Eins og flestir vita hefur lítið farið fyrir KR-ingum í sumar og þeir sem eru yfirlýstir, hafa margir lokað sig inni í skápnum fræga, enda erfitt að standa gegn mótlæti sumarsins. Ekki hefur gengið heldur verið upp á hið besta hver tapleikurinn á fætur öðrum og orðið býsna heitt undir þjálfaranum. Voru gárungarnir jafnvel farnir að ræða hvort ekki væri kominn tími til að Teitur Þórðar og Eyjólfur Sverris skiptu á stöðum.
Eins og annað gott fólk hefi ég lítið látið fara fyrir skoðunum mínum á KR í sumar og þrætt eins og sprúttsali hafi einhver spurt um gengi KR. Þó var sem ég hefði viðrað það álit mitt að einungis tvennt væri eftir í stöðunni, að skipta um dómara eða markmann því búið væri að skipta um alla hina.
Það er erfitt að ráða því hverjir verða dómarar og þá er bara einn eftir. Það er maðurinn sem hefur verið að skoða sprettuna á vellinum þegar skorað hefur verið framhjá honum og hefi ég haft hinn versta ímugust á færni hans í markinu á undanförnum árum. Á fimmtudagskvöldið var svo loks skipt um markmann í byrjunarliðinu og nýi maðurinn byrjaði með stæl. Með þessum leik og litlum sigri gafst loksins möguleiki á að viðra litlutá utan við skápinn.
Er ekki kominn tími til að nýi maðurinn fái fasta stöðu í liðinu svo okkur megi auðnast það að komast alveg útúr skápnum á ný?
föstudagur, júní 29, 2007
29. júní 2007 - Ein lítil tá útúr skápnum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:50
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli