netið, en þá kom í ljós að einhver hafði hermt eftir Glanna glæp og stolið frá mér óbirtu hugverkinu. Ég varð því að leggja höfuðið í bleyti og semja nýjan pistil í hvelli.

-----oOo-----

Um daginn fóru Geiri harði og Valgerður valkyrja vestur um haf til að grátbiðja George Dobbljú Bush um hervernd gegn hinum vondu kommúnistum sem virðast vaða um allt á skítugum strigaskóm. Daginn eftir fengu þeir loks áheyrn hjá Hennar hátign Condólessunni. Í fréttum þá um kvöldið sást í fleiri hausa en einvörðungu þau tvö, því myndavélarnar námu Kriegsminister Bjarnason, Überadmiral Lárusson og Security Police Officer Johannessen á bakvið, parinu til varnar. Með þessa þrjá Birni að baki gekk fljótt og vel að samþykkja hervernd fyrir Ísland og vart hafði blekið þornað á pappírunum er tilkynnt var að öflugt innrásarskip yrði sent til Íslands hið bráðasta til að taka þátt í vörnum landsins uns Kriegsminister kæmi aftur til landsins.

Daginn eftir var Valgerður valkyrja komin heim aftur til að taka þátt í gleðinni við komu herskipsins, enda nóg að gera í bænum, þegar 1100 kvenmannslausir dátar eru á leiðinni í bæinn. Í viðtali við sjónvarpið viðurkenndi hún svo að vafasamt hefði verið að styðja árásina á Írak, en neitaði þó alfarið að draga til baka stuðninginn við innrásina.

Þurfum við virkilega að bíða í hálft ár til viðbótar með að draga stríðsyfirlýsingar Davíðs og Halldórs til baka?

föstudagur, október 13, 2006

13. október 2006 – 2. kafli – Af hverju Innstidalur?


Ingibjörg Sólrún hefur lagt til að þrjú svæði sem áður höfðu verið sett á lista sem vænlegir virkjanakostir, skuli tekin út af listanum, þ.e. Brennisteinsfjöll, Innstidalur og Villinganes. Ekki ætla ég að leggja eigið mat á Villinganes, læt Skagfirðinga um það atriði þótt ég sé hlynnt vatnsaflsvirkjunum umfram gufuaflsvirkjanir. Þá eru Brennisteinsfjöll senn einasta lítt kannaða svæðið á Reykjanesi og göngufólki til ánægju sem skemmtilegt útivistarsvæði í næsta nágrenni höfuðborgarsvæðisins, en geta farið til fjandans í næsta eldgosi.


Þriðja svæðið sem Ingibjörg nefndi er Innstidalur. Er það ekki dálítið of seint að ætla sér að friða Innstadal? Innstidalur er vissulega bæði grænn og fagur innan um stórbrotna náttúru Hengilssvæðisins, en til þess að komast í Innstadal verður að fara gangandi frá virkjanasvæðinu við Kolviðarhól eða þá akandi á jeppa frá virkjanasvæðinu við Orrustuhólshraun. Þegar dvalið er í Innstadal er hægt að njóta útsýnisins til suðurs, upp til virkjanasvæðisins á Skarðsmýrarfjalli. Semsagt, allt svæðið sundurborað og pípuvætt nema þessi eina litla vin í eyðimörkinni sem er eins og grasblettur í miðju iðnaðarhverfi.
Seinni myndin er tekin frá virkjanasvæðinu á Skarðsmýrarfjalli niður í Innstadal.

13. október 2006 – Lítil sæt 120.000 tonna álverksmiðja?

“Allir á Austfjörðum voru að vonast eftir lítilli sætri 120.000 tonna álverksmiðju, ekki 460.000 tonna álverksmiðju,” sagði Kolbún Halldórsdóttir á Alþingi á fimmtudag er hún skammaðist yfir virkjanaframkvæmdum eystra í kjölfar ræðu Arnbjargar Sveinsdóttur um aukna ferðamennsku eystra í kjölfar virkjanaframkvæmda. Ég verð að viðurkenna að ég hefi aldrei séð fallega álverksmiðju, en þótt mér þyki svona verksmiðjur ljótar, má Kolbrún Halldórsdóttir hafa aðra skoðun á fegurðinni. Ég viðurkenni reyndar, að úr fjarlægð slær fallegum ljósbláum lit á álver Norðuráls á Grundartanga og er það vel, annað en sótsvört járnblendiverksmiðjan í næsta nágrenni.

Ég efa það ekki að Kolbrúnu gekk gott eitt til með orðum sínum á Alþingi og vill hún hag þjóðarinnar sem bestan. Því óska ég henni þess að draumaverksmiðjan hennar megi rísa, hvort heldur er í Helguvík eða á Húsavík.

-----oOo-----

Jón Baldvin Hannibalsson hefur löngum þótt gleðimaður hinn mesti og hefur sjaldan fúlsað við guðaveigum, séu þær í boði. Ég var á fundi í kvöld og eftir fundinn var slegið á létta strengi. Þar hafði einn fundargesta það eftir ónefndum fréttamanni, að ólíklegt hefði verið að sími Jóns Baldvins hefði verið hleraður, því eins og haft var eftir fréttamanninum:
Hver hefði nennt að hlusta á drykkjusönginn?

Mín reynsla af ætluðum símahlerunum frá þeim tíma er ég starfaði fyrir Samtök herstöðvaandstæðinga á áttunda áratugnum er hinsvegar mjög áþekk þeirri sem Magnús Skarphéðinsson lýsti í Kastljósi kvöldsins, þótt aldrei kæmist ég að neinum ríkisleyndarmálum í gegnum síma SHA.

-----oOo-----

Þegar fólk þjáist af jafnmikilli athyglissýki og ég, er alltaf gaman að sjá að fylgst er með mér, samanber Hive notandann sem setti inn komment hjá mér síðustu nótt. Á fimmtudagskvöldið var eftirlit hans með mér á þennan veg:

Returning Visits ...........15
Visit Length.................... 4 hours 50 mins 41 secs

fimmtudagur, október 12, 2006

12. október 2006 – Af leiðtogafundum og varnarmálum


Fyrir sléttum tuttugu árum síðan var ég á sjó og slapp við allt umstangið, öryggiseftirlitið og umferðarteppurnar sem fylgdu fundi þeirra kumpána Reagans og Gorbatsjovs. Um leið var gaman að fylgjast með fréttum af þessum fundi úr fjarlægð, en við komum til Englands þessa helgi á honum Álafossi í hefðbundinni áætlunarferð okkar til hafna við Norðursjó. Fréttirnar af þeim félögum, eða réttara sagt, ekkifréttirnar, sýndu svo ekki var um villst hve margar fréttir eru einskis nýtar og í besta falli yfirborðskenndar. Þarna foru heilu fréttatímarnir í að sýna einn hurðahún og bresku blöðin rifjuðu upp gamlar draugasögur frá tíma fulltrúa ensku krúnunnar í Höfða. Síðan þá hefi ég ávallt sett ákveðinn fyrirvara við fréttir af pólitík.

-----oOo-----

Þríhöfða þurs íslensku ríkisstjórnarinnar fékk loksins áheyrn hjá Condólessunni í gær vestur í Washington og eftir stuttan fund var skrifað undir eitthvað sem vonandi er ekki neitt og einskis nýtur pappír. Verra þótti mér þó að heyra að Björn Bond Bjarnason dró Geira Harða og Völu valkyrju með sér í heimsókn til stríðsglæpamannsins Donald Rumsfeld og hét hann þeim því að kasta nokkrum sprengjum á Ísland í varnarskyni næsta ár og varð þá Björn Bond voða glaður. Ég vona að Donald verði ekki maður til að framkvæma hótun sína.

-----oOo-----

Strákarnir okkar unnu litla Ísland í fótboltaleik á miðvikudagskvöldið og kom það engum á óvart, enda “varnarliðið” farið úr landi. Ég skil þó ekki af hverju þurfti að sleppa úr heilu dagskrárliðunum í sjónvarpinu. Vafalaust hafa þeir félagar Sigmar og Þórhallur verið uppteknir við að horfa á sæta stráka í nælonbrókum hlaupandi á eftir bolta og hverjum öðrum og faðmast og kyssast í hvert sinn sem mark var skorað. Svo sætt. :)

miðvikudagur, október 11, 2006

11. október 2006 – 2. kafli - Upphitun fyrir herskipið?

Eins og öllum stelpum, sumum strákum líka, ætti að vera kunnugt núna, er herskip með 1100 stráka um borð á leið til landsins til þátttöku í félagslegum tengslaverkefnum. Örlítill forsmekkur verður að þessu í kvöld, en hið djarfa landslið Svíþjóðar ætlar að bursta Ísland á Laugardalsvelli í kvöld og aldrei að vita nema einhver verði heppin eftir leikinn, því ekki fara strákarnir okkar heim til Sverige fyrr en í fyrramálið og vart munu þeir þurfa að sofa á köldum beddum í nótt. Ég vil taka það fram að það þýðir ekkert fyrir Pollý og Sigmar að mæta á völlinn eða ætla sér að leggja snörur sínar fyrir stóru ástina úr Rassenal, því hann er meiddur og er ekki með.

Þannig að þér er alveg óhætt að senda út Kastljós í kvöld Sigmar minn.

11. október 2006 – Rææææs stelpur, SKIIIIIP!


Vestur í Washington sitja forsætisráðherra og utanríkisráðherra íslensku þjóðarinnar á rúmstokk sínum og bíða þess að utanríkisráðherra Bandaríkjanna þóknist að taka í hendina á þeim. Hún má ekki vera að því eins og er sökum mikilla anna við að bjarga heiminum frá hinum vondu kommúnistum í Norður-Kóreu. Því verða aumustu þjónar Condolessu að bíða auðmjúkir uns henni þóknast að veita þeim stutt viðtal.

Verndarar vorir eru þó ekki alveg búnir að gleyma okkur, því nú stefnir bandaríska herskipið Wasp til Íslands eftir hetjulega baráttu áhafnarinnar við frelsun írösku þjóðarinnar frá Saddam Hussein og síðan björgun ísraelsku þjóðarinnar frá Hisbollah. Með kurteisisheimsókninni ætla þeir að sýna okkur vesælum, að þeir verði fljótir til svara ætli vondir karlar eins og Steingrímur Sigfússon að ibba gogg gegn hinu ameríska almætti. Ekki verður viðvera skipsins í Reykjavík neitt slor því samkvæmt Vísi mun 1100 manna áhöfn skipsins fá landgönguleyfi og taka þátt í félagslegum tengslaverkefnum. Ekki er þess getið í fréttatilkynningu hvort ætlunin sé að dreifa lífsýnum um höfuðborgina, en miðað við 66 ára dugnað bandarískra verndara við slíkt, mun það efalaust vera hluti gleðileiksins og verndarstefnu bandarískra stjórnvalda, eða eins og skáldið sagði hér fyrr á árum:

Er rússneskir dónar með rassaköst skeiða
og ræna og drepa og nauðga og meiða.
Þá bjargast hin íslenska alþýðupíka
því amríski herinn mun vernd´ana líka.
Ó hó, aldrei að víkja.

P.s. Þess er getið í fréttatilkynningu í Morgunblaðinu, að ef vélar skipsins yrðu notaðar til rafmagnsframleiðslu, myndu þær duga 160.000 íbúa borg. Hrædd er ég um að þá þyrftu viðkomandi borgarbúar að spara rafmagnið því hinir 160.000 íbúar Reykjavíkur og nágrennis fara lengstum með meira rafmagn en það sem vélar skipsins geta framleitt, eða allt að 170 megavöttum, en afl aðalvéla skipsins er einungis 103 megavött.

þriðjudagur, október 10, 2006

10. október 2006 – 2. kafli – Af flugslysi í Noregi


Ég fór að velta fyrir mér þessu flugslysi í Noregi í morgun þar sem fjórir menn fórust, blessuð sé minning þeirra.

Þetta er samskonar vél eða hugsanlega sama vél og ég fór með til Egilsstaða á dögunum og hrósaði í hástert fyrir hraða, en hún var þriðjungi styttri tíma á leiðinni en gömlu Fokker druslurnar hjá Flugfélagi Íslands. Fokkerarnir hafa þó eitt framyfir þessa vél, að þeir eru ekki eins þröngsetnir og þessi vél sem er af gerðinni British Aerospace BAe 146-200, enda búið að bæta aukasætaröð í færeysku vélarnar frá því sem upphaflega var áætlað. Það eru sex sæti á breiddina í færeysku útgáfunni, en fimm annars. Ég verð að viðurkenna að ég vil heldur vera þriðjungi lengur, en að komast ekki alla leið í heilu lagi.

Annars kýs ég oftast að fara á milli staða á bílnum sé þess kostur, því þá ræð ég sjálf mínum ferðahraða og get notið þess sem Ísland hefur upp á að bjóða.

10. október 2006 - Um öryggis- og greiningarþjónustu

Steingrímur Jóhann Sigfússon fór mikinn á Alþingi í gær og vildi fá að vita nánar um leyniþjónustustarfsemi þá sem rætt rætt hefur verið um og átti sér stað á Íslandi. Meðal annars vildi hann fá að vita hvort hann hefði sjálfur verið undir smásjá Leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins.

Ég er ekki viss um hvort einvörðungu hafi verið um að ræða leyniþjónustu Flokksins. Það er talið að á vegum Upplýsingarþjónustu Bandaríkjanna hafi verið rekin umfangsmikil njósnastarfsemi hér á landi og slík starfsemi getur ekki gengið nema innfæddir séu með í ráðum. Því hefur verið eðlilegast að leitað hafi verið til hægri öfgamanna til liðsinnis Bandaríkjamönnum í þessum efnum og þá væntanleg flokksbundinna Sjálfstæðismanna. Vafalaust hefur Steingrímur J. verið kannaður rækilega rétt eins og við hin sem vorum blásaklaus af öðru en að rölta Keflavíkurgöngur og veifa kröfuspjöldum gegn heimsvaldastefnunni í þágu friðar þótt Mogginn segi annað.

Björn Bjarnason harðneitaði öllu samsæri um njósnir á undanförnum árum, reyndi að eyða samsæriskenningum Steingríms með stælum, en síðan beit hann höfuðið af skömminni með því að leggja fram til kynningar á Alþingi, tillögur um löggildingu persónunjósnadeildar innan embættis Ríkislögreglustjóra undir heitinu Öryggis- og greiningardeild Ríkislögreglustjóra. Er maðurinn gjörsamlega genginn af göflunum?

Það verður gott að losna við þennan hættulega öfgamann, sömu gerðar og George Dobbljú Bush, af Alþingi. Hann er hættulegur öryggi þjóðarinnar með þessum öfgum sínum og megi hann hætta sem fyrst áður en illa fer.

-----oOo-----

Ekkjan Yoko Ono fann réttan stað stað fyrir ljósatyppið sitt í Viðey í gær. Roger Waters þarf ekkert að leita, því vonandi mun Múrinn (The Wall) liggja umhverfis ljósatyppið og hylja það. Ég bíð þess nú að Ástþór Magnússon finni stað í grenndinni fyrir merki samtakanna Friður 2000.

mánudagur, október 09, 2006

9. október 2006 - Af ljósatyppi í Viðey

Það getur vel verið að Stefáni Jóni Hafstein finnist sniðugt að reisa ljósatyppi úti í Viðey. Mér finnst það ekkert sniðugt. Ég held að það sé verið að gera Reykvíkinga að ginnungafíflum því Yoko Ono gefur bara hugmynd, en Reykvíkingar eiga að borga. Á síðastliðnu vori lagði ég það til að að Múr sömu gerðar og Roger Waters sá fyrir sér er hann samdi tónverkið The Wall, verði reistur umhverfis ljósatyppið svo múrinn geti kallast á við ljósatyppið í stað þess að þurfa að kalla á borgarfulltrúann á fastalandinu. Ég er enn sömu skoðunar.

Fjölmiðlar gerðu að því skóna í gær að Yoko Ono sem sögð er gefa hugmyndina að þessu typpi sé mikill listamaður. Ég veit það ekki. Hið einasta sem veitti henni frægð var hjónaband hennar og Johns Lennon, en löngum hefur verið um það deilt hvort það hjónaband hafi verið farsælt tónlistarlega eður ei. Eitt er þó víst, að Yoko Ono hefur tekist að hafa borgarfulltrúa Reykjavíkur að fíflum og það eitt er afrek sem lengi verður í minnum haft.

Þá veit ég ekki hvort Lennon heitinn sem hefði átt afmæli í dag, muni snúa sér við í gröf sinni þegar hann heyrir af fíflalátum frúarinnar.

-----oOo-----

Loks er bannað að tala illa um íslenska landsliðið í fótbolta eða slæmt gengi Kimi Raikkonen í sparaksturskeppninni, enda hvorir tveggja lúserar.

sunnudagur, október 08, 2006

8. október 2006 - Næstibar

Það greip mig einhver ósjálfráð löngun til að fara út á lífið á föstudagskvöldið eftir að hafa verið í tuttugu ára afmæli þess ágæta fyrirtækis Barnasmiðjunnar, en hún er í eigu vina minna síðan 1982, þeirra Elínar og Krumma. Ég hafði hugsað mér að fara með strætisvagni til Reykjavíkur, en vinkonu minni sem ákvað að koma með fannst miklu betra að láta dóttur sína með glænýtt bílpróf skutla okkur í bæinn. Fyrir bragðið komum við ekki í bæinn fyrr en komið var nokkuð framyfir miðnætti og héldum beint á Næstabar.

Af einhverjum ástæðum fannst mér meira reykt þar en endranær. Ég settist um tíma við borð hjá fólki sem allt keðjureykti og var ég brátt orðin eins og reykt lambakjöt. Þrátt fyrir þetta var mikið af gamla góða liðinu á kránni, þótt fáir væru bloggararnir á staðnum eins og ég hafði þó gert mér vonir um að hitta. Þó vantaði slatta af gömlum baráttufélögum, t.d. var Birna ekki á staðnum og sömuleiðis vantaði Djúsa. Á næsta borði sat Kolbeinn, en ég þekki hann ekki persónulega. Við borðið okkar sat Hildur Helga Sigurðardóttir og áttu hún og Dagbjört margt sameiginlegt af lífsreynslu, enda hafa báðar búið langdvölum í Englandi. Guðrún Ögmundsdóttir alþingismaður kom ásamt eiginmanni á Næstabar og eins skemmtileg og jákvæð og endranær. Sömu sögu var að segja af Susönnu Svavarsdóttur blaðakonu, Guðrúnu Gísladóttur og Unni Ösp Stefánsdóttur leikkonum. Semsagt velheppnað kvöld.

-----oOo-----

Allt fór í vaskinn í ensku knattspyrnunni í gær. Að vísu tókst spútnikliðinu Sameingu mannshestanna að mala eitthvert lið sem ég kann ekki að nefna í vasabikarnum, en Halifaxhreppur tapaði að venju í kvenfélagsdeildinni. Ég er farin að hafa áhyggjur af þeim. Við sjáum hvernig fer að viku liðinni.

laugardagur, október 07, 2006

7. október 2006 – Um bókstafstrú

Í gær var mér borin á brýn bókstafstrú í athugasemdum við blogg dagsins. Það kom mér á óvart því ég vissi ekki til að friðarvilji teldist til bókstafstrúar. Ég ætla þó ekki að neita þeim möguleika að til sé einhversstaðar þykkur doðrantur sem lýsir friði og sem umræddur höfundur athugasemda telur að skoðun mín samrýmist. Ef umrædd bók er til, þá hlýt ég að vera bókstafstrúar, því eins og ég hefi sagt oft áður, þá eru skoðanir mínar á dauðarefsingum og styrjöldum ekki til sölu. Skiptir þá engu hvort einhver er drepinn með sprautunál, hengdur eða kjarnorkusprengju hent á borgina sem hann býr.

Samt efast ég um að umræddur höfundur athugasemda hafi hugleitt þann möguleika að einhverjir geti verið friðarsinnar. Af fyrri kynnum af manninum veit ég að hann er fylgjandi heimsvaldastefnu Bandaríkjanna og álítur að allt það fólk sem ekki fylgir sömu heimsvaldastefnu séu fylgjandi andstæðri heimsvaldastefnu, heimsvaldastefnu Sovétríkjann á meðan hún var og hét og síðan árásarstefnu einhverra vafasamra pappíra í arabaheiminum.

Ég get því sannfært Djúsa um að ég er andvíg heimsvaldastefnu í hverri þeirri mynd sem hún birtist. Þó að Djúsi fylgi Halldóri Ásgrímssyni að málum í einu og öllu og þar um leið takmarkalausri hlýðni við George Dobbljú Bush, þá lifi ég enn í þeirri von að Halldór sjái að sér nú þegar hann er hættur í pólitík og hætti að fylgja Davíð og George Dobbljú Bush að málum eins og blindur rakki. Það er nauðsynlegt, svo að Framsóknarflokkurinn nái virðingu á ný á meðal kjósenda. Ef ekki, gæti farið svo að Djúsi þyrfti að innrita sig í Sjálfstæðisflokkinn fljótlega eftir kosningar, ef hann vill ekki verða pólitískur munaðarleysingi.

-----oOo-----

Mig langar til að þakka góðar kveðjur og þá hvatningu sem ég fékk frá lesendum sem fólst í athugasemdum með pistlinum 5. október.

föstudagur, október 06, 2006

6. október 2006 – Gaman í Árbæjarstrætó

Það var eitthvað öðruvísi í umhverfinu þegar ég rölti heim frá vinnu í gær. Fyrst sá ég ekkert óeðlilegt, en svo áttaði ég mig á því að umhverfinu hefði verið breytt frá óeðlilegu í eðlilegt. Strætóskýlið á Bæjarhálsinum, rétt hjá vinnunni og sem hvarf þegar nýi borgarstjórnarmeirihlutinn tók við völdum í vor, var komið aftur. Strætó byrjar að ganga aftur í dag!

Á leiðinni niður í Ármúla um eftirmiðdaginn lét ég mig dreyma um ferð með strætisvagni á föstudagskvöldið og vinstrigræni eðalvagninn minn hristi sig af hryllingi yfir hugsunum mínum. Ekki get ég boðið strætisvagnafarþega Íslands númer eitt að sitja með í vagninum því hún mun þá væntanlega sitja í rauðum strætisvagni einhversstaðar í Lundúnaborg og láta sig dreyma um ferð með gulum strætisvagni. Ég fer þá bara ein á Næstabar.

-----oOo-----

Ég bíð svo í ofvæni eftir afsökunarbeiðninni frá Mogganum.

fimmtudagur, október 05, 2006

5. október 2006 – Hvað sagði Mogginn?

Þótt ég og Steingrímur J. Sigfússon séum langt í frá sammála í öllum málum er þó ekki hægt annað en að hrífast af ræðusnilld hans og frábærum flutningi á málum sem brenna á þjóðinni.

Við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra á þriðjudaginn sá Steingrímur ástæðu til að minna á orð Staksteina á mánudaginn, níðs sem birt var nafnlaust undir fyrirsögninni Staksteinar. Sjálf hafði ég hvorki lesið Staksteina á mánudaginn var, né hlustað á ræðu Steingríms á þriðjudagskvöldið. Hinsvegar sá Morgunblaðið ástæðu til að minnast á ræðu Steingríms á blaðsíðu 4 á miðvikudag og í framhaldi af því leitaði ég uppi Staksteina mánudagsins. Staksteinagreinin var síst mildari en Steingrímur lýsti henni og því sé ég ástæðu til að endurbirta hana hér á eftir í heild sinni.

Áður en ég endurbirti hana með eigin athugasemdum, finnst mér þetta níð ekki vera sérlega Moggalegt. Morgunblaðið hefur tekið mun frjálslegri afstöðu á undanförnum árum en á þeim tíma sem harðlínu- og öfgamenn á borð við Björn Bjarnason réðu ríkjum á blaðinu. Því ætla ég að orð Staksteina síðastliðinn mánudag séu orð einhvers mjög biturs núverandi eða fyrrverandi ráðherra sem vildi tryggja áframhaldandi hernám Íslands. Það breytir þó ekki því að nafnlaust níð á síðum Morgunblaðsins er á ábyrgð ritstjóra þess og því verður Styrmir Gunnarsson að bera ábyrgð á því, að minnsta kosti uns hann hefur beðist afsökunar á því fyrir hönd Morgunblaðsins.

Staksteinar mánudaginn 2. október bls 8.

Í minningu Samtaka herstöðvaandstæðinga

Hlutverki Samtaka herstöðvaandstæðinga er lokið. Því lauk í fyrradag.
*
Það var markmið Samtaka herstöðvaandstæðinga að koma bandaríska vernarliðinu úr landi. Til þess að ná því marki gengu herstöðvaandstæðingar frá Keflavík.
*
Þeir gengu í þágu kommúnismans sem hrundi með Berlínarmúrnum.
*
Þeir gengu í þágu Stalíns og eftirmanna hans en Stalín var einn helzti fjöldamorðingi 20. aldarinnar.
*
Þeir gengu í þágu þeirra sem hnepptu aðrar þjóðir í þrælkun.
*
Þeir gengu í þágu þeirra sem myrtu verkamenn á götum úti í Berlín 17. júní 1953.
*
Þeir gengu í þágu þeirra sem sendu skriðdreka inn í Búdapest til að drepa saklaust fólk á götunum þar.
*
Þeir gengu í þágu þeirra sem kæfðu Vorið í Prag í fæðingu.
*
Þeir gengu í þágu þeirra, sem drápu 10 milljónir manna í Úkraínu með hungursneyð af manna völdum.
*
Þetta voru hugsjónir herstöðvaandstæðinga. Svona þjóðfélag vildu þeir skapa á Íslandi.
*
Þeir vildu koma Íslandi undir hæl kommúnismans.
*
Minning Samtaka herstöðvaandstæðinga verður ekki í heiðri höfð.
*
Bandaríska varnarliðið var á Íslandi í 55 ár. Það fór að eigin ósk.

-----oOo-----


Athugasemdir mínar:

Kommagrýlan er dauð. Afturganga hennar ráfar enn um í Morgunblaðshöllinni eða í penna ónefnds Staksteinahöfundar.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins studdu ríkisstjórn Þýskalands gegn Þórbergi Þórðarsyni er hann sagði sannleikann um Adolf Hitler árið 1933 sbr. forystugrein Morgunblaðsins 1. febrúar 1934.
*
Samkvæmt ofangreindu, studdu ritstjórar Morgunblaðsins morð á 6 milljónum gyðinga í seinni heimsstyrjöldinni, sem og innrásir í mörg ríki Evrópu sem framin voru af sömu ríkisstjórn sem áður er getið.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu kjarnorkuárásirnar og fjöldamorðin í Hiroshima og Nagasaki 1945.

Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu McCarthy og ofsóknir hans gegn frjálslyndum og vinstrisinnum á árunum eftir 1950.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu innrásir Breta og Frakka inn í Egyptaland 1956.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu innrásina i Svínaflóa 1961
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu morð á tveimur milljónum Víetnama á árunum 1963-1975
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu notkun á napalm í Víetnam í lok sjöunda áratugarins.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu blóðugt valdarán Pinochet í Chile 11. september 1973 og þar með morð á tugum þúsunda íbúa Chile.

Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina studdu innrás og bera því ábyrgð á morðum á milli 40.000 og 100.000 saklausra borgara í Írak á árunum 2003-2006.
*
Ritstjórar Morgunblaðsins eða bréfritari Staksteina hafa stutt valdasjúkan öfgamann í embætti forseta Bandaríkjanna og bera því ábyrgð á gjörðum hans víða um heim.


Ég skal gjarnan éta ofangreind orð ofan í mig um leið og ritstjórar Morgunblaðsins biðja íslensku þjóðina sem og aðstandendur þeirra friðarsinna sem látnir eru, opinberlega afsökunar á orðum Staksteina mánudaginn 2. október 2006. Þeir mega einnig upplýsa okkur sauðsvartan almúgann hver skrifaði þetta níð sem birtist í blaðinu. Annars verður skömmin þeirra um langa hríð.

miðvikudagur, október 04, 2006

4. október 2006 – Hækkun bílprófsaldurs

Fyrir rúmum áratug síðan fóru fram talsverðar umræður í Svíþjóð um hækkun bílprófsaldurs. Átján ára strákar voru taldir óalandi og óferjandi og stunduðu vítaverðan hraðakstur og ollu flestum umferðarslysum. Því væri nauðsynlegt að hækka bílprófsaldurinn upp í tvítugt þegar þeir hefðu meiri þroska til að takast á við jafnmikið vandamál og það að aka bíl. Sumir gerðust svo djarfir að leggja til að hækkun bílprófsaldurs stráka yrði hækkað í 25 ár, en stelpur fengju áfram bílpróf við 18 ára aldur, enda miklu betri bílstjórar. Þessar hugmyndir voru svo blásnar af með rökstuðningi.

Um daginn var sagt frá skoðanakönnun þar sem þrír af hverjum fjórum vildu hækka bílprófsaldurinn á Íslandi í 18 ár. Af hverju? Hverju breytir þetta eina ár?

Það er staðreynd að því fyrr sem unglingar tileinka sér eitthvað nýtt, því meiri verður færni þeirra þegar frá líður. Því er best fyrir alla aðila að þeir fái ökuskírteinið sem fyrst og sautján ára aldurstakmarkið er ákaflega heppilegt til slíkra hluta. Með því að hækka bílprófsaldurinn í átján ár, er um leið verið að lækka gæði aksturseiginleikanna um eitt ár. Það er hinsvegar hægt að bæta kennsluna, flýta henni um eitt ár og hefja æfingarakstur við fimmtán ára aldur. Það má byrja undirbúning að ökuprófinu strax í grunnskóla og þannig að skapa möguleika unglinganna til að búa sig mun betur undir bílprófið. Svo mættu ökukennarar kenna ungum drengjum að nota stefnuljósin, en þeir virðast hafa gleymt því góða öryggisatriði.

Það er margt annað sem má gera áður en bílprófsaldurinn verður hækkaður, því hann einn færir bara vandamálið af sautján ára aldrinum og yfir á átján ára aldurinn. Það má krefjast þess að bílar ungra ökumanna á reynsluskírteini verði merktir eins og gert er eða var í Englandi. Það má einnig beita sérstökum viðurlögum eins og að fækka punktum áður en kemur að sviptingu ökuleyfis. Einhverjir hafa lagt til að sett verði hámarksvélarafl á bíla ungra ökumanna, en það tel ég mjög varhugavert. Ég veit af eigin reynslu að hægt er að komast býsna greitt á Nissan Micra, en á móti kemur að eðalvagn af þeirri stærð er mun hættulegri ef tjón verður en stærri bílar. Síðast í gær kom ég að Toyota Yaris í klessu á Miklubrautinni eftir að hafa lent í klemmu á milli tveggja stærri bíla sem voru lítt skemmdir.

Síðan má lögreglan einbeita sér að eltast við þá sem stunda ofsaakstur í stað þess að vera svo uppteknir af að sekta þá sem rétt skríða yfir hraðatakmörkin, að þeir missa af þeim sem stunda kappakstur á götunum. Sömuleiðis má alveg beita mun harðari refsingum og leggja áherslu á að allir noti öryggisbeltin, líka farþegar í aftursæti. Það eitt gæti sparað nokkur mannslíf.

-----oOo-----

Ég fór í bíó í gær, en það eitt að ég hafi farið í bíó er vert frásagnar. Myndin sem ég sá var danska kvikmyndin Soap sem sýnd er á kvikmyndahátíð. Hún fjallar um tilfinningabaráttu ungrar transsexual konu sem bíður þess að komast í aðgerð og svo fráskildrar konu á hæðinni fyrir ofan. Ákaflega ljúf mynd sem vakti margar minningar bæði úr eigin reynsluheimi sem og baráttusystra sem þurftu sumar að beita óhefðbundnum aðferðum til að komast af í heimi sem hataði okkur. Ég hvet það fólk sem á þess kost, að sjá þessa mynd, en seinni sýning myndarinnar er miðvikudaginn 4. október klukkan 18.00 í Háskólabíó.

-----oOo-----

Í síðustu viku brá andlitinu á mér fyrir í Kastljósi sjónvarpsins í tvær sekúndur þar sem ég var að störfum ásamt fleira fólki og án þess að mín væri getið. Af einhverjum ástæðum olli það meiri athygli en heilt einkaviðtal í Vikunni fyrir mánuði síðan. Hanga Íslendingar virkilega enn límdir fyrir framan skjáinn eins og 1966?

þriðjudagur, október 03, 2006

3. október 2006 - Tölvubréf utan úr heimi

Sum atvik í lífinu eru alltaf að koma mér á óvart.

Ég kom til Gdansk í Póllandi í fyrsta sinn á ævinni í janúar 1971. Þar höfðu þá geysað blóðugar óeirðir vikurnar á undan og enn voru skærur þegar Lagarfoss lagði að bryggju, mín fyrstu kynni af Austur-Evrópu og því sem hægrimenn kölluðu kommúnisma, en sumir vinstrimenn kölluðu sósíalfasisma. Við þessar aðstæður kynntist ég ágætlega ungum túlk sem vann við að aðstoða í samskiptum vestrænna skipverja við hafnarverkamenn og yfirvöld, Witold að nafni. Ekki var hann aðeins hjálplegur við að túlka, heldur og við að skilja svartamarkaðinn sem þá var allsráðandi sem sérstakt neðanjarðarhagkerfi í Póllandi.

Vináttan við Witold kom sér oft vel. Ef skipta þurfti gjaldeyri vissi hann alltaf réttu leiðirnar til að skipta á hagstæðara gengi en aðrir fengu og sömuleiðis vissi hann réttu aðferðirnar er drukknir sjómenn lentu í klípu á þessum slóðum. Ég sigldi oft til Póllands á árunum frá 1971 og til ársins 1974, en aldrei eftir það. Ég hélt þó bréfasambandi við Witold eftir þetta og þannig tókst mér að fylgjast ágætlega með málum í Eystrasaltsborgum Póllands árin á eftir.

Haustið 1981 urðu aftur óeirðir í Gdansk. Samstaða var komin til sögunnar og enn á ný óttuðust verkamenn um sinn hag og rugguðu bátnum. Sovétríkin fylgdust með af athygli og létu stjórnvöld í Varsjá vita, að ef ekki yrði gripið inn í af alvöru, þá myndu Sovétríkin gera það. Pólska ríkisstjórnin setti á herlög og Lech Walesa fór á bakvið rimla.

Skömmu áður fór Witold að óttast um sinn hag og með bréfaskriftum við pólsk yfirvöld, tókst mér að fá ferðaleyfi fyrir hann til Íslands sem hann nýtti sér með hraði og einn góðan veðurdag birtist hann á Íslandi þar sem hann dvaldi um átta ára skeið eða uns gamla stjórnskipulagið í Póllandi hrundi. Þá flutti Witold heim aftur, setti á stofn innflutningsverslun með íslenskar vörur og gerði það gott síðast er ég vissi. Sjálf hefi ég ekki hitt hann frá sumrinu 1989 er hann flutti til Póllands, en ég flutti til Svíþjóðar.

Á mánudagskvöldinu fékk ég óvænt tölvubréf frá frænda mínum í Englandi, frænda sem ég hefi aldrei fyrirhitt, hafði reynt að ná sambandi við, en án árangurs. Beiðnin var stutt og einföld: Geturðu sent mér heimilisfangið hjá Witold B.?

Bíddu nú hæg. Hvernig veit einhver maður í Englandi sem einungis örsjaldan hefur komið til Íslands þótt náinn ættingi sé, (og þá var ég ekki á landinu) að ég þekki einhvern mann í Póllandi sem ég hefi ekki hitt í 17 ár? Heimilisfang Pólverjans fann ég með hraði með hjálp Guðrúnar Völu, en nú bíð ég spennt að vita hvort einhver sé að tala um mig í útlöndum!

Skrýtið, ég hefi ekki fengið neinn hiksta síðustu dagana.

mánudagur, október 02, 2006

2. október 2006 – Hættir að vera hryðjuverkamenn?

Á sunnudagskvöldið var flutt viðtal Evu Maríu Jónsdóttur við Ómar Ragnarsson andstæðing Kárahnjúkavirkjunar á besta tíma sjónvarpsins og byrjaði viðtalið á spjalli um uppvöxt Ómars, fyrsta sviðshlutverkið og stríðshræðslu. Þar rifjaði Ómar upp hræðslu sína við stríð í bernsku og nefndi stríðið í Palestínu 1948:
Bernadotte greifi var drepinn í Palestínu af hryðjuverkamönnum sem þá, nota bene, voru gyðingar. Svo snérist þetta við”

Bíddu nú hægur, hvað snérist við? Hættu gyðingarnir að fremja hryðjuverk? Voru það kannski bara Palestínuarabar sem frömdu hryðjuverk eftir það? Voru það kannski ekki gyðingar sem myrtu rúmlega þúsund manns í Líbanon síðastliðið sumar? Var hryðjuverkamaðurinn Ariel Sharon kannski ekki gyðingur? Eitthvað finnst mér vanta upp á nýlega uppgötvaða pólitíska vakningu þessa ágæta fréttamanns og gamanvísnasöngvara.

-----oOo-----

Ég tók ekki þátt í rútuferð til Keflavíkurflugvallar á sunnudaginn. Mig langaði vissulega, en eftir að hafa verið á næturvakt aðfararnótt sunnudags, var baráttuandinn í lágmarki, auk þess sem málningarrúllan beið þess að ég vaknaði og héldi áfram samvinnuverkefninu, að mála húsið heima hjá mér ásamt nágrönnum mínum. Ekki get ég svikist undan samstöðunni með góðu fólki, þótt allir séu ekkert endilega sammála mér í pólitík. Hugur minn var samt með friðarsinnum og í sjónvarpi um kvöldið sá ég marga góða byltingarfélaga þar sem þeir voru staddir á auðu og yfirgefnu herstöðvarsvæðinu.

-----oOo-----

Íþróttahelgin fór örlítið betur en á horfðist í fyrstu eftir töp KR og Halifaxhrepps á laugardeginum, ásamt slæmu gengi heimsmethafans geðþekka í tímatökunum í Kína. Hann sýndi sínar bestu hliðar á sunnudagsmorguninn og sýndi það rautt á hvítu af hverju hann hefur sjö sinnum orðið heimsmeistari í Formúlunni.

sunnudagur, október 01, 2006

1. október 2006 - ...og herinn á brott :)

Herinn er farinn. Eftir 66 ár af hersetu sem hófst 10. maí 1940, er íslensk þjóð laus við erlendan her í fyrsta sinn frá stofnun lýðveldis. Þeim sem ekki gerðu sér grein fyrir þeirri hættu sem stafaði af dvöl erlends herliðs á Íslandi er söknuður í huga, í hugum okkar hinna ríkir fögnuður. Fögnuðurinn er þó blendinn. Við vitum að ætlunin með brottför hersins er ekki sú að hann sé hættur að “verja” okkur, fremur sú að skjóta þarf fólk og limlesta austur við Persaflóa og Bandaríkjamenn þurfa á öllu sínu að halda til að ljúka ætlunarverki sínu, að gera ekki bara ríkisstjórn, heldur og írösku þjóðina að handbendi sínu. Á þessari stundu bendir ekkert til að þeim verði að ósk sinni.

Ég get ekki haldið því fram að samskipti mín við herinn hafi verið mikil. Ég man eftir svokölluðum þrýstiloftsflugvélum (þotum) á þeirra vegum sem flugu yfir suðvesturlandið, stundum oft á dag, í bernskunni, flugvélum sem minntu meira á krossa á himnum sökum þess hvernig þær voru í laginu. Þá man ég eftir þyrluslysinu 1. maí 1965, en ég og félagi minn vorum á ferð á reiðhjólum ekki fjarri þeim stað sem þyrlan hrapaði og komum nokkru seinna að slysstað. Það vorum þó ekki við sem getið var í frásögn Morgunblaðsins af slysinu. Síðar sigldi ég í nokkur ár á milli Íslands og Bandaríkjanna og þá með helstu viðkomu í Portsmouth/Norfolk í Virginia og stundum var einnig komið við í herstöðvunum í Bayonne í New Jersey og í Argentia á Nýfundnalandi. Síðustu afskipti mín af hernum á Miðnesheiði voru síðan í janúar 2003 er ég fór á vegum vinnunnar í heimsókn hjá Öryggiseftirliti hersins þar sem við heimsóttum m.a. þyrlubjörgunarsveitina og fengum góða innsýn inn í störf hennar. Ákaflega ánægjuleg heimsókn.

Persónuleg kynni af hermönnum og starfsfólki hersins hefur sömuleiðis verið með ágætum, enda hafði andstaðan alla tíð verið án nokkurs kala í garð einstakra persóna á Miðnesheiði, heldur einungis þeirrar stefnu stjórnvalda á Íslandi sem og í Bandaríkjunum, að hafa hér her á friðartímum. Þá hefi ég margsinnis lýst því yfir, að ég telji skort á björgunartækjum vera Íslandi til vansa og hefi margoft lýst eftir úrbótum á því sviði sem senn verður að einhverju leyti að veruleika.

Á þessari stundu er þó full ástæða til að fagna brottför hersins og bjóða velkomin þau tækifæri sem bjóðast með brottför hans.

-----oOo-----

Laugardagurinn var erfiður í íþróttum. Heimsmethafinn geðþekki lenti í 6. sæti í tímatökunum í Formúlunni og ekki betur á Íslandi þar sem liðið okkar Þórðar og Steina spilaði langt undir væntingum. Í ensku kvenfélagsdeildinni héldu hetjurnar hugumfráu uppteknum hætti og héldu olympíuhugsjóninni á lofti með glæsilegu tapi gegn Stefánsborg. Hið einasta sem vakti gleði var sigur Sameiningar Mannshestahrepps á Backup borg með 3-0 í fyrstu Vestfjarðadeildinni í Englandi.