laugardagur, júní 30, 2007

Minningarathöfn um hund!



Fyrir allmörgum árum lokuðust þrír hvalir inni í vök í einhverjum flóa einhversstaðar í Alaska. Þetta þótti hið versta mál og maður gekk undir manns hönd til að safna pningum svo hægt væri að bjarga vesalings hvölunum. Ekki man ég töluna á fjölda heimilislausra í New York sem gefendur í söfnunina þurftu að sýna lítilsvirðingu með ferð sinni í bankann til að sækja aura fyrir söfnunina, en það breytti engu um örlög þessara þriggja hvala sem drápust þrátt fyrir stórtækar aðgerðir til að bjarga þeim úr prísundinni.

Sömuleiðis fór fram í Bandaríkjunum gífurleg söfnun til bjargar háhyrning einum sem hafði verið lokaður í lítilli laug í sædýrasafni. Það tókst að safna gífurlegum fjármunum, kaupa hvalinn lausan og sleppa honum þótt hann kærði sig ekkert um frelsi, enda drapst hann í námunda við fólkið sem þurfti að annast hann.

Sumsstaðar í heiminum var hlegið að þessum vitlausu Ameríkönum og gert grín að þeim.

Á Íslandi var haldin minningarathöfn um hund!

Þið megið ekki misvirða þessi orð því auðvitað þykir mér vænt um dýr og get ekki hugsað mér að gera neinu dýri mein, ekki frekar en mannfólkinu. Sjálf á ég tvær indælar kisur og reyni að sinna þeim eins vel og mér er unnt. Ég myndi hinsvegar aldrei halda opinbera minningarathöfn um kisurnar mínar jafnvel þótt þær yrðu pyntaðar til dauða, en alveg örugglega kæra málsaðila með hraði fyrir brot á dýraverndarlögum auk þess að halda minningu þeirra á lofti innan veggja heimilisins. Það er staðreynd að á meðan fjöldi fólks líður skort á Íslandi er slík minningarathöfn sem átti sér stað á fimmtudagskvöldið sem háðung fyrir alla sem tóku þátt og þekktu hundinn ekki neitt.

Mér finnst að Íslendingar eigi að hætta að tala um skrýtna Ameríkana og horfa í spegil í staðinn.

föstudagur, júní 29, 2007

29. júní 2007 - Ein lítil tá útúr skápnum


Eins og flestir vita hefur lítið farið fyrir KR-ingum í sumar og þeir sem eru yfirlýstir, hafa margir lokað sig inni í skápnum fræga, enda erfitt að standa gegn mótlæti sumarsins. Ekki hefur gengið heldur verið upp á hið besta hver tapleikurinn á fætur öðrum og orðið býsna heitt undir þjálfaranum. Voru gárungarnir jafnvel farnir að ræða hvort ekki væri kominn tími til að Teitur Þórðar og Eyjólfur Sverris skiptu á stöðum.

Eins og annað gott fólk hefi ég lítið látið fara fyrir skoðunum mínum á KR í sumar og þrætt eins og sprúttsali hafi einhver spurt um gengi KR. Þó var sem ég hefði viðrað það álit mitt að einungis tvennt væri eftir í stöðunni, að skipta um dómara eða markmann því búið væri að skipta um alla hina.

Það er erfitt að ráða því hverjir verða dómarar og þá er bara einn eftir. Það er maðurinn sem hefur verið að skoða sprettuna á vellinum þegar skorað hefur verið framhjá honum og hefi ég haft hinn versta ímugust á færni hans í markinu á undanförnum árum. Á fimmtudagskvöldið var svo loks skipt um markmann í byrjunarliðinu og nýi maðurinn byrjaði með stæl. Með þessum leik og litlum sigri gafst loksins möguleiki á að viðra litlutá utan við skápinn.

Er ekki kominn tími til að nýi maðurinn fái fasta stöðu í liðinu svo okkur megi auðnast það að komast alveg útúr skápnum á ný?

fimmtudagur, júní 28, 2007

28. júní 2007 - Einbeittur brotavilji



Þessa dagana hamast sumir félagar mínir í Samfylkingunni við að mæra Tony Blair, ekki aðeins þeir, heldur og margir íhaldsmenn. Ég sé enga ástæðu til þess og fagna brotthvarfi hans úr enskum stjórnmálum og á ekki von á miklum árangri hjá honum í deilunni fyrir Miðausturlöndum eftir blóðugan feril hans í embætti forsætisráðherra Bretlands.

Þegar Tony Blair ákvað að styðja félaga sinn George Dobbljú Bush í innrásinni í Írak, gerði hann það af sömu fölsku ástæðunni og þeir félagar þeirra Halldór og Davíð. Á sama hátt og Adolf Hitler beitti lygum og áróðri gegn Póllandi í lok ágúst 1939, gátu allir séð að sama sjónarspil var uppi á teningunum gagnvart Írak fyrstu mánuði ársins 2003. Munurinn er þó sá einn að þeir fylgismenn Hitlers sem lifðu af stríðið voru dregnir fyrir lög og dóm, en það virðist langt í slíkt hjá Bush, Blair, Halldór og Davíð.

Allir sem vildu vita, vissu að innrásin í Írak var á fölskum forsendum. Þess vegna stóðum við mörg á torginu fyrir framan stjórnarráðið dagana í kringum innrásina og mótmæltum. Þeir félagar Bush og Blair ásamt varðhundum sínum víða um heim þar á meðal á Íslandi, ákváðu að hunsa mótmæli okkar og annarra friðarsinna um allan heim og annað hvort myrtu hundruð þúsunda Íraka eða studdu morðin.

Glæpir þessara manna voru engin mistök eins og látið er í veðri vaka á fjölmörgum bloggsíðum þessa dagana, heldur einbeittur brotavilji og fyrir slíkan gjörning á að kalla slíka menn fyrir rétt eins og hverja aðra ótínda glæpamenn svo þeir fái réttláta dómsmeðferð.

miðvikudagur, júní 27, 2007

27. júní 2007 - II - 27. júní er góður dagur!

27. júní 1921 var Elliðaárstöð í Reykjavík vígð og þar með hélt nútíminn formlega innreið sína í Reykjavík. Því er 27. júní góður dagur fyrir Reykvíkinga.

27. júní 1996 fengu samkynhneigðir ýmis réttindi sem þeir höfðu ekki haft áður og tíu árum síðar voru réttindi þeirra færð enn nær réttindum annarra þjóðfélagshópa. Þvi er 27. júní einnig góður dagur fyrir samkynhneigða.

27. júní 2007 hætti Tony Blair sem forsætisráðherra Englands, að vísu rúmum fjórum árum of seint. Það breytir ekki því að hann er hættur og hann hætti í dag. Því er 27. júní góður dagur fyrir friðarsinna um allan heim.

27. júní 2007 - Aumingjaskapur vélstýrunnar



Er ég vaknaði á þriðjudagsmorguninn var glampandi sól og ég enn á frívakt. Mér fannst ekki hægt annað en að nota góða veðrið til fjallgöngu, dreif mig á fætur, tróð helstu nauðsynjum ofan í bakpoka, setti kettina út og hélt til stefnumóts við Esjuna. Svo kárnaði gamanið.

Ég hafði ekki gengið lengi upp hlíðarnar er ég fann hvernig dró af mættinum. Ég hélt samt áfram og varð þreyttari og þreyttari. Er ég komst loks upp í klettabeltið þurfti ég að hvíla mig í öðru hverju skrefi, en upp komst ég þrátt fyrir allt og náði því að banka skífuna á tíma sem er alls ófullnægjandi eða kortéri lengri en ég hafði farið fyrir hálfum mánuði.

Þetta gengur ekki svona. Stjórn fjallgönguklúbbs Önnu kallaði þegar til fundar og þar var ákveðið að senda mig á Hábungu og til baka aftur. Ekkert mál, hugsaði ég, þótt Hábunga sé um 140 metrum hærri en Þverfellshornið er hún einungis rúma þrjá kílómetra til austurs. Veðurbarið grjótið á toppi Esjunnar er bara ekki eins og malbikaður göngustígur. Því þurfti ég að æfa hinn fræga þúfnagang sem ónefndur íslenskur ríkisborgari og skákmeistari hlaut aðdáun fyrir árið 1972, er ég hélt austur. Engan jólasvein sá ég í þetta sinn eins og fyrir ári, en mætti einni sem gæti verið jólasnót, nema auðvitað að hún hafi haldið ég væri jólasnótin.

Þremur tímum síðar var ég komin til baka að mannlausu Þverfellshorni og eftir góða hvíld hélt ég niður af fjallinu. Ekki leið á löngu uns ekki var hægt að þverfóta fyrir fólki á uppleið og sumt á niðurleið. Hvaðan kom það fólk? Ég sá engan á Þverfellshorni er ég kom til baka frá Hábungu.

Nú kom annað babb í bátinn. Eftir að hafa eytt öllum eftirmiðdeginum í fjallgöngu og gönguna á Hábungu og einungis drukkið orkudrykk og etið eitt stykki úrvals hreint rjómasúkkulaði frá Síríus, ákváðu innyflin að mótmæla fæðinu og ég enn ofarlega í Esjuhlíðum. Ég reyndi að flýta mér, en samt var ástandið orðið þannig er ég nálgaðist bílastæðin á Mógilsá, að ég þurfti að læðast síðustu metrana til að koma í veg fyrir stórslys.

En heim komst ég með sólbrunnið nef!

þriðjudagur, júní 26, 2007

26. júní 2007 - Sjóræningjar

Undanfarna daga hafa sjávarútvegsráðherrar verið að ræða um veiðar erlendra fiskiskipa utan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Íslenski sjávarútvegsráðherrarnn kallar þessi skip sjóræningjaskip og opinberar fréttastofur sem og fréttastofur prentfjölmiðla apa þetta þeftir honum.

Þetta er rangt! Á næstu eyju við heimahöfn þessara skipa er t.d. Eimskip með áætlunarskip sín skráð og samkvæmt skilgreiningu sjávarútvegsráðherrans ber einnig að kalla þau sjóræningjaskip! Sjálf hefi ég notað þetta vafasama orð um skip sem sigla undir hagkvæmnisfána, enda er notkun slíkra fána beinlínis gegn hagsmunum ríkisins og oft hinnar undirokuðu alþýðu samanber færslur mínar frá því í fyrra og árið á undan á öðrum vettvangi en Moggabloggi.

Óábyrg skrif mín í þessum efnum skipta litlu máli. Verra er þegar sjálfur sjávarútvegsráðherrann notar slíkt slangur um grafalvarlega hluti og síðan þegar fréttastofurnar apa þetta eftir honum. Nú hefi ég fangið aukinn liðstyrk í baráttunni fyrir bættu orðalagi með bloggi Bjarna Más:

http://www.deiglan.com/index.php?itemid=11275

Eða eins og Ármann Snævarr lagaprófessor sagði eitt sinn: “Við skulum ekki nota slangur í umræðum um lögfræði!”

mánudagur, júní 25, 2007

25. júní 2007 - Himnaríki?



Guðríður vinkona mín Haraldsdóttir hefur löngum þótt hnyttin í tilsvörum og daglegri umgengni. Þegar hún flutti frá Reykjavík og út á land keypti hún sér íbúð á efstu hæð í blokkinni, en eins og allir vita eru bara tvær blokkir úti á landi, blokkin í Vestmannaeyjum sem stendur ofan við Friðarhöfn og svo hin blokkin í sjávarþorpi úti á landi og sem stendur við sjóinn.

Af alkunnri hógværð sinni fann Gurrí fljótt að gott væri að búa í blokkinni úti á landi og horfa á brimið koma æðandi á Langasand og að blokkinni. Eftir að hafa séð þessar ógnvænlegu aðfarir brimsins sá hún að hún væri ekki flutt í nágrenni við Helvíti og eftir það hefur íbúðin hennar í blokkinni aldrei verið kölluð annað en Himnaríki.

Ég hefi nokkrum sinnum komið í kaffi í Himnaríki og vissulega hrifist af útsýninu, reyndar ekki út á sjó, heldur í hina áttina, upp á Akrafjall, en þaðan mun vera skemmtilegra útsýni en úr blokkinni þótt íbúðin sé á fjórðu hæð. Þá hefi ég örstöku sinnum boðist til að aka frúnni heim eftir vinnu, en það tekur hún aldrei í mál því slíkt gæti leitt til þess að frú Guðríður missti af ferð með Tomma mági sínum að óskum.

Ástæða þess að ég rifja þetta upp nú er að ég fann Himnaríki á laugardaginn, reyndar allt annað Himnaríki. Það var þó hvergi í námunda við sjó, heldur til fjalla. Það er nánar tiltekið á virkjanasvæði Hellisheiðarvirkjunar og staðsett í gám á Skarðsmýrarfjalli. Ef mig mismnnir ekki, rakst ég þjóðhátíðartjald frá Vestmannaeyjum þarna í fyrrasumar. Það er því ljóst að Eyjamenn hafa séð heim til Eyja af fjallinu og orðið svo uppnumdir af sýninni að þeir hafa eftir þetta kallað staðinn Himnaríki.

Megi Eyjamenn vel njóta nafngiftar sinnar á Skarðsmýrarfjalli, en ég er viss um að Gurrí lætur sitt Himnaríki ekki svo auðveldlega af hendi.

sunnudagur, júní 24, 2007

24. júní 2007 - Ljúga veðurfræðingar?

http://images26.fotki.com/v891/photos/8/801079/5083560/IMG_2533-vi.jpg?1182643309
Það var ekki amaleg veðurspáin, sól og blíða, þegar ég og nafna mín og nágrannakona lögðum að heiman á laugardagsmorguninn og var förinni heitið á Hengilinn.Það var ekið sem leið lá og bílnum lagt skammt frá Víkingsskálanum og lagt þaðan í brekkurnar upp að Sleggjubeinsskarði.

Ekki höfðum við gengið lengi er við fórum að efast um vísindi veðurfræðinnar því þar var hífandi rok með hæfilegum sandstormi. Þetta hlýtur að lagast þegar þegar komið er upp á Húsmúlann tautaði ég. Ónei, þar reyndist sama rokið og jafnvel verra ef eitthvað var því það var beint í andlitið á köflum og svo hvasst að erfitt var að fóta sig. Þarna hefði ekki veitt af eins og einum stórum Þórði til að halda sér í. Hann var samt með okkur í anda og rifjaðar upp sögur af kappanum frá því í fyrra.

Áfram var haldið af gamalkunnri þrjósku. Brátt var komið að Þórðarkleif (Hún heitir kannski eitthvað allt annað, en mér er ókunnugt um það). Er ég fór yfir klifið kom slík vindhviða frá norðri að ég varð að leggjast niður til að fara ekki sömu leið og Þórður forðum daga og síðan skríða yfir að klettinum framundan. Nafna mín hló bara að aðförum mínum og gekk yfir eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Áfram var haldið og átt að Skeggja. Síðasta haftið, örmjótt einstigi reyndist okkur óframkvæmanlegt vegnaveðurhamsins sem stóð á fjallið úr norðri frá heiðinni. Því var snúið við, haldið sem leið lá niður í Innstadal og þaðan til baka niður í Sleggjubeinsdal.

Heim komumst við veðurbarðar, útiteknar og sandblásnar, en með alla útlimi í lagi. Ég náði veðrinu bæði á Stöð 2 og Ríkisútvarpinu og á Stöð 2 var enn sama himnablíðan og spáð hafði verið um morguninn og kvöldið áður. Þó sögðu þeir frá moldroki á Suðurlandi í fréttunum. Sjálf var ég svo þreytt eftir ferðina að ég treysti mér ekki til að koma þessari færslu inn fyrr en komið var nærri hádegi.

http://public.fotki.com/annakk/gnguferir-2007/hengill-23-jn-2007/

laugardagur, júní 23, 2007

23. júní 2007 - Fjöll skoðuð neðanfrá


Ég skrapp í Borgarfjörðinn á föstudagskvöldið enda mörg árennileg fjöll þar sem vert er að slíta skónum á. Þegar ég var komin vel af stað, áttaði ég mig á því að föstudagskvöld eru næstverstu tímarnir til að skoða fjöll úr bílnum. Einungis sunnudagskvöld eru verri.

Ekki var umferðin alveg samfelld þótt þung væri. Mér fannst þó eftirtektarvert að framan við þá bíla með skuldahala á eftir sér sem sýndust fremstir, leyndist venjulega jepplingur. Sjálf gleymdi ég mér við hlustun á Guðna Má er ég fór í gegnum Hvalfjarðargöngin á suðurleið og ók á 60 mestalla leiðina. Ég lenti samt aftan við bílalest á leiðinni upp úr göngunum.

-----oOo-----

Ég er að velta fyrir mér tilgangnum með öllum þessum mælitækjum og myndavélum við gjaldskýlið norðan Hvalfjarðarganganna. Ég hefi farið fjórum sinnum í gegn undanfarna þrjá daga og alltaf hefur myndavél tekið mynd um leið og ég ók framhjá. Tvö fyrstu skiptin var ég ekki glápandi á hraðamælinn er mynd var tekin, en í bæði skiptin í kvöld var ég sannanlega á undir 30 km hraða frá því komið var að 30 km skiltinu og samt var tekin mynd. Hvað er eiginlega í gangi þarna?

Það eru svo komnir myndavélastaurar í umdæmi Borgarfjarðar við Hvalfjarðarvegamót fyrir umferð sem kemur sunnanfrá og við Fiskilæk fyrir umferðina sem kemur norðanfrá. Gott að vita af þeim þarna ef maður skyldi ekki vilja flýja land vegna ofríkis yfirvalda í umferðarmálum.

föstudagur, júní 22, 2007

22. júní 2007 - Meira um meðvirkni!

Ég held að sumir sem hafa gert athugasemdir við skrif mín í síðasta pistli séu að misskilja mig. Ég er ekki að setja neitt út á stafsetningu fólks, ofnotkun eða vannotkun á ypsilon né fjölbreytta notkun zetunnar. Fólk má sömuleiðis hafa skoðanir og á að hafa skoðanir á samfélaginu. Það eru meðvirkni og athugasemdalausar áherslur í fréttabloggum sem ég var að setja út á.

Með meðvirkni á ég við hið stórhættulega atferli þegar hópur fólks tekur sig til og lætur hafa sig út í fylgilag við skoðanir sem oft eru hættulegar samfélaginu. Sorglegasta slíkt dæmi var þegar Adolf nokkur Hitler taldi þýsku þjóðina á að fylgja sér að málum og síðan hvernig hann beitti því valdi sem honum var fengið gegn þjóðinni og gegn mannkyninu. Því er full ástæða til að hafa vara á þegar einhver slær fram í keskni sinni hugmynd um notkun naglabelta til að stöðva mótorhjól sem fara yfir löglegan hámarkshraða. Ég vil meina að sá sem varpaði fram hugmyndinni og settist síðan á útbrunnar leifar af mótorhjóli til myndatöku hafi verið að grínast með hugmyndina, en blaðamaðurinn og síðan lesendur tekið hugmyndina alvarlega.

Hugmyndin sem slík er auðvitað fáránleg. Hvaða lögregluvarðstjóri vill t.d. taka á sig ábyrgðina af notkun slíks naglabeltis? Hver verður sök hans og hvernig verður dæmt í slíku máli ef ökumaður hjólsins ferst vegna notkunar naglabeltisins? Orð verða til alls fyrst. Því er best að þagga slíka hugmynd niður í upphafi og áður en hún fer á flug og verður að framkvæmd.

Hitt atriðið sem ég gagnrýndi eru fréttablogg án nokkurrar frjórrar hugsunar, til þess eins sett fram að fá fólk til að kíkja á bloggið. Þar með er ég ekki að gera athugasemdir við gagnrýnt fréttablogg, en gott fréttablogg er t.d. þar sem nokkrir aðilar bentu á þá staðreynd að skemmtiferðaskipið Queen Elizabeth 2 er einungis miðlungsstórt í dag þrátt fyrir fyrirsögn fréttar um að það væri stærsta skemmtiferðaskip í heima og síðan eitt hið stærsta. Sömu sögu er að segja um fréttablogg sem bæta upphaflegu fréttina. Ég var hinsvegar að gera athugasemd við meiningarlausa bullið sem rýrir gildi fréttabloggsins og gerir að verkum að fólk hættir að nenna að lesa það.

Þess má geta að blaðamaður Morgunblaðsins tók viðtal við ágætan vin minn og birti í Sjómannadagsblaði Morgunblaðsins á dögunum. Þórður var stýrimaður á skemmtiferðaskipi sem er miklu stærra en QE2 og er nú að fara sem aðstoðarskipstjóri (staff captain = áhafnarskipstjóri) á annað skip sömuleiðis mun stærra en QE2, Monarch of the Seas.

-----oOo-----

Ég held að ég sé komin með málverk í bakið eftir að hafa skrapað og málað svalagólfin hjá mér á fimmtudag.

fimmtudagur, júní 21, 2007

21. júní 2007 - Meðvirkir bloggarar og endurtekningar

Það er verið að stofna nýtt bloggsetur, http://eyjan.is/. Það mætti ætla að nóg væri að gert með hinum mörgu bloggsamfélögum sem þegar eru til, en það er ljóst að núverandi bloggsamfélög fullnægja ekki hinum fróðleiksfúsu, þá sérstaklega þeim sem reyna að taka þátt í skapandi frjórri samfélagsumræðu.

Þegar ég fór yfir á Moggabloggið í vetur, var það mikið til vegna þægilegs notendaviðmóts, en þá hafði ég notast við blogspot í eitt ár og stundum orðið að dunda mér við innsetningu pistla minna eins og handavinnu. Þrátt fyrir illan bifur á Moggabloggi í upphafi, fór ekkert á milli mála að móttökurnar á Moggabloggi voru góðar og ljóst að ég var að skrifa fyrir verulega fleiri lesendur en áður þótt ég héldi áfram að skrifa pistla í sama dúr og áður, þ.e. samblöndu af persónulegri reynslu, almennum pistlum um menn og málefni og pólitík.

Að undanförnu hefur mér fundist skemmtileg bloggskrif á Moggabloggi fara verulega halloka fyrir ítrekun á fréttaskrifum og meðvirkni. Sumt fólk veður upp vinsældarlistana fyrir það eitt að segja eitt eða tvö meiningarlaus orð um einhverja frétt. Sjálf laumaðist ég til að koma með eina og eina frétt af Mogganum í þeim tilgangi einum að hækka mig aðeins á vinsældarlistanum þótt ég hafi lagt slíka hegðun af að mestu.

Verri finnst mér þó meðvirknin. Það keyrði um þverbak er einhver kom með þá tillögu að lögreglan gripi til þess að nota naglamottur til að stöðva mótorhjól í hraðakstri. Fylltist þá bloggið af hinum meðvirku sem leist vel á hugmyndina, hugmynd sem gengur út á að lögreglan svipti fólk lífinu fyrir að aka of hratt, en í besta falli að stórslasa fólkið. Þá blöskraði mér! Ég fór að efast um tilveru mína á Moggabloggi og er enn að velta fyrir mér hvort ég eigi heima á bloggsvæði með aulum sem fagna slíkum tillögum.

Mér hefur verið boðið að vera með á http://eyjan.is/. Ég hefi enn ekki þegið boðið því þrátt fyrir allt líður mér vel á Moggabloggi. En ef Moggabloggið endar sem Aulablogg, fer ég á eftir öllum þeim sem senn kveðja Moggabloggið, Vísisblogg hinna háu (þ.e. ekki blog.central) Blogspot og Kaninku og sameinast um eitt öflugt bloggsvæði.


P.s. Sem betur fer eru til margir góðir pennar á Moggabloggi og þeir þurfa ekki að taka orð mín til sín.

miðvikudagur, júní 20, 2007

20. júní 2007 - Að aflokinni kvennamessu



Eins og fólk veit, hefi ég ávallt verið mjög kirkjurækin manneskja. Ég sæki því bæði brúðkaup og jarðarfarir eins og mér er unnt, en að auki minnst eina almenna messu á ári. Það er meira en sumt fólk getur státað sig af. Auk þessa reyni ég ávallt að komast í kvennamessuna við Þvottalaugarnar hvernig sem veður er, en viðurkenni að ég hefi ekki náð þeim öllum.

Að sjálfsögðu var ég við messuna á þriðjudagskvöldið þar sem Dr. Sigrún Gunnarsdóttir prédikaði og séra Yrsa Þórðardóttir stjórnaði í fjarveru móður sinnar séra Auðar Eir Vilhjálmsdóttur. Þessi messa var með þeim fjölmennari enda kom ekki deigur dropi úr lofti og var hún að öllu leyti vel heppnuð. Þarna hitti ég fjölda fólks sem ég þekkti ágætlega af blogginu í fyrsta sinn, m.a. Silju Báru Ómarsdóttur, Andreu Ólafsdóttur og Guðfríði Lilju Grétarsdóttur, smellti af myndum og naut lífsins eins og hægt er á hátíðarstundu.

http://public.fotki.com/annakk/blanda-efni/kvennamessa-2007/

-----oOo-----

Í tilefni 19. júní birtust í blöðum heillar opnu auglýsingar frá Landsbankanum þar sem teiknimyndir eftir Halldór Baldursson birtust af ýmsum þekktum konum, allt frá Evu (hans Adams) til nútíma íþróttakvenna. Ég skoðaði auglýsinguna og þekkti allmörg andlit, þó alls ekki öll. Þar sem ég var á vaktinni var ég að ræða við einn starfsmanninn í síma og vildi hann meina að ég væri á meðal andlitanna. Ég finn hvernig frægðin stígur mér til höfuðs. :)

þriðjudagur, júní 19, 2007

19. júní 2007 - Kvennamessa við Þvottalaugarnar



Að venju mun Kvennakirkjan halda sína árlegu kvennamessu við Þvottalaugarnar að kvöldi 19. júní þar sem minnst verður vinnuframlags íslenskra kvenna um aldir, yfirleitt óþekktra kvenna, en einnig þeirra kvenna sem risu upp og kröfðust úrbóta á aðstæðum sínum.

Ég held að ég geti fullyrt, þótt ekki séu allar konur sammála mér, að miðpunktur hreyfingar kvenna á síðustu tveimur öldum hafi verið Þvottalaugarnar í Laugardal. Þar strituðu margar fyrir fáeinum skildingum, við þvotta fyrir sig og aðrar oft við hinar verstu aðstæður og vosbúð. Um leið voru Þvottalaugarnar einn helsti samkomustaður reykvískra kvenna um aldir þar sem þær gátu hist og rætt sín hjartans mál í friði fyrir körlum og svokölluðu heldra fólki bæjarins. Flestar gengu alla leiðina frá Reykjavík sem þá var að mestu bundin við kvosina, lengi vel í gegnum Skuggahverfið og meðfram sjónum inn í Laugardal með óhreina þvottinn á bakinu og síðan eftir að hafa þvegið hann og undið að mestu, aftur til baka að kvöldi. Síðar kom svo Laugavegurinn sem dregur nafn sitt af laugaferðunum og urðu þá ferðirnar öllu léttari, ekki síst eftir að hægt var að notast við kerrur til flutnings á þvottinum.

Sjálf hefi ég talið og ítrekað lagt til að Þvottalaugarnar verði rétti staðurinn fyrir Kvennasögusafn í Reykjavík og þá gjarnan í tengslum við upphaf hitaveitu í Reykjavík, en fengið lítinn hljómgrunn fyrir tillögum í þá átt.

Kvennamessan hefst klukkan 20.30 og verður undir ötulli stjórn sr. Yrsu Þórðardóttur og Kvennakirkjunnar að venju, en Sigrún Gunnarsdóttir mun prédika. Með þessum orðum óska ég öllum konum til hamingju með daginn.

mánudagur, júní 18, 2007

18. júní 2007 - Enn um umferðarslys!

Daginn sem kosið var til Alþingis í vor vann ég í sjálfboðavinnu við að aðstoða fólk við að komast að og frá kjörstað, aðallega eldra fólk og fólk sem af einhverjum ástæðum átti erfitt með að komast ferða sinna. Meðal þess fólks sem ég aðstoðaði var maður um sextugt sem þurfti að komast að heiman frá Öryrkjablokkinni við Hátún á kjörstað á Kjarvalsstöðum og til baka aftur. Þetta var að kvöldi kosningadagsins og maðurinn var greinilega mjög illa haldinn líkamlega og þurfti að styðjast við göngugrind til að komast allra sinna ferða.

Á leiðinni til og frá kjörstað sagði hann mér ýmislegt af lífi sínu, t.d. því að hann hefði lent í bílslysi um 1984 og hefði slasast svo illa að honum var ekki hugað líf í fleiri mánuði, haldið sofandi á gjörgæslu. Er við komum á Kjarvalsstaði, aðstoðaði ég hann inn og að sinni réttu kjördeild, eiginlega allt nema að kjósa, síðan aftur út í bíl og til baka í Hátúnið. Eftir að ég kvaddi manninn fór ég að velta fyrir mér af hverju er ekki reynt að notast meira við fórnarlömb umferðarslysa til að vekja athygli á orsökum umferðarslysa.

Þetta atvik á kosningadaginn rifjaðist upp fyrir mér að kvöldi þjóðhátíðardagsins er ég heyrði í fréttum að farþegi minn hefði látist af völdum brunaslyss sem hann lenti í um miðjan maí, nokkrum dögum eftir að ég ók honum á kjörstað. Megi dætur Ómars Önfjörð, barnabörn og aðrir aðstandendur eiga samúð mína alla.

-----oOo-----

Dagurinn í dag minnir mig annars ávallt á það er ég kastaðist út úr bíl í veltu 18. júní 1960 skammt frá Blikastöðum í Mosfellssveit. Bíllinn gjöreyðilagðist, en ég lagaðist ekkert við slysið.

-----oOo-----

Í tilefni dagsins er kannski tilefni til að viðra þriðja umferðarlögmál Önnu, sem þó kemur ekkert við áðurnefndum atburðum, en það má orða á eftirfarandi veg:

Höldum okkur til hægri í umferðinni en vinstri í pólitíkinni!

-----oOo-----

Svo verður fróðlegt að vita hver verður gestur númer 200.000 á Moggablogginu mínu!

sunnudagur, júní 17, 2007

17. júní 2007 - Hvað er Al Qaida?

Þegar búið er að ná innstu fylgsnum glæpa- eða hryðjuverkasamtaka ætti eftirleikurinn að vera auðvelur að ganga á milli bols og höfuðs samtökunum og gera þau óstarfhæf. Nú þegar bandaríski herinn er búinn að ná húsakynnum Al Qaida norður af Bagdað ætti að vera auðvelt fyrir Kanann að klára verkið og halda heim á leið. Eða er frétt Morgunblaðsins um leit í húsakynnum Al Qaida kannski bara óskhyggja þeirra sem stjórna innrásarher Bandaríkjanna í Írak?

Ég heyrði einhverntímann þá skilgreiningu á Al Qaida frá mér vitrara fólki þar sem því var haldið fram, að Al Qaida væri ekki annað en laustengt tengslanet mikils fjölda heittrúarsamtaka múslíma sem oft hafa lítið sem ekkert samband á milli sín. Það er því erfitt að benda á einn hóp og segja að þar fari Al Qaida þegar hópurinn hefur sáralítið sameiginlegt við aðra hópa múslíma annað en hatur á innrásarher Bandaríkjanna. Um leið er viðbúið að um leið og búið er að uppræta einn hóp spretti aðrir hópar upp eins og gorkúlur eða kannski eins risinn Argus sem bjó yfir þeim eiginleika að um leið og höfuðið var höggvið af honum spruttu tvö ný í staðinn.

Rétt eins og ég þurfti að kalla til mér vitrara fólk til að skilgreina Al Qaida, verð ég sömuleiðis að kalla mér vitrara fólk til að skera Bandaríkin úr þeirri snöru sem þau hafa komið sjálfum sér í.

-----oOo-----

Svo fær Jóhann Gíslason fyrrum yfirvélstjóri hjá Eimskip hamingjuóskir með sjötugsafmælið í dag, 17. júní.

laugardagur, júní 16, 2007

16. júní 2007 - Lög um eignarupptöku ökutækja

Ég frétti einu sinni af Snålänning einum sem fór akandi með fjölskyldu sinni til Noregs í sumarleyfinu sínu. Hann afrekaði það að komast alla leiðina til Osló og tók þá stefnuna í átt til Kristiansand. Þá varð honum á sú skyssa að vera tekinn af lögreglunni fyrir að aka of nærri næsta bíl. Lögreglan hafði engar vöflur á hlutunum, tók af honum skýrslu og sendi hann ásamt fjölskyldunni heim til Snåland í rútu. Svo var hann kallaður fyrir dómara, sýknaður og fékk bílinn og æruna aftur. Þessi maður ætlar aldrei framar að fara til Noregs.

Nú er sýslumaðurinn á Selfossi farinn að tileinka sér nýja grein í íslensku umferðarlögunum nr 50 frá 1987. Þessi grein er númer 107a og fjallar um upptöku ökutækja ef ökumaður gerist brotlegur við umferðarlög:

107. grein a. Þegar um stórfelldan eða ítrekaðan ölvunarakstur er að ræða, sem ekki fellur undir 2. mgr. þessarar greinar, stórfelldan eða ítrekaðan akstur manns sem sviptur hefur verið ökurétti eða manns sem ekki hefur öðlast ökuréttindi, stórfelldan eða ítrekaðan hraðakstur eða akstur sem telst sérlega vítaverður að öðru leyti má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og notað er við brotið nema það sé eign manns sem ekkert er við brotið riðinn. Við sömu aðstæður og með sömu skilyrðum má gera upptækt vélknúið ökutæki sem ökuskírteini þarf til að stjórna og er eign þess sem hefur framið brotið, enda þótt ökutækið hafi ekki verið notað þegar brotið var framið.

Gera skal ökutæki upptækt þegar eigandi þess hefur verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna eða undir áhrifum áfengis sem hefur í för með sér sviptingu ökuréttar og vínandamagn í blóði er 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lítra lofts sem hann andar frá sér nemur 0,60 milligrömmum eða meira, og viðkomandi hefur tvisvar síðustu þrjú árin fyrir brotið verið dæmdur sekur eða gengist undir refsingu fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna eða áfengis þar sem vínandamagn í blóði hefur mælst 1,20‰ eða meira eða vínandamagn í lítra lofts sem hann andar frá sér hefur numið 0,60 milligrömmum eða meira og sem hefur haft í för með sér sviptingu ökuréttar. Gera skal ökutæki upptækt enda þótt það hafi ekki verið notað þegar brotið var framið.
Víkja má frá ákvæði 2. mgr. í undantekningartilvikum þegar sérstakar ástæður mæla með því.


Ökutæki sem gert er upptækt skal vera eign ríkissjóðs. Hafi einhver beðið tjón við brotið skal hann þó eiga forgang til andvirðisins ef bætur fást ekki á annan hátt.


Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þessa fáránlegu lagagrein. Ég spyr bara, hver samþykkti þessa lagabreytingu? Hvar eru nú eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar? Það er alveg ljóst að þessi lagagrein brýtur alvarlega á stjórnarskránni auk þess sem slíka lagagrein er nú hægt að teygja og toga uns hún nær yfir það að einhver hafi farið átta kílómetra yfir leyfðan hámarkshraða eða gleymi að gefa stefnuljós út úr hringtorgi.

Nær væri fyrir sýslumenn og vélfræðingssyni að fara eftir öðru umferðarlögmáli Önnu vélfræðings, en það er svohljóðandi:

Hið dularfulla við umferðina er ekki umferðin sjálf, heldur skortur á notkun stefnuljósa.

föstudagur, júní 15, 2007

15. júní 2007 - Enn um ökufanta!

Þessa dagana ryðjast flestir besservisserar bæjarins út á ritvöllinn til að lýsa vandlætingu sinni á ökuhraða fólks á mótorhjólum og nú eru jafnvel hjólaklúbbarnir sjálfir farnir að skammast yfir félögum sínum á opinberum vettvangi . Það er smjattað á safaríkum hraðasögum í kaffistofum og samkvæmum og sjálf hefi ég ekki farið varhlutann af þessari umræðu, samanber færslu mína í gær.

Ég held því að kominn sé tími til að setja punkt fyrir þessa umræðu og áminna alla sem eru úti að aka um eina gullvæga reglu í umferðinni, þ.e. fyrsta umferðarlögmál Önnu, en það er svohljóðandi:

Allir sem aka hægar en ég eru slóðar, en allir sem aka hraðar en ég eru ökufantar!

fimmtudagur, júní 14, 2007

14. júní 2007 - Ofsaakstur á mótorhjólum

Einhverju sinni fyrir einhverjum áratugum síðan spurði ég varðstjóra við Árbæjarlögregluna (sem þá var einasta útibú lögreglunnar í Reykjavík) hvert væri hraðametið á leiðinni frá Selfossi til Reykjavíkur, vitandi að vegalengdin á milli Ölfusárbrúar og Elliðaárbrúa var talin vera sléttir 50 kílómetrar. “23 mínútur”, svaraði hann að bragði.

Eitt sinn fyrir kannski 26 árum síðan var ég farþegi í nýjum bíl á leið frá Selfossi til Reykjavíkur um miðja nótt. Eiganda bílsins fannst þetta tilvalið tækifæri til að prófa getu nýja bílsins og á tímabili sást hraðamælir bílsins liggja á vel yfir 200 kílómetra hraða, en meðalhraðinn í þessari ferð reyndist vera 150 km/klst., þ.e. frá Ölfusárbrú að Elliðaárbrúm, en við vorum 20 mínútur að fara þessa vegalengd sem var því talsvert undir hraðametinu sem lögregluvarðstjórinn hafði nefnt við mig. Það skiptir ekki máli í dag hver ók bílnum, enda málið fyrnt fyrir löngu. Sá hinn sami er fyrir löngu farinn að slaka á bensínfætinum eftir rúmlega hálfrar aldar slysalausan akstur.

Nokkru eftir þessa ferð okkar hitti ég einn samferðamanninn sem hafði verið með okkur í umræddri ferð. “Það var víst ekkert met sem hann vinur okkar setti þarna um daginn” sagði maðurinn í óspurðum fréttum. “Nú hvað áttu við?” spurði ég.
“Ég frétti af mótorhjólagengi sem fór í gegnum Selfoss um daginn og löggan sá að hún hefði ekki roð við þeim svo hún kallaði bara í Árbæjarlögregluna og bað þá að sitja fyrir þeim. Þeir löbbuðu út til að vera viðbúnir að taka á móti piltunum, en náðu bara þeim síðasta. Sá var á einhverjum 750 kúbika ræfli. Ég frétti að þeir hefðu farið vegalengdina á 17 mínútum!”

Ungt fólk á Íslandi í dag er greinilega enn að leika sér að lífinu, samanber hið hræðilega slys á Breiðholtsbrautinni um daginn.

miðvikudagur, júní 13, 2007

13. júní 2007 - Að lofa upp í ermina á sér!



Eftir góða göngu síðast liðinn laugardag var ég tilbúin í hvað sem er og lét hvern sem heyra vildi að ég ætlaði að fara snemma í fyrstu Esjugöngu ársins og ekki seinna en á þriðjudag. Nu var þriðjudagurinn runninn upp og ég vaknaði eldsnemma í þeim tilgangi einum að ganga á Esjuna.

Eftir því sem leið á morguninn fækkaði þeim sem vildu eða gátu komið með og eftir hádegið blasti við sú staðreynd að annaðhvort yrði ég ein að tölta upp fjallið eða svíkja gefin fyrirheit. Að svíkja loforð! Ekki ég. Ég ók af stað og alla leiðina að Mógilsá þar sem ég lagði bílnum, fór í gönguskóna og setti á mig bakpokann og rölti af stað alein með tár á hvarmi.

Það var ekki mikil umferð fólks á fjallinu þrátt fyrir gott veður. Það breytti ekki því að ég hafði ekki gengið lengi er mikill efi tók að sækja á mig. Er ekki bara nóg að segjast hafa farið upp? Kannski þarf þess ekki því ég er komin áleiðis upp fjallið og lýg engu þótt ég snúi við núna. Ég hélt samt áfram, ofar og ofar, móð og másandi. Brátt var ég komin svo hátt upp að einungis börn og gamalmenni gæfust upp á þessu stigi. Þá rölti einn maður framúr mér og greinilega kominn vel yfir sjötugt.

Ég hélt áfram og er ég kom upp að klettabeltinu komu Klaus verkfræðingur við Hellisheiðarvirkjun og frú framúr mér. Ég hélt í humátt á eftir þeim og brátt stóð ég við útsýnisskífuna ásamt fáum öðrum. Takmarkinu var náð, ekki bara náð, heldur á skemmri tíma en ég hafði áður farið á Esjuna og því ekkert annað eftir en að rölta niður aftur.

Klukkan var um fimm er ég hélt af stað niður aftur. Þegar komið var niður fyrir göngubrúna yfir Mógilsá, var umferðin upp fjallið orðin svo mikil að minnti helst á jólaumferðina í Kringlunni. Þar hitti ég meðal annarra gamlan skólafélaga úr Gaggó sem ég hafði ekki hitt síðan á Vífilsfellinu fyrir tveimur vikum síðan. En niður komst ég óbrotin og laus við skrámur og get nú með stolti merkt við fjórða fjall sumarsins við hjá mér, sjálfan bæjarhól Reykvíkinga.

http://public.fotki.com/annakk/gnguferir-2007/esja-12-jn-2007/

þriðjudagur, júní 12, 2007

12. júní 2007 - Segir fátt af einni og þó!



Ég hefi eiginlega ekkert að segja að sinni. Ég vaknaði seint og illa á mánudagsmorguninn og fór fljótlega út á svalir að mála handrið. Slíkt þykir ekki merkilegt nema fyrir þá sök að ég þurfti að mála handrið á tvennum svölum og tvisvar hvorar svalir.

Á meðan handriðin voru að þorna eftir fyrri umferðina skrapp ég í vinnuna og rétt náði því að taka í hendina á gamla stjórnarformanninum í fyrsta sinn um leið og hann kveður okkur og tekur við heilbrigðisráðuneytinu. Því miður vissi ég ekki þegar ég hitti hann að hann hefði ráðið sér toppmanneskju sem aðstoðarmann sinn í ráðuneytinu, sjálfa Hönnu Katrínu Friðriksson. Með þessu hefur Guðlaugur Þór hækkað um mörg þrep í áliti hjá mér.

Ég verð því að senda honum og Hönnu Katrínu heillaóskir mínar hér og nú.

Svo er það spurningin. Mun Esjuganga bíða mín á þriðjudag?

mánudagur, júní 11, 2007

11. júní 2007 - Ég gleymdi Formúlunni!

Þessi yfirskrift mín hefði verið óhugsandi fyrir einu ári síðan því sú var tíðin að ég sá hverja einustu keppni, stillti fartölvuna á beina útsendingu frá mótsstað, þ.e. textaboðin og var löngu búin að lesa um gang mála áður en íslensku þulirnir þuldu upp einhverja vitleysu sem í sumum tilfellum var vegna þess að þeir lásu ekki textann sem þeir höfðu fyrir framan sig.

Allt var þetta gott og blessað, enda hafði ég fylgst með Formúlunni allt frá því Ayrton Senna dó, en lát hans varð til þess að sænskir fjölmiðlar fjölluðu mikið um kappakstur og líkindin með láti Ayrton Senna og láts vonarstjörnu Svía Ronnie Peterson nokkrum árum áður. Ég heillaðist þó fyrst og fremst af Michael Schumacher sem stefndi hraðbyri að sínum fyrsta heimsmeistaratitli.

Af eðlilegum ástæðum sá ég ekki mörg mót árin 1996 og 1997 eftir að ég flutti aftur til Íslands, en ég held að ég hafi séð næstum öll mót eftir það. Það komu vissulega fyrir undantekningar eins og haustið 2004 er ferð að virkjanasvæðinu við Kárahnjúka var frestað um einn dag og varð því á sama tíma og keppni í Formúlunni. Fyrir bragðið missti ég af keppninni og verndarvængur minn ekki yfir heimsmeistaranum þann daginn.

Á þessu ári sá ég fyrstu mót ársins með hálfum huga. Þegar kom að leiðinlegustu keppni ársins valdi ég að ganga fremur á fjall en að horfa á keppnina í Mónakó. Í gær var ég að mála svalahandrið heima hjá mér um eftirmiðdaginn og rétt búin að því er kvöldfréttirnar byrjuðu í útvarpinu. Þá skyndilega var sagt frá kanadíska kappakstrinum og ég hafði ekki einu sinni kveikt á sjónvarpinu.

Ég verð greinilega að setja rauða slaufu á vísifingur vinstri handar fyrir skemmtilegustu keppni ársins í Indianapolis. Og þó. Meistarinn er kominn á eftirlaun og fáu hægt að gleðjast yfir.

föstudagur, júní 08, 2007

8. júní 2007 – Hvað er svona merkilegt við rauðhærða menn?




Egill heitir maður og er Helgason. Hann stjórnaði eitt sinn spjallþætti á Skjá einum, en var svo boðið að gera svipaðan þátt á Stöð 2. Síðan þá hefi ég ekki séð til hans í sjónvarpi. Það gerði reyndar ekkert til því ég var alls ekki sátt við efnistök hans, fannst hann dæmigerður fyrir þá menn sem vita fátt skemmtilegra en að hlusta á sjálfa sig.

Nú hefi ég frétt að hann sé hættur á Stöð 2 og ætli með þáttinn sinn til Ríkissjónvarpsins. Um leið er sagt frá því að það sé búið að loka á hann á Vísir.is. Mér þykir það miður. Ég hefði reyndar ekki vitað að hann bloggaði á Vísir.is, nema fyrir þá sök að hann miðaði upphaf bloggsins við sjálfan sig og taldi ekki með eldri bloggsamfélög, að hann miðaði allt við sjálfan sig eins og honum einum er lagið. Ég hefði helst kosið að hafa hann þarna áfram. Sjálf á ég einungis eina bloggvinkonu á Vísir.is (Blog.central frátalið).

Vísisbloggið er dálítið sérstakt bloggsamfélag. Þar er fólki skipt í háa og lága. Þar er sérstakt samfélag fyrir þá sem eru 365 þóknanlegir og svo annað fyrir okkur hin. Ég byrjaði að blogga á sínum tíma á blog.central áður en það lenti í gráðugum höndum 365 eða hvað það hét á þeim tíma. Þar var tekið fram er ég byrjaði, að hönnuðir þess og stjórnendur áskildu sér þann rétt að fjarmagna reksturinn með takmörkuðu auglýsingamagni. Það fannst mér í lagi á meðan auglýsingarnar keyrðu ekki framúr hófi. Auglýsingunum fjölgaði þó umtalsvert eftir að það lenti í höndunum á 365 eða hvað það hét á þeim tíma og brátt blikkaði það allt eins og hórhverfi í stórborg. Þegar farið var að auki að krefjast greiðslu fyrir einstöku aukaþætti eins og skoðanakannanir, klukku og fleira, gafst ég upp og snéri mér að blogspot. Reyndar held ég að þessar greiðslur fyrir aukaþætti hafi verið felldar niður mjög fljótlega.

Vegna þessara græðgissjónarmiða hjá 365 hefi ég haft allan vara á mér og haldið blogspot blogginu áfram opnu eftir að ég fór yfir á Moggabloggið ef Mogginn tæki upp á því að breyta blogginu mínu í eitt allsherjar auglýsingaskilti eins og gerðist með Vísisbloggið.

Ég skil ekki af hverju verið er að draga Egil Helgason yfir á Ríkissjónvarpið og á Moggabloggið frá 365 miðlum. Það hlýtur að vera hægt að fá einhvern skemmtilegri þáttastjórnanda sem ekki er eins sjálfhverfur og ódýrari að auki. Verst af öllu finns mér þó að það skuli eiga að skipta út Formúlunni á RÚV fyrir Egil Helgason, enda rauðir bílar ólíkt fallegri en rauðhausar.

fimmtudagur, júní 07, 2007

7. júní 2007 - Du gamla. Du fria. Du fjällhöga nord.

Það verður seint talinn góður siður að sparka í liggjandi menn, ekki einu sinni Framsóknarmenn eins og einn ágætur vinur minn bar mér á brýn eftir kosningarnar í vor. Því er rangt að ganga út og öskra Fimm-núll, fimm-núll, fimm-núll. Ekki orð um það meir eða svona næstumþví.

Mér varð það fyrirmunað að sjá þennan leik sem sýndur var á einhverri sjónvarpsstöð sem ég sé aldrei og mun ekki greiða fyrir aðgang. Venjulega hefði það ekki þótt vera til neins ama, en ég viðurkenni að ég saknaði þess að hafa ekki möguleika á að sjá leikinn þegar mörkunum fóru að fjölga og hjartað hoppaði af skemmdargleði. Hvað voru þessir drengir líka að gera?

Þegar Eiður Smári hefur spilað með, hafa verið tíu í vörn og hann einn úti og nú gafst tækifæri til að láta fleiri spila. Ónei, nú var spilað með ellefu í vörn og engan frammi, eða þá gefinn boltinn á einhvern huldumann sem var í leikbanni. Mínir menn nýttu sér þetta óspart og skoruðu fimm auðveld mörk og rassskelltu Íslendingana. Ekki veit ég hvort nokkur lausn sé fólgin í að skipta um þjálfara. Ég held að það væri nær að skipta út leikmannahópnum og fá inn nýtt landslið. Ef það er ekki hægt, má þá ekki koma á fót knattspyrnukeppni á örþjóðaleikunum? Og þó, ég hefi sannfrétt að jafnvel Liechtenstein með sína þrjátíu þúsund íbúa sé búið að ná Íslandi í getu á fótboltavellinum

Annars læt ég mér úrslitin í léttu rúmi liggja og syng hástöfum Du gamla du fria undir eftirfarandi undirspili:

http://www.youtube.com/watch?v=2r3GygMCmj8&mode=related&search=

miðvikudagur, júní 06, 2007

6. júní 2007 - Mitt land, Sverige

Sænsk vinkona mín sem er búsett á Íslandi og trúlofuð Íslending var hjá mér í kaffi um daginn og ég setti Alf Robertsson undir geislann og spilaði fyrir hana hið dásamlega ljóð Mitt land frá 1981. Kannski gerði ég henni óleik því hún táraðist og fékk bullandi heimþrá.

Það var kannski ekki skrýtið. Ég heyrði þetta ljóð aldrei á meðan ég bjó í Svíþjóð þótt ljóðið sé meira en aldarfjórðungs gamalt, en þegar ein vinkona mín (sjá http://pollyanna.blog.is/) sendi mér þetta ljóð, voru viðbrögð mín nánast þau sömu og þegar hin sænska vinkona mín heyrði þetta ljóð í fyrsta sinn. Til að undirstrika auðmýktina fyrir landi og þjóð enn frekar sem felast í þessu kærleiksljóði til fósturjarðarinnar, eru mjúkir tónar Du gamla du fria leiknir undir lestri ljóðsins.
Mitt land

Jag är en kran i Göteborgs frihamn en disig morgon.
Jag är en kyrkbåt vid Siljans strand.
Jag är figuren Rosenbom i flottans Karlskrona.
Jag er Bohusläns karga stenar och sand.
Jag är Riddarfjärdens klarblå vatten.
Jag är busstationen på torget i Söderhamn.
Jag är Kungsgatans blixtrande ljus om natten.
Jag är alla blommorna i Roslagens famn.
Jag är Vingas salta friska västvind.
Jag är Hälsinglands trollska susande skogar.
Jag är sommarhagens svängande trädgren.
Jag är bordet på en gammal söderkrog.
Jag är Djurgården och Brynäs på Hovet.
Jag är Thore Skogman i Malmö Folkets Park.
Jag är en badande unge på sommarlovet.
Jag är Smålands skogbevuxna mark.
Jag är eftermiddan´s Aftonblad och Expressen och kvällens Aktuellt i TV 1.
Jag är den väldiga pung på NK-stressen.
Jag är mera Värmland än en värmlänning någonsin kan bli.
Jag är midsommarstången på den gröna ängen.
Jag är adventstjärnans blekröda ljus.
Jag är Lucian med kronan och kaffe på sängen.
Jag är lördagskvällsdansen i Åmåls Folkets Hus.
Jag är midnattssolens mäktiga sken.
Jag är ett paket ifrån Ellos i Borås.
Jag är violen från bokhandeln i Flen.
Jag är stämpeluret hos Asea i Västerås.
Jag är Povel Ramel och jag är Evert Taube.
Jag är Pettersson Berger i treans kanal.
Jag är kostym från Kapp Ahl i en garderob.
Jag är Karl XVI Gustaf i Vita Havets sal.
-------
Jag älskar Mitt Land och människorna som bor där,
även om jag naturligtvis ifrågasätter ett och annat
av sådant sem händer omkring mig.
Men kärleken och känslan, för det land där jag är född och lever,
den kan ingen ta ifrån mig.
De milsvida skogarna och alla älvarna och sjöarna
och människorna ... är en del av mig.
Och människorna som bor där...Dom tror jag på
i en värld sem inte riktigt vet vad den vill.
Men jag är glad över att jag får leva och att jag får bo
i Sverige.

http://www.youtube.com/watch?v=-L4m6YTnbn8

Með þessum orðum sendi ég öllum Svíum sem og vinum sænsku þjóðarinnar hamingjuóskir með þjóðhátíðardag Svíþjóðar, Den svenska flaggans dag.

þriðjudagur, júní 05, 2007

5. júní 2007 - Enn af myndinni Sjanghæjað til sjós

Ég hefi fengið nokkra gagnrýni vegna pistils míns í gær vegna myndarinnar Sjanghæjað til sjós. Því verð ég að skrifa annað pistil um sama efni. Ég vil byrja með að taka fram að ég hefi ekkert á móti því að fjallað sé um þennan þátt íslenskrar togarasögu sem fjallar um að sjanghæja menn um borð. Þvert á móti tel ég að draga þurfi þennan þátt mannlegrar lífsbaráttu fram í dagsljósið.

Ég tel bara að kvikmyndin hafi verið mjög flausturslega unnin jafnframt því að sögunni hafi ekki verið gerð nægileg skil. Það mátti gera sögunni betri skil, leggja fram heimildir, lýsa viðbjóðnum sem og skemmtilegum stundum. Það er ekki eins og að togarasagan hafi verið eintóm eymd og volæði. Það hefði mátt nota íslensk kvikmyndaatriði þar sem botnvörpuveiðar voru stundaðar í stað þess að notast við ensk atriði. Einnig hefði mátt sýna úrklippur úr blöðum eða ljósmyndir frá Adlon eða Langabar, sömuleiðis ljósmyndir af togurunum.

Mér er sagt að handritshöfundur myndarinnar, Margrét Jónasdóttir, skorti ekki þekkingu á tímabilinu. Ég er farin að efast um þekkinguna. Það má vera að hún hafi kynnt sér útgerðarsögu nýsköpunaráranna frá 1947-1970, en miðað við aldur hennar, hefur hún sennilega aldrei stigið fæti sínum um borð í nýsköpunartogara, fundið fnykinn í stórum lúkar með 24 kojum, kannski með meira og minna stækju af svita, gömlu hlandi í hálmdýnum og skorti á hreinlæti í bland við miðstöðvarkyndinguna frammí. Þegar haft er í huga að hún er fædd árið 1969 getur hún ekki hafa kynnt sér þá reynslu sem fylgir því að hafa verið í saltfisktúrunum við Vestur-Grænland þar sem ferskvatn og aðrar nauðsynjar voru af skornum skammti, þar sem áhöfnin komst ekki í bað svo vikum og jafnvel mánuðum skipti. Reyndar ekki ég heldur né Hreinn Vilhjálmsson einn viðmælendanna í þættinum sem sömuleiðis er of ungur til að hafa reynslu af þessum tíma, en hefur vafalaust mikla reynslu af manneklu sjöunda áratugarins á togurunum.

Það hefði mátt klippa í burtu sum karlagrobbsatriðin og skilja á milli saltfisktúranna við Vestur-Grænland og ísfisktúranna á Jökultungunni eða á Selvogsbankanum, fjalla um heimilisaðstæður þessara manna sem voru sjanghæjaðir til sjós. Hversu margir þessara manna sem voru sjanghæjaðir voru t.d. heimilislausir drykkjumenn? Þegar ég er að lesa um þá menn sem fórust utan við hafnir eða sökum ölvunar virtust flestir vera ókvæntir og skráðir til heimils hjá foreldrum sínum eða systkinum. Því virtust togararnir nánast eins og félagsmálastofnanir fyrir þessa harðduglegu menn. Það er af nógu að taka ef kvikmyndagerðarmenn vilja leita í stað þess að hjúpa sannleikann einhverskonar dulúð.

Þegar haft er í huga að jafn virðulegt fyrirtæki og Sagafilm stendur á bakvið þessa mynd, hefði mátt leggja örfáum krónum meira í myndina og gera hana trúverðugri. Það brást vegna flausturlegra vinnubragða höfunda myndarinnar. Það er grátlegt sökum þess að efniviður myndarinnar vakti geysimikla athygli og hefði svo sannarlega mátt gera efniviðnum hærra undir höfði.

sunnudagur, júní 03, 2007

4. júní 2007 - Sjanghæjað til sjós

Það var 22. júní 1966 sem ég hóf mína sjómennsku á nýsköpunartogara einungis 14 ára. Skipstjórinn var móðurbróðir minn Pétur Þorbjörnsson og vafalaust réði það miklu um að ég álpaðist á sjó svo snemma eða sumarið eftir 2. bekk í gagnfræðaskóla. Fáeinum árum síðar var síðasti nýsköpunartogarinn seldur í brotajárn og þar með lauk nýsköpunartímabilinu í íslenskri sjávarútvegssögu. Frændi minn sem samþykkti mig um borð til sín á bv. Jón Þorláksson sumarið 1966 lést fyrir ári síðan þann 8. júní 2006. Blessuð sé minning hans.

Ástæða þess að rifja þetta upp hér er að tilefni sjómannadags var sýnd heimildarmyndin Sjanghæjað til sjós í sjónvarpinu þar sem m.a. birtist viðtal við frænda minn heitinn og fleiri góða menn sem höfðu verið til sjós á togurum á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Sjálf var ég tiltölulega stutt á gömlu síðutogurunum, líkaði illa og sneri mér fljótt að öðrum tegundum fiskveiða sem og farmennsku þar til skuttogararnir fóru að streyma til landsins.

Ég sá ýmislegt athugavert við gerð þessarar myndar þótt vissulega sé mikil þörf á því að raunveruleiki nýsköpunartogaranna komi fram í dagsljósið, ekki síst þeir erfiðleikatímar í togaraútgerð þegar menn voru sjanghæjaðir til sjós. Um leið voru frásagnir þeirra alls ekki tæmandi, ekki síst vegna vanþekkingar handritshöfundar á viðfangsefninu. Því skal tekið fram að saltfisktúrarnir við Vestur-Grænland voru að mestu eða öllu leyti bundnir við sjötta áratuginn. Þar sem um var að ræða fullvinnslu á afla, þ.e. saltfiskvinnslu um borð, þá varð hver koja að vera mönnuð. Því til viðbótar varð að skammta allt ferskvatn til þrifa og eldunar. Sömuleiðis varð að fara sparlega með öll önnur aðföng því langt var til næstu hafnar. Í þessu ljósi verður að skoða erfiðleikana við mönnun skipanna, enda gat ein veiðiferð á togara verið á við heila síldarvertíð á bát á sjötta áratugnum.

Ég held að það hafi gengið öllu betur að manna togarana á sjöunda áratugnum. Þá höfðu saltfisktúrarnir lagst af og allir togararnir nema einn komnir á ísfiskveiðar, en Narfi RE var með heilfrystitæki um borð. Jafnframt fór togurunum að fækka og áhafnirnar dreifðust á þau skip sem eftir voru. Þó þótti enn hin mest skemmtun fyrir broddborgara Reykjavíkur að aka niður á höfn og sjá þegar togararnir voru að fara út og sjá þegar verið var að smala áhöfnunum um borð, oft dauðadrukknum og sumum beint úr fangaklefa eftir drykkju landlegunnar.

Þarna brást handritshöfundum myndarinnar að skilja ekki á milli þessara tveggja erfiðleikatímabila. Annað atriði sem mér fannst athugavert var þessi skortur á íslensku myndefni til að sýna. Mestallt myndefnið annað en viðtölin, var enskt, tekið í Grimsby eða þá um borð í enskum togurum. Þetta er kannski í góðu lagi fyrir sauðsvartan almúgann sem veit ekki hvað snýr aftur eða fram á skipi, en mín kæra lesönd, það er verið að sýna þessa mynd í tilefni sjómannadags og þegar allur fiskiskipaflotinn er í höfn. Þá held ég að til sé talsvert mikið efni um lífið um borð í íslenskum nýsköpunartogurum frá sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, oft tekið upp af Óskari Gíslasyni og Ósvaldi Knudsen. Af hverju var ekki leitað í söfn þeirra?

Um leið og ég leyfi mér að gagnrýna meðhöndlun þessa myndefnis, var full þörf á að vekja athygli á fleiri þáttum íslenskra nýsköpunartogara en áður hafa verið gerðir opinberir um leið og vaktar hafa verið upp margar spurningar um heimild til þeirra aðferða sem voru viðhafðar við mönnun togaranna.

laugardagur, júní 02, 2007

2. júní 2007 - Snilldarlegt útspil Reynisfeðga

Fyrir allnokkrum árum var ég stödd við lagfæringar á heitavatnsborholu í Mosfellsdal er ég heyrði auglýsingu í útvarpinu. Það var verið að auglýsa útgáfudag á ónefndu vikublaði. Auglýsingin boðaði ekkert gott því ljóst var að ég var aðalumræðuefni umrædds vikublaðs á neikvæðan hátt, þó án þess að hafa tekið þátt í greininni sem auglýsingin vitnaði til.

Ég varð reið, hoppaði reyndar af bræði, hugsaði ritstjóranum og öðrum sem áttu þátt að máli þegjandi þörfina, en ákvað að sjá til hver framvinda mála yrði. Um kvöldið frétti ég meira af greininni og taldi hana vega að heiðri mínum og hugsanlega að mannorði mínu.

Daginn eftir höfðu tveir fréttamenn á sínhvoru blaðinu samband við mig og vildu fá viðbrögð mín við greininni. Ég tilkynnti þeim báðum að skaðinn væri skeður og að opinberar deilur við þessar aðstæður myndu í besta falli gera illt verra. Því ætlaði ég ekki að svara þessari grein á neinn hátt og vildi ég helst þegja hana í hel.

Það liðu einhver ár. Greinin gleymdist, deilur leystust og í dag sé ég að ég gerði hárrétt með því að svara engu og gera ekkert í bræði minni.

Einhver sá vitlausasti greiði sem Jón Helgi í Býkó gat gert Gunnari vini sínum Birgissyni var að setja tímaritið Ísafold í bann á sölustöðum sínum og reyna þannig að beita ritskoðun í þágu félagans. Með sölubanninu gaf hann Reynisfeðgum á Ísafold/Mannlífi höggstað á sér sem þeir nýttu til hins ítrasta. Skyndilega áttaði ég mig á því að þessi útgáfa af Ísafold er blað sem ég þarf að eignast. Þegar ég fór í Nóatún að versla á föstudagskvöldið var blaðið ekki fáanlegt og varð ég því að kaupa helstu nauðsynjar í Bónus, en þar var blaðið uppselt. Ég hlýt samt að ná blaðinu í einhverri sjoppu á laugardag.

Skyndilega er Ísafold orðin blað sem allir verða að eignast. Ég hefi lesið einhver blöð, ekki alltaf sammála blaðinu, ekki síst eftir að pistli sem ég sendi blaðinu sem svari við Breiðavíkuráróðrinum í vetur var nánast hafnað, en taldi samt að blaðið væri að stíga á líkþorn þjóðar sem má ekki vamm sitt vita, en með viðbrögðum sínum við banni Jóns Helga í Býkó hafa Reynisfeðgar auglýst blaðið rækilega sem og það sem miður fer í Kópavogi.

Ég bíð enn eftir gjafaeintaki af vikublaðinu forðum þar sem ég var aðalumræðuefnið.

föstudagur, júní 01, 2007

1. júní 2007 – Horfið strætóskýli

Borgaryfirvöld í Reykjavík eru greinilega skítblönk eftir einungis ett ár við stjórn borgarinnar því þegar ég gekk heim úr vinnu á fimmtudagskvöldið reyndist biðskýlið fyrir strætisvagn S5 við Bæjarháls, rétt við bæði vinnu mína og heimili mitt, horfið og kominn staur í staðinn. Ég efast um að skýlið hafi fokið þrátt fyrir rok fimmtudagsins, enda var kominn staur á steyptri undirstöðu í staðinn sem væntanlegir strætisvagnafarþegar geta haldið sér í á meðan beðið er eftir strætisvagninum. Því leyfi ég mér að ætla að hin blönku borgaryfirvöld eigi ekki neina peninga fyrir fleiri strætisvagnaskýlum.

Í alvöru. Þessi tilraun til að drepa niður strætisvagnakerfið fyrir Árbæinn er að takast. Það var nýkomið nýtt leiðakerfi og sá ég ekki betur en að ungir sem gamlir í Árbænum tækju þessu nýja leiðakerfi feginshendi og örar hraðferðir á milli hverfisins og miðborgarinnar. Eitt fyrstu verkefna nýja borgarstjórnarmeirihlutans fyrir ári síðan var að leggja þessa leið niður.

Þessu var kröftuglega mótmælt og á endanum var leið S5 tekin aftur í gegnið, en þó með verulega færri ferðum en áður hafði verið. Sá kraftur sem fylgdi þessari leið í upphafi náðist því aldrei á þann hátt sem upphaflega var ráðgert og mun færri farþegar sem sáust bíða eftir vagninum. Nú er strætóskýlið horfið öðru sinni, greinilega til nota annars staðar og senn verður leið S5 lögð af til að tryggja enn frekar mátt bílismans í Reykjavík á kostnað almenningssamgangna, unglinga og annarra þeirra sem verða að treysta á strætisvagna til að komast leiðar sinnar.

Ætli það hafi vantað strætisvagnaskýli við Máshóla í Breiðholti?