Það verður seint talinn góður siður að sparka í liggjandi menn, ekki einu sinni Framsóknarmenn eins og einn ágætur vinur minn bar mér á brýn eftir kosningarnar í vor. Því er rangt að ganga út og öskra Fimm-núll, fimm-núll, fimm-núll. Ekki orð um það meir eða svona næstumþví.
Mér varð það fyrirmunað að sjá þennan leik sem sýndur var á einhverri sjónvarpsstöð sem ég sé aldrei og mun ekki greiða fyrir aðgang. Venjulega hefði það ekki þótt vera til neins ama, en ég viðurkenni að ég saknaði þess að hafa ekki möguleika á að sjá leikinn þegar mörkunum fóru að fjölga og hjartað hoppaði af skemmdargleði. Hvað voru þessir drengir líka að gera?
Þegar Eiður Smári hefur spilað með, hafa verið tíu í vörn og hann einn úti og nú gafst tækifæri til að láta fleiri spila. Ónei, nú var spilað með ellefu í vörn og engan frammi, eða þá gefinn boltinn á einhvern huldumann sem var í leikbanni. Mínir menn nýttu sér þetta óspart og skoruðu fimm auðveld mörk og rassskelltu Íslendingana. Ekki veit ég hvort nokkur lausn sé fólgin í að skipta um þjálfara. Ég held að það væri nær að skipta út leikmannahópnum og fá inn nýtt landslið. Ef það er ekki hægt, má þá ekki koma á fót knattspyrnukeppni á örþjóðaleikunum? Og þó, ég hefi sannfrétt að jafnvel Liechtenstein með sína þrjátíu þúsund íbúa sé búið að ná Íslandi í getu á fótboltavellinum
Annars læt ég mér úrslitin í léttu rúmi liggja og syng hástöfum Du gamla du fria undir eftirfarandi undirspili:
http://www.youtube.com/watch?v=2r3GygMCmj8&mode=related&search=
fimmtudagur, júní 07, 2007
7. júní 2007 - Du gamla. Du fria. Du fjällhöga nord.
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:31
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli